Þú ert „undursamlega skapaður“
Þú ert „undursamlega skapaður“
„Ég er undursamlega skapaður.“ — SÁLMUR 139:14.
1. Af hverju gefur margt hugsandi fólk Guði heiðurinn af undrum jarðar?
NÁTTÚRAN er full af heillandi furðuverkum. Hvernig urðu þau til? Sumir telja að hægt sé að finna svarið án þess að gert sé ráð fyrir skynsemigæddum skapara. Aðrir álíta að við getum ekki skilið eðli náttúrunnar til fulls ef við útilokum umbúðalaust að til sé skapari. Þeir telja að lífverur jarðar séu margfalt flóknari, fjölbreyttari og stórkostlegri en svo að þær hafi myndast af hreinni tilviljun. Margir eru sannfærðir um að staðreyndir sýni með óyggjandi hætti að alheimurinn eigi sér vitran, máttugan og gæskuríkan skapara. Þeirra á meðal er fjöldi vísindamanna. *
2. Hvað fékk Davíð til að lofa Jehóva?
2 Davíð, sem var konungur í Forn-Ísrael, var sannfærður um að skapari verðskuldi lof og heiður fyrir verk sín. Davíð var uppi löngu áður en vísindin komust á það stig sem við þekkjum. Hann gerði sér engu að síður grein fyrir því að hann var umkringdur stórkostlegum dæmum um sköpunarverk Guðs. Hann þurfti ekki annað en að velta fyrir sér hvernig hann var sjálfur úr garði gerður til að fyllast lotningu yfir sköpunargáfu Guðs. Hann sagði: „Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ — Sálmur 139:14.
3, 4. Af hverju þurfum við öll að hugleiða verk Jehóva gaumgæfilega?
3 Þessi sterka sannfæring Davíðs var sprottin af því að hann hafði hugleitt málin gaumgæfilega. Í fjölmiðlum og námsefni skóla úir og grúir af kenningum um uppruna mannsins sem eru til þess fallnar að grafa undan trú á Guð. Við verðum að hugleiða málin vandlega líkt og Davíð til að hafa trú eins og hann. Við megum ekki láta aðra hugsa fyrir okkur, sérstaklega ekki um grundvallaratriði eins og það hvort til sé skapari og hvert sé hlutverk hans.
4 Með því að íhuga verk Jehóva getum við sömuleiðis lært að elska hann og treysta fyrirheitum hans um framtíðina. Það getur síðan verið okkur hvöt til að kynnast honum enn betur og þjóna honum með þakklæti. Við skulum því kanna hvernig vísindin hafa staðfest þá niðurstöðu Davíðs að við séum ‚undursamlega sköpuð‘.
Þroski fósturs í móðurkviði
5, 6. (a) Hvernig hófst lífið hjá okkur öllum? (b) Lýstu hlutverki nýrnanna.
5„Þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.“ (Sálmur 139:13) Öll hófum við tilveru okkar í móðurkviði sem ein örsmá fruma, smærri en punkturinn við lok þessarar málsgreinar. Þessi smásæja fruma var óhemjuflókin — í rauninni heil efnaverksmiðja þótt smá væri! En fruman skipti sér og fóstrið stækkaði ört. Eftir aðeins tvo mánuði voru öll helstu líffærin mynduð. Þeirra á meðal voru nýrun. Þegar þú fæddist voru nýrun tilbúin til að sía blóðið og fjarlægja eiturefni og umframvatn en varðveita gagnlegu efnin. Heilbrigð nýru í fullvaxta manni sía allt vatnið í blóðinu, fimm lítra, á þrem stundarfjórðungum.
6 Nýrun eiga einnig þátt í því að stjórna magni steinefna í blóðinu, sýrustigi þess og þrýstingi. Af öðrum mikilvægum hlutverkum þeirra má nefna að þau breyta D-vítamíni í virkt form sem er nauðsynlegt til að beinin vaxi eðlilega. Nýrun framleiða einnig hormón sem nefnist rauðkornavaki en hann örvar myndun rauðra blóðkorna í beinunum. Það er engin furða að nýrun skuli hafa verið kölluð „mestu efnafræðingar líkamans“. *
7, 8. (a) Lýstu þroska fósturs á fyrstu vikunum. (b) Hvað er átt við þegar sagt er að fóstur ‚myndist í djúpum jarðar‘?
