Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum undirgefin hirðum safnaðarins

Verum undirgefin hirðum safnaðarins

Verum undirgefin hirðum safnaðarins

„Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:17.

1, 2. Hvaða ritningarstaðir sýna að Jehóva og Jesús eru kærleiksríkir hirðar?

JEHÓVA GUÐ og sonur hans, Jesús Kristur, eru kærleiksríkir hirðar. Jesaja spáði: „Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. . . . Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“ — Jesaja 40:10, 11.

2 Þessi endurreisnarspádómur uppfylltist fyrst þegar Gyðingar sneru heim til Júda árið 537 f.Kr. (2. Kroníkubók 36:22, 23) Hann uppfylltist aftur árið 1919 þegar Jesús Kristur, hinn meiri Kýrus, frelsaði hina andasmurðu úr ánauð ‚Babýlonar hinnar miklu‘. (Opinberunarbókin 18:2; Jesaja 44:28) Jesús er eins og „armleggur“ Jehóva því að hann safnar sauðunum saman og annast þá af mikilli umhyggju. Jesús sagði sjálfur: „Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig.“ — Jóhannes 10:14.

3. Hvernig sýnir Jehóva að honum er mikið í mun að farið sé vel með sauði sína?

3 Spádómurinn í Jesaja 40:10, 11 leggur áherslu á hvernig Jehóva gætir þjóna sinna af mikilli umhyggju. (Sálmur 23:1-6) Hið sama er að segja um Jesú. Þegar hann var hér á jörðinni sýndi hann lærisveinunum og fólki almennt mikla umhyggju. (Matteus 11:28-30; Markús 6:34) Hirðar Ísraelsmanna, það er að segja leiðtogar þeirra, vanræktu sauðina blygðunarlaust og níddust á þeim. Bæði Jehóva og Jesú þótti ákaflega miður að horfa upp á hve miskunnarlausir þeir voru. (Esekíel 34:2-10; Matteus 23:3, 4, 15) Jehóva lofaði: „Þá vil ég nú hjálpa sauðum mínum, svo að þeir verði eigi framar að herfangi, og ég mun dæma milli kindar og kindar. Og ég mun skipa yfir þá einkahirði, hann mun halda þeim til haga, þjón minn Davíð. Hann mun halda þeim til haga og hann mun vera þeim hirðir.“ (Esekíel 34:22, 23) Jesús Kristur er hinn meiri Davíð og núna á endalokatímanum er hann ‚einkahirðirinn‘ sem Jehóva hefur sett yfir alla þjóna sína hér á jörð, bæði hina andasmurðu og „aðra sauði“. — Jóhannes 10:16.

Gjafir til safnaðarins

4, 5. (a) Hvaða dýrmætu gjöf gaf Jehóva þjónum sínum á jörðinni? (b) Hvaða gjafir gaf Jesús söfnuði sínum?

4 Jehóva gaf kristna söfnuðinum dýrmæta gjöf með því að skipa Jesú Krist sem „einkahirði“ yfir þjóna sína á jörð. Spáð var um þennan himneska leiðtoga í Jesaja 55:4: „Sjá, ég hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ Bæði andasmurðum kristnum mönnum og hinum mikla múgi er safnað saman frá öllum þjóðum, kynkvíslum og tungum. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 7:9) Saman mynda þeir alþjóðlegan söfnuð, eina hjörð undir forystu eins hirðis sem er Jesús Kristur.

5 Jesús hefur einnig gefið söfnuði sínum hér á jörð dýrmætar gjafir. Hann hefur skipað dygga undirhirða sem líkja eftir Jehóva og Jesú og annast hjörðina af natni og umhyggju. Páll postuli talaði um þessar góðu gjafir í bréfi sínu til kristinna manna í Efesus. Hann skrifaði: „‚Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir.‘ Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.“ — Efesusbréfið 4:8, 11, 12.

6. (a) Hvernig eru andasmurðir öldungar táknaðir í Opinberunarbókinni 1:16, 20? (b) Hvað má segja um útnefnda öldunga af öðrum sauðum?

