Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig er hægt að vinna bug á fordómum?

Hvernig er hægt að vinna bug á fordómum?

Hvernig er hægt að vinna bug á fordómum?

KNATTSPYRNUDÓMARI á Spáni þarf að stöðva knattspyrnuleik. Af hverju? Leikmaður frá Kamerún hótar að fara af velli vegna þess að fjöldi áhorfenda hreytir í hann fúkyrðum. Í Rússlandi hefur ofbeldisárásum fjölgað gegn fólki frá Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Árið 2005 voru kynþáttaárásir þar í landi 394 talsins sem var aukning um 55 prósent. Í Bretlandi var gerð skoðanakönnun og sagðist þriðjungur svarenda af asískum eða afrískum uppruna hafa misst vinnuna vegna kynþáttamisréttis. Það er augljóst að þessi vandi fyrirfinnst út um allan heim.

Umburðarleysi í garð fólks af öðrum uppruna birtist í ýmsum myndum — allt frá særandi og tillitslausum athugasemdum til tilrauna yfirvalda til að útrýma heilu þjóðflokkunum. * Hver er rót vandans? Hvernig getum við orðið umburðarlyndari? Er raunhæft að ætla að í framtíðinni geti fólk af öllum þjóðum búið saman í friði? Við fáum svör við þessum spurningum í Biblíunni.

Kúgun og hatur

„Hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans,“ segir í Biblíunni. (1. Mósebók 8:21) Sumir hafa ánægju af því að kúga aðra. Biblían segir enn fremur: „Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi.“ — Prédikarinn 4:1.

Í Biblíunni kemur líka fram að andúð milli manna af ólíkum uppruna á sér langa sögu. Til dæmis segir frá því að á 18. öld fyrir okkar tímatal hafi egypskur faraó boðið Jakobi, sem var hebreskur, að setjast að í Egyptalandi með fjölskyldu sinni. En síðar þótti öðrum faraó þessi stóri hópur innflytjenda ógna yfirráðum sínum. „Hann sagði við þjóð sína: ‚Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér. Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of.‘ . . . Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu.“ (2. Mósebók 1:9-11) Egyptarnir skipuðu meira að segja svo fyrir að drepa ætti öll nýfædd sveinbörn af ætt Jakobs. — 2. Mósebók 1:15, 16.

Hver er rót vandans?

Trúarbrögð heims hafa sjaldan reynt að vinna gegn fordómum. Þótt til séu einstaklingar sem hafa háð hetjulega baráttu gegn kúgun hafa trúarbrögð á heildina litið oftar en ekki staðið með kúgurunum. Sú var raunin í Bandaríkjunum þegar svörtu fólki var haldið niðri með lagakrókum og ólögmætum aftökum. Lög, sem bönnuðu blönduð hjónabönd, voru í gildi allt til ársins 1967. Þetta átti sér líka stað í Suður-Afríku þegar aðskilnaðarstefnan var við lýði. Þá varði minnihlutinn yfirráð sín með lögum sem meðal annars bönnuðu blönduð hjónabönd. Í báðum tilfellum voru sumir þeirra, sem studdu umburðarleysið, mjög trúaðir menn.

Í Biblíunni kemur hins vegar fram að rót vandans nær enn dýpra. Í henni er útskýrt hvers vegna sumir þjóðernishópar kúgi aðra. Í 1. Jóhannesarbréfi 4:8, 20 segir: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Ef einhver segir: ‚Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ Hér kemur rót vandans í ljós. Fólk er umburðarlaust — hvort sem það segist vera trúað eða ekki — vegna þess að það hvorki þekkir Guð né elskar hann.

Þekking á Guði er lykillinn

Hvernig getur þekkingin á Guði og kærleikur til hans gert það að verkum að menn geti búið saman í sátt og samlyndi? Hvaða þekking kemur í veg fyrir að fólk skaði aðra sem virðast vera ólíkir þeim? Í Biblíunni segir að Jehóva sé faðir alls mannkyns. „Vér [höfum] ekki nema einn Guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá,“ segir í 1. Korintubréfi 8:6. Í Biblíunni segir enn fremur: „Hann skóp og af einum allar þjóðir manna.“ (Postulasagan 17:26) Allir menn eru því í raun bræður.