7„Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.“ (Sálmur 139:15) Fyrsta fruman skipti sér og nýju frumurnar sömuleiðis. Innan skamms byrjuðu þær að sérhæfast sem taugafrumur, vöðvafrumur, húðfrumur og svo framvegis. Frumur sömu tegundar hópuðust saman og mynduðu vefi og síðan líffæri. Beinagrindin fór að myndast á þriðju viku eftir getnað, svo dæmi sé tekið. Þegar þú varst rétt sjö vikna og um tveir og hálfur sentímetri á lengd var tilbúin fyrsta gerð af öllum beinunum 206 sem eru í líkama fullvaxta manneskju, en þau voru ekki búin að harðna enn þá.
8 Þetta undraverða þroskaferli átti sér stað í kviði móður þinnar þar sem það var hulið sjónum manna, rétt eins og það væri falið í djúpum jarðar. Reyndar er margt á huldu um það hvernig fóstur þroskast. Hvað veldur því til dæmis að ákveðin gen í fósturfrumunum gefa þeim skipun um að sérhæfast? Vera má að vísindin eigi eftir að draga það fram í dagsljósið en eins og Davíð segir hefur Jehóva, skapari okkar, skilið það fullkomlega allt frá öndverðu.
9, 10. Hvernig eru þroskastig fósturs ‚skráð í bók‘ Guðs?
9„Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.“ (Sálmur 139:16) Í fyrstu frumunni var að finna fullkomna „teikningu“ af öllum líkamanum. Níu mánaða vöxtur og þroski í móðurkviði og meira en 20 ára vöxtur í framhaldi af því fór eftir þessari teikningu. Á þessu tímabili gekk líkaminn gegnum mörg þroskastig, en öll stjórnuðust þau af þeim upplýsingum sem skráðar voru í fyrstu frumuna.
10 Davíð vissi ekkert um frumur eða gen enda hafði hann ekki einu sinni smásjá. En hann gerði sér réttilega grein fyrir því að líkami hans sjálfs hafði þroskast samkvæmt fyrir fram ákveðinni áætlun. Hugsanlegt er að hann hafi haft einhverja vitneskju um það hvernig fóstur þroskast þannig að hann gat dregið þá ályktun að þroskastigin kæmu í ákveðinni röð eftir fastri tímaáætlun. Hann lýsir því á ljóðmáli og segir að þessi áætlun hafi verið ‚skráð í bók‘ Guðs.
11. Hvað ræður líkamlegum einkennum okkar?
11 Nú er vitað að þau einkenni, sem við erfum frá foreldrum okkar og forfeðrum, stjórnast af genunum. Þetta á til dæmis við um hæð, andlitsfall, augnlit, háralit og þúsundir annarra einkenna. Í hverri líkamsfrumu eru tugþúsundir gena og hvert gen er hluti af langri keðju kjarnsýrunnar DNA. Lýsingin á uppbyggingu líkamans er „skráð“ með efnafræðilegri samsetningu kjarnsýrunnar í frumunum. Í hvert sinn sem frumurnar í líkama þínum skipta sér og mynda nýjar frumur eða skipta út gömlum fylgja þessar upplýsingar með og halda þér lifandi og sjálfum þér líkum. Er þetta ekki einstakt merki um mátt og visku skaparans á himnum?
Mannshugurinn er mikið undur
12. Hvað skilur mest á milli manna og dýra?
12„En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar. Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin.“ (Sálmur 139:17, 18a) Dýrin eru líka undursamlega úr garði gerð og sum geta skynjað og gert hluti sem við mennirnir getum ekki. En Guð gaf manninum huga sem er mun öflugri en þekkist hjá nokkru dýri. „Þótt við mennirnir séum að mörgu leyti líkir öðrum tegundum erum við einstakir meðal lífvera jarðar hvað varðar hugsun og notkun máls,“ segir í kennslubók í raunvísindum. „Við erum líka einstök að því leyti að við erum ákaflega forvitin um sjálf okkur: Hvernig er líkami okkar samsettur? Hvernig urðum við til?“ Davíð velti þessum spurningum einnig fyrir sér.
