Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er upprisuvonin örugg í huga þér?

Er upprisuvonin örugg í huga þér?

Er upprisuvonin örugg í huga þér?

‚Upp munu rísa bæði réttlátir og ranglátir.‘ — POSTULASAGAN 24:15.

1. Af hverju virðist dauðinn óumflýjanlegur?

„Í ÞESSUM heimi er ekkert víst nema skattarnir og dauðinn.“ Mörgum þykja þetta hnyttileg orð en það var bandaríski stjórnmálamaðurinn Benjamin Franklin sem setti þau á blað árið 1789. Margt óheiðarlegt fólk svíkur reyndar undan skatti. Hins vegar er ekki hægt að skjóta sér undan dauðanum. Án utanaðkomandi hjálpar er dauðinn óumflýjanlegur fyrr eða síðar. Hann er á hælunum á okkur. Sameiginleg gröf mannkyns — dánarheimar — gleypir ástvini okkar miskunnarlaust. (Orðskviðirnir 27:20) En við erum þó ekki án vonar.

2, 3. (a) Af hverju er dauðinn ekki eins óumflýjanlegur og margir halda? (b) Um hvað verður fjallað í þessari grein?

2 Í orði Jehóva er gefin örugg von um upprisu frá dauðum. Þetta er ekki bara draumur því að ekkert afl í alheiminum getur hindrað að Jehóva láti þessa von rætast. En í hugum sumra er dauðinn ekki eins óumflýjanlegur og margir halda. Af hverju? Af því að „mikill múgur“, sem ekki verður tölu á komið, mun lifa af ‚þrenginguna miklu‘ sem er fram undan. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14) Þeir lifa áfram og eiga eilíft líf í vændum. Í hugum þeirra er dauðinn alls ekki óhjákvæmilegur því að „dauðinn . . . verður að engu gjörður“. — 1. Korintubréf 15:26.

3 Við þurfum að vera jafn örugg um upprisuna eins og Páll postuli sem sagði að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“. (Postulasagan 24:15) Við ætlum nú að fjalla um þrjár spurningar varðandi upprisuna. Í fyrsta lagi, af hverju er þessi von svona örugg? Í öðru lagi, hvernig getur þú látið vonina um upprisu hughreysta þig? Í þriðja lagi, hvaða áhrif getur þessi von haft á lífsstefnu þína núna?

Upprisan er örugg

4. Af hverju er upprisan afar mikilvægur þáttur í fyrirætlun Jehóva?

4 Nefna má nokkrar ástæður fyrir því að upprisan er örugg. Í fyrsta lagi er hún afar mikilvægur þáttur í fyrirætlun Jehóva. Eins og við munum leiddi Satan mannkynið út í syndina og dauðinn er óhjákvæmileg afleiðing hennar. Þess vegna sagði Jesús að Satan væri „manndrápari frá upphafi“. (Jóhannes 8:44) Jehóva lofaði hins vegar að ‚kona‘ sín, sem táknar himneskan hluta alheimssafnaðar hans, myndi geta af sér ‚sæði‘. Þetta ‚sæði‘ myndi merja höfuð Satans, ‚hins gamla höggorms‘, og tortíma honum endanlega. (1. Mósebók 3:1-6, 15; Opinberunarbókin 12:9, 10; 20:10) Jehóva opinberaði smám saman fyrirætlun sína varðandi þetta sæði, það er að segja Messías, og með tímanum varð ljóst að sæðið ætti ekki aðeins að tortíma Satan. Í Biblíunni segir: „Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (1. Jóhannesarbréf 3:8) Dauðinn af völdum syndarinnar, sem við erfðum frá Adam, er eitt helsta verk Satans sem Jehóva ætlar að láta Jesú Krist brjóta niður eða afmá. Lausnarfórn Jesú og upprisan eru afar mikilvægir þættir í þessari fyrirætlun. — Postulasagan 2:22-24; Rómverjabréfið 6:23.

5. Hvernig mun upprisan upphefja nafn Jehóva?

5Jehóva er staðráðinn í að upphefja heilagt nafn sitt. Satan hefur svívirt nafn Guðs og útbreitt lygar. Hann laug því að Adam og Eva myndu „vissulega . . . ekki deyja“ þótt þau borðuðu ávöxtinn sem Guð bannaði þeim. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:4) Æ síðan hefur Satan alið á lygum af svipuðu tagi, til dæmis þeirri falskenningu að sálin lifi af líkamsdauðann. Með upprisunni ætlar Jehóva að afhjúpa allar þessar lygar. Hann sýnir þá fram á í eitt skipti fyrir öll að hann einn getur varðveitt líf og gefið það aftur.

