Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau bera ávöxt á efri árum

Þau bera ávöxt á efri árum

Þau bera ávöxt á efri árum

„Þeir eru gróðursettir í húsi Drottins, . . . bera ávöxt jafnvel á efri árum.“ — SÁLMUR 92:14, 15, Biblíurit, ný þýðing 2003.

1, 2. (a) Hvernig er ellinni oft lýst? (b) Hverju er lofað í Biblíunni varðandi afleiðingarnar af erfðasyndinni?

HVAÐ dettur þér í hug þegar þú heyrir minnst á ellina? Hrukkur? Slæm heyrn? Óstyrkir fætur? Eða hugsarðu kannski um eitthvað annað sem fylgir ‚vondu dögunum‘ sem lýst er með litríku myndmáli í Prédikaranum 12:1-7? Þá er gott að hafa í huga að 12. kaflinn í Prédikaranum lýsir ellinni eins og hún er vegna áhrifanna af synd Adams en ekki eins og skaparinn, Jehóva Guð, fyrirhugaði. — Rómverjabréfið 5:12.

2 Það er í sjálfu sér engin bölvun að eldast því að tilvera okkar er háð því að árin líði. Allar lifandi verur njóta góðs af því að vaxa og þroskast. Bráðum mun synd og ófullkomleiki, sem hefur hrjáð mannkynið síðustu sex þúsund árin, heyra fortíðinni til. Þá munu allir hlýðnir menn njóta lífsins eins og Guð ætlaðist til í upphafi og losna undan þjáningum ellinnar og dauðans. (1. Mósebók 1:28; Opinberunarbókin 21:4, 5) Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur‘.“ (Jesaja 33:24) Aldraðir snúa „aftur til æskudaga sinna“ og hold þeirra „svellur . . . af æskuþrótti“. (Jobsbók 33:25) Sem stendur verða samt allir að kljást við erfðasyndina. En þjónar Jehóva hljóta sérstaka blessun á sínum efri árum.

3. Hvernig geta kristnir menn borið „ávöxt jafnvel á efri árum“?

3 Orð Guðs fullvissar okkur um að þeir sem eru ‚gróðursettir í húsi Drottins, . . . beri ávöxt jafnvel á efri árum‘. (Sálmur 92:14, 15, Biblíurit, ný þýðing 2003) Hér lýsir sálmaskáldið með myndmáli þeim grundvallarsannindum að trúfastir þjónar Guðs geta haldið áfram að taka framförum og dafnað í trúnni þó að líkaminn hrörni. Mörg dæmi úr Biblíunni og nútímanum bera vitni um það.

„Hún vék eigi úr helgidóminum“

4. Hvernig sýndi spákonan Anna Guði trúfesti á efri árum og hvernig var henni umbunað?

4 Anna var spákona á fyrstu öld. Þótt hún væri orðin 84 ára vék hún „eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi“. Þar sem faðir Önnu var ekki levíti heldur „af ætt Assers“ gat hún ekki búið í musterinu. Hugsaðu þér hvað hún hefur þurft að leggja á sig til að komast í musterið á hverjum degi, vera mætt fyrir morgunfórnina og dvelja þar fram yfir kvöldfórnina. En Anna hlaut mikla umbun fyrir trúfesti sína. Hún hlaut þann heiður að vera í musterinu þegar Jósef og María báru Jesú sem ungbarn fram fyrir Jehóva eins og lögmálið kvað á um. Þegar Anna sá Jesú tók hún að lofa Guð. „Hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.“ — Lúkas 2:22-24, 36-38; 4. Mósebók 18:6, 7.

5, 6. Hvernig sýna margir aldraðir nú á dögum sama hugarfar og Anna?

5 Margt eldra fólk í söfnuðinum er eins og Anna. Það sækir reglulega samkomur, biður Jehóva innilega að blessa framgang sannrar tilbeiðslu og hefur óstöðvandi löngun til að boða fagnaðarerindið. Bróðir á níræðisaldri, sem sækir reglulega samkomur með konu sinni, sagði: „Við höfum tamið okkur að sækja samkomur. Við viljum hvergi annars staðar vera. Þar sem fólk Guðs er, þar viljum við vera. Þar líður okkur vel.“ Þau eru okkur öllum góð fyrirmynd. — Hebreabréfið 10:24, 25.

