Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aldraðir eru hinum yngri til blessunar

Aldraðir eru hinum yngri til blessunar

Aldraðir eru hinum yngri til blessunar

„Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.“ — SÁLMUR 71:18.

1, 2. Hverju ættu aldraðir að gera sér grein fyrir og á hvað ætlum við að líta núna?

SAFNAÐARÖLDUNGUR í Vestur-Afríku heimsótti aldraðan andasmurðan bróður og spurði hann: „Hvernig hefurðu það?“ Hann svaraði: „Ég get hlaupið, ég get valhoppað, ég get stokkið og ég get hoppað,“ og reyndi að leika eftir það sem hann sagði. En hann bætti við: „Ég get ekki flogið.“ Öldungurinn skildi hvað hann átti við. „Ég geri með ánægju það sem ég get en það sem ég get ekki geri ég ekki.“ Safnaðaröldungurinn, sem heimsótti þennan andasmurða bróður, er nú kominn á níræðisaldur og minnist kímnigáfu hans og hollustu með hlýju.

2 Guðrækni og góðir eiginleikar aldraðra geta haft jákvæð og varanleg áhrif á aðra. En viska og kristilegir eiginleikar koma auðvitað ekki sjálfkrafa með aldrinum. (Prédikarinn 4:13) Í Biblíunni segir: „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.“ (Orðskviðirnir 16:31) Ef þú ert kominn á efri ár, gerirðu þér þá grein fyrir hve mikil áhrif orð þín og hegðun hafa á aðra? Lítum á nokkur dæmi úr Biblíunni sem sýna hvernig aldraðir hafa verið hinum yngri til blessunar og hvatningar.

Trú sem hafði víðtæk áhrif

3. Hvernig hefur trúfesti Nóa haft áhrif á alla núlifandi menn?

3 Trú og staðfesta Nóa hafði jákvæð áhrif og við njótum góðs af því enn þann dag í dag. Nói var hátt í 600 ára þegar hann smíðaði örkina, safnaði dýrunum saman og prédikaði fyrir samtíðarmönnum sínum. (1. Mósebók 7:6; 2. Pétursbréf 2:5) Nói og fjölskylda hans lifðu flóðið af vegna guðhræðslu hans og hann varð forfaðir allra núlifandi manna. Mannsævin var lengri á dögum Nóa en engu að síður var hann trúfastur allt fram á gamals aldur og það hafði mikla blessun í för með sér. Hvernig þá?

4. Hvernig njóta þjónar Guðs góðs af staðfestu Nóa?

4 Nói var næstum 800 ára þegar Nimrod hóf að byggja Babelturninn í andstöðu við boð Jehóva um að uppfylla jörðina. (1. Mósebók 9:1; 11:1-9) Nói tók hins vegar ekki þátt í uppreisn Nimrods. Það er því sennilegt að tungumál hans hafi ekki breyst þegar máli uppreisnarmannanna var ruglað. Trú Nóa og staðfesta, sem hann sýndi ekki aðeins á efri árum heldur á langri ævi, er þjónum Guðs á öllum aldri til eftirbreytni. — Hebreabréfið 11:7.

Áhrif á fjölskylduna

5, 6. (a) Hvað sagði Jehóva Abraham að gera þegar hann var 75 ára? (b) Hvernig brást Abraham við fyrirmælum Jehóva?

5 Ættfeðurnir eftir daga Nóa eru glöggt dæmi um þau áhrif sem aldraðir geta haft á trú fjölskyldunnar. Abraham var um 75 ára þegar Guð sagði við hann: „Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig.“ — 1. Mósebók 12:1, 2.

6 Hugsaðu þér að þér væri sagt að yfirgefa heimili þitt, vini, heimaland og öryggið sem stórfjölskyldan veitir, og fara til ókunnugs lands. Abraham var einmitt sagt að gera það. Hann „lagði . . . af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum,“ og bjó það sem eftir var ævinnar í tjöldum sem útlendingur og hirðingi í Kanaanlandi. (1. Mósebók 12:4; Hebreabréfið 11:8, 9) Jehóva hafði sagt að Abraham yrði að „mikilli þjóð“ en hann dó löngu áður en afkomendum hans fjölgaði að marki. Sara, kona hans, ól honum aðeins einn son, Ísak, og það gerðist ekki fyrr en eftir að þau höfðu dvalist í fyrirheitna landinu í 25 ár. (1. Mósebók 21:2, 5) Abraham gafst samt ekki upp og sneri ekki aftur til borgarinnar sem hann hafði yfirgefið. Hann var einstakt fordæmi um trú og þolgæði.

