Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Allar þjáningar eru brátt á enda

Allar þjáningar eru brátt á enda

Allar þjáningar eru brátt á enda

„Bjargið — fullkomin eru verk hans.“ — 5. MÓSEBÓK 32:4.

1, 2. (a) Af hverju hefurðu yndi af því að hugsa um vonina um eilíft líf? (b) Hvað hindrar marga í að trúa að til sé Guð sem gefur fögur fyrirheit?

HEFURÐU yndi af því að velta fyrir þér hvernig lífið verði í paradís? Kannski sérðu sjálfan þig kanna undur jarðar og fræðast um endalausa fjölbreytni lífríkisins. Kannski hugsarðu um hve ánægjulegt það verði að vinna að því með öðrum að annast jörðina og eiga þátt í að breyta henni í einn stóran lystigarð. Eða kannski hugsarðu til þess hve fær þú getir orðið í listum, arkitektúr, tónlistarsköpun eða öðru slíku sem þú hefur ekki tíma til að sinna í erli lífsins eins og það er núna. Þú hlakkar að minnsta kosti til þess að fá að lifa hinu ‚sanna lífi‘ eins og það er kallað í Biblíunni, eilífa lífinu eins og Jehóva ætlaði okkur að lifa. — 1. Tímóteusarbréf 6:19.

2 Finnst þér ekki ánægjulegt og mikill heiður að mega segja öðrum frá voninni sem Biblían veitir? En margir hafna þessari framtíðarsýn. Þeir segja að þetta sé tálvon, óraunhæfir draumórar auðtrúa fólks. Sumir eiga jafnvel erfitt með að trúa að til sé Guð sem gefur loforð um eilíft líf í paradís. Hjá sumum er ástæðan hin svokallaða ráðgáta um illskuna. Þeir hugsa sem svo að sé Guð til og sé hann kærleiksríkur og almáttugur þá sé ekki hægt að skýra tilvist illskunnar og þjáninganna í heiminum. Þeir álíta að það geti ekki verið til Guð sem umber illsku — og sé hann til sé hann annaðhvort ekki almáttugur eða honum standi á sama um okkur. Sumum þykja þetta sannfærandi rök. Satan hefur tekist býsna vel að blinda hugi mannanna. — 2. Korintubréf 4:4.

3. (a) Við hvaða erfiðu spurningu getum við hjálpað fólki að fá svar? (b) Af hverju erum við í einstaklega góðri aðstöðu til að svara spurningunni?

3 Við sem erum vottar Jehóva erum í einstakri aðstöðu til að hjálpa þeim sem hafa látið blekkjast af Satan og speki þessa heims. (1. Korintubréf 1:20; 3:19) Við skiljum hvers vegna margir trúa ekki á fyrirheit Biblíunnar. Þeir þekkja ekki Jehóva. Þeir vita ef til vill ekki hvað hann heitir né hvaða þýðingu nafn hans hefur, og sennilega vita þeir lítið eða ekkert um eiginleika hans og hvernig hann hefur alltaf haldið loforð sín. Það er mikil gæfa fyrir okkur að hafa þessa þekkingu. Af og til er hollt að íhuga hvernig við getum hjálpað þeim sem eru í andlegu myrkri að fá svör við spurningunni: „Af hverju leyfir Guð illsku og þjáningar?“ (Efesusbréfið 4:18) Þetta er einhver erfiðasta spurning sem fólk spyr. Við skulum byrja á því að kanna hvernig best sé að nálgast þetta viðfangsefni. Síðan ræðum við hvernig eiginleikar Jehóva birtast í viðbrögðum hans við illskunni.

Hvernig er best að nálgast viðfangsefnið?

4, 5. Á hverju getum við þurft að byrja þegar einhver spyr hvers vegna Guð leyfi þjáningar? Gefðu nánari skýringu.

