Tekur grimmdin einhvern tíma enda?
Tekur grimmdin einhvern tíma enda?
MARGIR eru örugglega sammála því að eigingirni sé ein helsta ástæðan fyrir grimmdinni í heiminum. Eigingjörn kynslóð síðustu ára hefur getið af sér þjóðfélag þar sem flestir hugsa aðallega um sjálfa sig. Margir gera hvað sem í þeirra valdi stendur til að fá sínu fram, jafnvel þótt það kosti grimmd og hörku. Og þetta á ekki aðeins við um einstaklinga heldur líka heilar þjóðir.
Líf annarra virðist einskis virði í hugum margra. Sumir hafa meira að segja gaman af því að vera vondir. Þeir líta á það sem skemmtun. Sumir glæpamenn viðurkenna til dæmis að hafa skaðað aðra sér til ánægju. Og hvað um þær milljónir sem horfa á grimmd og ofbeldi í kvikmyndum og stuðla þannig að því að kvikmyndaframleiðendur græði á tá og fingri á slíkum myndum? Margir verða ónæmir fyrir ofbeldi þegar stöðugt er verið að sýna það í fjölmiðlum.
Grimmdarverk geta haft skaðleg áhrif á geðheilsu fólks og komið af stað hræðilegum vítahring. Noemí Díaz Marroquín, sem kennir við Þjóðarháskólann í Mexíkó, segir um ofbeldi sem orsakast af grimmd: „Ofbeldi er lærð hegðun, það er menningarbundið . . . Við lærum að beita ofbeldi þegar umhverfi okkar leyfir það og ýtir undir það.“ Þeir sem hafa þolað misþyrmingar fara oft út í það að misþyrma öðrum, kannski á svipaðan hátt og þeim var misþyrmt.
Þeir sem neyta eiturlyfja eða misnota áfengi geta einnig orðið mjög grimmir. Og ekki má horfa fram hjá þeim sem finnst stjórnvöld ekki sinna þörfum fólksins. Sumir þeirra eru staðráðnir í að koma sínum skoðunum á framfæri og grípa þá til grimmdarverka og kynda undir hryðjuverk, oft á kostnað hinna saklausu.
En kannski spyrðu sjálfan þig: „Hafa menn lært upp á eigin spýtur að sýna grimmd? Hvers vegna er ástandið eins og raun ber vitni?“
Hver býr á bak við grimmdina?
Í Biblíunni er okkur sagt að Satan djöfullinn hafi sterk ítök í þessum heimi og hann er kallaður „guð þessarar aldar“. (2. Korintubréf 4:4) Hann er eigingjarnasta og grimmasta persónan í alheiminum. Jesús lýsti honum á viðeigandi hátt þegar hann sagði að hann væri „manndrápari“ og „lyginnar faðir“. — Jóhannes 8:44.
1. Mósebók 3:1-7, 16-19) Um 15 öldum eftir að fyrstu hjónin sneru baki við Jehóva holdguðust uppreisnargjarnir englar og áttu mök við konur. Afkvæmi þeirra voru kynblendingar sem kölluðust „risarnir“ eða á hebresku nefilím. Hver voru einkenni þeirra? Svarið er að finna í nafni þeirra en það þýðir „fellendurnir“ eða „þeir sem fella aðra“. Þetta voru greinilega ofbeldisfullir menn. Þeir stuðluðu að grimmd og siðleysi sem aðeins var hægt að binda enda á með flóði sem Guð lét koma yfir heiminn. (1. Mósebók 6:4, 5, 17) Þótt risunum hafi verið eytt fyrir fullt og allt í flóðinu sneru feður þeirra aftur til andaheimsins sem ósýnilegir andar. — 1. Pétursbréf 3:19, 20.
Allt frá óhlýðni Adams og Evu hefur mannkynið verið undir öflugum áhrifum Satans. (Andsetinn drengur á dögum Jesú er greinilegt dæmi um grimmd þessara uppreisnargjörnu engla. Andinn lét barnið ítrekað fá köst og fleygði honum í eld og vatn til að fyrirfara honum. (Markús 9:17-22) Þessar „andaverur vonskunnar“ endurspegla grimmd höfðingja síns, Satans djöfulsins. — Efesusbréfið 6:12.