13. (a) Hvernig gat Davíð velt fyrir sér hugsunum Guðs? (b) Hvernig getum við líkt eftir Davíð?
13 Síðast en ekki síst erum við, ólíkt dýrunum, fær um að velta fyrir okkur hugsunum Guðs. * Þessi gáfa er eitt af því sem sýnir að við erum sköpuð „eftir Guðs mynd“. (1. Mósebók 1:27) Davíð notaði þessa gáfu sína vel. Hann hugleiddi þau merki sem hann sá í kringum sig um tilvist Guðs og góða eiginleika hans. Davíð hafði einnig aðgang að fyrstu bókum Heilagrar ritningar en í þeim opinberaði Guð sjálfan sig og verk sín. Þessi innblásnu rit hjálpuðu Davíð að skilja hugsanir Guðs, persónuleika og fyrirætlanir. Hann fann sig knúinn til að lofa skapara sinn þegar hann hugleiddi Ritninguna, sköpunarverkið og samskipti hans við sig.
Hvað er trú?
14. Af hverju þurfum við ekki að vita allt um Guð til að trúa á hann?
14 Því meir sem Davíð íhugaði sköpunarverkið og Ritninguna þeim mun betur gerði Sálmur 139:6) Hið sama er að segja um okkur. Við getum aldrei skilið öll sköpunarverk Guðs til hlítar. (Prédikarinn 3:11; 8:17) Guð hefur hins vegar birt næga þekkingu í Biblíunni og náttúrunni til að sannleiksleitandi menn á öllum tímum gætu haft trú byggða á staðreyndum. — Rómverjabréfið 1:19, 20; Hebreabréfið 11:1, 3.
hann sér grein fyrir því að samanlögð þekking Guðs og hæfileikar væri ofar hans skilningi. (15. Lýstu með dæmi hvernig trú okkar og samband við Guð tengjast.
15 Trú er meira en að viðurkenna að lífið og alheimurinn hljóti að eiga sér skynsemigæddan skapara. Trú felur í sér að treysta á Jehóva Guð sem persónu — treysta að hann vilji að við kynnumst sér og eigum gott samband við sig. (Jakobsbréfið 4:8) Við getum líkt þessu við trú og traust sem við berum til kærleiksríks föður. Ef einhver dregur í efa að faðir þinn komi þér til hjálpar á neyðarstund er ekki víst að þú getir sannfært hann um að föður þínum sé treystandi. Ef þú hefur lært af reynslunni hvaða góðu eiginleika faðir þinn hefur til að bera geturðu hins vegar verið öruggur um að hann bregðist þér ekki. Við lærum sömuleiðis að treysta Jehóva þegar við kynnum okkur Biblíuna, hugleiðum sköpunarverkið og upplifum hvernig hann svarar bænum okkar. Okkur langar til að kynnast honum betur og betur og lofa hann að eilífu af því að við dáum hann og elskum af heilum huga. Þetta er göfugasta markmið sem hægt er að setja sér. — Efesusbréfið 5:1, 2.
Leitaðu leiðsagnar skaparans
16. Hvað getum við lært af nánu sambandi Davíðs við Jehóva?
16„Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar, og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi, og leið mig hinn eilífa veg.“ (Sálmur 139:23, 24) Það var á færi Jehóva að þekkja allt sem Davíð hugsaði, sagði og gerði. Jehóva gerþekkti hann. (Sálmur 139:1-12; Hebreabréfið 4:13) Davíð vissi þetta og það veitti honum öryggiskennd, ekki ósvipað og lítið barn finnur til öryggis í faðmi ástríkra foreldra. Honum þótti ákaflega dýrmætt að eiga svona náið samband við Jehóva og lagði sig fram um að viðhalda því með því að ígrunda verk hans og biðja til hans. Margir af sálmum Davíðs, þeirra á meðal Sálmur 139, eru í rauninni bænir til að syngja við undirleik. Við getum líka styrkt sambandið við Jehóva með því að hugleiða verk hans og biðja til hans.
