Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar — setjið ykkur markmið Guði til heiðurs

Unglingar — setjið ykkur markmið Guði til heiðurs

Unglingar — setjið ykkur markmið Guði til heiðurs

„Æf sjálfan þig í guðhræðslu.“ — 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:7.

1, 2. (a) Hvers vegna hrósaði Páll Tímóteusi? (b) Hvernig er ungt fólk nú á dögum að ‚æfa sjálft sig í guðhræðslu‘?

„ÉG HEF engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar . . . hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.“ (Filippíbréfið 2:20, 22) Þetta hlýlega hrós er að finna í bréfi Páls postula til kristinna manna í Filippí á fyrstu öldinni. Hvern var hann að tala um? Hann var að tala um ferðafélaga sinn, hinn unga Tímóteus. Heldurðu ekki að Tímóteusi hafi hlýnað um hjartaræturnar að heyra Pál lýsa yfir trausti sínu og væntumþykju?

2 Andlega sinnað ungt fólk, eins og Tímóteus, hefur alltaf verið dýrmætt í augum Jehóva. (Sálmur 110:3) Í söfnuði hans er að finna fjölda ungs fólks sem er brautryðjendur, trúboðar, sjálfboðaliðar við byggingarstörf eða Betelítar. Þá eru ónefndir þeir sem taka ötulan þátt í safnaðarstarfinu þótt þeir hafi mörgum öðrum skyldum að gegna. Þeir eiga líka mikið hrós skilið. Þetta unga fólk nýtur þeirrar gleði sem hlýst af því að setja sér markmið sem eru föðurnum á himnum til heiðurs. Og um leið er það að ‚æfa sjálft sig í guðhræðslu‘. — 1. Tímóteusarbréf 4:7, 8.

3. Um hvaða spurningar verður fjallað í þessari grein?

3 Hefur þú sett þér sérstök andleg markmið? Hvar geturðu fengið hvatningu og hjálp til þess? Hvernig geturðu staðið gegn efnishyggju þessa heims? Hvaða blessunar geturðu vænst ef þú setur þér markmið sem eru Guði til heiðurs? Við skulum leita svara við þessum spurningum með því að skoða ævi og starf Tímóteusar.

Bakgrunnur Tímóteusar

4. Lýstu ferli Tímóteusar í stuttu máli.

4 Tímóteus ólst upp í Lýstru sem var lítill bær í rómverska skattlandinu Galatíu. Hann kynntist sennilega kristinni trú á unglingsaldri þegar Páll prédikaði í Lýstru um árið 47. Tímóteus gat sér fljótlega gott orð í kristna söfnuðinum á staðnum. Þegar Páll kom aftur þangað tveimur árum seinna og komst að raun um hvað Tímóteusi hafði farið fram valdi hann þennan unga mann sér að trúboðsfélaga. (Postulasagan 14:5-20; 16:1-3) Þegar Tímóteus þroskaðist voru honum falin enn fleiri ábyrgðarstörf, meðal annars að heimsækja söfnuði sem þurfti nauðsynlega að styrkja. Þegar Páll skrifaði Tímóteusi úr fangelsi í Róm um árið 65 var Tímóteus öldungur í söfnuðinum í Efesus.

5. Hvað tvennt stuðlaði að því að Tímóteus ákvað að setja sér andleg markmið samkvæmt 2. Tímóteusarbréfi 3:14, 15?

5 Tímóteus ákvað greinilega að setja sér andleg markmið. En af hvaða hvötum gerði hann það? Í síðara bréfinu til Tímóteusar nefndi Páll tvö lykilatriði. „Halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á,“ skrifaði hann, „þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Könnum fyrst hvaða áhrif aðrir höfðu á ákvörðun Tímóteusar.

Góð áhrif annarra

6. Hvers konar trúaruppeldi hlaut Tímóteus og hvaða áhrif hafði það á hann?

6 Foreldrar Tímóteusar voru ekki sömu trúar. Faðir hans var grískur en Evnike, móðir hans, og Lóis, amma hans, voru af gyðingaættum. (Postulasagan 16:1) Evnike og Lóis fræddu Tímóteus um hebresku ritningarnar frá barnæsku. Eftir að þær snerust til kristni hafa þær eflaust hjálpað honum að festa trú á kenningar kristninnar. Tímóteus tók greinilega vel við því sem honum var kennt. Páll sagði: „Ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:5.

