Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Esekíelsbókar — síðari hluti

Höfuðþættir Esekíelsbókar — síðari hluti

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Esekíelsbókar — síðari hluti

DESEMBER árið 609 f.Kr. er runninn upp. Konungur Babýlonar er sestur um Jerúsalem til að vinna hana. Boðskapur Esekíels til útlaganna í Babýlon hefur hingað til snúist um fall og eyðingu Jerúsalem, borgarinnar sem var þeim svo kær. En nú beinast spádómar hans gegn heiðnu þjóðunum sem eiga eftir að fagna ógæfu þjóðar Guðs. Þegar Jerúsalem fellur árið 607 f.Kr., eftir 18 mánaða umsátur, beinast spádómar Esekíels að enn öðru — það er að segja endurreisn sannrar tilbeiðslu.

Í Esekíel 25:1–48:35 er að finna spádóma um þjóðirnar umhverfis Ísrael og um frelsun þjóðar Guðs. * Spádómarnir eru skráðir bæði í tímaröð og efnisröð ef frá er talinn Esekíel 29:17-20. Þessi fjögur vers eru hins vegar á réttum stað miðað við efni þeirra. Esekíelsbók inniheldur ‚lifandi og kröftugan‘ boðskap rétt eins og Biblían í heild. — Hebreabréfið 4:12.

‚ÞETTA LAND ER ORÐIÐ EINS OG EDENS GARÐUR‘

(Esekíel 25:1–39:29)

Jehóva sér fyrir hvernig Ammonítar, Móabítar, Edómítar, Filistar, Týrusbúar og Sídoningar eiga eftir að bregðast við falli Jerúsalem og lætur Esekíel spá gegn þeim. Egyptaland verður rænt. ‚Faraó Egyptalandskonungi og glæsiliði hans‘ er líkt við sedrustré sem „sverð Babelkonungs“ heggur niður. — Esekíel 31:2, 3, 12; 32:11, 12.

Um hálfu ári eftir að Jerúsalem er eytt kemur flóttamaður þaðan til Esekíels og flytur honum tíðindin: „Borgin er unnin.“ Nú þegir spámaðurinn ekki lengur. (Esekíel 33:21, 22) Hann þarf að flytja endurreisnarspádóma. Jehóva mun skipa yfir þjóð sína „einkahirði . . . þjón [sinn] Davíð“. (Esekíel 34:23) Edóm verður lagt í eyði en Júda á að verða „eins og Edens garður“. (Esekíel 36:35) Jehóva lofar að vernda heimkomna þjóð sína fyrir árás ‚Gógs‘. — Esekíel 38:2.

Biblíuspurningar og svör:

29:8-12 — Hvenær lá Egyptaland í eyði um 40 ára skeið? Eftir að Jerúsalem var eydd árið 607 f.Kr. flúðu þeir Gyðingar, sem eftir voru, til Egyptalands í trássi við viðvörun Jeremía spámanns. (Jeremía 24:1, 8-10; 42:7-22) En það varð til lítils vegna þess að Nebúkadnesar réðst inn í Egyptaland og vann það. Hin fjörutíu ára landauðn kann að hafa komið í kjölfarið. Þótt ekki sé getið um hana í veraldlegum söguheimildum megum við treysta að hún átti sér stað vegna þess að Jehóva uppfyllir alltaf spádóma sína. — Jesaja 55:11.

29:18 — Hvernig urðu ‚höfuð allra manna hárlaus og axlir þeirra gnúnar‘? Umsátrið um þann hluta Týrusar, sem var á meginlandinu, reyndi svo á hermenn Nebúkadnesars að þeir urðu sköllóttir undan hjálmunum og fötin slitnuðu á öxlunum undan því að bera byggingarefni í vígturna og víggirðingar. — Esekíel 26:7-12.

Lærdómur:

29:19, 20. Týrverjar höfðu komist undan út í eyborgina með stóran hluta af auðæfum sínum þannig að Nebúkadnesar náði ósköp litlu herfangi í Týrus. Þótt Nebúkadnesar væri heiðinn og bæði drambsamur og sjálfselskur umbunaði Jehóva honum fyrir þjónustu hans með því að gefa honum Egyptaland sem „launin handa herliði hans“. Ættum við ekki að líkja eftir hinum sanna Guði með því að greiða skatta til stjórnvalda fyrir þá þjónustu sem þau veita í okkar þágu? Þessi skyldukvöð er óháð því hvernig stjórnvöld verja skattfénu og hvernig þau koma fram að öðru leyti. — Rómverjabréfið 13:4-7.

33:7-9. Hinir andasmurðu, varðmaður nútímans, og félagar þeirra ættu aldrei að slá slöku við að boða fagnaðarerindið um ríkið og vara fólk við ‚þrengingunni miklu‘ sem er fram undan. — Matteus 24:21.

33:10-20. Hjálpræði okkar er undir því komið að við snúum baki við rangri breytni og förum eftir meginreglum Jehóva Guðs. Atferli hans er alltaf rétt.

