Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gjaldið engum illt fyrir illt“

„Gjaldið engum illt fyrir illt“

„Gjaldið engum illt fyrir illt“

„Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:17.

1. Hvers konar hegðun er algeng?

ÞEGAR barn hrindir systkini sínu eru fyrstu viðbrögð þess oftast að ýta á móti. Því miður eru það ekki bara börn sem hegða sér svona. Fullorðnir bregðast oft svipað við. Ef einhver móðgar þá vilja þeir hefna sín. Að vísu hrindir fullorðið fólk yfirleitt ekki hvort öðru en margir stjaka við náunganum á lævísari hátt. Kannski bera þeir út róg um hann eða finna leiðir til að bregða fyrir hann fæti. Hver sem aðferðin kann að vera er ásetningurinn sá sami — að gjalda líku líkt eða hefna sín.

2. (a) Hvers vegna láta sannkristnir menn ekki undan tilhneigingunni til að hefna sín? (b) Hvaða spurningar og hvaða kafla í Biblíunni skoðum við nánar?

2 Þótt tilhneigingin til að hefna sín sé rótgróin láta sannkristnir menn ekki undan henni. Þeir leggja sig fram um að fylgja hvatningu Páls postula sem sagði: „Gjaldið engum illt fyrir illt.“ (Rómverjabréfið 12:17) Hvað er okkur hvöt til að fylgja þessum háleita siðferðisstaðli? Hvenær þurfum við sérstaklega að varast að gjalda illt með illu? Hvaða gagn hlýst af því að hefna sín ekki? Við finnum svör við þessum spurningum með því að skoða samhengi orða Páls. Við lærum í 12. kafla Rómverjabréfsins að það vitnar um rétta breytni, kærleika og hógværð að svara ekki í sömu mynt. Skoðum þessi þrjú atriði hvert fyrir sig.

„Því brýni ég yður“

3, 4. (a) Um hvað ræðir Páll frá og með 12. kafla Rómverjabréfsins og hvers vegna notar hann orðið „því“? (b) Hvaða áhrif hefði miskunn Guðs átt að hafa á kristna menn í Róm?

3 Frá og með 12. kaflanum fjallar Páll um fjögur náskyld atriði sem hafa áhrif á líf kristinna manna. Hann lýsir sambandi okkar við Jehóva, við trúsystkini okkar, þá sem fyrir utan eru og yfirvöld. Páll gefur til kynna að við höfum mikilvæga ástæðu til að berjast gegn röngum hvötum, þar á meðal tilhneigingunni til að hefna okkar. Hann segir: „Því brýni ég yður, bræður . . . vegna miskunnar Guðs.“ (Rómverjabréfið 12:1) Taktu eftir að hann byrjar málsgreinina á orðinu „því“ sem þýðir „í ljósi þess sem áður var sagt“. Páll er í reynd að segja: „Í ljósi þess sem ég var að útskýra hvet ég ykkur til að gera það sem ég segi næst.“ Hvað hafði Páll útskýrt fyrir kristnum mönnum í Róm?

4 Í fyrstu 11 köflum bréfsins talar Páll um það einstaka tækifæri sem bauðst bæði Gyðingum og heiðingjum, að verða meðstjórnendur Krists í Guðsríki, en Ísraelsþjóðin hafði hafnað þessu boði. (Rómverjabréfið 11:13-36) Þessi mikli heiður stóð þeim til boða aðeins „vegna miskunnar Guðs“. Hvernig hefðu kristnir menn átt að bregðast við þessari óverðskulduðu góðvild Guðs? Hjörtu þeirra hefðu átt að fyllast svo miklu þakklæti að þeir fyndu hjá sér hvöt til að gera það sem Páll segir næst: „Bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi.“ (Rómverjabréfið 12:1) En hvernig gátu þeir boðið sig fram sem „fórn“ fyrir Guð?

5. (a) Hvernig er hægt að bjóða sig fram sem „fórn“ fyrir Guð? (b) Hvaða meginregla ætti að hafa áhrif á hegðun kristinna manna?

5 Páll heldur áfram og segir: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Í stað þess að leyfa anda heimsins að móta viðhorf sín þurftu þeir að endurnýja hugarfar sitt og tileinka sér huga Krists. (1. Korintubréf 2:16; Filippíbréfið 2:5) Þessi meginregla ætti að hafa áhrif á hegðun allra sannkristinna manna, þar á meðal okkar nú á dögum.