6 Þessar gjafir eru umsjónarmenn eða öldungar sem Jehóva og sonur hans hafa skipað fyrir milligöngu heilags anda. Þeir eiga að annast sauðina af alúð. (Postulasagan 20:28, 29) Fyrst í stað voru allir umsjónarmenn andasmurðir kristnir menn. Í Opinberunarbókinni 1:16, 20 voru þeir sem þjónuðu í öldungaráðum innan safnaðar hinna andasmurðu táknaðir með ‚stjörnum‘ eða ‚englum‘ í hægri hendi Krists. Það þýðir að þeir voru undir stjórn hans. Hinum andasmurðu fer sífellt fækkandi núna á endalokatímanum þannig að meirihluti öldunganna innan safnaðarins er af öðrum sauðum. Þeir eru útnefndir af fulltrúum hins stjórnandi ráðs undir leiðsögn heilags anda. Þess vegna má segja að þeir séu einnig í hægri hendi (eða undir stjórn) góða hirðisins, Jesú Krists. (Jesaja 61:5, 6) Öldungarnir í söfnuðinum lúta Kristi, höfði safnaðarins, og því ættum við að vinna með þeim af fúsu geði. — Kólossubréfið 1:18.

Hlýðni og undirgefni

7. Hvaða viðhorf hvatti Páll postuli okkur til að hafa til kristinna umsjónarmanna?

7 Hirðar okkar á himnum, Jehóva Guð og Jesús Kristur, ætlast til þess að við séum hlýðin og undirgefin undirhirðunum sem þeir hafa skipað í ábyrgðarstöður í söfnuðinum. (1. Pétursbréf 5:5) Páll postuli skrifaði undir innblæstri: „Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebreabréfið 13:7, 17.

8. Hvað erum við hvött til að ‚virða fyrir okkur‘ og hvað felst í orðinu sem er þýtt „hlýðið“?

8 Taktu eftir að Páll hvetur okkur til að ‚virða fyrir okkur‘ ævi trúfastra öldunga og líkja eftir trú þeirra. Hann minnir okkur einnig á að vera hlýðin og fylgja leiðsögn þeirra. Biblíufræðingurinn R. T. France segir að frumgríska orðið, sem þýtt er „hlýðið“, sé ekki „sama orð og sé venjulega notað um hlýðni heldur þýði bókstaflega að ‚láta sannfærast‘ og gefi í skyn að fylgja forystu þeirra fúslega“. Við hlýðum öldungunum ekki aðeins vegna þess að okkur er sagt að gera það í orði Guðs heldur líka vegna þess að við erum sannfærð um að þeir beri hagsmuni Guðsríkis og okkar fyrir brjósti. Það er okkur til gæfu að fylgja forystu þeirra fúslega.

9. Af hverju verðum við bæði að vera undirgefin og hlýðin?

9 En hvað ef við erum ekki sannfærð um að leiðbeiningar öldunganna í ákveðnu tilfelli séu skynsamlegar? Þá skiptir miklu máli að við séum undirgefin. Það er auðvelt að hlýða þegar allt liggur í augum uppi og við erum sammála. En við sýnum sanna undirgefni með því að fara að ráðum öldunganna jafnvel þótt við skiljum þau ekki sjálf. Pétur, sem síðar varð postuli, sýndi þess konar undirgefni. — Lúkas 5:4, 5.

Fjórar ástæður til að sýna fúsa undirgefni

10, 11. Hvernig hafa umsjónarmenn ‚talað Guðs orð‘ til kristinna manna á okkar dögum líkt og þeir gerðu á fyrstu öldinni?

10 Í Hebreabréfinu 13:7, 17, sem vitnað var í hér á undan, nefnir Páll postuli fjórar ástæður fyrir því að við ættum að hlýða umsjónarmönnum safnaðarins og vera þeim undirgefin. Í fyrsta lagi hafa þeir ‚talað til okkar Guðs orð‘. Mundu að þessar gjafir, sem Jesús gefur söfnuðinum, eru til að „fullkomna hina heilögu“. (Efesusbréfið 4:11, 12) Hann ‚fullkomnaði‘, eða betrumbætti, hugarfar og hegðun kristinna manna á fyrstu öldinni fyrir milligöngu dyggra undirhirða en sumum þeirra var innblásið að skrifa bréf til safnaðanna. Hann notaði þessa umsjónarmenn, sem voru skipaðir af heilögum anda, til að leiðbeina frumkristnum mönnum og styrkja þá. — 1. Korintubréf 16:15-18; 2. Tímóteusarbréf 2:2; Títusarbréfið 1:5.

