Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Söfnuðurinn byggist upp

Söfnuðurinn byggist upp

Söfnuðurinn byggist upp

„Nú hafði söfnuðurinn frið . . . [og] uppbygðist.“ — POSTULASAGAN 9:31, Biblían 1912.

1. Hvaða spurninga mætti spyrja um „söfnuð Guðs“?

Á HVÍTASUNNU árið 33 gerði Jehóva hóp lærisveina Krists að nýrri þjóð sem var kölluð „Ísrael Guðs“. (Galatabréfið 6:16) Þessir andasmurðu kristnu menn urðu einnig ‚söfnuður Guðs‘ sem svo er nefndur. (1. Korintubréf 11:22) Hvað fól það í sér? Hvernig yrði ‚söfnuður Guðs‘ skipulagður? Hvernig myndi hann starfa út um alla jörðina, hvar sem safnaðarmenn byggju? Og hvaða áhrif hefur það á líf okkar og velferð?

2, 3. Hvernig lét Jesús í ljós að söfnuðurinn yrði skipuleg heild?

2 Eins og fram kom í greininni á undan sagði Jesús fyrir um tilvist þessa safnaðar andasmurðra fylgjenda sinna. Hann sagði Pétri postula: „Á þessum kletti [Jesú Kristi] mun eg byggja söfnuð minn, og hlið Heljar skulu eigi verða honum yfirsterkari.“ (Matteus 16:18, Biblían 1912) Meðan hann var enn með postulunum gaf hann einnig leiðbeiningar um starfsemi og skipulag safnaðarins sem bráðlega yrði stofnsettur.

3 Jesús kenndi bæði í orði og verki að sumir myndu fara með forystu í söfnuðinum. Þeir myndu þjóna öðrum í hópnum. Jesús sagði: „Þér vitið, að þeir, sem teljast ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé allra þræll.“ (Markús 10:42-44) Ljóst er að ‚söfnuður Guðs‘ átti ekki að vera dreifður hópur ótengdra einstaklinga heldur átti hann að vera skipuleg heild þar sem safnaðarmenn ynnu náið saman.

4, 5. Hvernig vitum við að safnaðarmenn myndu þurfa að fá fræðslu í trúnni?

4 Jesús, sem átti að vera höfuð þessa ‚safnaðar Guðs‘, gaf í skyn að postular sínir og aðrir sem höfðu lært af honum myndu hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart hinum í söfnuðinum. Ein helsta skyldan yrði sú að fræða þá um Jehóva. Við munum að eftir upprisu sína sagði Jesús við Pétur, í áheyrn annarra postula: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur svaraði: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“ Jesús sagði þá við hann: „Gæt þú lamba minna. . . . Ver hirðir sauða minna. . . . Gæt þú sauða minna.“ (Jóhannes 21:15-17) Þetta var afar mikilvægt verkefni.

5 Eins og sjá má af orðum Jesú líkir hann körlum, konum og börnum, sem safnast inn í söfnuðinn, við sauði í sauðabyrgi. Það þyrfti að næra þessa sauði í trúnni og gæta þeirra vel. Og Jesús fól öllum fylgjendum sínum að kenna öðrum og gera þá að lærisveinum. Þar af leiðandi myndu nýir lærisveinar þurfa að fá fræðslu til að geta unnið þetta verk sem Jehóva hafði falið þeim. — Matteus 28:19, 20.

6. Hvaða ráðstafanir voru gerðar í hinum nýstofnaða ‚söfnuði Guðs‘?

6 Eftir að ‚söfnuður Guðs‘ hafði verið myndaður voru haldnar reglulegar samkomur til að safnaðarmenn fengju fræðslu og gagnkvæma uppörvun: „Þeir ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“ (Postulasagan 2:42, 46, 47) Annað sem sést greinilega af skráðri sögu er að hæfir karlmenn voru valdir til að sinna ýmsum verklegum málum. Þeir voru ekki valdir vegna áralangrar menntunar eða sérstakrar verkkunnáttu heldur af því þeir voru „fullir . . . anda og visku“. Einn þeirra var Stefán og frásagan vekur athygli á því að hann hafi verið ‚maður fullur af trú og heilögum anda‘. Safnaðarskipulagið hafði meðal annars í för með sér að „orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi“. — Postulasagan 6:1-7.