6. Hvað fær okkur til að gjalda ekki illt með illu í samræmi við rökfærslu Páls í Rómverjabréfinu 12:1, 2?

6 Hvaða gagn höfum við af rökfærslu Páls í Rómverjabréfinu 12:1, 2? Eins og andasmurðir kristnir menn í Róm erum við innilega þakklát fyrir þá miklu miskunn sem Guð hefur sýnt okkur á svo marga vegu og heldur áfram að sýna okkur á hverjum degi. Hjörtu okkar eru full þakklætis og þess vegna finnum við okkur knúin til að nota krafta okkar, hæfileika og eignir í þjónustu Guðs. Þessi djúpa löngun fær okkur til að gera okkar besta til að tileinka okkur hugarfar Krists en ekki heimsins. Og ef við höfum huga Krists hefur það áhrif á framkomu okkar við aðra, hvort sem þeir eru sömu trúar og við eða ekki. (Galatabréfið 5:25) Þetta þýðir að ef við hugsum eins og Kristur forðumst við með öllu að gjalda illt með illu. — 1. Pétursbréf 2:21-23.

„Elskan sé flærðarlaus“

7. Hvernig kærleika er rætt um í 12. kafla Rómverjabréfsins?

7 Ástæðan fyrir því að við gjöldum ekki illt með illu er ekki bara sú að það er rétt heldur einnig sú að það er kærleiksríkt. Næst fjallar Páll postuli um þau áhrif sem kærleikurinn ætti að hafa á okkur. Í Rómverjabréfinu notar hann oft orðið „kærleikur“ (á grísku agaʹpe) þegar hann talar um kærleika Guðs og Krists. (Rómverjabréfið 5:5, 8; 8:35, 39) En í 12. kaflanum notar hann agaʹpe öðruvísi. Þar talar hann um kærleika sem menn sýna náunganum. Eftir að hafa minnst á ólíkar náðargjafir, sem sumir bjuggu yfir, nefnir hann eiginleika sem allir kristnir menn ættu að þroska með sér. Hann segir: „Elskan sé flærðarlaus.“ (Rómverjabréfið 12:4-9) Það er auðkennismerki sannkristinna manna að sýna öðrum kærleika. (Markús 12:28-31) Páll minnir okkur á að gæta þess að kærleikur okkar í garð annarra sé einlægur.

8. Hvernig getum við sýnt flærðarlausa elsku?

8 Páll bendir á hvernig við getum sýnt flærðarlausan kærleika og segir: „Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða.“ (Rómverjabréfið 12:9) Hann tekur sterkt til orða þegar hann segir „hafið andstyggð á“ og „haldið fast við“. Að hafa andstyggð á einhverju getur merkt að hafa óbeit á því eða hata það. Við eigum ekki aðeins að hata afleiðingar hins illa heldur einnig sjálfa illskuna. (Sálmur 97:10) Orðalagið „haldið fast við“ er þýðing á grískri sögn sem merkir bókstaflega „að líma“. Kristinn maður, sem hefur einlægan kærleika til að bera, er „límdur“ eða festur svo kyrfilega við það sem er gott að það verður óaðskiljanlegur hluti af persónuleika hans.

9. Hvaða áminningu veitir Páll aftur og aftur?

9 Páll talar aftur og aftur um eina hlið kærleikans. Hann segir: „Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.“ „Gjaldið engum illt fyrir illt.“ „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir.“ „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ (Rómverjabréfið 12:14, 17-19, 21) Eftir að hafa lesið orð Páls þurfum við ekki að velkjast í vafa um hvernig við eigum að koma fram við þá sem eru annarrar trúar eða jafnvel andsnúnir okkur.

„Blessið þá, er ofsækja yður“

10. Hvernig getum við blessað þá sem ofsækja okkur?

10 Hvernig getum við farið eftir hvatningu Páls: „Blessið þá, er ofsækja yður“? (Rómverjabréfið 12:14) Jesús sagði fylgjendum sínum: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:44; Lúkas 6:27, 28) Ein leið til að blessa þá sem ofsækja okkur er að biðja fyrir þeim. Við getum beðið Guð að opna augu andstæðinga okkar fyrir sannleikanum ef afstaða þeirra byggist á vanþekkingu. (2. Korintubréf 4:4) Að vísu gæti okkur fundist undarlegt að biðja Guð að blessa andstæðing okkar. En því betur sem við tileinkum okkur hugarfar Krists þeim mun auðveldara verður að sýna óvinum okkar kærleika. (Lúkas 23:34) Hvaða árangur getur hlotist af því að sýna slíkan kærleika?