7. Hve lánsamir eru margir unglingar og hvernig geta þeir nýtt sér það?

7 Margt ungt fólk nú á dögum er svo lánsamt að eiga guðhrædda foreldra og ömmur og afa sem gera sér grein fyrir gildi andlegra markmiða eins og þær Lóis og Evnike gerðu. Samira minnist til dæmis langra samræðna sem hún átti við foreldra sína á unglingsaldri. „Mamma og pabbi kenndu mér að tileinka mér sjónarmið Jehóva og láta boðunarstarfið ganga fyrir,“ segir hún. „Þau hvöttu mig alltaf til að þjóna í fullu starfi.“ Samira tók hvatninguna til sín og þjónar nú á Betel í heimalandi sínu. Ef foreldrar þínir hvetja þig til að einbeita þér að andlegum markmiðum skaltu hugleiða það vel. Þeir bera hag þinn fyrir brjósti. — Orðskviðirnir 1:5.

8. Hvaða gagn hafði Tímóteus af góðum félagsskap innan safnaðarins?

8 Það er líka mikilvægt fyrir þig að sækja í góðan félagsskap innan kristna safnaðarins. Tímóteus og öldungarnir í söfnuðinum hans kynntust mjög vel. Hann kynntist líka öldungunum í Íkóníum sem var í 30 kílómetra fjarlægð. (Postulasagan 16:1, 2) Hann varð náinn vinur Páls sem var mjög atorkumikill maður. (Filippíbréfið 3:14) Af bréfum Páls má sjá að Tímóteus var fús til að taka leiðbeiningum og að hann tók sér aðra trúfasta einstaklinga til fyrirmyndar. (1. Korintubréf 4:17; 1. Tímóteusarbréf 4:6, 12-16) Páll skrifaði: „Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika [og] þolgæði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:10) Já, Tímóteus fylgdi fordæmi Páls vandlega. Ef þú myndar góð tengsl við aðra í söfnuðinum, sem eru sterkir í trúnni, hjálpar það þér að setja þér verðug andleg markmið. — 2. Tímóteusarbréf 2:20-22.

Rannsakaðu „heilagar ritningar“

9. Hvað annað en góður félagsskapur getur hjálpað þér að æfa þig í guðhræðslu?

9 Er nóg að velja sér réttan félagsskap til að ná andlegum markmiðum sínum? Nei, þú verður að rannsaka „heilagar ritningar“ líkt og Tímóteus gerði. Nám er kannski ekki í miklu uppáhaldi hjá þér en mundu að Tímóteus þurfti að ‚æfa sjálfan sig í guðhræðslu‘. Íþróttamenn æfa oft stíft mánuðum saman til að ná markmiðum sínum. Það kostar líka fórnir og áreynslu að ná andlegum markmiðum. (1. Tímóteusarbréf 4:7, 8, 10) En hvernig getur biblíunám hjálpað þér að ná markmiðum þínum? Lítum á þrennt.

10, 11. Hvernig getur biblíulestur hjálpað þér að ná andlegum markmiðum? Gefðu dæmi.

10 Í fyrsta lagi glæðir biblíulestur réttar hvatir með þér. Í Biblíunni kynnist þú stórfenglegum persónuleika föðurins á himnum, hinu mikla kærleiksverki hans í okkar þágu og þeirri eilífu blessun sem hann mun veita trúum þjónum sínum. (Amos 3:7; Jóhannes 3:16; Rómverjabréfið 15:4) Eftir því sem þú kynnist Jehóva betur mun þér þykja vænna um hann og þig fer að langa til að vígja honum líf þitt.

11 Margir kristnir unglingar segja að umfram allt hafi reglulegt sjálfsnám í Biblíunni hjálpað þeim að tileinka sér sannleikann. Adele ólst upp á kristnu heimili en hafði aldrei sett sér nein andleg markmið. „Ég fór með foreldrum mínum í ríkissalinn en ég sinnti ekki biblíunámi og hlustaði ekki einu sinni á samkomum,“ segir hún. Adele fór að taka sannleikann alvarlega eftir að systir hennar lét skírast. „Ég ákvað að lesa alla Biblíuna. Ég las svolítið í einu og skrifaði síðan athugasemd um það sem ég var nýbúin að lesa. Ég á enn þá alla minnispunktana. Ég náði að lesa Biblíuna á einu ári.“ Þetta varð til þess að Adele vígði Jehóva líf sitt. Núna er hún brautryðjandi, eða boðberi í fullu starfi, þrátt fyrir alvarlega fötlun.

12, 13. (a) Hvaða breytingar hjálpar Biblían ungu fólki að gera og hvernig? (b) Nefndu dæmi um viturlegar leiðbeiningar Biblíunnar.