6 „Ef ég hef færi á að taka þátt í einhverju sem tengist sannri tilbeiðslu gríp ég tækifærið.“ Þetta er lífsviðhorf Jean sem er ekkja á níræðisaldri. „Auðvitað er ég stundum döpur,“ segir hún, „en það er engin ástæða til að allir í kringum mig séu það líka.“ Augun ljóma af gleði þegar hún segir frá utanlandsferðum þar sem hún naut uppbyggilegra samvista við trúsystkini. Í ferð, sem hún fór nýlega, sagði hún við ferðafélaga sína: „Mig langar ekki til að sjá fleiri kastala, mig langar að fara í boðunarstarfið.“ Þótt hún talaði ekki tungumálið á staðnum tókst henni að vekja áhuga fólks á boðskap Biblíunnar. Hún starfaði í mörg ár með söfnuði sem þarfnaðist aðstoðar jafnvel þó að hún þyrfti að læra nýtt tungumál og ferðast í klukkutíma hvora leið til að sækja samkomur.

Að halda huganum virkum

7. Hvernig tjáði Móse löngun sína til að styrkja sambandið við Guð á efri árum?

7 Menn afla sér lífsreynslu með árunum. (Jobsbók 12:12) Framfarir í trúnni koma hins vegar ekki af sjálfu sér með aldrinum. Trúfastir þjónar Guðs leggja sig því fram um að „auka lærdóm sinn“ þegar árin líða í stað þess að láta sér nægja þá þekkingu sem þeir hafa nú þegar. (Orðskviðirnir 9:9) Móse var áttræður þegar Jehóva kallaði hann til starfa. (2. Mósebók 7:7) Á þeim tímum taldist greinilega óvenjulegt að ná þeim aldri því að hann skrifaði: „Ævidagar vorir eru sjötíu ár og þegar best lætur áttatíu ár.“ (Sálmur 90:10) Móse fannst hann samt aldrei vera of gamall til að læra. Eftir að hafa þjónað Guði áratugum saman, hlotið mörg verkefni og axlað mikla ábyrgð bað hann Guð: „Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig.“ (2. Mósebók 33:13) Móse þráði alla tíð að styrkja sambandið við Jehóva.

8. Hvernig hélt Daníel huganum virkum fram á tíræðisaldur og hvað fékk hann að launum?

8 Daníel spámaður var líklega á tíræðisaldri þegar sagt er frá því að hann hafi verið að rýna í heilagar ritningar, hugsanlega 3. Mósebók, Jesaja, Jeremía, Hósea og Amos. Það sem hann uppgötvaði af lestri sínum vakti með honum löngun til að leita til Jehóva í innilegri bæn. (Daníel 9:1, 2) Guð bænheyrði hann og veitti honum upplýsingar um komu Messíasar og framtíð hreinnar tilbeiðslu. — Daníel 9:20-27.

9, 10. Hvað hafa sumir gert til að halda huganum virkum?

9 Við getum, líkt og Móse og Daníel, lagt okkur fram við að halda huganum virkum með því að einbeita okkur að andlegum málum eins lengi og við höfum tök á. Margir kappkosta að gera það. Worth, sem er safnaðaröldungur á níræðisaldri, nýtir sér vel andlegu fæðuna frá ‚trúa og hyggna þjóninum‘. (Matteus 24:45) Hann segir: „Ég er hugfanginn af sannleikanum og mér finnst heillandi að sjá hvernig ljós sannleikans verður sífellt skærara.“ (Orðskviðirnir 4:18) Fred, sem hefur þjónað í fullu starfi í meira en 60 ár, finnst það andlega örvandi að brydda upp á biblíulegum samræðum við trúsystkini. „Ég verð að hafa boðskap Biblíunnar lifandi í huga mér,“ segir hann. „Ef við getum gætt Biblíuna lífi og látið hana snerta okkur og ef við getum séð hvernig það sem við erum að læra kemur heim og saman við heildarmynd ‚heilnæmu orðanna‘ þá eru þetta ekki bara afmarkaðar upplýsingar. Maður sér þá hvernig upplýsingarnar tengjast innbyrðis.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:13.