11. (a) Hvað getum við lært af fordæmi Stefáns? (b) Hvaða breyting getur átt sér stað hjá sumum ofsækjendum eins og Páll er dæmi um?

11 Stefán er dæmi um mann sem bað fyrir ofsækjendum sínum og það var ekki til einskis. Stuttu eftir hvítasunnu árið 33 var hann handtekinn af andstæðingum kristna safnaðarins, dreginn út fyrir Jerúsalem og grýttur til bana. Áður en hann dó hrópaði hann: „Drottinn, lát þá ekki gjalda þessarar syndar.“ (Postulasagan 7:58–8:1) Einn þeirra sem Stefán bað fyrir á þessum degi var Sál en hann fylgdist með þegar Stefán var tekinn af lífi og lét sér það vel líka. Hinn upprisni Jesús birtist síðar Sál. Þessi fyrrverandi ofsækjandi varð fylgjandi Krists og síðar meir Páll postuli sem skrifaði bréfið til Rómverja. (Postulasagan 26:12-18) Í samræmi við bæn Stefáns fyrirgaf Jehóva Páli þá synd að ofsækja kristna menn. (1. Tímóteusarbréf 1:12-16) Það er ekki að furða að Páll skuli hafa hvatt trúsystkini sín: „Blessið þá, er ofsækja yður.“ Hann vissi af eigin reynslu að sumir andstæðingar okkar gætu með tímanum gerst þjónar Guðs. Á okkar tímum hafa sumir ofsækjendur einnig tekið trú vegna friðsamlegrar hegðunar þjóna Jehóva.

„Hafið frið við alla menn“

12. Hvaða samband er á milli orðanna í Rómverjabréfinu 12:9 og 17?

12 Páll heldur áfram að tala um framkomu okkar í garð trúsystkina og þeirra sem fyrir utan eru og segir: „Gjaldið engum illt fyrir illt.“ Þetta er rökrétt framhald af því sem hann talaði um áður, það er að segja: „Hafið andstyggð á hinu vonda.“ Hvernig gæti nokkur sagst hafa andstyggð á hinu vonda eða illskunni ef hann endurgeldur öðrum með illu? Það væri andstæða þess að búa yfir ‚flærðarlausri elsku‘. Síðan segir hann: „Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.“ (Rómverjabréfið 12:9, 17) Hvernig getum við farið eftir þessum orðum?

13. Hvernig hegðum við okkur „fyrir sjónum allra manna“?

13 Þegar Páll skrifaði til Korintumanna nokkru áður talaði hann um ofsóknirnar sem postularnir urðu fyrir. Hann sagði að þeir væru eins og „á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum“. Síðan bætti hann við: „Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér.“ (1. Korintubréf 4:9-13) Núna fylgist fólk einnig með sannkristnum mönnum. Þegar það sér að við hegðum okkur vel jafnvel þótt við verðum fyrir óréttlæti gæti það frekar verið tilbúið til að hlusta á boðskap okkar. — 1. Pétursbréf 2:12.

14. Hve langt ættum við að ganga til að stuðla að friði?

14 En hve langt ættum við að ganga til stuðla að friði? Við ættum að ganga eins langt og mögulegt er. Páll segir trúsystkinum sínum: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Þetta orðalag gefur til kynna að það sé ekki alltaf mögulegt að hafa frið við aðra. Við myndum til dæmis ekki óhlýðnast neinu boði Guðs til þess eins að viðhalda friði við menn. (Matteus 10:34-36; Hebreabréfið 12:14) En við ættum samt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hafa „frið við alla menn“ án þess þó að víkja frá réttlátum meginreglum.