Menn sem Guð skipar til starfa

7, 8. (a) Hvaða hlutverk höfðu postularnir og öldungarnir í Jerúsalem meðal hinna frumkristnu? (b) Hvaða áhrif hafði það þegar söfnuðirnir fengu leiðbeiningar?

7 Í byrjun fóru postularnir með forystuna í söfnuðinum eins og við er að búast. En þeir voru ekki einir um það. Einhverju sinni komu Páll og félagar hans til Antíokkíu í Sýrlandi. Í Postulasögunni 14:27 segir: „Þegar þeir voru þangað komnir, stefndu þeir saman söfnuðinum og greindu frá, hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra.“ Þeir voru enn í Antíokkíu þegar sú spurning kom upp hvort menn af heiðnum þjóðum, sem höfðu tekið trú, þyrftu að umskerast. Til að fá svar við því voru Páll og Barnabas sendir til Jerúsalem „á fund postulanna og öldunganna“ sem fóru greinilega með hlutverk stjórnandi ráðs safnaðar Guðs. — Postulasagan 15:1-3.

8 Jakob, hálfbróðir Jesú, var öldungur en þó ekki postuli. Hann var í forsæti þegar „postularnir og öldungarnir komu . . . saman til að líta á þetta mál“. (Postulasagan 15:6) Þeir ræddu málið í þaula og komust að niðurstöðu með hjálp heilags anda og í samræmi við Ritninguna. Þeir sendu síðan skriflegan úrskurð sinn til safnaðanna á hverjum stað. (Postulasagan 15:22-32) Þeir sem fengu þennan úrskurð í hendur viðurkenndu hann og fóru eftir honum. Þetta styrkti bræðurna og systurnar í söfnuðunum og var þeim til uppörvunar. Í Biblíunni segir: „Söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ — Postulasagan 16:5.

9. Hvaða verkefni geta kristnir karlmenn fengið ef þeir uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar?

9 En hvernig áttu söfnuðirnir á hverjum stað að starfa dag frá degi? Lítum til dæmis á söfnuðina á eynni Krít. Margir eyjarskeggjar höfðu slæmt orð á sér en sumir breyttu sér og tóku kristna trú. (Títusarbréfið 1:10-12; 2:2, 3) Þeir bjuggu í ýmsum bæjum á eynni og allir víðs fjarri hinu stjórnandi ráði í Jerúsalem. En það skapaði engin stór vandamál vegna þess að andlega þroskaðir ‚öldungar‘ voru skipaðir í hverjum söfnuði þar, rétt eins og annars staðar. Þetta voru menn sem uppfylltu hæfniskröfur sem settar eru fram í Biblíunni. Þeir voru skipaðir öldungar eða umsjónarmenn og gátu ‚áminnt með hinni heilnæmu kenningu og hrakið þá sem móti mæltu‘. (Títusarbréfið 1:5-9; 1. Tímóteusarbréf 3:1-7) Öðrum sem uppfylltu ákveðnar hæfniskröfur var falið að þjóna söfnuðunum sem „djáknar“ eða safnaðarþjónar. — 1. Tímóteusarbréf 3:8-10, 12, 13.

10. Hvernig átti að taka á alvarlegum vandamálum samkvæmt Matteusi 18:15-17?

10 Jesús gaf í skyn að þetta fyrirkomulag yrði haft á. Í Matteusi 18:15-17 bendir hann á að til árekstra gæti komið milli tveggja kristinna manna vegna þess að annar syndgaði með einhverjum hætti gegn hinum. Sá sem hafði verið órétti beittur átti að reyna að „tala um fyrir honum“ einslega. Ef ekki tækist að útkljá málið með þeim hætti mátti kalla til einn eða tvo aðra sem þekktu til málsins. Og hvað átti að gera ef það dygði ekki til? Jesús sagði: „Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Þegar Jesús sagði þetta voru Gyðingar enn þá ‚söfnuður Guðs‘ svo að leiðbeiningar hans áttu í fyrstu við þá. * En eftir að kristni söfnuðurinn hefði verið stofnaður myndu þessar leiðbeiningar eiga við hann. Þetta er önnur vísbending um að fólki Guðs yrði skipað í söfnuði þar sem hver og einn gæti uppbyggst og fengið leiðsögn.

