Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva metur hlýðni þína mikils

Jehóva metur hlýðni þína mikils

Jehóva metur hlýðni þína mikils

„Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 27:11.

1. Hvað gegnsýrir þjóðfélög okkar tíma?

HEIMURINN er gegnsýrður af sjálfstæðisanda og óhlýðni. Páll postuli útskýrði ástæðuna í bréfi sínu til kristinna manna í Efesus: „Þér lifðuð . . . samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.“ (Efesusbréfið 2:1, 2) Já, það má segja að Satan djöfullinn, ‚valdhafinn í loftinu‘, hafi smitað allan heiminn af óhlýðni. Hann gerði það á fyrstu öldinni og hefur gert það í enn ríkari mæli eftir að honum var kastað niður af himni þegar fyrri heimsstyrjöldin geisaði. — Opinberunarbókin 12:9.

2, 3. Hvaða ástæður höfum við fyrir því að hlýða Jehóva?

2 Við sem erum kristin vitum hins vegar að Jehóva Guð verðskuldar að við hlýðum honum af öllu hjarta vegna þess að hann er skapari okkar, kærleiksríkur Drottinn og frelsari og viðheldur lífi okkar. (Sálmur 148:5, 6; Postulasagan 4:24; Kólossubréfið 1:13; Opinberunarbókin 4:11) Ísraelsmenn á dögum Móse vissu að Jehóva var lífgjafi þeirra og bjargvættur. Þess vegna sagði Móse þeim: „Gætið því þess að gjöra svo sem Drottinn Guð yðar hefir boðið yður.“ (5. Mósebók 5:32) Já, Jehóva verðskuldaði hlýðni þeirra. En ekki leið á löngu áður en þeir fóru að óhlýðnast Drottni sínum.

3 Hversu mikilvægt er það í augum skapara alheims að við hlýðum honum? Hann lét Samúel spámann segja Sál konungi: „Hlýðni er betri en fórn.“ (1. Samúelsbók 15:22, 23) Hvers vegna sagði hann þetta?

Hvers vegna er hlýðni „betri en fórn“?

4. Hvað getum við gefið Jehóva?

4 Þar sem Jehóva er skapari alls á hann allar efnislegar eigur okkar. Eigum við þá eitthvað sem við getum gefið honum? Já, og það er meira að segja mjög verðmætt. Hvað er það? Svarið er að finna í eftirfarandi hvatningu: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Við getum gefið Guði hlýðni okkar. Þó að við búum við mismunandi aðstæður og séum ólík að uppruna getum við með hlýðni okkar svarað grófum ásökunum Satans þess efnis að menn sýni Guði ekki trúfesti þegar á reynir. Það er mikill heiður að mega gera það.

5. Hvaða áhrif hefur óhlýðni manna á skaparann? Lýstu með dæmi.

5 Guð hefur áhuga á ákvörðunum okkar. Ef við óhlýðnumst hefur það áhrif á hann. Hvernig? Það tekur hann sárt að sjá einhvern af þjónum sínum breyta óviturlega. (Sálmur 78:40, 41) Segjum sem svo að sykursjúkur maður fylgdi ekki læknisráði um heilbrigt mataræði og héldi áfram að borða mat sem gerði honum illt. Hvað myndi lækninum hans finnast um það? Við getum verið viss um að það tekur Jehóva sárt þegar menn óhlýðnast honum því að hann veit hvaða afleiðingar það hefur að fylgja ekki ráðleggingum hans.

6. Hvað getur hjálpað okkur að hlýða Guði?

6 Hvað getur hjálpað okkur hverju og einu að vera hlýðin? Við ættum að biðja Guð um „vilja til að hlýða“ honum líkt og Salómon konungur gerði. Hann bað um þetta til að geta „greint gott frá illu“ og geta dæmt í málum Ísraelsmanna. (1. Konungabók 3:9, Biblíurit, ný þýðing 1993) Við þurfum „vilja til að hlýða“ svo að við getum greint á milli góðs og ills í þessum heimi sem er gegnsýrður af óhlýðni. Guð hefur gefið okkur orð sitt, biblíunámsrit, samkomur og umhyggjusama safnaðaröldunga þannig að við getum þroskað með okkur „vilja til að hlýða“. Nýtum við okkur þessar góðu gjafir?