„Hefnið yðar ekki sjálfir“

15. Hvaða ástæðu höfum við til að hefna okkar ekki samkvæmt Rómverjabréfinu 12:19?

15 Páll gefur til kynna að hógværð sé önnur mikilvæg ástæða fyrir því að við ættum ekki að hefna okkar. Hann segir: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ (Rómverjabréfið 12:19) Kristinn maður, sem reynir að hefna sín sjálfur, sýnir hroka. Hann tekur sér hlutverk sem tilheyrir Guði. (Matteus 7:1) Þegar hann tekur málin í sínar hendur sýnir hann auk þess að hann treystir ekki því loforði að Jehóva muni endurgjalda. Sannkristnir menn treysta því hins vegar að Jehóva muni „rétta hlut sinna útvöldu“. (Lúkas 18:7, 8; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8) Þeir sýna hógværð og láta Guð um að hefna hins illa. — Jeremía 30:23, 24; Rómverjabréfið 1:18.

16, 17. (a) Hvað merkir það að ‚safna glóðum elds á höfuð einhverjum‘? (b) Hefur þú orðið vitni að því að góðvild hafi mýkt hjarta einhvers utan safnaðarins? Ef svo er nefndu dæmi.

16 Ef við hefndum okkar á óvini myndi það líklega herða hjarta hans, en ef við sýndum honum góðvild gæti það mýkt hjarta hans. Hvernig má það vera? Taktu eftir því sem Páll segir við kristna menn í Róm: „Ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ (Rómverjabréfið 12:20; Orðskviðirnir 25:21, 22) Hvað þýðir þetta?

17 Að ‚safna glóðum elds á höfuð einhverjum‘ er líkingamál sem er dregið af því hvernig málmur var hreinsaður á biblíutímanum. Þegar málmgrýti var sett í bræðsluofn var kolum ekki aðeins raðað undir það heldur einnig hrúgað ofan á. Með því að safna glóandi kolum ofan á málmgrýtið hækkaði hitinn svo mikið að málmurinn bráðnaði og skildi sig frá óhreinindunum. Ef við sýnum andstæðingi góðvild gætum við sömuleiðis „brætt“ viðmót hans og laðað fram góða eiginleika hjá honum. (2. Konungabók 6:14-23) Margir safnaðarmenn löðuðust meira að segja fyrst að sannri tilbeiðslu þegar þjónar Jehóva unnu góðverk í þeirra þágu.

Hvers vegna við hefnum okkar ekki

18. Af hverju er það merki um rétta breytni, kærleika og hógværð að gjalda ekki illt með illu?

18 Í þessari stuttu yfirferð yfir 12. kafla Rómverjabréfsins höfum við séð nokkrar mikilvægar ástæður fyrir því að við gjöldum engum „illt fyrir illt“. Í fyrsta lagi vitnar það um rétta breytni. Í ljósi þeirrar miklu miskunnar, sem Guð hefur sýnt okkur, er rétt að bjóða okkur honum að fórn og fylgja boðum hans fúslega — þar á meðal boðinu um að elska óvini okkar. Í öðru lagi er það kærleiksríkt að hefna sín ekki. Með því að svara ekki í sömu mynt og stuðla að friði vonumst við til þess að hjálpa jafnvel hörðum andstæðingum að verða tilbiðjendur Jehóva. Í þriðja lagi ber það vott um hógværð að gjalda ekki líku líkt. Það væri hrokafullt að hefna sín því að Jehóva segir: „Mín er hefndin.“ Þar að auki segir í orði Guðs: „Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.“ (Orðskviðirnir 11:2) Við sýnum hógværð og visku með því að láta Guð um að hefna hins illa.

19. Um hvað verður rætt í næstu grein?

19 Páll lýkur þessari umræðu með því að hvetja kristna menn: „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ (Rómverjabréfið 12:21) Hvaða illu öflum stöndum við frammi fyrir nú á dögum? Hvernig getum við sigrast á þeim? Rætt verður um svarið við þessum og öðrum svipuðum spurningum í næstu grein.

Geturðu útskýrt?

• Hvaða áminningu er að finna aftur og aftur í 12. kafla Rómverjabréfsins?

• Hvað fær okkur til að hefna okkar ekki?

• Hvernig njótum bæði við og aðrir góðs af því ef við gjöldum ekki „illt fyrir illt“?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 22]

Í 12. kafla Rómverjabréfsins er rætt um samband kristinna manna við

• Jehóva

• trúsystkini

• þá sem eru ekki í söfnuðinum

[Mynd á blaðsíðu 23]

Í bréfi Páls til Rómverja er að finna hagnýtar leiðbeiningar fyrir kristna menn.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Hvað lærum við af fordæmi Stefáns?