36:20, 21. Ísraelsmenn vanhelguðu nafn Guðs meðal þjóðanna því að þeir lifðu ekki í samræmi við nafnið sem þeir báru, það er að segja „lýður Drottins“ Jehóva. Við ættum aldrei að tilbiðja Jehóva aðeins að nafninu til.

36:25, 37, 38. Í andlegu paradísinni, þar sem við búum, er „heilög hjörð“. (Biblían 1859) Við ættum því að leggja okkur fram um að halda henni hreinni.

38:1-23. Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva ætlar að bjarga fólki sínu þegar Góg frá Magóglandi gerir árás. Góg er heiti á Satan djöflinum, „höfðingja þessa heims“, eftir að honum var úthýst af himnum. Með Magóglandi er átt við næsta nágrenni jarðar þar sem Satan og illu andarnir hafast við. — Jóhannes 12:31; Opinberunarbókin 12:7-12.

„HUGFEST ÞÉR ALLT, ER ÉG SÝNI ÞÉR“

(Esekíel 40:1–48:35)

Nú er runnið upp 14. árið frá eyðingu Jerúsalem. (Esekíel 40:1) Enn eru eftir 56 ár af útlegðinni. (Jeremía 29:10) Esekíel er um fimmtugt. Hann er nú fluttur í sýn til Ísraels. Honum er sagt: „Mannsson, lít á með augum þínum, hlýð á með eyrum þínum og hugfest þér allt, er ég sýni þér.“ (Esekíel 40:2-4) Spámaðurinn hlýtur að hafa verið yfir sig hrifinn af því að fá að sjá sýn um nýtt musteri.

Í hinu mikla musteri, sem Esekíel sér, eru 6 hlið, 30 matsalir, hið heilaga, hið allrahelgasta, altari úr tré og svo brennifórnaraltari. Í musterinu „spratt upp“ vatn sem streymir fram eins og á. (Esekíel 47:1) Esekíel sér einnig í sýn hvernig landinu er skipt milli ættkvíslanna. Hver ættkvísl fær land sem liggur frá austri til vesturs en á milli svæðis Júda og Benjamíns er landræma fyrir stjórnarsetur. Þar stendur „helgidómur Drottins“ og „borgin“ sem kallast „Drottinn er hér“. — Esekíel 48:9, 10, 15, 35.

Biblíuspurningar og svör:

40:3–47:12 — Hvað táknar musterið í sýn Esekíels? Hið risastóra musteri í sýninni var aldrei reist. Það táknar andlegt musteri Jehóva — það fyrirkomulag sem hann hefur á hreinni tilbeiðslu nú á tímum. (Esekíel 40:2; Míka 4:1; Hebreabréfið 8:2; 9:23, 24) Musterissýnin rætist á „síðustu dögum“ þegar prestastéttin er hreinsuð. (2. Tímóteusarbréf 3:1; Esekíel 44:10-16; Malakí 3:1-3) Lokauppfyllingin verður í paradís. Sýnin veitti Gyðingunum í útlegðinni hins vegar fyrirheit um að sönn tilbeiðsla yrði endurreist og að allar ættir Gyðinga myndu hljóta erfðahlut í fyrirheitna landinu.

40:3–43:17 — Hvaða þýðingu hafði það að mæla musterið? Mælingin er tákn þess að það sé öruggt að fyrirætlun Jehóva varðandi hreina tilbeiðslu nái fram að ganga.

43:2-4, 7, 9 — Hver voru „lík konunganna“ sem þurfti að fjarlægja úr musterinu? Hér er greinilega átt við skurðgoð. Höfðingjar Jerúsalem og borgarbúar höfðu saurgað musteri Guðs með skurðgoðum og gerðu þau í reynd að konungum sínum.

43:13-20 — Hvað táknar altarið í sýn Esekíels? Altarið táknar vilja Guðs varðandi lausnarfórn Jesú Krists. Vegna hennar eru hinir andasmurðu lýstir réttlátir og ‚múgurinn mikli‘ er hreinn í augum Guðs. (Opinberunarbókin 7:9-14; Rómverjabréfið 5:1, 2) Það kann að vera ástæðan fyrir því að í musterinu, sem Esekíel sá, var ekkert ‚haf‘ eins og í musteri Salómons, en þetta ‚haf‘ var gríðarstórt eirker sem prestarnir notuðu til að þvo sér. — 1. Konungabók 7:23-26.

44:10-16 — Hverja tákna prestarnir? Prestarnir tákna andasmurða kristna menn á okkar tímum. Þeir voru hreinsaðir árið 1918 þegar Jehóva sat í andlegu musteri sínu og ‚bræddi og hreinsaði‘. (Malakí 3:1-5) Þeir sem voru hreinir eða iðruðust gátu haldið áfram að gegna hinni einstöku þjónustu sem þeir höfðu með höndum. Þaðan í frá urðu þeir að leggja sig fram um að varðveita sig ‚óflekkaða af heiminum‘. Þannig gátu þeir verið góð fyrirmynd fyrir ‚múginn mikla‘ sem hinar ættkvíslirnar táknuðu. — Jakobsbréfið 1:27; Opinberunarbókin 7:9, 10.