4 Hvernig svörum við þegar einhver spyr af hverju Guð leyfi þjáningar? Við höfum ef til vill tilhneigingu til að byrja strax á því að gefa ítarlegt svar og byrja á atburðunum í Eden. Í sumum tilfellum er það ágæt aðferð. Það getur þó verið betra að fara hægar í sakirnar og byrja á því að leggja ákveðinn grunn. (Orðskviðirnir 25:11; Kólossubréfið 4:6) Við skulum líta á þrennt sem getur verið gott að hafa í huga áður en við snúum okkur að því að svara sjálfri spurningunni.

5 Í fyrsta lagi: Ef illskan í heiminum veldur viðmælandanum miklu hugarangri er líklegt að hann eða ástvinir hans hafi sjálfir orðið fyrir barðinu á henni. Þá gæti verið skynsamlegt að byrja á því að sýna ósvikna samúð. Páll postuli ráðlagði kristnum mönnum að ‚gráta með grátendum‘. (Rómverjabréfið 12:15) Við getum ef til vill náð til viðmælandans ef við erum hluttekningarsöm. (1. Pétursbréf 3:8) Ef hann finnur að við látum okkur annt um hann er líklegra að hann hlusti á það sem við höfum fram að færa.

6, 7. Af hverju getum við hrósað einlægri manneskju sem ber fram spurningu um djúpstæð biblíuleg sannindi?

6 Í öðru lagi: Við getum hrósað viðmælandanum fyrir að varpa fram þessari spurningu. Sumir hafa áhyggjur af því að þeir séu trúlausir eða sýni Guði óvirðingu fyrst þeir eru að velta þessu fyrir sér. Vera má að prestur hafi jafnvel sagt þeim það. En þetta þarf ekki að vera merki um trúleysi. Ekki má gleyma því að trúir þjónar Guðs á biblíutímanum spurðu svipaðra spurninga. Sálmaskáldið Davíð spurði til dæmis: „Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?“ (Sálmur 10:1) Og Habakkuk spámaður spurði: „Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn, án þess að þú hlustir? Um ofbeldi hef ég æpt til þín án þess að þú kæmir til hjálpar. Hví sýnirðu mér illskuna og horfir aðgerðalaus á ranglætið? Hví eru fyrir augum mér ofbeldi og rán sem vekja ágreining og kveikja illdeilur?“ — Habakkuk 1:2, 3, Biblíurit, ný þýðing 1995.

7 Þetta voru trúir þjónar Guðs og þeir báru djúpa virðingu fyrir honum. Voru þeir ávítaðir fyrir að bera fram þessar spurningar sem leituðu á þá? Nei, Jehóva taldi rétt að láta skrá einlægar spurningar þeirra í Biblíuna. Þeir sem eru að brjóta heilann um tilvist illskunnar eru ef til vill andlega hungraðir. Þeir þrá að fá svör sem aðeins er að finna í Biblíunni. Við skulum hafa hugfast að Jesús talaði lofsamlega um þá sem „skynja andlega þörf sína“ og þrá að fá svör við spurningum sínum. (Matteus 5:3, NW) Það er einstaklega ánægjulegt að geta hjálpað þeim að finna hamingjuna sem Jesús lofaði.