7. Hvers vegna leggur Jehóva meiri áherslu á hlýðni en fórnir?

7 Í þessu sambandi má rifja upp að Jehóva opinberaði fólki sínu forðum daga að hlýðni væri mikilvægari en dýrafórnir. (Orðskviðirnir 21:3, 27; Hósea 6:6; Matteus 12:7) Hvernig stóð á því fyrst Jehóva hafði skipað fólki sínu að færa slíkar fórnir? Nú, af hvaða hvötum færa menn fórnir? Er það til að gleðja Guð? Eða eru menn einungis að fylgja einhverjum trúarsið? Ef þjónn Guðs þráir umfram allt að gleðja hann leggur hann sig fram um að hlýða öllum fyrirmælum hans. Guð þarfnast ekki dýrafórna en hlýðni okkar er sannarlega dýrmæt í augum hans.

Dæmi til viðvörunar

8. Hvers vegna hafnaði Guð Sál sem konungi?

8 Frásaga Biblíunnar af Sál konungi dregur skýrt fram hve mikilvægt það er að hlýða. Í byrjun var Sál auðmjúkur og hógvær stjórnandi, ‚lítill í eigin augum‘. Smám saman fór stolt og sjálfsblekking hins vegar að stýra ákvörðunum hans. (1. Samúelsbók 10:21, 22; 15:17) Eitt sinn átti Sál að berjast við Filista. Samúel sagði konungi að bíða uns hann kæmi til að færa Jehóva fórnir og gefa nánari fyrirmæli. Samúel kom hins vegar ekki eins fljótt og búist var við og fólkið fór að dreifast. Þegar Sál sá það fórnaði hann brennifórninni. Jehóva hafði vanþóknun á þessu. Þegar Samúel kom að lokum reyndi konungur að afsaka óhlýðni sína og sagðist hafa ‚hert upp hugann‘ þar sem Samúel hefði seinkað, og hann hefði fært fórnina sjálfur til að blíðka Jehóva. Sál konungi fannst mikilvægara að færa þessa fórn en að hlýða fyrirmælunum um að bíða eftir að Samúel færði fórnina. Samúel sagði við hann: „Heimskulega hefir þér farið. Þú hefir ekki gætt skipunar Drottins, Guðs þíns, sem hann fyrir þig lagði.“ Sál missti konungdóminn af því að hann hlýddi ekki Jehóva. — 1. Samúelsbók 10:8; 13:5-13.

9. Hvernig óhlýðnaðist Sál Guði ítrekað?

9 Lét Sál sér þetta að kenningu verða? Nei, síðar fyrirskipaði Jehóva honum að gereyða Amalekítum en þeir höfðu ráðist á Ísrael án tilefnis. Sál átti ekki einu sinni að þyrma búpeningi þeirra. Hann hlýddi að hluta til og „vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr“. Þegar Samúel kom til fundar við Sál konung var konungur himinlifandi yfir sigrinum og sagði: „Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins.“ En þrátt fyrir skýr fyrirmæli þyrmdi Sál og fólk hans Agag konungi og „bestu sauðunum og nautunum, . . . og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var“. Sál réttlætti óhlýðni sína og sagði: „Fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum.“ — 1. Samúelsbók 15:1-15.

10. Hvað hafði Sál ekki lært?

10 Þá sagði Samúel við Sál: „Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.“ (1. Samúelsbók 15:22) Jehóva hafði fyrirskipað að það ætti að fella þessar skepnur og þar af leiðandi voru þær ekki boðlegar til fórnar.