17. (a) Af hverju vildi Davíð að Jehóva rannsakaði hjarta sitt? (b) Hvaða áhrif höfum við á líf okkar þegar við beitum frjálsa viljanum rétt?
17 Þar sem við erum sköpuð eftir Guðs mynd er okkur gefinn frjáls vilji. Við getum valið að gera gott eða illt. Þessu frelsi fylgir siðferðileg ábyrgð. Davíð vildi ekki vera talinn með óguðlegum. (Sálmur 139:19-22) Hann vildi forðast alvarleg mistök. Eftir að hafa íhugað altæka þekkingu Guðs bað hann Guð auðmjúklega að rannsaka sinn innri mann og leiða sig eftir veginum til lífsins. Réttlátar siðferðisreglur Guðs eiga erindi til allra þannig að við þurfum sömuleiðis að taka réttar ákvarðanir. Jehóva hvetur alla til að hlýða sér. Það er okkur til góðs og við ávinnum okkur hylli hans með því að gera það. (Jóhannes 12:50; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Ef við göngum með Jehóva dag hvern öðlumst við innri ró, jafnvel þó að við eigum við þungbæra erfiðleika að glíma. — Filippíbréfið 4:6, 7.
Fylgjum skapara okkar
18. Hvaða ályktun dró Davíð þegar hann íhugaði sköpunarverkið?
18 Davíð gætti oft fjár undir berum himni þegar hann var unglingur. Féð laut niður í grasið til að bíta en hann beindi augum sínum til himins. Þegar náttmyrkrið skall á hugleiddi hann mikilleik alheimsins og það sem læra mætti af honum. Hann kvað: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.“ (Sálmur 19:2, 3) Davíð vissi að hann þurfti að leita skapara allra þeirra dásemda sem bar fyrir augu hans og fylgja honum. Við þurfum að gera slíkt hið sama.
19. Hvað geta ungir sem aldnir lært af því að við skulum vera ‚undursamlega sköpuð‘?
19 Davíð er lifandi dæmi um það sem Salómon, sonur hans, ráðlagði ungu fólki síðar meir: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum. . . . Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ (Prédikarinn 12:1, 13) Á unglingsaldri gerði Davíð sér grein fyrir því að hann var „undursamlega skapaður“. Hann breytti í samræmi við það og það var honum til góðs alla ævi. Hvort sem við erum ung eða aldin getum við lifað ánægjulegu lífi, bæði núna og í framtíðinni, ef við lofum skapara okkar og þjónum honum. Biblían segir um þá sem varðveita náin tengsl við Jehóva og lifa í samræmi við réttlátar meginreglur hans: „Jafnvel í hárri elli bera þeir ávöxt, þeir eru safamiklir og grænir. Þeir kunngjöra, að Drottinn er réttlátur.“ (Sálmur 92:15, 16) Og við eigum þá von að geta notið undursamlegra verka skaparans að eilífu.
[Neðanmáls]
^ gr. 1 Sjá Vaknið! október-desember 2006 og enska útgáfu blaðsins 22. júní 2004. Blaðið er gefið út af Vottum Jehóva.
^ gr. 6 Sjá einnig greinina „Your Kidneys — A Filter for Life“, í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. ágúst 1997.
^ gr. 13 Orð Davíðs í Sálmi 139:18b virðast merkja að þó að hann notaði allan daginn uns hann legðist til svefns til að telja hugsanir Guðs ætti hann mikið ótalið þegar hann vaknaði.
Geturðu svarað?
• Hvernig vitnar þroski fósturs í móðurkviði um að við erum ‚undursamlega sköpuð‘?
• Af hverju ættum við að ígrunda hugsanir Jehóva?
• Hvernig er trú okkar tengd sambandinu við Guð?
[Spurningar]
[Myndir á blaðsíðu 14]
Þroski fósturs í móðurkviði fylgir fyrir fram ákveðinni áætlun.
DNA
[Rétthafi]
Fóstur: Lennart Nilsson
[Mynd á blaðsíðu 15]
Við treystum Jehóva eins og lítið barn föður sínum.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Davíð lofaði Jehóva þegar hann hugleiddi handaverk hans.