Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá bókrollu til bókar — hvernig Biblían varð að bók

Frá bókrollu til bókar — hvernig Biblían varð að bók

Frá bókrollu til bókar — hvernig Biblían varð að bók

UPPLÝSINGAR hafa verið varðveittar í ýmiss konar formi í aldanna rás. Forðum daga skráðu ritarar orð sín á minnismerki, stein- eða trétöflur, pergament og fleiri efni. Á fyrstu öld okkar tímatals var bókrollan hið hefðbundna og viðurkennda form til að geyma ritmál. Síðar kom bókin fram á sjónarsviðið og ruddi bókrollunni úr vegi og varð hinn almenni ritmálsmiðill. Bókarformið átti drjúgan þátt í útbreiðslu Biblíunnar. Hvernig kom bókin til sögunnar?

Fyrstu bækurnar voru gerðar úr samanbrotnum örkum sem var stungið hverri inn í aðra og síðan bundnar saman í brotinu. Skrifað var báðum megin á arkirnar og hlífðarkápa sett utan um. Fyrstu bækurnar voru harla ólíkar bókum eins og við þekkjum þær núna en rétt eins og flestar aðrar uppfinningar hefur bókin þróast í tímans rás í samræmi við þarfir og skoðanir notendanna.

Tré, vax og pergament

Fyrstu bækurnar voru gjarnan gerðar úr vaxbornum trétöflum. Slíkar töflur, festar saman á annarri langhliðinni, hafa fundist í rústum borgarinnar Herkúlaneum sem eyddist ásamt Pompei þegar Vesúvíus gaus árið 79. Þegar fram liðu stundir tóku menn að nota mjúk efni í stað taflna úr hörðu efni. Á latínu voru þessar bækur kallaðar membranae (bókfell, pergament) eftir skinninu sem þær voru að jafnaði gerðar úr.

Einnig hafa varðveist fornar bækur sem gerðar voru úr papírus. Elstu kristnu bækurnar, sem vitað er um, eru papírusbækur sem varðveittust á vissum svæðum í Egyptalandi þar sem loftslag er sérlega þurrt. *

Bókrolla eða bók?

Kristnir menn virðast að mestu leyti hafa haldið sig við bókrolluformið, að minnsta kosti fram undir lok fyrstu aldar. Frá lokum fyrstu aldar og fram á þá þriðju var tekist nokkuð á um það hvort nota ætti bókrollu- eða bókarformið. Hinir íhaldssömu, sem voru vanir bókrollunni, voru tregir til að segja skilið við gamlar hefðir og siði. Það var þó ekki alls kostar einfalt að lesa af bókrollu. Hún var yfirleitt gerð úr ákveðnum fjölda papírus- eða skinnarka sem voru límdar saman í lengju og vafðar upp í stranga. Textinn var skrifaður í dálka á framhlið lengjunnar. Lesandinn þurfti að rúlla ofan af stranganum til að finna kaflann eða ritningargreinina sem hann vildi lesa. Að lestrinum loknum vafði hann lengjunni saman á nýjan leik. Oft þurfti meira en eina bókrollu til að rúma eitt bókmenntaverk og fyrir vikið varð það enn óþjálla í meðförum. Á annarri öld voru kristnir menn farnir að nota bókarformið frekar en bókrolluna þegar þeir gerðu afrit af Biblíunni. Engu að síður hélt bókrollan velli fram eftir öldum. Sérfræðingar telja þó að kristnir menn hafi átt drjúgan þátt í því að bókarformið breiddist út.

Kostir bókarinnar eru augljósir. Bæði rúmaði hún meira en rollan, hún var þægilegri í meðförum og auðveldara að halda á henni. Þótt margir hafi snemma komið auga á þessa kosti bókarinnar voru flestir hikandi við að gefa bókrolluna upp á bátinn. Allt lagðist þó á eitt þegar aldir liðu og bókin náði smám saman yfirhöndinni.

Bókin var hagkvæmari en bókrollan því að hægt var að skrifa beggja megin á hverja örk og hægt var að sameina nokkrar bækur í eitt bindi. Sumir telja að meðal kristinna manna og fagstétta, svo sem lögmanna, hafi það vegið hvað þyngst hve bókarformið auðveldaði mönnum að finna ákveðna kafla og greinar og fletta upp á þeim. Fyrir kristna trúboða var ákaflega hentugt að hafa biblíutextann, eða handhægan lista með biblíutilvitnunum, í sem fyrirferðarminnstu formi. Og bókin var með kápu, oft úr tréspjöldum, þannig að hún entist betur en bókrollan.

Bókarformið var sömuleiðis hentugt fyrir þá sem vildu lesa út af fyrir sig. Undir lok þriðju aldar voru í umferð meðal kristinna manna skinnbækur í vasabroti sem innihéldu guðspjöllin. Síðan þá hefur bókarformið verið notað til að framleiða milljarða eintaka af Biblíunni allri eða hlutum hennar.

Núna eru margs konar miðlar notaðir til að veita fólki greiðan og skjótan aðgang að visku Guðs. Biblían er fáanleg í tölvutæku formi og sem hljóðbók auk hins prentaða forms. En hvaða miðil sem þú kýst að nota skaltu læra að meta orð Guðs og gefa gaum að því dag hvern. — Sálmur 119:97, 167.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá greinina „The Early Christian Codex“ í Varðturninum (enskri útgáfu), 15. ágúst 1962, bls. 501-5.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Bókarformið átti drjúgan þátt í útbreiðslu Biblíunnar.