Vertu hlýðinn í öllu

11, 12. (a) Hvernig lítur Jehóva á viðleitni okkar til að þjóna honum? (b) Hvernig væri hægt að telja sér trú um að maður sé að gera vilja Guðs þótt maður sé í rauninni óhlýðinn?

11 Jehóva hlýtur að gleðjast þegar hann sér að trúfastir þjónar hans eru staðfastir þrátt fyrir ofsóknir, að þeir boða fagnaðarerindið þrátt fyrir áhugaleysi almennings og sækja safnaðarsamkomur þrátt fyrir álagið sem fylgir því að framfleyta sér. Það gleður hjarta Jehóva þegar við hlýðum honum í þessum mikilvægu atriðum. Hann metur það mikils þegar við tilbiðjum hann af því að við elskum hann. Fólk gefur ef til vill engan gaum að því sem við leggjum á okkur en Guð tekur eftir fórnum okkar og man eftir þeim. — Matteus 6:4.

12 Til að þóknast Guði á allan hátt verðum við að hlýða honum á öllum sviðum lífsins. Við megum ekki telja okkur trú um að við getum vikið frá ákveðnum kröfum Guðs svo framarlega sem við þjónum honum að öðru leyti. Einhver gæti til dæmis talið sér trú um að hann komist upp með siðleysi eða aðra alvarlega synd ef hann tilbiður Jehóva að nafninu til. Það væri mikið glapræði. — Galatabréfið 6:7, 8.

13. Hvernig gæti reynt á hlýðni okkar þegar við erum ein?

13 Við getum því spurt okkur hvort við hlýðum Jehóva dagsdaglega, jafnvel á þeim sviðum sem virðast vera einkamál okkar. Jesús sagði: „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“ (Lúkas 16:10) Göngum við „í grandvarleik hjartans“ jafnvel inni á heimili okkar þar sem aðrir sjá ekki til? (Sálmur 101:2) Það gæti reynt á ráðvendi okkar inni á heimilinu. Í mörgum löndum eru tölvur til á nánast hverju heimili og það þarf ekki nema nokkra músasmelli til að nálgast klámfengnar myndir. Fyrir fáeinum árum var ekki hægt að sjá slíkar myndir nema að fara inn á staði þar sem boðið var upp á siðlaust afþreyingarefni. Munum eftir orðum Jesú: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ Förum við eftir þessum varnaðarorðum? Neitum við staðfastlega að horfa á siðlausar myndir? (Matteus 5:28; Jobsbók 31:1, 9, 10; Sálmur 119:37; Orðskviðirnir 6:24, 25; Efesusbréfið 5:3-5) Hvað um ofbeldisfullt sjónvarpsefni? Erum við sömu skoðunar og Guð sem „hatar þann sem elskar ofbeldi“? (Sálmur 11:5, Biblíurit, ný þýðing 2003) Eða hvað um ofnotkun áfengis þegar við erum ein? Í Biblíunni er ölvun fordæmd en kristnir menn eru einnig varaðir við því að vera sólgnir í vín. — Títusarbréfið 2:3; Lúkas 21:34, 35; 1. Tímóteusarbréf 3:3.

14. Hvernig getum við verið hlýðin Guði í sambandi við fjármál?

14 Fjármál eru annað svið þar sem við þurfum að sýna aðgát. Myndum við til dæmis taka þátt í viðskiptum sem eiga að skila skjótum gróða en jaðra við svik? Freistumst við til að beita ólöglegum aðferðum til að greiða lægri skatta? Eða hlýðum við samviskusamlega fyrirmælunum um að ‚gjalda öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber‘? — Rómverjabréfið 13:7.