8. Hvernig hefur fólki verið talin trú um að Guð beri ábyrgð á þjáningum og hvernig getum við leiðrétt það?

8 Í þriðja lagi: Við þurfum ef til vill að sýna viðmælanda okkar fram á að illskan í heiminum sé ekki Guði að kenna. Mörgum er kennt að Guð stjórni þeim heimi sem við búum í, að hann sé löngu búinn að ákveða allt sem hendir okkur og að hann hafi einhverjar dularfullar og óskýranlegar ástæður til að kvelja mannkynið. Þetta er rangt. Með því að kenna svona lagað er verið að smána Guð og gera hann ábyrgan fyrir illskunni og þjáningunum í heiminum. Við gætum því þurft að nota Biblíuna til að leiðrétta þetta. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Það er ekki Jehóva heldur Satan djöfullinn sem stjórnar þessu spillta heimskerfi. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Jehóva hefur ekki ákveðið örlög skynsemigæddra sköpunarvera sinna heldur gefur hann hverjum og einum frelsi og færi á að velja milli góðs og ills og milli þess sem er rétt og rangt. (5. Mósebók 30:19) Og illskan á aldrei upptök sín hjá Jehóva. Hann hatar illskuna og honum er ákaflega annt um þá sem þjást að ósekju. — Jobsbók 34:10; Orðskviðirnir 6:16-19; 1. Pétursbréf 5:7.

9. Nefndu dæmi um hjálpargögn sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið í té til að fólk geti kynnt sér hvers vegna Jehóva Guð leyfir þjáningar.

9 Eftir að hafa lagt þennan grunn er áheyrandinn líklega tilbúinn til að kynna sér hvers vegna Guð hefur leyft tilvist illskunnar. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur látið í té ágæt hjálpargögn. (Matteus 24:45-47) Á umdæmismótunum „Hlýðni við Guð“, sem haldin voru 2005-2006, var til dæmis gefið út smáritið Þjáningar taka brátt enda. Þú gætir kynnt þér efni þess. Í bókinni Hvað kennir Biblían? er heill kafli sem fjallar um þessa spurningu, en bókin er nú fáanleg á 157 tungumálum. Notfærðu þér þessi hjálpargögn. Þau skýra á einfaldan hátt hvernig deilan um drottinvaldið yfir alheiminum kom upp í Eden og hvers vegna Jehóva brást við henni eins og raun ber vitni. Og hafðu hugfast að þegar þú ræðir þetta efni ertu að veita áheyranda þínum aðgang að mikilvægasta þekkingarsviði sem til er. Það er þekkingin á Jehóva og dásamlegum eiginleikum hans.

Beindu athyglinni að eiginleikum Jehóva

10. Hvers vegna eiga sumir erfitt með að skilja ástæðuna fyrir því að Guð leyfir þjáningar og hvaða vitneskja getur hjálpað þeim?

10 Þegar þú reynir að sýna fólki fram á hvers vegna Jehóva hefur leyft mönnum að ráða sér sjálfir undir áhrifum Satans skaltu beina athyglinni að dásamlegum eiginleikum Jehóva. Margir vita að Guð er máttugur. Þeir hafa vanist því að heyra hann kallaðan almáttugan Guð. Hins vegar eiga þeir ef til vill erfitt með að skilja hvers vegna hann beitir ekki almætti sínu þegar í stað til að binda enda á þjáningar og ranglæti. Þeir hafa sennilega ekki innsýn í aðra eiginleika hans svo sem heilagleika, réttlæti, visku og kærleika. Þessir eiginleikar Jehóva eru alltaf í fullkomnu innbyrðis jafnvægi. Þess vegna segir í Biblíunni: „Fullkomin eru verk hans.“ (5. Mósebók 32:4) Hvernig geturðu beint athyglinni að þessum eiginleikum þegar þú svarar spurningum sem oft er spurt um þetta mál? Lítum á fáein dæmi.

11, 12. (a) Af hverju kom ekki til greina að fyrirgefa synd Adams og Evu? (b) Hvers vegna mun Jehóva ekki umbera synd að eilífu?

11Gat Jehóva ekki bara fyrirgefið Adam og Evu? Fyrirgefning kom aldrei til greina í þessu máli. Adam og Eva voru fullkomin og það var að yfirlögðu ráði sem þau ákváðu að hafna drottinvaldi hans og þiggja frekar leiðsögn Satans. Eins og við var að búast sýndu uppreisnarseggirnir engin iðrunarmerki. En þegar einhver spyr hvort Jehóva hafi ekki getað fyrirgefið þeim er hann ef til vill að velta fyrir sér hvers vegna Jehóva dró hreinlega ekki úr kröfum sínum og ákvað að sætta sig við synd og uppreisn. Svarið tengist einum eðliseiginleika Jehóva — heilagleika hans. — 2. Mósebók 28:36; 39:30.