11 Núna leiðbeinir Jesús okkur fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ sem hið stjórnandi ráð er fulltrúi fyrir og fyrir milligöngu útnefndra öldunga. (Matteus 24:45) Af virðingu við ‚æðsta hirðinn‘, Jesú Krist, fylgjum við leiðbeiningum Páls: „[Sýnið] þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður.“ — 1. Pétursbréf 5:4; 1. Þessaloníkubréf 5:12; 1. Tímóteusarbréf 5:17.

12. Hvernig vaka öldungarnir yfir sálum okkar?

12 Önnur ástæða fyrir því að við ættum að vera umsjónarmönnum safnaðarins undirgefin er að þeir „vaka yfir sálum [okkar]“. Ef þeir verða varir við viðhorf hjá okkur eða hegðun, sem gæti stofnað trú okkar í voða, eru þeir skjótir til að veita nauðsynleg ráð til að hjálpa okkur. (Galatabréfið 6:1) Gríska orðið, sem þýtt er „vaka yfir“, merkir bókstaflega „að neita sér um svefn“. Biblíufræðingur segir að orðið „lýsi stöðugri árvekni fjárhirðis“. Auk þess að halda andlegri árvekni sinni gætu öldungar jafnvel haft svo miklar áhyggjur af andlegri velferð okkar að það héldi fyrir þeim vöku. Ættum við ekki að vinna fúslega með þessum kærleiksríku undirhirðum, sem leggja sig alla fram um að líkja eftir umhyggju Jesú, ‚hins mikla hirðis sauðanna‘? — Hebreabréfið 13:20.

13. Hverjum þurfa umsjónarmenn og allir kristnir menn að lúka reikning og hvernig gera þeir það?

13 Þriðja ástæðan fyrir því að við ættum að vinna fúslega með umsjónarmönnunum er að þeir eiga að „lúka reikning fyrir“ sálir okkar. Þeir eru minnugir þess að þeir eru undirhirðar og þjóna undir forystu hirðanna á himnum, Jehóva Guðs og Jesú Krists. (Esekíel 34:22-24) Jehóva er eigandi sauðanna sem „hann keypti með blóði sonar síns“ og hann lætur útnefnda umsjónarmenn svara fyrir það hvernig þeir koma fram við hjörðina, en það ættu þeir að gera af mildi. (Postulasagan 20:28, 29, NW) En við þurfum líka, hvert og eitt, að svara Jehóva fyrir það hvernig við bregðumst við leiðbeiningum hans. (Rómverjabréfið 14:10-12) Þegar við hlýðum öldungunum sýnum við undirgefni okkar við Krist, höfuð safnaðarins. — Kólossubréfið 2:19.

14. Hvað gæti orðið til þess að öldungarnir ‚andvörpuðu‘ og hvaða afleiðingar hefði það?

14 Páll nefndi fjórðu ástæðuna fyrir því að við ættum að vera umsjónarmönnum safnaðarins undirgefin. Hann skrifaði: „Til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ (Hebreabréfið 13:17) Öldungarnir hafa mörgum skyldum að gegna því að þeir bera ábyrgð á því að kenna, sinna hjarðgæslu, taka forystu í prédikunarstarfinu, annast fjölskyldu sína og taka á vandamálum í söfnuðinum. (2. Korintubréf 11:28, 29) Ef við erum ósamvinnuþýð gerum við þeim erfiðara fyrir og þá myndu þeir sinna skyldum sínum „andvarpandi“. Þannig gætum við kallað yfir okkur vanþóknun Jehóva en það væri skaðlegt fyrir okkur. En þegar við sýnum viðeigandi virðingu og erum undirgefin geta öldungarnir sinnt verkefnum sínum með gleði og það stuðlar að einingu og ánægjulegri þátttöku í boðunarstarfinu. — Rómverjabréfið 15:5, 6.

