Óttast þú framtíðina?
Óttast þú framtíðina?
ÓTTI birtist í ýmsum myndum. Sumir hafa til dæmis áhyggjur af framtíð jarðarinnar. „Hitabylgjur, óveður, flóð, eldar og hröð bráðnun jökla bendir allt til þess að veðurfar jarðarinnar sé í gífurlegu uppnámi,“ sagði í tímaritinu Time, 3. apríl 2006.
Í maí 2002 gaf Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna út skýrslu sem bar heitið „Global Environment Outlook-3“. Meira en 1000 manns komu að gerð þessarar skýrslu. Í frétt um málið var vitnað í skýrsluna þar sem segir meðal annars: „Við stöndum á krossgötum. Ákvarðanir, sem teknar eru núna, hafa áhrif á framtíð skóganna, hafsins, ánna, fjallanna, dýralífsins og annarra vistkerfa sem eiga að halda okkur og næstu kynslóðum uppi.“
Ástandið í umhverfismálum er aðeins eitt áhyggjuefni af mörgum. Út um allan heim óttast fólk að lenda í hryðjuverkaárásum. Aðstoðarforstjóri leyniþjónustu Kanada sagði: „Við sofum ekki á nóttunni vegna þess að við höfum áhyggjur af yfirvofandi hættu sem við þekkjum ekki.“ Við getum fyllst kvíða bara við það eitt að horfa á kvöldfréttirnar í sjónvarpinu.
Margir óttast að missa vinnuna þótt þeir leggi hart að sér. Lokun verksmiðja, uppsagnir vegna samdráttar, samkeppni á vinnustað og kröfuharðir vinnuveitendur geta skapað mikið óöryggi. Unglingar óttast að þeim verði hafnað af jafnöldrum. Börn hafa kannski áhyggjur af því að foreldrarnir elski þau ekki. En hvað með ástandið í kringum þau? „Hinn stóri heimur fyrir utan heimilið
hlýtur að vera ógnvekjandi fyrir hina ungu og óreyndu,“ segir áhyggjufull móðir. Og margir foreldrar hafa áhyggjur af því hvaða áhrif siðferðishnignun þjóðfélagsins hafi á ástvini þeirra, ekki síst börnin.Það er algengt að hinir öldruðu óttist að detta niður stiga eða verða fyrir árás á götum úti. Já, þeir „eru hræddir við hæðir og sjá skelfingar á veginum“. (Prédikarinn 12:5) Margir óttast líka að fá alvarlegan sjúkdóm. Fréttir af lífshættulegum flensum, krabbameini og smitsjúkdómum geta vakið með okkur ótta um að smitast af nýjum og óvenjulegum sjúkdómum sem gætu bæklað okkur og fjölskylduna eða jafnvel orðið okkur að bana. Þegar við sjáum hraust og fjörugt fólk verða sjúkt og veikburða er auðvelt að óttast að svipað geti hent okkur eða ástvini okkar. Og finnst þér ekki sorglegt að horfa í augu sjúklings sem hefur misst alla von?
Eins og við höfum séð er margt að óttast nú á dögum. En höfum við einhverja ástæðu til að horfa björtum augum til framtíðar? Er eitthvað sem getur hjálpað okkur að vera bjartsýn? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 3]
© Jeroen Oerlemans/Panos Pictures