Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Ættu kristnir menn að sneiða hjá mat og drykk sem inniheldur koffín?

Í Biblíunni er kristnum mönnum ekki bannað að fá sér kaffi, te, maté, súkkulaði eða gosdrykki sem innihalda koffín. En í henni er að finna meginreglur sem geta hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. Athugum fyrst hvers vegna sumir sneiða hjá mat og drykk sem inniheldur koffín.

Ein helsta ástæðan er sú að sumir telja að koffín hafi áhrif á skapið og örvi starfsemi heilans. Það getur líka verið vanabindandi. Í uppsláttarriti fyrir lyfjafræðinga segir: „Þegar koffín er tekið inn í miklu magni í langan tíma getur fólk fengið aukið þol gegn áhrifum þess og orðið háð því. Líkamleg fráhvarfseinkenni eins og höfuðverkur, geðvonska, óróleiki, kvíði og svimi geta gert vart við sig ef neyslu efnisins er hætt snögglega.“ Komið hefur til álita að nefna fráhvarfseinkenni koffíns í umfjöllun um fráhvarfseinkenni lyfja í handbókinni Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders. Það er því skiljanlegt að sumir kristnir menn gætu haft efasemdir um koffín þar sem þeir vilja ekki verða háðir neinu og vilja sýna sjálfstjórn. — Galatabréfið 5:23.

Sumir telja að koffín geti skaðað heilsuna og þar með talið heilsu ófæddra barna. Kristnir menn verða að elska Guð af „allri sálu“ og þess vegna vilja þeir ekki gera neitt sem gæti stytt lífsskeið þeirra. Og þar sem þeir eru einnig hvattir til að elska náungann forðast þeir hvaðeina sem gæti skaðað fóstur í móðurkviði. — Lúkas 10:25-27.

En er nauðsynlegt að hafa slíkar áhyggjur? Það eru skiptar skoðanir um hvort tengsl séu milli ýmissa sjúkdóma og koffínneyslu. Sumir rannsóknarmenn hafa jafnvel greint frá því að kaffi sé til heilsubótar. Árið 2006 sagði í tímaritinu Time: „Fyrstu rannsóknir á áhrifum [koffíns] bentu til þess að það gæti stuðlað að krabbameini í þvagblöðru, háum blóðþrýstingi og öðrum sjúkdómum. Nýlegar rannsóknir hafa ekki aðeins afsannað flestar af þessum fullyrðingum heldur einnig leitt í ljós jákvæð áhrif efnisins. Svo virðist sem koffín geti veitt vörn gegn lifrarskemmdum, Parkinsonsveiki, sykursýki, Alzheimer-sjúkdóminum, gallsteinum, þunglyndi og jafnvel einhverjum tegundum af krabbameini.“ Fréttablað nokkurt sagði um koffínneyslu: „Það kemur ekki á óvart að lykillinn sé fólginn í hóflegri notkun koffíns.“

Öll verðum við að taka persónulega ákvörðun um neyslu koffíns. Sú ákvörðun ætti að byggjast á meginreglum Biblíunnar og því hvernig við skiljum nýjustu upplýsingar um áhrif koffíns. Verðandi móðir gæti til dæmis ákveðið að neyta ekki koffíns á meðgöngunni ef hún telur að það geti haft skaðleg áhrif á fóstrið. Ef maður finnur fyrir óþægindum eða pirringi við það að fá ekki sinn venjulega skammt af koffíni gæti verið ráðlegt að halda sér frá því, að minnsta kosti um tíma. (2. Pétursbréf 1:5, 6) Við ættum öll að virða slíkar ákvarðanir og þröngva ekki skoðunum okkar upp á aðra.

Óháð því hvaða ákvörðun við tökum er gott að hafa orð Páls postula í huga en hann sagði: „Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.“ — 1. Korintubréf 10:31.