6, 7. Hvernig hugsar Jehóva um upprisuna og hvernig vitum við það?

6Jehóva þráir að reisa fólk upp frá dauðum. Í Biblíunni kemur skýrt fram hvernig hann hugsar um þetta mál. Tökum sem dæmi innblásin orð hins trúa Jobs: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar, þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Hvað merkja þessi orð?

7 Job vissi að hann myndi sofa dauðasvefni eftir að hann dæi. Hann kallaði þessa tímabundnu bið „herþjónustu“ því að hann leit á hana sem kvöð sem hann þyrfti að bíða eftir að verða leystur undan. Hann var öruggur um að hann yrði leystur undan henni þegar þar að kæmi. Af hverju? Af því að hann vissi hvernig Jehóva hugsaði. Jehóva myndi „þrá“ að sjá trúan þjón sinn á ný. Já, Guð langar til að gefa öllum réttlátum mönnum lífið aftur. Og hann ætlar einnig að gefa öðrum tækifæri til að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Jóhannes 5:28, 29) Enginn getur hindrað að hann komi þessum vilja sínum í framkvæmd.

8. Hvernig hefur Jehóva sannað að framtíðarvon okkar eigi eftir að rætast?

8Upprisa Jesú er trygging fyrir voninni sem við berum í brjósti. Páll sagði í ræðu sem hann flutti í Aþenu: „[Guð] hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ (Postulasagan 17:31) Sumir af áheyrendum Páls gerðu gys að þegar þeir heyrðu hann nefna upprisu. Nokkrir tóku hins vegar trú. Ef til vill greip það athygli þeirra að þessi von skyldi eiga sér sönnun. Jehóva vann mesta kraftaverk sitt þegar hann reisti Jesú upp frá dauðum sem volduga andaveru. (1. Pétursbréf 3:18) Eftir upprisuna var Jesús enn meiri en hann hafði verið áður en hann kom til jarðar. Hann er ódauðlegur og næstur Jehóva að völdum og er nú í aðstöðu til að taka að sér mikilfengleg verkefni sem faðir hans felur honum. Fyrir milligöngu Jesú reisir Jehóva alla aðra upp frá dauðum, hvort sem það er til lífs á himnum eða jörð. „Ég er upprisan og lífið,“ sagði Jesús. (Jóhannes 5:25; 11:25) Með því að reisa son sinn upp frá dauðum tryggði Jehóva að þessi von allra trúfastra þjóna sinna myndi rætast.

9. Hvernig vitnar Biblían um að upprisan sé veruleiki?

9Upprisan er staðfest af sjónarvottum og henni er lýst í Biblíunni. Í orði Guðs er sagt í ítarlegu máli frá átta dæmum um að fólk hafi verið reist upp frá dauðum hér á jörð. Þessi kraftaverk voru ekki unnin í leynum heldur fyrir opnum tjöldum, oft í votta viðurvist. Lasarus hafði verið dáinn í fjóra daga þegar Jesús reisti hann upp að viðstöddum hópi syrgjenda. Þar á meðal voru eflaust ættingjar, vinir og nágrannar hins látna. Þessi upprisa var svo sterk sönnun fyrir því að Jesús væri sendur af Guði að trúarlegir óvinir hans afneituðu henni aldrei. Þeir lögðu hins vegar á ráðin um að drepa bæði Jesú og Lasarus. (Jóhannes 11:17-44, 53; 12:9-11) Já, við getum treyst því að upprisan sé örugg. Guð hefur gefið okkur skráða heimild um upprisur fortíðarinnar til að hughreysta okkur og byggja upp trúna.

Látum upprisuvonina hughreysta okkur

10. Hvernig getum við sótt hughreystingu í frásagnir Biblíunnar af upprisu dauðra?

10 Þráir þú hughreystingu þegar dauðinn blasir við? Frásagnir Biblíunnar af upprisu dauðra geta vissulega verið hughreystandi. Þú getur styrkt vonina um upprisu með því að lesa slíkar frásagnir, hugleiða þær og sjá atburðina fyrir þér. (Rómverjabréfið 15:4) Þetta eru engin ævintýri. Þetta gerðist hjá raunverulegu fólki eins og okkur og þetta fólk var uppi á ákveðnum tíma og bjó á ákveðnum stað. Lítum nánar á eitt dæmi, fyrstu upprisuna sem Biblían segir frá.