Hlýðni sprottin af kærleika

15. Hvers vegna hlýðir þú boðum Jehóva?

15 Hlýðni við meginreglur Guðs er til blessunar. Við getum til dæmis sloppið við ýmsa sjúkdóma með því að nota ekki tóbak, lifa siðsömu lífi og virða heilagleika blóðsins. Og ef við fylgjum sannleika Biblíunnar á öðrum sviðum lífsins getur það verið okkur til góðs fjárhagslega, félagslega og í fjölskyldunni. (Jesaja 48:17) Þetta eru áþreifanleg dæmi um að það sé skynsamlegt að lifa eftir lögum Guðs og við getum réttilega litið á það sem blessun frá honum. En við hlýðum Jehóva samt fyrst og fremst vegna þess að við elskum hann. Við þjónum honum ekki af eigingjörnum hvötum. (Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5) Guð gaf okkur frelsi til að velja hverjum við hlýðum. Við veljum að hlýða Jehóva vegna þess að við viljum gleðja hann og gera það sem er rétt. — Rómverjabréfið 6:16, 17; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

16, 17. (a) Hvernig hlýddi Jesús Guði af öllu hjarta? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

16 Jesús hlýddi Jehóva af því að hann elskaði hann af öllu hjarta og þar er hann okkur fullkomin fyrirmynd. (Jóhannes 8:28, 29) Þegar Jesús var hér á jörðinni „lærði hann hlýðni af því, sem hann leið“. (Hebreabréfið 5:8, 9) Hvernig þá? Hann „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi“. (Filippíbréfið 2:7, 8) Þótt hann hefði verið hlýðinn á himni reyndi enn frekar á hlýðni hans þegar hann var hér á jörð. Við getum verið viss um að hann hafi allt til að bera til að þjóna sem æðstiprestur andlegra bræðra sinna og annarra trúaðra manna. — Hebreabréfið 4:15; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

17 Hvað um okkur? Við getum líkt eftir Jesú með því að hlýða Guði framar öllu. (1. Pétursbréf 2:21) Við getum fundið til innri gleði þegar við fylgjum fyrirmælum hans af því að við elskum hann, meira að segja þegar þrýst er á okkur eða okkur finnst freistandi að gera annað. (Rómverjabréfið 7:18-20) Þetta gildir einnig um það að hlýða fúslega leiðbeiningum ófullkominna manna sem fara með forystuna innan safnaðarins. (Hebreabréfið 13:17) Það er dýrmætt í augum Jehóva að við hlýðum boðorðum hans öllum stundum.

18, 19. Hvað hefur hlýðni okkar í för með sér?

18 Að hlýða Jehóva og varðveita ráðvendni getur haft í för með sér að við þurfum að þola ofsóknir. (Postulasagan 5:29) Og að hlýða fyrirmælum Jehóva um að boða og kenna útheimtir að við séum þolgóð uns þetta heimskerfi tekur enda. (Matteus 24:13, 14; 28:19, 20) Við þurfum úthald til að halda áfram að sækja safnaðarsamkomur þrátt fyrir margs konar álag frá heiminum. Guð kærleikans veit mætavel hvað við leggjum á okkur til að hlýða honum á þessum sviðum. En til að hlýða Jehóva í einu og öllu verðum við að berjast á móti syndugum löngunum, forðast illt og elska hið góða. — Rómverjabréfið 12:9.

19 Þegar við þjónum Jehóva af kærleika og með þakklátu hjarta getum við treyst að hann umbuni okkur. (Hebreabréfið 11:6) Það er nauðsynlegt að færa viðeigandi fórnir og Jehóva hefur velþóknun á þeim. En við gleðjum hann þó mest með því að hlýða honum í einu og öllu vegna þess að við elskum hann. — Orðskviðirnir 3:1, 2.

Hvert er svarið?

• Hvers vegna má segja að við getum gefið Jehóva eitthvað?

• Hvernig óhlýðnaðist Sál?

• Hvernig getum við sýnt að við trúum því að hlýðni sé betri en fórn?

• Hvers vegna hlýðir þú Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 17]

Hvað myndi lækni finnast um sjúkling sem fylgdi ekki ráðum hans?

[Mynd á blaðsíðu 19]

Hvernig kallaði Sál konungur yfir sig vanþóknun Jehóva?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hlýðir þú fyrirmælum Guðs innan veggja heimilisins?