10 Hár aldur þarf ekki að koma í veg fyrir að maður takist á við ný og flókin viðfangsefni. Fólk hefur lært að lesa eða lært ný tungumál á sjötugs-, áttræðis- og jafnvel níræðisaldri. Sumir þjónar Jehóva hafa gert það til að geta boðað fólki af ólíku þjóðerni fagnaðarerindið. (Markús 13:10) Harry og konan hans voru að nálgast sjötugt þegar þau ákváðu að læra portúgölsku til að bjóða fram krafta sína á öðru málsvæði. „Það segir sig sjálft að allt sem maður tekur sér fyrir hendur verður erfiðara með aldrinum,“ segir Harry. En með þrautseigju og dugnaði gátu þau haldið biblíunámskeið á portúgölsku. Harry hefur einnig flutt ræður á umdæmismótum á portúgölsku í mörg ár.

11. Hvers vegna er gott að velta fyrir sér því sem aldraðir ná að gera?

11 Auðvitað hafa ekki allir heilsu eða aðstæður til að takast á við eitthvað slíkt. Hvers vegna erum við þá að segja frá því sem sumir hafa afrekað á gamals aldri? Það er alls ekki gert til að ýja að því að allir ættu að reyna að leika þetta eftir. Það er gert í anda orðanna í Hebreabréfinu 13:7 þar sem Páll sagði um dygga safnaðaröldunga: „Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“ Þegar við veltum fyrir okkur dugnaði hinna öldruðu gæti það hvatt okkur til að líkja eftir þeirri sterku trú sem knýr þá áfram í þjónustunni við Guð. Harry, sem nú er 87 ára, útskýrir hvað hvetur hann til dáða: „Ég vil nota skynsamlega þau ár sem ég á eftir ólifuð og gera eins mikið gagn og ég get í þjónustunni við Jehóva.“ Fred, sem minnst var á áður, hefur yndi af því að sinna verkefnum sínum á Betel. Hann segir: „Maður verður að komast að raun um hvernig maður getur þjónað Jehóva sem best og halda sig við það.“

Trúföst þrátt fyrir áhrif ellinnar

12, 13. Hvernig sýndi Barsillaí guðrækni þrátt fyrir áhrif ellinnar?

12 Það getur verið erfitt að sætta sig við áhrif ellinnar. Þrátt fyrir það er hægt að vera guðrækinn. Barsillaí Gíleaðíti er gott dæmi um það. Hann var 80 ára þegar hann sýndi Davíð og mönnum hans einstaka gestrisni og veitti þeim mat og húsaskjól eftir uppreisn Absalons. Þegar Davíð sneri aftur til Jerúsalem fylgdi Barsillaí honum og föruneyti hans að Jórdan. Davíð bauð honum að koma með sér og vera við konungshirðina. Hvernig brást Barsillaí við? „Ég stend nú á áttræðu. . . . Mun þjónn þinn finna bragð af því, sem ég et og drekk, eða fæ ég lengur heyrt rödd söngvaranna og söngmeyjanna? . . . En hér er þjónn þinn Kímham, fari hann með mínum herra konunginum, gjör við hann slíkt er þér líkar!“ — 2. Samúelsbók 17:27-29; 19:31-40.

13 Þrátt fyrir áhrif ellinnar gerði Barsillaí það sem hann gat til að styðja konunginn sem Jehóva hafði útnefnt. Hann var ekki bitur þó að hann vissi að bragðskynið og heyrnin væru ekki eins og áður. Hann sýndi hvaða mann hann hafði að geyma með því að leggja til að Kímham fengi að njóta þess sem konungurinn hafði boðið. Margir aldraðir sýna sömu óeigingirni og örlæti og Barsillaí. Þeir gera það sem þeir geta til styðja sanna tilbeiðslu og vita að „slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar“. Við erum lánsöm að hafa dygga þjóna Guðs á meðal okkar. — Hebreabréfið 13:16.

14. Hvers vegna eykur aldur Davíðs gildi orðanna í Sálmi 37:23-25?

14 Þó að aðstæður Davíðs hafi oft breyst á lífsleiðinni var hann alltaf sannfærður um að umhyggja Jehóva fyrir trúum þjónum sínum myndi aldrei breytast. Á efri árum orti Davíð ljóð sem nú er Sálmur 37. Sjáðu Davíð fyrir þér þar sem hann situr með hörpuna, hugsar til baka og syngur: „Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans. Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans. Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.“ (Sálmur 37:23-25) Jehóva sá ástæðu til þess að getið væri um aldur Davíðs í þessum innblásna sálmi. Það eykur óneitanlega áhrif þessara hugnæmu orða.