Hvernig birtist undirgefni okkar?

15. Á hvaða sviðum getum við sýnt að við séum hlýðin og undirgefin?

15 Við getum unnið með öldungunum á margan hátt. Hafa þeir til dæmis ákveðið að halda samansafnanir á öðrum dögum og tímum en áður til að bregðast við breyttum aðstæðum á svæðinu? Þá ættum við að leggja okkur fram um að styðja það jafnvel þótt við verðum að breyta stundaskrá okkar. Við gætum fengið óvænta blessun fyrir vikið. Er komið að því að starfshirðirinn heimsæki bóknámshópinn okkar? Tökum þá sem fyllstan þátt í boðunarstarfinu í þeirri viku. Höfum við fengið verkefni í Boðunarskólanum? Þá ættum við að vera staðráðin í að mæta og gera verkefninu góð skil. Hefur bóknámsumsjónarmaðurinn tilkynnt að nú eigi hópurinn að þrífa ríkissalinn? Verum þá dugleg að hjálpa til, innan þeirra marka sem heilsan leyfir. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum um það sem við getum gert til að sýna að við séum undirgefin þeim sem Jehóva og sonur hans hafa falið að annast hjörðina.

16. Af hverju höfum við ekki leyfi til að vera uppreisnargjörn þótt öldungur fylgi ekki leiðbeiningum?

16 Stundum gæti öldungur gert eitthvað sem er ekki í samræmi við leiðbeiningar trúa þjónshópsins og stjórnandi ráðs hans. Ef hann heldur áfram á þeirri braut verður hann að svara Jehóva fyrir breytni sína en Jehóva er „hirðir og biskup sálna [okkar]“. (1. Pétursbréf 2:25) En vanræksla eða mistök af hálfu sumra öldunga gefur okkur samt ekki leyfi til að vera mótþróafull. Jehóva blessar ekki óhlýðni og uppreisnaranda. — 4. Mósebók 12:1, 2, 9-11.

Jehóva blessar fúsa undirgefni

17. Hvaða viðhorf ættum við að hafa til umsjónarmanna safnaðarins?

17 Jehóva Guð veit að mennirnir, sem hann hefur útnefnt til umsjónarstarfa, eru ófullkomnir. En hann notar þá samt. Hann annast þjóna sína hér á jörð fyrir milligöngu anda síns. Í Biblíunni segir að „ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss“. (2. Korintubréf 4:7) Þetta á við um öldungana og reyndar okkur öll. Þess vegna ættum við að þakka Jehóva fyrir það sem hann gerir fyrir milligöngu dyggra umsjónarmanna og við ættum að vera fús til að vinna með þeim.

18. Hvað erum við í raun að gera þegar við erum umsjónarmönnum undirgefin?

18 Hirðum safnaðarins hefur verið falið að annast hjörðina nú á hinum síðustu dögum. Þeir gera sitt besta til að lifa í samræmi við lýsingu Jehóva í Jeremía 3:15: „Ég vil gefa yður hirða eftir mínu hjarta, og þeir munu gæta yðar með greind og hyggindum.“ Öldungarnir okkar á meðal eiga vissulega hrós skilið fyrir hvernig þeir kenna sauðum Jehóva og vernda þá. Sýnum að við kunnum að meta það sem þeir leggja á sig með því að vinna fúslega með þeim og vera hlýðin og undirgefin. Þannig sýnum við þakklæti okkar í garð hirðanna á himnum, Jehóva Guðs og Jesú Krists.

Til upprifjunar

• Hvernig hafa Jehóva og Jesús Kristur sýnt að þeir eru kærleiksríkir hirðar?

• Hvers vegna þurfum við bæði að vera undirgefin og hlýðin?

• Hvað getum við gert til að sýna að við séum undirgefin?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Öldungar safnaðarins fylgja forystu Krists.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Við getum gert margt til að sýna að við séum undirgefin hirðunum sem Jehóva hefur útnefnt.