11, 12. (a) Fyrir hvaða harmi varð ekkjan í Sarefta og hvernig brást hún við í fyrstu? (b) Hvað lét Jehóva Elía spámann gera fyrir ekkjuna?

11 Reyndu að setja þig inn í sögusviðið. Elía spámaður hefur fengið að búa í þakherbergi á heimili ekkju einnar í Sarefta um nokkurra vikna skeið. Þetta eru erfiðir tímar. Miklir þurrkar eru á svæðinu og hungursneyð sverfur að. Margir deyja. Jehóva hefur þegar látið Elía vinna kraftaverk til að umbuna þessari fátæku ekkju trú hennar. Hún og ungur sonur hennar horfðu fram á hungurdauða og áttu aðeins til einnar máltíðar þegar Guð lét Elía vinna kraftaverk svo að mjölið og olían gengi ekki til þurrðar hjá þeim. En nú ber sorgin dyra. Drengurinn veikist snögglega og áður en varir hættir hann að anda. Ekkjan er niðurbrotin. Nóg var neyðin fyrir að eiga ekki styrk og stuðning eiginmanns en nú er hún búin að missa einkabarnið. Buguð af sorg ásakar hún jafnvel Elía og Guð hans, Jehóva! Hvað gerir spámaðurinn nú?

12 Elía ávítar ekki ekkjuna fyrir rangar ásakanir hennar heldur segir: „Fá þú mér son þinn.“ Hann fer með lík drengsins upp í þakherbergið og biður Jehóva þrisvar um að lífga hann. Og Jehóva verður við bæn hans. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig birtir yfir andliti Elía af gleði þegar drengurinn dregur andann og brjóst hans lyftist. Drengurinn opnar augun og þau geisla af lífsþrótti. Elía fer með hann niður til móður hans og segir: „Sjá þú, sonur þinn er lifandi.“ Gleði hennar er ólýsanleg. „Nú veit ég, að þú ert guðsmaður og að orð Drottins í munni þínum er sannleikur,“ segir hún. (1. Konungabók 17:8-24) Trú hennar á Jehóva og spámann hans er sterkari en nokkru sinni fyrr.

13. Af hverju er frásagan af Elía og syni ekkjunnar hughreystandi fyrir okkur?

13 Það er ákaflega hughreystandi að hugleiða frásagnir sem þessa. Er ekki deginum ljósara að Jehóva er fær um að sigra óvin okkar, dauðann? Hugsaðu þér þann dag þegar upprisan hefst í framtíðinni og þúsundir finna fyrir sömu gleði og ekkjan í Sarefta! Hugsaðu þér gleðina á himnum þegar Jehóva felur syni sínum að reisa fólk upp frá dauðum um allan heim. (Jóhannes 5:28, 29) Hefur dauðinn tekið til sín einhvern sem var þér kær? Það er yndislegt til þess að hugsa að Jehóva geti endurlífgað hina dánu og ætli að gera það!

Vonin og hið núverandi líf

14. Hvaða áhrif getur vonin um upprisu haft á lífsstefnu þína?

14 Hvaða áhrif getur vonin um upprisu haft á lífsstefnu þína núna? Þú getur sótt styrk í þessa von þegar þú lendir í þrengingum, erfiðleikum, ofsóknum eða hættu. Satan vill að þú sért svo hræddur við dauðann að þú látir trúfesti þína í skiptum fyrir einhver innantóm loforð um vernd. Mundu hvað hann sagði við Jehóva: „Fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.“ (Jobsbók 2:4) Með þessum orðum rægði Satan okkur öll og þig sömuleiðis. Er það rétt að þú hættir að þjóna Guði ef þú lendir í hættu? Með því að hugleiða upprisuvonina geturðu haldið staðfastur áfram að gera vilja föður þíns á himnum.