12 Í öðru lagi getur Biblían hjálpað þér að gera nauðsynlegar breytingar á sjálfum þér. Páll sagði Tímóteusi að Ritningin væri „nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks“. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Með því að hugleiða að staðaldri biblíutengd mál og fara eftir meginreglum Biblíunnar leyfirðu anda Guðs að slípa persónuleika þinn. Þannig geturðu þroskað með þér mikilvæga eiginleika eins og auðmýkt, þrautseigju, dugnað og einlægan bróðurkærleika. (1. Tímóteusarbréf 4:15) Tímóteus hafði þessa eiginleika til að bera og var þar af leiðandi mikils metinn af Páli og söfnuðunum sem hann þjónaði. — Filippíbréfið 2:20-22.

13 Í þriðja lagi hefur orð Guðs að geyma mikinn sjóð viturlegra leiðbeininga. (Sálmur 1:1-3; 19:8; 2. Tímóteusarbréf 2:7; 3:15) Það kennir þér að velja góða vini, vera vandfýsinn á skemmtiefni og taka viturlegar ákvarðanir í ýmsum öðrum málum. (1. Mósebók 34:1, 2; Sálmur 119:37; 1. Korintubréf 7:36) Til að ná andlegum markmiðum þínum verðurðu að taka skynsamlegar ákvarðanir núna.

„Berstu trúarinnar góðu baráttu“

14. Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að keppa að andlegum markmiðum?

14 Það er viturlegt en ekki alltaf auðvelt að keppa að markmiðum sem eru Jehóva til heiðurs. Ættingjar, jafnaldrar og velviljaðir kennarar og námsráðgjafar telja margir hverjir að æðri menntun og vel launað starf séu lykill að velgengni og hamingju. Ungt fólk getur því orðið fyrir miklum þrýstingi þegar kemur að því að velja sér menntun og starf. (Rómverjabréfið 12:2) Þú verður, líkt og Tímóteus, að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu‘ til að „höndla . . . eilífa lífið“ sem Jehóva vill að þú hljótir. — 1. Tímóteusarbréf 6:12; 2. Tímóteusarbréf 3:12.

15. Hvað þurfti Tímóteus ef til vill að takast á við?

15 Það getur reynt sérstaklega á þegar ættingjar, sem eru ekki í trúnni, eru ósáttir við ákvarðanir þínar. Tímóteus var ef til vill í þessari stöðu. Að sögn heimildarrits tilheyrði fjölskylda hans líklega „vel launaðri menntastétt“. Trúlega hefur faðir hans vænst þess að hann aflaði sér æðri menntunar og tæki við rekstri fjölskyldufyrirtækis. * Við getum rétt ímyndað okkur hvernig faðir hans hefur brugðist við þegar hann uppgötvaði að sonurinn vildi frekar vera í trúboðsstarfi með Páli sem var bæði hættulegt og fjárhagslega ótryggt.

16. Hvernig brást ungur maður við andstöðu föður síns?

16 Kristnir unglingar verða fyrir svipuðum þrýstingi nú á dögum. Matthew þjónar á einni af deildarskrifstofum Votta Jehóva. Hann segir: „Faðir minn varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég byrjaði sem brautryðjandi. Honum fannst ég vera að ‚sóa‘ menntun minni með því að vinna við ræstingar til að geta verið brautryðjandi. Hann var sífellt að ögra mér og minna mig á hvað ég gæti þénað ef ég réði mig í fulla vinnu.“ Hvernig brást Matthew við? „Ég fylgdi fastri áætlun við biblíulestur og bað mjög oft til Jehóva, ekki síst þegar það hefði verið auðvelt fyrir mig að missa stjórn á skapinu.“ Staðfesta Matthews skilaði sér. Sambandið við föður hans batnaði með tímanum. Hann hefur líka eignast nánara samband við Jehóva. „Ég hef séð hvernig Jehóva hefur annast mig, uppörvað og forðað mér frá því að taka slæmar ákvarðanir,“ segir hann. „Ég hefði ekki kynnst neinu af þessu ef ég hefði ekki sett mér andleg markmið.“

Einbeittu þér að andlegum markmiðum

17. Hvernig gætu sumir dregið úr þeim sem vilja þjóna í fullu starfi? (Matteus 16:22)

17 Trúsystkini gætu jafnvel dregið úr því að þú keppir að andlegum markmiðum. „Maður þarf ekki að vera brautryðjandi,“ gætu sumir sagt. „Það er hægt að lifa eðlilegu lífi en samt taka þátt í boðunarstarfinu. Fáðu þér góða vinnu og tryggðu fjárhagslegt öryggi þitt.“ Þetta gætu virst vera skynsamleg ráð. En værir þú að æfa þig í guðhræðslu ef þú færir eftir þeim?