45:1; 47:13–48:29 — Hvað táknar ‚landið‘ og skipting þess? Landið táknar starfsvettvang þjóna Guðs. Hvar sem þjónn Guðs er niðurkominn er hann í þessu landi, svo framarlega sem hann stundar sanna tilbeiðslu. Skipting landsins nær endanlega fram að ganga í nýja heiminum þegar landi er úthlutað til allra trúfastra manna. — Jesaja 65:17, 21.

45:7, 16 — Hvað táknar fórnargjöfin til prestanna og landshöfðingjans? Í andlega musterinu er aðallega átt við andlegan stuðning sem er fólginn í því að bjóða fram aðstoð sína og vera samvinnuþýður.

47:1-5 — Hvað táknar vatnið sem sprettur fram í sýn Esekíels? Vatnið táknar þær ráðstafanir sem gerðar eru til að veita fólki líf, þar á meðal lausnarfórn Jesú Krists og þekkinguna á Guði sem er að finna í Biblíunni. (Jeremía 2:13; Jóhannes 4:7-26; Efesusbréfið 5:25-27) Áin dýpkar smám saman svo að hægt sé að taka við vaxandi straumi nýrra tilbiðjenda Jehóva. (Jesaja 60:22) Öflugast verður lífsvatnið í þúsundáraríkinu og þá mun það fela í sér nýjar upplýsingar úr „bókunum“ sem verða opnaðar á þeim tíma. — Opinberunarbókin 20:12; 22:1, 2.

47:12 — Hvað tákna aldintrén? Trén tákna hinar andlegu ráðstafanir sem Guð gerir til að veita mannkyninu fullkomleika.

48:15-19, 30-35 — Hvað táknar borgin í sýn Esekíels? Borgin „Drottinn er hér“ stendur á ‚óheilögu‘ landi en það þýðir að hún hlýtur að tákna eitthvað jarðneskt. Borgin virðist tákna jarðneska stjórn yfir þeim sem mynda hina réttlátu ‚nýju jörð‘. (2. Pétursbréf 3:13) Þar sem hún er með hlið til allra átta er greiður aðgangur að henni. Það á að vera auðvelt að leita til umsjónarmanna safnaðarins.

Lærdómur:

40:16, 22, 26. Úthöggnir pálmar í forsal musterisins eru til merkis um að engir fái að ganga þar inn nema þeir stundi gott siðferði. (Sálmur 92:13) Af því má sjá að við verðum að vera réttlát og ráðvönd til að Jehóva hafi velþóknun á tilbeiðslu okkar.

44:23. Við getum verið innilega þakklát fyrir þjónustu prestahópsins sem nú er uppi. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ lætur í té tímabæra andlega fæðu sem hjálpar okkur að greina milli þess sem er hreint og óhreint í augum Jehóva. — Matteus 24:45.

47:9, 11. Þekking er mikilvægur þáttur hins táknræna vatns og hún hefur komið til leiðar undraverðri lækningu á okkar dögum. Hún lífgar andlega alla sem afla sér hennar. (Jóhannes 17:3) Þeir sem taka ekki við hinu lífgandi vatni farast hins vegar fyrir fullt og allt en það er táknað með saltinu. Það er ákaflega mikilvægt að ‚leggja kapp á að fara rétt með orð sannleikans‘. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

„Ég mun helga mitt hið mikla nafn“

Eftir að síðasta konunginum af ætt Davíðs var steypt af stóli lét Guð líða langan tíma áður en sá kom fram sem hafði réttinn til konungdóms. En Guð hafði ekki hlaupist frá sáttmála sínum við Davíð. (Esekíel 21:27; 2. Samúelsbók 7:11-16) Í spádómi Esekíels talar Jehóva um „þjón [sinn] Davíð“ sem átti að verða ‚höfðingi‘ og „konungur“. (Esekíel 34:23, 24; 37:22, 24, 25) Þetta er enginn annar en Jesús Kristur eftir að hann hefur fengið konungdóm. (Opinberunarbókin 11:15) Jehóva ætlar að „helga [sitt] hið mikla nafn“ fyrir atbeina Messíasarríkisins. — Esekíel 36:23.

Innan skamms verður öllum útrýmt sem vanhelga heilagt nafn Guðs. En þeir sem helga nafn hans með því að tilbiðja hann á þann hátt sem hann vill hljóta eilíft líf. Við skulum því notfæra okkur sem best lífsvatnið sem streymir ríkulega fram á okkar dögum, og beina öllum kröftum okkar að sannri tilbeiðslu.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Fjallað var um Esekíel 1:1–24:27 í greininni „Höfuðþættir Esekíelsbókar — fyrri hluti“ í Varðturninum 1. júlí 2007.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hið dýrlega musteri í sýn Esekíels.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvað táknar áin í sýn Esekíels?

[Rétthafi]

Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.