12 Biblían bendir ótal sinnum á að Jehóva sé heilagur. Því miður skilja þó fáir í þessum spillta heimi hvað heilagleiki er. Jehóva er hreinn og fjarlægur öllu sem heitir synd. (Jesaja 6:3; 59:2) Hann hefur gert ráðstafanir til að friðþægt sé fyrir syndina og hún verði afmáð. Hann ætlar ekki að umbera hana endalaust. Ef Jehóva væri tilbúinn til að umbera syndina að eilífu ættum við enga framtíðarvon. (Orðskviðirnir 14:12) Þegar þar að kemur mun Jehóva lyfta öllu sköpunarverkinu upp til fullkomleika á ný. Það er öruggt vegna þess að það er vilji Hins heilaga.

13, 14. Af hverju kaus Jehóva að lífláta ekki uppreisnarseggina í Eden?

13Gat Jehóva ekki bara tekið uppreisnarseggina í Eden af lífi og byrjað upp á nýtt? Hann var vissulega nógu máttugur til þess og bráðlega mun hann beita þessum mætti til að útrýma öllum óguðlegum. En af hverju gerði hann það ekki meðan það voru aðeins þrír syndarar í alheiminum? Hefði hann þá ekki komið í veg fyrir að syndin breiddist út ásamt öllum þeim hörmungum sem við sjáum í heiminum? Af hverju valdi Jehóva ekki þá leið? Í 5. Mósebók 32:4 segir: „Allir vegir hans eru réttlæti.“ Jehóva hefur ákaflega sterka réttlætiskennd. Hann hefur meira að segja „mætur á réttlæti“. (Sálmur 37:28) Það var réttlætisástin sem var ástæðan fyrir því að hann tók ekki uppreisnarseggina í Eden af lífi. Hvernig þá?

14 Með uppreisn Satans vaknaði sú spurning hvort það væri réttmætt að Jehóva færi með drottinvaldið. Réttlæti Jehóva krafðist þess að ásökunum Satans væri svarað. Þótt það hefði vissulega verið réttmætt að lífláta uppreisnarseggina þegar í stað hefði það ekki svarað ásökunum Satans. Það hefði auðvitað hnykkt á því að Jehóva færi með æðsta vald og mátt en það var ekki máttur hans sem var véfengdur. Auk þess hafði Jehóva sagt Adam og Evu hvað hann ætlaðist fyrir með þau. Þau áttu að eignast börn, uppfylla jörðina, gera sér hana undirgefna og ráða yfir öllu sköpunarverki jarðar. (1. Mósebók 1:28) Ef Jehóva hefði hreinlega tekið þau af lífi hefði yfirlýst fyrirætlun hans með mennina verið orðin tóm. Réttlæti hans leyfði ekki slíkt vegna þess að vilji hans nær alltaf fram að ganga. — Jesaja 55:10, 11.

15, 16. Hvernig getum við hjálpað þeim sem stinga upp á sínum eigin „lausnum“ á deilumálinu í Eden?

15Var einhver annar fær um að bregðast betur við uppreisninni en Jehóva? Sumir gætu kannski komið með sínar eigin „lausnir“ á uppreisninni í Eden. En væru þeir þá ekki að gefa í skyn að þeir gætu fundið betri leiðir en Jehóva til að taka á deilumálinu? Það þarf ekki að vera af illum hvötum gert en þeir hafa ekki þekkingu á Jehóva og mikilfenglegri visku hans. Í bréfi sínu til kristinna manna í Róm fjallar Páll postuli ítarlega um visku Guðs, þar á meðal ‚leyndardóminn‘ um þá fyrirætlun hans að nota Messíasarríkið til að endurleysa trúa menn og helga heilagt nafn sitt. Hvernig leit Páll á visku Guðs sem er hugsuðurinn á bak við allt þetta? Hann lýkur bréfinu með eftirfarandi orðum: „Honum einum, alvitrum Guði, sé fyrir Jesú Krist dýrð um aldir alda. Amen.“ — Rómverjabréfið 11:25; 16:25-27.