7. Hvaða áhrif hafði þolgæði Abrahams á Ísak og á mannkynið?

7 Þolgæði Abrahams hafði sterk áhrif á Ísak, son hans, en hann bjó sem útlendingur í Kanaanlandi alla ævi, 180 ár. Þolgæði Ísaks byggðist á því að hann trúði á fyrirheit Guðs. Aldraðir foreldrar hans höfðu innprentað honum þessa trú og Jehóva styrkti hana síðar með því að opinberast honum. (1. Mósebók 26:2-5) Staðfesta Ísaks var mikilvægur þáttur í uppfyllingunni á fyrirheiti Jehóva um að allt mannkyn myndi hljóta blessun vegna afkvæmis Abrahams. Öldum síðar kom Jesús Kristur fram en hann var fremsti afkomandi Abrahams. Hann gerði trúföstum mönnum kleift að sættast við Guð og öðlast eilíft líf. — Jóhannes 3:16; Galatabréfið 3:16.

8. Hvernig sýndi Jakob sterka trú og hvaða áhrif hafði það?

8 Ísak hjálpaði syni sínum, Jakobi, að rækta með sér sterka trú sem var honum styrkur allt til æviloka. Jakob var 97 ára þegar hann glímdi við engil næturlangt til að hljóta blessun hans. (1. Mósebók 32:24-28) Rétt áður en hann dó, 147 ára að aldri, notaði hann síðustu kraftana til að blessa syni sína 12. (1. Mósebók 47:28) Spádómsorð hans, sem er að finna í 1. Mósebók 49:1-28, komu fram og eru enn að rætast.

9. Hvaða áhrif geta aldraðir þjónar Guðs haft á fjölskyldu sína?

9 Ljóst er að dyggir þjónar Guðs geta á efri árum haft heilnæm áhrif á fjölskyldu sína. Biblíuleg fræðsla þeirra, viturleg ráð byggð á langri reynslu og áralangt þolgæði getur haft mikil áhrif á það hvort ungmenni byggi upp sterka trú. (Orðskviðirnir 22:6) Aldraðir ættu aldrei að vanmeta þau jákvæðu áhrif sem þeir geta haft á ættingja sína.

Áhrif á trúsystkini

10. Hvaða fyrirmæli gaf Jósef og hvaða áhrif höfðu þau?

10 Aldraðir geta líka haft góð áhrif á trúsystkini sín. Jósef, sonur Jakobs, sýndi trú sína með einföldum fyrirmælum sem höfðu djúpstæð áhrif á milljónir trúfastra manna eftir hans daga. Hann var 110 ára þegar hann „gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum“, það er að segja að Ísraelsmenn ættu að taka bein hans með sér þegar að því kæmi að þeir yfirgæfu Egyptaland. (Hebreabréfið 11:22; 1. Mósebók 50:25) Þessi fyrirmæli styrktu von þeirra öll þau ár sem þeir sættu harðræði og þrælkun eftir dauða Jósefs. Þau veittu þeim vissu fyrir því að þeir myndu hljóta frelsun.

11. Hvaða áhrif hafði hinn aldraði Móse líklega á Jósúa?

11 Móse var einn þeirra sem sótti styrk í fyrirmæli Jósefs. Þegar Móse var áttræður fékk hann að flytja bein Jósefs út úr Egyptalandi. (2. Mósebók 13:19) Um þetta leyti kynntist hann Jósúa sem var mun yngri en hann. Jósúa var þjónn Móse næstu 40 árin. (4. Mósebók 11:28) Hann fór með honum upp á Sínaífjall og tók á móti honum þegar hann kom ofan af fjallinu með sáttmálstöflurnar. (2. Mósebók 24:12-18; 32:15-17) Móse hlýtur að hafa verið óþrjótandi uppspretta viturlegra ráða sem Jósúa hefur notið góðs af.