18, 19. (a) Hvernig geturðu einbeitt þér að andlegum markmiðum? (b) Hvaða fórnir ert þú sem unglingur að færa í þágu Guðsríkis?

18 Sumir kristnir menn á dögum Tímóteusar hugsuðu greinilega á svipuðum nótum. (1. Tímóteusarbréf 6:17) En Páll hvatti Tímóteus til að einbeita sér að andlegum markmiðum og sagði: „Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.“ (2. Tímóteusarbréf 2:4) Hermaður við skyldustörf getur ekki leyft sér að láta borgaraleg störf trufla sig. Líf hans og annarra er undir því komið að hann sé alltaf viðbúinn að hlýða skipunum yfirmanns síns. Þar sem við erum hermenn Krists verðum við líka að vera einbeitt og megum ekki láta veraldleg markmið standa í vegi fyrir því að við gerum þjónustu okkar full skil og björgum mannslífum. — Matteus 6:24; 1. Tímóteusarbréf 4:16; 2. Tímóteusarbréf 4:2, 5.

19 Temdu þér fórnfýsi í stað þess að lifa bara sem þægilegustu lífi. „Vertu tilbúinn til að lifa án þæginda eins og hermaður Krists Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 2:3, The English Bible in Basic English) Tímóteus lærði af Páli að vera nægjusamur við jafnvel mjög erfiðar aðstæður. (Filippíbréfið 4:11, 12; 1. Tímóteusarbréf 6:6-8) Þú getur lært það líka. Ertu fús til að færa fórnir í þágu Guðsríkis?

Blessun núna og í framtíðinni

20, 21. (a) Hvaða blessun hlýst af því að setja sér andleg markmið? (b) Hvað ert þú ákveðinn í að gera?

20 Tímóteus starfaði náið með Páli í ein 15 ár. Hann sá með eigin augum hvernig nýir söfnuðir urðu til þegar fagnaðarerindið barst um nánast allt svæðið við norðanvert Miðjarðarhaf. Líf hans var auðugra og viðburðaríkara en það hefði orðið ef hann hefði valið að lifa svokölluðu „eðlilegu“ lífi. Þú uppskerð líka ómetanlega blessun ef þú keppir að andlegum markmiðum. Þú styrkir sambandið við Jehóva og ávinnur þér kærleika og virðingu trúsystkina. Í stað þeirra vonbrigða og þrauta sem fylgja því að keppa eftir efnislegum auð muntu njóta sannrar hamingju sem hlýst af fórnfýsi og gjafmildi. Umfram allt muntu „geta höndlað hið sanna líf“ — eilíft líf í paradís á jörð. — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10, 17-19; Postulasagan 20:35.

21 Ef þú ert ekki byrjaður að æfa þig í guðhræðslu hvetjum við þig eindregið til þess að gera það þegar í stað. Sæktu í félagsskap trúsystkina sem geta hjálpað þér að setja þér andleg markmið og leitaðu ráða hjá þeim. Láttu reglulegt sjálfsnám í orði Guðs hafa forgang. Vertu staðráðinn í því að standa gegn efnishyggju þessa heims. Og mundu að Guð, „sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar“, lofar að veita þér ómælda blessun bæði núna og í framtíðinni ef þú setur þér markmið sem eru honum til heiðurs. — 1. Tímóteusarbréf 6:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Grískt samfélag lagði mikla áherslu á menntun. Plútarkos, sem var samtímamaður Tímóteusar, skrifaði: „Menntun er uppspretta og orsök alls þess sem er gott. . . . Að mínu mati stuðlar hún að og ýtir undir siðferðilega yfirburði og hamingju. . . . Allt annað er ómerkilegt og mannlegum veikleika háð og ekki þess virði að gefa því alvarlegan gaum.“ — Moralia, I, „De Liberis Educandis.“

Manstu?

• Hvað getur hjálpað ungu fólki að setja sér andleg markmið?

• Hvers vegna er ítarlegt biblíunám afar mikilvægt?

• Hvernig getur ungt fólk staðið gegn efnishyggju heimsins?

• Hvaða blessun hlýst af því keppa að andlegum markmiðum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Tímóteus setti sér göfug markmið.

[Myndir á blaðsíðu 19]

Hvað hafði jákvæð áhrif á Tímóteus?

[Myndir á blaðsíðu 20]

Hefurðu sett þér andleg markmið?