16 Páll skildi að Jehóva einn er alvitur. Enginn í öllum alheiminum jafnast á við hann. Getur nokkur ófullkominn maður upphugsað betri leiðir en Guð til að taka á nokkrum sköpuðum hlut — að ekki sé nú talað um langflóknasta mál sem Guð hefur þurft að takast á við? Guð er „vitur í hjarta“ og við þurfum að hjálpa fólki að finna til sömu lotningar fyrir honum og við höfum. (Jobsbók 9:4) Því betur sem við skiljum visku Jehóva þeim mun betur treystum við því að aðferðir hans séu bestar. — Orðskviðirnir 3:5, 6.

Mikilvægasti eiginleiki Jehóva

17. Hvernig getur aukinn skilningur á kærleika Jehóva hjálpað þeim sem eiga erfitt með að skilja af hverju hann leyfir þjáningar?

17 „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Með þessum áhrifamiklu orðum bendir Biblían á mikilvægasta eiginleika Jehóva, eiginleikann sem höfðar sterkast til okkar og hughreystir meira en nokkuð annað þá sem eiga erfitt með að skilja af hverju hann leyfir illskuna í heiminum. Jehóva hefur sýnt kærleika í öllu sem hann hefur gert til að bregðast við þeim ógurlega skaða sem sköpunarverkið hefur hlotið af syndinni. Það var sökum kærleika sem hann veitti syndugum afkomendum Adams og Evu von. (1. Mósebók 3:15) Hann leyfði þeim að leita til sín í bæn og gerði þeim mögulegt að eiga náið samband við sig. Það var vegna kærleika sem hann greiddi lausnargjald til að menn gætu hlotið syndafyrirgefningu, fullkomleika og eilíft líf. (Jóhannes 3:16) Og í kærleika sínum er hann þolinmóður við mannkynið þannig að sem flestir fái tækifæri til að hafna Satan og velja sig sem Drottin sinn. — 2. Pétursbréf 3:9.

18. Hvaða innsýn hefur okkur verið gefin og um hvað verður fjallað í greininni á eftir?

18 Prestur ávarpaði fyrir nokkru hóp manna sem safnast hafði saman til að minnast fórnarlamba hryðjuverkaárásar. Hann sagði: „Við vitum ekki af hverju Guð leyfir illsku og þjáningum að viðgangast.“ Það er dapurlegt. Er það ekki mikil gæfa fyrir okkur að hafa innsýn í þetta mál? (5. Mósebók 29:29) Og þar sem Jehóva er vitur, réttlátur og kærleiksríkur vitum við að hann mun bráðlega binda enda á allar þjáningar. Hann hefur meira að segja gefið fyrirheit um það. (Opinberunarbókin 21:3, 4) En hvað um alla þá sem dáið hafa í aldanna rás? Eru þeir án vonar? Nei, í kærleika sínum hefur Jehóva tekið þannig á deilunni í Eden að þeir eiga sér líka von — upprisuna. Fjallað er um hana í greininni á eftir.

Hvert er svarið?

• Hvað getum við sagt við fólk sem spyr af hverju Guð leyfir þjáningar?

• Hvernig birtist heilagleiki Jehóva og réttlæti í viðbrögðum hans við uppreisninni í Eden?

• Af hverju ættum við að hjálpa fólki að skilja kærleika Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Reyndu að hjálpa þeim sem eiga erfitt með að skilja þjáningarnar í heiminum.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Davíð og Habakkuk spurðu Jehóva í einlægni um tilvist illskunnar.