12. Hvernig reyndist Jósúa þjóðinni vel allt til æviloka?

12 Jósúa hvatti og styrkti þjóðina meðan hann var á lífi. Í Dómarabókinni 2:7 segir: „Lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael.“ En eftir dauða Jósúa og hinna öldunganna hófst 300 ára tímabil þar sem þjóðin tilbað ýmist hinn sanna Guð eða falsguði. Þessu fór fram allt fram á daga Samúels spámanns.

Samúel iðkaði réttlæti

13. Hvernig iðkaði Samúel réttlæti?

13 Biblían nefnir ekki hve gamall Samúel var þegar hann dó en atburðirnir í 1. Samúelsbók ná yfir um það bil 102 ár og Samúel varð vitni að flestum þeirra. Í Hebreabréfinu 11:32, 33 segir að trúfastir dómarar og spámenn hafi iðkað réttlæti. Já, Samúel stuðlaði að því að sumir samtíðarmenn hans héldu sér frá rangri breytni eða hættu henni. (1. Samúelsbók 7:2-4) Hvernig þá? Hann var trúr Jehóva alla ævi. (1. Samúelsbók 12:2-5) Hann var óhræddur við að gefa beinskeyttar leiðbeiningar, jafnvel þegar konungurinn átti í hlut. (1. Samúelsbók 15:16-29) Auk þess var Samúel til fyrirmyndar með því að biðja fyrir öðrum þegar hann var „gamall og grár fyrir hærum“. Hann sagði: „Fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður“ og átti þar við Ísraelsmenn. — 1. Samúelsbók 12:2, 23.

14, 15. Hvernig geta aldraðir líkt eftir Samúel með bænum sínum?

14 Af þessu má sjá að aldraðir geta haft góð áhrif á samþjóna sína með bænum sínum. Þið sem eruð komin á efri ár getið beðið fyrir öðrum þrátt fyrir þær skorður sem heilsan eða aðrar aðstæður setja ykkur. Gerið þið ykkur grein fyrir hvað þið gerið söfnuðinum gott með bænum ykkar? Þar sem þið trúið á úthellt blóð Krists njótið þið velþóknunar Jehóva og með þolgæði ykkar hafið þið sannað trúarstaðfestu ykkar. (Jakobsbréfið 1:3; 1. Pétursbréf 1:7) Munið að „kröftug bæn réttláts manns megnar mikið“. — Jakobsbréfið 5:16.

15 Bænir ykkar í þágu boðunarstarfsins og safnaðarins eru verðmætar. Sum trúsystkini okkar sitja í fangelsi vegna þess að þau eru hlutlaus í málefnum heimsins. Aðrir hafa orðið fórnarlömb náttúruhamfara, styrjalda og óeirða. Og í heimasöfnuðum okkar verða sumir fyrir freistingum og andstöðu. (Matteus 10:35, 36) Þeir sem fara með forystu í boðunarstarfinu og í söfnuðunum þurfa líka á bænum ykkar að halda. (Efesusbréfið 6:18, 19; Kólossubréfið 4:2, 3) Það er mikils virði að þið nefnið trúsystkini ykkar í bænum ykkar eins og Epafras gerði. — Kólossubréfið 4:12.

Að kenna komandi kynslóð

16, 17. Hverju var spáð í Sálmi 71:18 og hvernig hefur það ræst?

16 Kristnir menn af hópi ‚annarra sauða‘, sem hafa von um eilíft líf á jörðinni, hafa fengið verðmæta kennslu hjá trúföstum þjónum Guðs af ‚litlu hjörðinni‘ sem hefur himneska köllun. (Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16) Þessu var spáð í Sálmi 71:18. Þar segir: „Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.“ Hinir andasmurðu hafa fúslega þjálfað félaga sína af hópi annarra sauða til að axla aukna ábyrgð áður en þeir hljóta himneska dýrð með Jesú Kristi.