11. Hvaða hlutverk höfðu öldungar þegar alvarleg vandamál komu upp í söfnuðinum?

11 Eðlilega myndu öldungar hvers safnaðar taka á alvarlegum vandamálum eða synd fyrir hönd safnaðarins. Það kemur heim og saman við hæfniskröfur öldunga sem nefndar eru í Títusarbréfinu 1:9. Safnaðaröldungarnir voru auðvitað ófullkomnir rétt eins og Títus sem Páll sendi til ýmissa safnaða í þeim tilgangi að ‚færa í lag það sem ógjört var‘. (Títusarbréfið 1:4, 5) Þeir sem mælt er með til að starfa sem öldungar nú á dögum verða að vera búnir að sanna trú sína og hollustu um nokkurt skeið. Aðrir safnaðarmenn hafa þess vegna ástæðu til að treysta forystu og leiðsögn öldunganna.

12. Hvaða skyldur hafa öldungar gagnvart söfnuðinum?

12 Páll sagði öldungum í söfnuðinum í Efesus: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, þar sem heilagur andi setti yður biskupa [umsjónarmenn] til þess að gæta safnaðar Guðs, sem hann hefur aflað sér með sínu eigin blóði.“ (Postulasagan 20:28, Biblían 1912) Umsjónarmenn eru sömuleiðis útnefndir nú á tímum til að „gæta safnaðar Guðs“. Þeir eiga ekki að drottna yfir hjörðinni heldur annast hana af ást og umhyggju. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Þeir ættu að leggja sig fram við að hjálpa „allri hjörðinni“ og byggja hana upp.

Höldum okkur við söfnuðinn

13. Hvað getur stundum gerst í söfnuðinum og af hverju?

13 Öldungarnir og allir aðrir í söfnuðinum eru ófullkomnir þannig að af og til kemur upp misskilningur eða vandamál. Þetta gerðist líka á fyrstu öldinni meðan sumir af postulunum voru enn á sjónarsviðinu. (Filippíbréfið 4:2, 3) Umsjónarmaður eða einhver annar segir ef til vill eitthvað sem virðist hranalegt, óvingjarnlegt eða ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Eða við höldum kannski að eitthvað óbiblíulegt eigi sér stað en öldungarnir taki ekki á því þó að þeir viti af því. Auðvitað má vel vera að það hafi verið tekið á málinu eða sé verið að því í samræmi við Biblíuna, og að við þekkjum ekki alla málavexti. En jafnvel þó að ástandið sé eins og við höldum væri ágætt að hugsa um eftirfarandi: Um tíma átti sér stað alvarleg synd í söfnuðinum í Korintu og það var söfnuður sem Jehóva lét sér annt um. Þegar fram liðu stundir lét hann taka á málinu með festu og á réttan hátt. (1. Korintubréf 5:1, 5, 9-11) Við gætum spurt okkur: Ef ég hefði verið í Korintusöfnuðinum, hvernig hefði ég brugðist við meðan málið var óleyst?

14, 15. Af hverju hættu sumir að fylgja Jesú og hvaða lærdóm getum við dregið af því?

14 Lítum á annað sem gæti hugsanlega komið upp hjá einhverjum í söfnuðinum. Setjum sem svo að hann eigi erfitt með að skilja og meðtaka einhverja biblíukenningu. Hann hefur grúskað í Biblíunni, leitað í ritum safnaðarins og beðið um aðstoð trúsystkina, jafnvel öldunga. Hann á eftir sem áður erfitt með að skilja eða meðtaka kenninguna. Hvað er til ráða? Svipuð staða kom upp hér um bil ári áður en Jesús dó. Hann sagðist vera „brauð lífsins“ og menn þyrftu að ‚eta hold hans og drekka blóð hans‘ til að hljóta eilíft líf. Sumir af lærisveinum hans hneyksluðust á þessu. Í stað þess að biðja um skýringu eða bíða í trú hættu margir lærisveinar að vera með Jesú eftir þetta. (Jóhannes 6:35, 41-66) Hvað hefðir þú gert ef þú hefðir verið þar?

15 Nú á dögum hafa sumir hætt að sækja safnaðarsamkomur og hugsað sem svo að þeir ætli að þjóna Guði einir og sér. Þeir segjast kannski gera þetta vegna þess að einhver hafi sært þá, þeir halda að ekki hafi verið tekið á synd í söfnuðinum eða þeir geta ekki meðtekið einhverja kenningu. Er þetta skynsamleg afstaða? Það er auðvitað rétt að hver einstakur kristinn maður á að eiga persónulegt samband við Guð. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að Jehóva notar söfnuð sem teygir sig um allan heim eins og hann gerði á dögum postulanna. Söfnuðirnir á hverjum stað höfðu velþóknun hans á fyrstu öld og hann lét skipa þar hæfa öldunga og safnaðarþjóna til að sinna þörfum þeirra. Hið sama er að segja um okkar tíma.