Allir þjóðflokkar og öll þjóðerni geta verið hreykin af því að hafa fengið líf sitt frá Guði en allir geta harmað eitthvað sem forfeður þeirra hafa gert. Biblíuritarinn Páll sagði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann.“ Þess vegna hafa allir „syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23; 5:12) Jehóva er Guð fjölbreytninnar — engar tvær sköpunarverur eru nákvæmlega eins. En hann hefur samt ekki gefið neinum hópi manna tilefni til að finnast þeir æðri öðrum. Sú útbreidda skoðun að eigið þjóðerni eða kynþáttur sé betri en annar gengur í berhögg við það sem segir í Biblíunni. Það er ljóst að þekkingin frá Guði stuðlar að því að menn geti búið saman í sátt og samlyndi.

Guði er annt um allar þjóðir

Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Guð hafi ýtt undir fordóma með því að taka Ísraelsþjóðina fram yfir aðrar þjóðir og segja henni að halda sér aðgreindri frá þeim. (2. Mósebók 34:12) Á sínum tíma ákvað Guð að gera Ísraelsþjóðina að sérstakri eign sinni vegna einstakrar trúar Abrahams en hann var forfaðir þjóðarinnar. Guð stýrði sjálfur Ísrael til forna, valdi leiðtoga þjóðarinnar og gaf henni lög. Meðan þjóðin fylgdi þessu fyrirkomulagi gátu aðrar þjóðir séð hvaða áhrif það hafði að vera undir stjórn Guðs í samanburði við það að vera undir stjórn manna. Jehóva kenndi Ísraelsþjóðinni til forna að nauðsynlegt væri að færa fórnir til að mannkynið gæti eignast gott samband við Guð. Samskipti Jehóva við Ísrael voru því öllum þjóðum til gagns. Það kemur heim og saman við það sem hann sagði við Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.“ — 1. Mósebók 22:18.

Auk þess fengu Gyðingar þann heiður að skrá niður heilagan boðskap Guðs og Messías fæddist einnig meðal þeirra. En þetta var líka öllum þjóðum til blessunar. Í hebresku ritningunum, sem Gyðingar fengu, er að finna hjartnæma lýsingu á því þegar fólk af öllu þjóðerni hlýtur mikla blessun: „Margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall Drottins og til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘ . . . Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Míka 4:2-4.

Jesús Kristur prédikað fyrir Gyðingum en sagði engu að síður: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:14) Engin þjóð myndi fara á mis við að heyra fagnaðarerindið. Jehóva gaf því besta fordæmið í að koma jafnt fram við öll þjóðerni. „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.

Lögin, sem Guð gaf Forn-Ísrael, bera einnig með sér að hann lætur sér annt um allar þjóðir. Samkvæmt lögunum áttu Ísraelsmenn ekki aðeins að vera umburðarlyndir í garð útlendinga því að þau sögðu: „Útlendan mann, sem hjá yður býr, skuluð þér svo með fara sem innborinn mann meðal yðar, og þú skalt elska hann eins og sjálfan þig, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.“ (3. Mósebók 19:34) Mörg af lögum Guðs kenndu Ísraelsmönnum að vera góðir við innflytjendur. Þegar Bóas, forfaðir Jesú, sá útlenda konu stunda eftirtíning vegna neyðar sinnar hegðaði hann sér í samræmi við það sem hann hafði lært frá Guði. Hann sá til þess að uppskerumenn sínir skildu nóg eftir fyrir hana til að safna saman. — Rutarbók 2:1, 10, 16.