Nú á dögum halda áhrif illra anda áfram að kynda undir illsku meðal manna eins og sagt var fyrir í Biblíunni: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, . . . raupsamir, hrokafullir, . . . vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Samkvæmt spádómum Biblíunnar eru okkar tímar sérstaklega erfiðir því að eftir að Guðsríki var komið á fót með Jesú Krist sem konung árið 1914 var Satan og illum englum hans kastað niður af himni. Í Biblíunni segir: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:5-9, 12.
Þýðir þetta að ástandið geti ekki batnað? Díaz Marroquín, sem vitnað var í áðan, segir að „fólk geti vanið sig af“ óæskilegri hegðun. En þegar áhrif Satans gegnsýra heiminn er ólíklegt að fólk venji sig af slíkri hegðun nema það leyfi öðru æðra afli að hafa áhrif á hugsunarhátt sinn og hegðun. Hvaða afl er þetta?
Breyting er möguleg — hvernig?
Sem betur fer er heilagur andi Guðs sterkasta afl sem til er og hann getur yfirbugað öll áhrif illra anda. Hann eflir kærleika meðal manna og stuðlar að velferð þeirra. Til að fyllast anda Guðs verða þeir sem vilja þóknast honum að forðast allt sem ber keim af grimmd. Það útheimtir að þeir breyti persónuleika sínum til samræmis við vilja Guðs. En hver er vilji hans? Hann vill að við fylgjum vegum hans eftir fremsta megni. Það felur í sér að líta aðra sömu augum og Guð gerir. — Efesusbréfið 5:1, 2; Kólossubréfið 3:7-10.
Ef þú kynnir þér hvernig Guð hefur tekið á málum í gegnum tíðina muntu sannfærast um að hann hefur aldrei verið skeytingarlaus í garð annarra. Hann hefur aldrei sýnt nokkrum manni óréttlæti eða nokkru dýri ef því er að skipta. * (5. Mósebók 22:10; Sálmur 36:8; Orðskviðirnir 12:10) Hann fordæmir grimmd og alla þá sem vinna grimmdarverk. (Orðskviðirnir 3:31, 32) Nýi persónuleikinn, sem Jehóva vill að kristnir menn þroski með sér, hjálpar þeim að virða aðra og meta þá meira en sjálfa sig. (Filippíbréfið 2:2-4) Þessi nýi persónuleiki ætti meðal annars að einkennast af „hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi“. Og ekki má gleyma kærleikanum „sem er band algjörleikans“. (Kólossubréfið 3:12-14) Ertu ekki sammála því að heimurinn væri allt öðruvísi ef þessir eiginleikar réðu ríkjum?
En þú veltir kannski fyrir þér hvort það sé í raun hægt að breyta persónuleika sínum fyrir fullt og allt. Lítum á eitt raunverulegt dæmi. Martin * var vanur að öskra á konuna sína fyrir framan börnin og berja hana til óbóta. Einu sinni var ástandið á heimilinu svo slæmt að börnin þurftu að hlaupa yfir til nágrannanna og biðja um hjálp. Nokkrum árum síðar fór fjölskyldan að kynna sér Biblíuna með aðstoð votta Jehóva. Martin komst að raun um hvernig maður hann þyrfti að vera og hvernig hann ætti að koma fram við aðra. Gat hann breytt sér? Konan hans svarar: „Hér áður fyrr varð maðurinn minn allt önnur persóna þegar hann missti stjórn á skapi sínu. Þess vegna var líf okkar í rúst um langan tíma. Ég á varla orð til að þakka Jehóva fyrir að hjálpa Martin að breyta sér. Núna er hann góður faðir og frábær eiginmaður.“
En þetta er aðeins eitt dæmi. Um allan heim er að finna milljónir manna sem hafa lesið Biblíuna með vottum Jehóva og sagt skilið við grimmdina. Já, það er hægt að breyta sér.