15. Hvernig geta orð Jesú í Matteusi 10:28 hughreyst okkur á hættustund?

15 Jesús sagði: „Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti [„Gehenna“, NW].“ (Matteus 10:28) Við þurfum ekki að óttast Satan eða mennska útsendara hans. Sumir geta auðvitað valdið okkur tjóni eða jafnvel dauða. Það versta sem þeir geta gert er samt sem áður aðeins tímabundið. Jehóva getur bætt og mun bæta allt það tjón sem trúir þjónar hans verða fyrir, þar á meðal reist þá upp frá dauðum. Við eigum engan að óttast nema Jehóva og hann verðskuldar líka djúpa lotningu og virðingu. Hann einn hefur máttinn til að taka frá okkur lífið og möguleika okkar á lífi í framtíðinni. Hann einn getur tortímt bæði líkama og sál í Gehenna. En Jehóva vill ekki að það verði hlutskipti þitt. (2. Pétursbréf 3:9) Vegna upprisuvonarinnar getum við sem þjónum Guði alltaf treyst að við séum óhult. Við eigum eilíft líf í vændum svo framarlega sem við erum trúföst, og hvorki Satan né skósveinar hans geta haft nokkur áhrif á það. — Sálmur 118:6; Hebreabréfið 13:6.

16. Hvaða áhrif hefur afstaða okkar á það hvernig við forgangsröðum?

16 Ef upprisuvonin er okkur raunveruleg getur hún haft áhrif á afstöðu okkar til lífsins. Við gerum okkur ljóst að við tilheyrum Jehóva hvort sem við lifum eða deyjum. (Rómverjabréfið 14:7, 8) Við forgangsröðum því í samræmi við leiðbeiningar Páls: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Mörgum liggur lífið á að fullnægja hverri einustu löngun, hverju einasta metnaðarmáli og hverri einustu skyndihvöt. Þeir hugsa sem svo að lífið sé stutt og það er næstum eins og þeir reyni í örvæntingu að njóta alls sem hægt er að njóta. Og ef þeir stunda einhvers konar guðsdýrkun er hún sannarlega ekki í samræmi við fullkominn vilja Guðs.

17, 18. (a) Hvernig er viðurkennt í Biblíunni að mannsævin sé stutt en hvers vill Guð að við njótum? (b) Af hverju langar okkur til að lofa Jehóva dag hvern?

17 Lífið er reyndar ósköp stutt. Æviárin „líða í skyndi og vér fljúgum burt“, kannski eftir svona 70 eða 80 ár. (Sálmur 90:10) Menn koma og fara eins og grasið, eins og hverfandi skuggi, eins og vindblær. (Sálmur 103:15; 144:3, 4) En það var ekki ætlun Guðs að við notuðum fáeina áratugi í að vaxa úr grasi og afla okkur visku og reynslu til að eyða svo næstu áratugum í að hrörna og verða sjúkdómum og dauða að bráð. Jehóva áskapaði mönnunum löngun til að lifa að eilífu. „Eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra,“ segir Biblían. (Prédikarinn 3:11) Er Guð þá grimmur að áskapa okkur þessa löngun en gera okkur síðan ókleift að fullnægja henni? Nei, því að „Guð er kærleikur“. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann notar upprisuna til að bjóða öllum sem dáið hafa eilíft líf.

18 Svo er voninni um upprisu að þakka að við getum átt örugga framtíð. Okkur liggur ekki lífið á að nýta okkur til hins ýtrasta allt sem við búum yfir. Við þurfum ekki að nota þennan deyjandi heim út í ystu æsar. (1. Korintubréf 7:29-31; 1. Jóhannesarbréf 2:17) Ólíkt þeim sem hafa enga raunverulega von eigum við þá unaðslegu vitneskju að við getum lofað Jehóva Guð og notið lífsins um alla eilífð, svo framarlega sem við erum honum trú. Við skulum því fyrir alla muni lofa Jehóva dag hvern en það er hann sem tryggir að upprisuvonin sé örugg.

Hvert er svarið?

• Hvernig ættum við að hugsa um upprisuna?

• Hvað tryggir að vonin um upprisu er örugg?

• Hvernig geturðu látið upprisuvonina hughreysta þig?

• Hvaða áhrif gæti vonin um upprisu haft á lífsstefnu þína?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 28]

Job vissi að Jehóva þráir að reisa réttláta upp frá dauðum.

[Mynd á blaðsíðu 29]

„Sjá þú, sonur þinn er lifandi.“