15. Hvernig er Jóhannes gott dæmi um trúfesti þrátt fyrir breyttar aðstæður og háan aldur?

15 Jóhannes postuli er annað gott dæmi um trúfesti þrátt fyrir breyttar aðstæður og háan aldur. Eftir að hafa þjónað Jehóva í næstum 70 ár var hann sendur í útlegð á eyjuna Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú“. (Opinberunarbókin 1:9) Starfi hans var samt ekki lokið. Biblíubækurnar, sem bera nafn hans, voru allar skrifaðar á síðustu æviárum hans. Meðan hann var á Patmos fékk hann hina miklu opinberun sem hann færði samviskusamlega í letur. (Opinberunarbókin 1:1, 2) Talið er að hann hafi verið leystur úr haldi í stjórnartíð Nerva keisara í Róm. Eftir það, um árið 98 þegar hann var líklega um 90 eða 100 ára gamall, skrifaði Jóhannes guðspjallið og bréfin þrjú sem bera nafn hans.

Áralangt þolgæði

16. Hvernig geta þeir sem eiga erfitt með að tjá sig sýnt Jehóva hollustu sína?

16 Það er margt sem getur sett fólki skorður þegar aldurinn færist yfir. Sumir verða jafnvel fyrir því að eiga erfitt með að tala og tjá sig. En þeir eiga engu að síður ánægjulegar minningar um óverðskuldaða góðvild og kærleika Guðs. Þó að þeir geti kannski ekki tjáð sig skýrt með orðum segja þeir við Jehóva í hjarta sér: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Jehóva þekkir þá sem „virða hans nafn“ og veit hve mikill munur er á þeim og meirihluta mannkyns sem stendur á sama um hann. (Malakí 3:16; Sálmur 10:4) Það er traustvekjandi að vita að Jehóva hefur velþóknun á hugsunum hjartna okkar. — 1. Kroníkubók 28:9; Sálmur 19:15.

17. Hvaða einstaka fjársjóð hafa gamalreyndir þjónar Jehóva eignast?

17 Þá má ekki líta fram hjá því að þeir sem hafa þjónað Jehóva trúfastlega áratugum saman eiga einstakan fjársjóð sem ekki er hægt að eignast með neinum öðrum hætti — þeir hafa byggt upp þolgæði á langri ævi. Jesús sagði: „Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.“ (Lúkas 21:19) Þrautseigja og þolgæði er nauðsynlegt til að hljóta eilíft líf. Þið sem hafið gert „Guðs vilja“ og sannað hollustu ykkar á löngum æviferli getið hlakkað til þess að öðlast fyrirheitið. — Hebreabréfið 10:36.

18. (a) Yfir hverju gleðst Jehóva í fari aldraðra þjóna sinna? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

18 Jehóva metur mikils heilshugar þjónustu ykkar óháð því hve mikið eða lítið þið getið gert. Hinn „innri maður“ getur endurnýjast dag frá degi þó að hinn „ytri maður hrörni“ með aldrinum. (2. Korintubréf 4:16) Það leikur enginn vafi á að Jehóva kann vel að meta það sem þið hafið áorkað fram til þessa en það er líka deginum ljósara að hann metur að verðleikum það sem þið gerið núna fyrir nafn hans. (Hebreabréfið 6:10) Í næstu grein verður fjallað um þau víðtæku áhrif sem trúfesti ykkar hefur.

Hvert er svarið?

• Hvernig er Anna öldruðum þjónum Guðs góð fyrirmynd?

• Hvers vegna þarf hár aldur ekki að vera fólki fjötur um fót?

• Hvernig geta aldraðir haldið áfram að sýna guðrækni?

• Hvernig lítur Jehóva á aldraða sem þjóna honum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 13]

Hinn aldraði Daníel las í ritningunum hve lengi Júdamenn ættu að vera í útlegð.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Margir aldraðir eru til fyrirmyndar í því að sækja samkomur reglulega, boða fagnaðarerindið af kappi og vera námfúsir.