Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að eignast von í vonlausum heimi

Að eignast von í vonlausum heimi

Að eignast von í vonlausum heimi

„ALDREI í sögunni hafa almennir borgarar haft eins mikil völd og nú til að vinna að almannaheill og leysa sameiginleg vandamál.“ Þetta sagði Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, á ráðstefnu í Ottawa í Kanada í mars 2006. Hann nefndi að eftir skjálftaflóðbylgjuna árið 2004 hefði vinarþel farið vaxandi meðal fólks út um allan heim. Hann var bjartsýnn í bragði þegar hann sagði að „fólk treysti hvert á annað nú sem aldrei fyrr“.

Getum við búist við því að náttúruhamfarir fái fólk um heim allan til að taka höndum saman um að vinna að betri framtíð? Er líklegt að varanlegur friður og öryggi komist á í framtíðinni fyrst fólk er farið að ‚treysta hvert á annað sem aldrei fyrr‘?

Hvar er raunverulega von að finna?

Stöðug viðleitni mannkyns síðastliðin sex þúsund ár sýnir að mennirnir hafa brugðist hver öðrum hvað eftir annað. Það er því ekki að ástæðulausu sem við fáum eftirfarandi ráð í innblásnu orði Guðs: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.“ (Sálmur 146:3) Það mun aðeins valda okkur vonbrigðum ef við bindum vonir okkar við stofnanir þessa heims, drauma hans eða efnislega hluti. Af hverju? Af því að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans“. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Í aldanna rás hefur Guð hins vegar gefið réttlátum mönnum örugga von. Forðum daga var Guð kallaður „von Ísraels“ og „von feðra [Ísraels]“ og í Biblíunni er margoft minnst á von og traust og trú á hann. (Jeremía 14:8; 17:13; 50:7) Já, í Biblíunni er okkur sagt að „vona á Drottin“. — Sálmur 27:14.

Í Orðskviðunum 3:5, 6 erum við hvött: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Þú getur treyst fullkomlega þessu loforði því að Jehóva Guð breytist ekki, hann er áreiðanlegur og stendur við orð sín. (Malakí 3:6; Jakobsbréfið 1:17) Hann vill þér allt hið besta og ef þú fylgir alltaf því sem hann segir í orði sínu, Biblíunni, mun það leiða þig farsællega í gegnum þá skelfilegu tíma sem nú eru. — Jesaja 48:17, 18.

Sá sem fylgir leiðsögn Guðs af heilum hug getur treyst þessu loforði: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“ (Jesaja 41:10) Það er mjög hughreystandi fyrir alla sem elska Jehóva Guð að leita til hans í innilegri bæn og hugleiða þessi loforð því að það hjálpar þeim að ráða við erfiðar aðstæður og kvíða.

Andrea er gott dæmi um það. Hún er vottur Jehóva og tveggja barna móðir. Hún segir: „Það er aðeins með því að biðja og hugleiða sem ég fæ kraft til að ná mér aftur á strik þegar óvissuástand ríkir í lífi mínu. Það er miklu auðveldara að halda jafnvægi ef ég hef Jehóva sem kjölfestu í lífinu.“

Styrktu vonina á Jehóva

Einn af sálmariturunum lagði áherslu á mikilvægi þess að vona á Jehóva þegar hann sagði: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt, og þeim er við engri hrösun hætt.“ (Sálmur 119:165) Með því að kynna þér orð Guðs ítarlega geturðu fyllt hugann og hjartað af því sem er jákvætt og uppbyggjandi, því sem er ‚satt, göfugt, rétt og hreint, elskuvert og gott afspurnar, dyggð og lofsvert‘. Ef þú leggur þig fram um að læra þetta og nema, heyra það og sjá mun „Guð friðarins“ vera með þér. — Filippíbréfið 4:8, 9.

Maður að nafni John talar af áralangri reynslu. Hann segir: „Ég komst að því að ef ég ætlaði að fá aðra sýn á framtíðina varð ég að gera róttækar breytingar á persónuleika mínum og hugsunarhætti. Þá fyrst gæti ég vonast til að eignast samband við fullkominn og ósýnilegan Guð. Eina leiðin til að gera það var að gerast andlega þenkjandi og sjá málin út frá sjónarhóli Guðs með því að lesa í innblásnu orði hans og hugleiða það sem ég las.“

Ef þú teygar hið hressandi og lífgandi vatn sannleikans, sem er að finna í Biblíunni, ertu að nýta þér þrautreynda aðferð til að vinna gegn öllu því slæma sem hellist yfir okkur á hverjum degi í gegnum fjölmiðla. Þegar þú fylgir leiðbeiningum Biblíunnar getur það líka styrkt fjölskylduböndin og dregið úr kvíða. Enn fremur hefur Guð lofað því að „sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann“. (2. Kroníkubók 16:9) Hann mun taka á málum á þann hátt að þú þarft ekkert að óttast.

Phinehas hefur upplifað stríð og fjöldamorð. Hann segir: „Ég hef lært að leggja líf mitt í hendur Jehóva. Ég hef umflúið ýmis vandamál af því að ég hef fylgt meginreglum Biblíunnar.“ Ef þú treystir Jehóva Guði getur hann hjálpað þér að sigrast á vandamálum sem virðast jafnvel óyfirstíganleg. (Sálmur 18:30) Barn, sem tengist foreldrum sínum nánum böndum, treystir þeim fullkomlega og finnur til öryggiskenndar jafnvel þegar það er veikt eða því líður illa á einhvern hátt. Þú getur búið við svipaða öryggiskennd ef þú þiggur boð Jehóva og vonar á hann. — Sálmur 37:34.