16. Hvað ætti sá maður að hugleiða sem veltir fyrir sér hvort hann eigi að yfirgefa söfnuðinn?

16 Ef kristinn maður hugsar sem svo að honum nægi að eiga persónulegt samband við Guð er hann að hafna fyrirkomulagi sem Guð hefur komið á. Hann er bæði að hafna söfnuði Guðs í heild og heimasöfnuðum þjóna hans. Hann gæti reynt að tilbiðja Guð einn saman eða í félagi við fáeina aðra, en hvar eru öldungarnir og safnaðarþjónarnir? Þegar Páll skrifaði söfnuðinum í Kólossu og bað um að bréfið yrði einnig lesið í Laódíeku sagði hann: „Verið rótfestir í [Kristi] og byggðir á honum.“ Þeir sem voru í söfnuðunum nutu góðs af þessu bréfi en ekki þeir sem aðgreindu sig frá söfnuðunum. — Kólossubréfið 2:6, 7; 4:16.

Stólpi og grundvöllur sannleikans

17. Hvað kemur fram varðandi söfnuðinn í 1. Tímóteusarbréfi 3:15?

17 Í fyrra bréfi sínu til Tímóteusar, sem var kristinn öldungur, útlistar Páll postuli þær hæfniskröfur sem öldungar og safnaðarþjónar þurfa að uppfylla í hverjum söfnuði. Síðan minnist hann á ‚söfnuð lifanda Guðs‘ og segir að hann sé „stólpi og grundvöllur sannleikans“. (1. Tímóteusarbréf 3:15) Allur söfnuður hinna andasmurðu var slíkur stólpi á fyrstu öldinni. Og það er óumdeilanlegt að söfnuðirnir á hverjum stað voru helsta boðleið þessa sannleika til kristinna einstaklinga. Það var þar sem þeir heyrðu sannleikann kenndan og það var þar sem þeir gátu uppbyggst.

18. Af hverju er mikilvægt að sækja safnaðarsamkomur?

18 Kristni söfnuðurinn í heild er sömuleiðis hús Guðs, „stólpi og grundvöllur sannleikans“. Með því að sækja samkomur reglulega og taka þátt í þeim erum við að nýta okkur afar mikilvæga leið til að byggja okkur upp, styrkja sambandið við Guð og tryggja að við séum hæf til að gera vilja hans. Páll postuli talaði í bréfi sínu til Korintumanna um það sem sagt var á þessum samkomum og óskaði þess að það væri skýrt og skiljanlegt þannig að það yrði öllum viðstöddum „til uppbyggingar“. (1. Korintubréf 14:12, 17-19) Við getum líka uppbyggst ef við viðurkennum að söfnuðirnir á hverjum stað starfi í umboði Jehóva Guðs og með stuðningi hans.

19. Af hverju stendurðu í þakkarskuld við söfnuðinn þinn?

19 Já, ef við þráum að byggja okkur upp sem kristnir menn eigum við að halda okkur við söfnuðinn. Hann hefur alla tíð veitt vernd gegn falskenningum, og Jehóva hefur notað hann til að láta kunngera fagnaðarerindið um ríki Messíasar um heim allan. Enginn vafi leikur á því að Guð hefur áorkað miklu fyrir atbeina kristna safnaðarins. — Efesusbréfið 3:9, 10.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Biblíufræðingurinn Albert Barnes bendir á að leiðbeiningar Jesú um að ‚segja það söfnuðinum‘ geti átt við „þá sem hafa umboð til að rannsaka slík mál, það er að segja fulltrúa kirkjunnar. Í samkunduhúsi Gyðinga sátu öldungar sem fengu mál af þessu tagi í hendur“.

Manstu?

• Af hverju er við því að búast að Guð sé með söfnuði á jörðinni?

• Hvernig þjóna öldungar söfnuðinum þótt þeir séu ófullkomnir?

• Hvernig hefur söfnuðurinn þinn byggt þig upp?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Postularnir og öldungarnir í Jerúsalem mynduðu stjórnandi ráð safnaðarins.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Öldungar og safnaðarþjónar hljóta fræðslu til að þeir séu færir um að gegna skyldum sínum við söfnuðinn.