Jesús sýndi gæsku

Jesús opinberaði þekkinguna á Guði meira en nokkur annar. Hann sýndi fylgjendum sínum að þeir ættu að koma fram við fólk, sem væri frábrugðið þeim, af góðvild. Hann hóf eitt sinn samræður við samverska konu. Konan varð hissa því að margir Gyðingar höfðu andúð á Samverjum. En Jesús sagði þessari konu á vingjarnlegan hátt hvernig hún gæti öðlast eilíft líf. — Jóhannes 4:7-14.

Jesús kenndi okkur einnig hvernig ætti að koma fram við fólk af öðrum uppruna þegar hann sagði dæmisöguna af miskunnsama Samverjanum. Samverjinn gekk fram á særðan Gyðing sem hafði orðið fyrir árás ræningja. Samverski maðurinn hefði auðveldlega getað hugsað sem svo: „Hvers vegna ætti ég að hjálpa Gyðingi? Gyðingar fyrirlíta þjóð mína.“ En þessi Samverji hugsaði ekki þannig. Þótt aðrir ferðamenn hefðu gengið fram hjá særða manninum án þess að aðstoða hann „kenndi [Samverjinn] í brjósti um hann“ og veitti honum mikla hjálp. Jesús lauk þessari dæmisögu með því að segja að hver sem vildi njóta velþóknunar Guðs ætti að gera hið sama. — Lúkas 10:30-37.

Páll postuli benti á að þeir sem vildu þóknast Guði þyrftu að breyta persónuleika sínum og líkja eftir framkomu Guðs við fólk. Páll skrifaði: „[Afklæðist] hinum gamla manni með gjörðum hans og [íklæðist] hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns. Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, . . . En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ — Kólossubréfið 3:9-14.

Getur þekking á Guði breytt fólki?

Getur þekking á Guði breytt því hvernig menn koma fram við fólk af öðrum uppruna? Tökum dæmi. Kona frá Asíu, sem hafði flust til Kanada, varð vonsvikin yfir því misrétti sem hún varð fyrir þar. Hún hitti votta Jehóva og byrjaði að lesa Biblíuna með þeim. Seinna skrifaði hún þeim þakkarbréf þar sem hún sagði meðal annars: „Þið voruð mjög viðkunnanlegt og gott hvítt fólk. Þegar ég áttaði mig á því að þið voruð öðruvísi en annað hvítt fólk fór ég að velta fyrir mér hvers vegna svo væri. Ég hugsaði og hugsaði og ályktaði að lokum að þið væruð vottar Guðs. Það hlaut að vera eitthvað í Biblíunni. Á safnaðarsamkomum ykkar sá ég fólk af öllum kynþáttum, fólk sem var hvítt, svart, brúnt og gult. En hjörtun voru öll af sama lit því að þetta voru allt bræður og systur. Nú veit ég hver stendur á bak við það. Það er Guð ykkar sem hefur gert ykkur að svona góðu fólki.“

Í orði Guðs er spáð um þann tíma þegar ‚jörðin verður full af þekkingu á Drottni‘. (Jesaja 11:9) Annar biblíuspádómur hefur uppfyllst nú þegar því að mikill múgur sem telst í milljónum, „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“, er sameinaður í sannri tilbeiðslu. (Opinberunarbókin 7:9) Þetta fólk hlakkar til að sjá kærleika koma í staðinn fyrir hatur þegar fyrirætlun Jehóva verður að veruleika um allan heim í náinni framtíð. Og þá munu rætast orðin sem hann sagði við Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ — Postulasagan 3:25.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Þegar talað er um uppruna fólks er átt við eitthvað sem einkennir ákveðinn hóp, svo sem kynþátt, þjóðerni, trú, tungumál eða menningu.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Lög Guðs kenndu Ísraelsmönnum að elska útlendinga sem bjuggu hjá þeim.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hvað getum við lært af dæmisögunni um miskunnsama Samverjann?

[Myndir á blaðsíðu 6]

Guð hefur ekki gefið neinum hópi manna tilefni til að finnast þeir æðri öðrum.