17 Það sem stendur í Sálmi 71:18 um að fræða „komandi kynslóð“ mætti einnig heimfæra upp á aðra sauði sem hafa fengið kennslu hjá andsmurðum þjónum Guðs. Jehóva hefur falið öldruðum það verðuga verkefni að fræða þá sem eru að snúast til sannrar tilbeiðslu. (Jóel 1:2, 3) Aðrir sauðir kunna vel að meta það sem þeir hafa lært af hinum andasmurðu og finna sterka löngun hjá sér til að miðla biblíuþekkingu sinni til þeirra sem þrá að þjóna Jehóva. — Opinberunarbókin 7:9, 10.

18, 19. (a) Hverju geta aldraðir þjónar Jehóva miðlað? (b) Hverju geta aldraðir treyst?

18 Aldraðir þjónar Jehóva, bæði andasmurðir og af öðrum sauðum, eru lifandi tengiliðir við merka sögulega viðburði. Fáeinir eru enn á lífi sem voru viðstaddir fyrstu sýningar „Sköpunarsögunnar í myndum“. Sumir þekktu persónulega bræðurna sem fóru með forystu og voru fangelsaðir árið 1918. Aðrir tóku þátt í útsendingum útvarpsstöðvar Varðturnsfélagsins, WBBR. Margir geta sagt frá því þegar barist var fyrir trúfrelsi Votta Jehóva fyrir æðstu dómstólum. Enn aðrir voru staðfastir í sannri tilbeiðslu í löndum þar sem einræðisstjórnir voru við völd. Og aldraðir geta greint frá því hvernig skilningurinn á sannleikanum hefur opinberast smátt og smátt. Í Biblíunni erum við hvött til að nýta okkur reynslusjóð þeirra. — 5. Mósebók 32:7.

19 Aldraðir þjónar Guðs eru hvattir til að vera hinum yngri góð fyrirmynd. (Títusarbréfið 2:2-4) Þú sérð ef til vill ekki sem stendur hvaða áhrif þolgæði þitt, bænir og ráðleggingar hafa á aðra. Nói, Abraham, Jósef, Móse og aðrir gátu aldrei ímyndað sér hvaða áhrif trúfesti þeirra ætti eftir að hafa á komandi kynslóðir. En trú þeirra og ráðvendni skipti afar miklu máli. Hið sama má segja um trúfesti þína.

20. Hvað bíður þeirra sem viðhalda sterkri von allt til enda?

20 Það verður yndislegt að öðlast „hið sanna líf“, hvort sem þú lifir af ‚þrenginguna miklu‘ eða hlýtur upprisu. (Matteus 24:21; 1. Tímóteusarbréf 6:19) Sjáðu fyrir þér þúsund ára stjórnartíð Krists þegar Jehóva mun snúa við áhrifum ellinnar. Í stað vægðarlausrar hrörnunar vöknum við á hverjum degi hressari og heilbrigðari en daginn áður og höfum meiri orku, skarpari sjón, næmari heyrn og lítum betur út. (Jobsbók 33:25; Jesaja 35:5, 6) Þeir sem fá að lifa í nýjum heimi Guðs verða alltaf ungir í samanburði við eilífðina fram undan. (Jesaja 65:22) Við skulum því öll vera staðráðin í að viðhalda sterkri von allt til enda og halda áfram að þjóna Jehóva af öllu hjarta. Við getum verið viss um að hann stendur við öll loforð sín og allt sem hann gerir mun fara langt fram úr björtustu vonum okkar. — Sálmur 37:4; 145:16.

Hvert er svarið?

• Hvernig var staðfesta Nóa öllu mannkyni til blessunar?

• Hvaða áhrif hafði trú ættfeðranna á afkomendur þeirra?

• Hvernig styrktu Jósef, Móse, Jósúa og Samúel trú annarra á efri árum sínum?

• Hverju geta aldraðir miðlað öðrum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 16]

Þolgæði Abrahams hafði sterk áhrif á Ísak.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Viturleg ráð Móse voru Jósúa til hvatningar.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Bænir þínar í þágu annarra geta gert mikið gagn.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Ungt fólk nýtur góðs af því að hlusta á aldraða.