Von byggð á traustum grunni

Jesús Kristur sagði við fylgjendur sína: „Þannig skuluð þér biðja: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Réttmæt yfirráð Guðs yfir jörðinni birtast fyrir milligöngu þessa himneska ríkis sem er stjórn í höndum Jesú Krists. — Sálmur 2:7-13; Daníel 7:13, 14.

Óttinn hefur áhrif á öll svið lífsins. Það er því greinilegt að Guð þarf að grípa í taumana. Sem betur fer er þess ekki langt að bíða. Guð hefur nú þegar krýnt Jesú Krist sem konung Messíasarríkisins. Hann hefur fengið vald til að upphefja drottinvald Jehóva og helga nafn hans. (Matteus 28:18) Bráðum mun stjórn Guðsríkis ná til jarðarinnar og fjarlægja allt sem veldur ótta og kvíða. Í Jesaja 9:6 eru færð sterk rök fyrir því að Jesús sé hæfur stjórnandi sem geti leyst okkur úr fjötrum óttans. Þar er hann meðal annars kallaður „Eilífðarfaðir“, „Undraráðgjafi“ og „Friðarhöfðingi“.

Veltu fyrir þér titlinum „Eilífðarfaðir“. Jesús hefur máttinn og valdið — og löngunina — til að gefa hlýðnu fólki von um eilíft líf á jörð. Vegna lausnarfórnar hans getum við loksins losnað undan synd og ófullkomleika sem við fengum í arf frá fyrsta manninum, Adam. (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 5:12; 6:23) Kristur mun líka nota valdið, sem hann hefur fengið frá Guði, til að reisa upp til lífs þá sem dánir eru. — Jóhannes 11:25, 26.

Þegar Jesús var hér á jörð reyndist hann vera „Undraráðgjafi“. Hann vissi hvernig átti að leysa vandamál daglegs lífs vegna þess að hann þekkti orð Guðs og skildi mannlegt eðli einstaklega vel. Kristur er enn „Undraráðgjafi“, nú þegar hann hefur verið krýndur konungur á himnum og gegnir lykilhlutverki í að koma boðum Jehóva til manna. Ráð Jesú, sem finna má í Biblíunni, eru alltaf skynsamleg og gallalaus. Ef þú þekkir ráð Jesú og trúir á hann geturðu losnað undan óvissu og lamandi ótta.

Í Jesaja 9:6 er Jesús líka kallaður „Friðarhöfðingi“. Hann mun bráðlega nota mátt sinn til að eyða öllu misrétti — pólitísku, félagslegu og fjárhagslegu. Hvernig? Með því að sameina mannkyn undir friðarstjórn Messíasarríkisins. — Daníel 2:44.

Varanlegur friður mun ríkja á allri jörðinni undir stjórn Guðsríkis. Hvernig getum við verið viss um það? Ástæðan kemur vel fram í Jesaja 11:9 þar sem segir: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn [þegnar Guðsríkis] illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ Að lokum munu allir menn á jörðinni hafa nákvæma þekkingu á Guði og hlýða honum. Hlýnar þér ekki um hjartaræturnar þegar þú heyrir um þessa framtíð? Þá ættirðu ekki að hika við að afla þér þekkingar á Jehóva.

Þú getur nýtt þér þá trústyrkjandi og lífgandi þekkingu á Guði sem þú færð með því að rannsaka hvað Biblían segir um atburði okkar daga og þá björtu framtíð sem hún lofar. Við hvetjum þig til að nýta þér ókeypis biblíunámskeið sem vottar Jehóva bjóða upp á í þínu byggðarlagi. Það mun hjálpa þér að vinna bug á ótta og eignast raunverulega von í vonlausum heimi.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 7]

Hvers vegna er Guðsríki traustvekjandi stjórn?

Guð hefur skipað Jesú Krist sem konung Guðsríkis og veitt honum máttinn og réttinn til að beita valdi sínu hvarvetna. (Matteus 28:18) Jesús mun koma á fullkomnu jafnvægi í vistkerfi jarðar. Hann hefur líka mátt til að útrýma sjúkdómum og veikindum. Þau kraftaverk, sem Jesús gerði þegar hann var á jörðinni, gáfu aðeins forsmekkinn af þeirri blessun sem er í vændum undir stjórn hans. Konungur Messíasarríkisins er áreiðanlegur og fullkominn. Hvaða eiginleikar hans höfða mest til þín?

Þægilegur í viðmóti. — Markús 10:13-16.

Sanngjarn og óhlutdrægur. — Markús 10:35-45.

Ábyrgur og óeigingjarn. — Matteus 4:5-7; Lúkas 6:19.

Réttlátur og réttvís. — Jesaja 11:3-5; Jóhannes 5:30; 8:16.

Hugulsamur, nærgætinn og lítillátur. — Jóhannes 13:3-15.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Við getum öðlast von á Jehóva með því að lesa í Biblíunni og hugleiða efni hennar.