Grimmdin tekur bráðlega enda
Í náinni framtíð mun ríki Guðs stjórna allri jörðinni en það er nú þegar stofnsett á himnum. Konungur þess er hinn kærleiksríki Jesús Kristur. Satan, uppsprettu alls ills, og illum englum hans hefur þegar verið úthýst af himnum. Bráðlega mun Guðsríki uppfylla óskir friðelskandi þegna sinna hér á jörðinni. (Sálmur 37:10, 11; Jesaja 11:2-5) Þetta er eina raunverulega lausnin á vandamálum manna. En hvað ef þú verður fórnarlamb grimmdarverka á meðan þú bíður eftir þessu ríki?
Það er ekki til bóta að gjalda illt fyrir illt heldur eykur það bara á vandann. Í Biblíunni erum við hvött til að setja traust okkar á Jehóva sem mun á sínum tíma „gjalda sérhverjum eftir breytni hans“. (Jeremía 17:10) (Sjá meðfylgjandi ramma: „Hvernig er best að bregðast við grimmd“.) Þú gætir vissulega þurft að þjást vegna grimmilegra glæpaverka annarra. (Prédikarinn 9:11) En Guð getur gert að engu allar afleiðingar grimmdar og jafnvel bætt fyrir dauðann. Hann hefur lofað að þeir sem hann geymir í minni sér og hafa týnt lífi vegna grimmdarverka fái lífið á ný. — Jóhannes 5:28, 29.
Þótt sá möguleiki sé alltaf fyrir hendi að við verðum fórnarlömb grimmdarverka getum við leitað huggunar í því að eiga náið samband við Guð og hafa sterka trú á loforð hans. Lítum á Söru sem dæmi. Hún ól upp drengina sína tvo án aðstoðar eiginmanns og sá til þess að þeir fengju góða menntun. En þegar hún var orðin öldruð yfirgáfu þeir hana. Þeir studdu hana hvorki fjárhagslega né sáu til þess að hún fengi læknisaðstoð. En Sara, sem nú er vottur Jehóva, segir: „Þótt ég geti ekki annað en verið sorgmædd veit ég að Jehóva hefur ekki yfirgefið mig. Ég finn stuðning hans fyrir milligöngu andlegra bræðra minna og systra sem sjá vel um mig. Ég trúi því staðfastlega að bráðlega muni Jehóva ekki aðeins leysa vandamál mín heldur allra þeirra sem teysta á mátt hans og fylgja boðum hans.“
Hverjir eru þessir andlegu bræður og systur sem Sara minntist á? Það eru trúsystkini hennar í söfnuði Votta Jehóva. Þau mynda alþjóðlegt bræðralag umhyggjusamra einstaklinga sem eru sannfærðir um að bráðlega taki grimmdin enda. (1. Pétursbréf 2:17) Enginn illvirki verður eftir, hvorki Satan djöfullinn, sem ber höfuðábyrgðina á illskunni í heiminum, né nokkur annar sem hegðar sér eins og hann. Þessi „öld grimmdarinnar“, eins og einn rithöfundur kallaði hana, mun heyra fortíðinni til. Þú getur fræðst nánar um þessa framtíðarvon með því að hafa samband við Votta Jehóva.
[Neðanmáls]
^ gr. 16 Nánari umfjöllun um eiginleika Guðs og persónuleika er að finna í bókinni Nálægðu þig Jehóva. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.
^ gr. 17 Sumum nöfnum hefur verið breytt.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hvernig er best að bregðast við grimmd?
Í orði Guðs er að finna góðar leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að bregðast við grimmd. Leiddu hugann að því hvernig þú getur fylgt þessum viturlegu orðum:
„Seg þú ekki: ‚Ég vil endurgjalda illt!‘ Bíð þú Drottins, og hann mun hjálpa þér.“ — Orðskviðirnir 20:22.
„Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er rænt . . . þá furða þú þig ekki á því athæfi, því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.“ — Prédikarinn 5:7.
„Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ — Matteus 5:5.
„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ — Matteus 7:12.
„Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ — Rómverjabréfið 12:17-19.
„Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. . . . Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir.“ — 1. Pétursbréf 2:21-23.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Jehóva hefur kennt mörgum að segja skilið við grimmdina.