Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Sigra þú illt með góðu“

„Sigra þú illt með góðu“

„Sigra þú illt með góðu“

„Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:21.

1. Hvers vegna megum við vera viss um að við getum sigrað hið illa?

ER HÆGT að standa stöðugur gegn hörðum andstæðingum sannrar tilbeiðslu? Getum við sigrað þau öfl sem reyna að draga okkur aftur inn í hinn óguðlega heim? Já, vissulega. Af hverju segjum við það? Lesum það sem Páll postuli segir í bréfi sínu til Rómverja: „Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.“ (Rómverjabréfið 12:21) Ef við treystum Jehóva og erum staðráðin í því að standa gegn heiminum mun hið illa ekki sigra okkur. Orðin „sigra þú illt með góðu“ sýna að við getum yfirbugað hið illa ef við höldum andlegu baráttunni áfram. Þessi vondi heimur og illur stjórnandi hans, Satan djöfullinn, munu aðeins yfirbuga þá sem sofna á verðinum og hætta að berjast. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

2. Af hverju ætlum við að skoða nokkra atburði úr lífi Nehemía?

2 Um 500 árum áður sannreyndi þjónn Guðs í Jerúsalem þessi orð Páls um baráttuna gegn hinu illa. Hann hét Nehemía og þoldi ekki aðeins andstöðu frá óguðlegum mönnum heldur sigraði einnig illt með góðu. Hvaða erfiðleikum mætti hann? Hvað gerði honum kleift að standa stöðugur? Hvernig getum við líkt eftir fordæmi hans? Skoðum nokkra atburði í lífi Nehemía til að svara þessum spurningum. *

3. Við hvaða aðstæður bjó Nehemía og hvað afrekaði hann?

3 Nehemía þjónaði við hirð Artahsasta Persakonungs (oftast nefndur Artaxerxes 1.). Þótt hann hafi búið meðal óguðlegra hegðaði hann sér ekki eins og fólk þess tíma. (Rómverjabréfið 12:2) Þegar hann frétti að þörf væri í Júda fórnaði hann þægilegu lífi, lagði í erfiða för til Jerúsalem og tók að sér það gríðarmikla verk að endurbyggja borgarmúrana. (Rómverjabréfið 12:1) Þótt hann væri landstjóri í Jerúsalem vann hann daglega hörðum höndum við hlið bræðra sinna Ísraelsmanna „frá því er morgunroðinn færðist upp á himininn og þar til er stjörnurnar komu fram“. Árangurinn varð sá að verkinu var lokið á innan við tveimur mánuðum. (Nehemíabók 4:21; 6:15) Þetta var ótrúlegt afrek því að á meðan byggingarstarfið stóð yfir mættu Ísraelsmenn alls konar andstöðu. Hverjir voru andstæðingar Nehemía og hvert var markmið þeirra?

4. Hvert var markmið andstæðinga Nehemía?

4 Helstu andstæðingarnir voru Sanballat, Tobía og Gesem, áhrifamenn sem bjuggu í grennd við Júda. Þar sem þeir voru andvígir þjónum Guðs „gramdist þeim það mikillega, að kominn skyldi vera maður til að annast hagsmuni Ísraelsmanna“. (Nehemíabók 2:10, 19) Óvinir Nehemía voru staðráðnir í því að stöðva byggingarstarfið og brugguðu jafnvel ill ráð gegn honum. Myndi Nehemía ‚láta hið vonda yfirbuga sig‘?

‚Hann varð reiður og honum gramdist mjög‘

5, 6. (a) Hvernig brugðust óvinir Nehemía við byggingarstarfinu? (b) Hvers vegna hræddist Nehemía ekki mótstöðumennina?

5 Nehemía sýndi hugrekki og hvatti fólk sitt: „Vér skulum endurreisa múra Jerúsalem.“ Fólkið svaraði: „Vér viljum fara til og byggja.“ Síðan sagði Nehemía: „Og þeir styrktu hendur sínar til hins góða verksins,“ en andstæðingarnir „gjörðu . . . gys að oss, sýndu oss fyrirlitningu og sögðu: ‚Hvað er þetta, sem þér hafið fyrir stafni? Ætlið þér að gjöra uppreisn móti konunginum?‘“ Nehemía lét háð þeirra og ásakanir ekki hræða sig. Hann sagði við þá: „Guð himnanna, hann mun láta oss takast þetta, en vér þjónar hans munum fara til og byggja.“ (Nehemíabók 2:17-20) Nehemía var staðráðinn í því að halda áfram að vinna þetta góða verk.

6 Sanballat, einn andstæðinganna, varð ‚reiður og honum gramdist mjög‘. Hann lét orðin dynja á þeim og spurði í hæðnistón: „Hvað hafa Gyðingarnir fyrir stafni, þeir vesalingar? . . . Munu þeir gjöra steinana í rústahaugunum lifandi?“ Tobía tók undir háðsyrðin og sagði: „Ef refur stigi á það, þá mundi steinveggur þeirra hrynja undan honum!“ (Nehemíabók 4:1-3) Hvernig brást Nehemía við?

7. Hvernig brást Nehemía við ásökunum óvina sinna?

7 Nehemía leiddi háð þeirra einfaldlega hjá sér. Hann fylgdi boði Guðs og reyndi ekki að hefna sín. (3. Mósebók 19:18) Hann lagði málið í hendur Jehóva og bað: „Heyr, Guð vor, hversu vér erum smánaðir! Lát háð þeirra koma þeim sjálfum í koll.“ (Nehemíabók 4:4) Hann treysti orðum Jehóva: „Mín er hefndin og mitt að endurgjalda.“ (5. Mósebók 32:35) Nehemía hélt áfram „að byggja múrinn“ með Ísraelsmönnum. Þeir leyfðu engu að dreifa athygli sinni. Það varð til þess að „allur múrinn varð fullgjör upp að miðju, og hafði lýðurinn áhuga á verkinu“. (Nehemíabók 4:6) Óvinum sannrar tilbeiðslu hafði ekki tekist að stöðva byggingarstarfið. Hvernig getum við líkt eftir Nehemía?

8. (a) Hvernig getum við líkt eftir Nehemía þegar andstæðingar bera á okkur rangar sakir? (b) Segðu frá reynslu þinni eða annarra sem sýnir fram á visku þess að hefna sín ekki.

8 Nú á dögum gætu andstæðingar í skólanum, vinnunni eða jafnvel á heimilinu gert gys að okkur eða borið á okkur rangar sakir. En við slíkar aðstæður er oft best að fylgja biblíulegu meginreglunni: „Að þegja hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 7) Þess vegna líkjum við eftir Nehemía og hefnum okkar ekki með hvössum orðum. (Rómverjabréfið 12:17) Við snúum okkur til Guðs í bæn og leggjum traust okkar á hann sem fullvissar okkur: „Ég mun endurgjalda.“ (Rómverjabréfið 12:19; 1. Pétursbréf 2:19, 20) Þannig komum við í veg fyrir að andstæðingar dreifi athygli okkar frá starfinu sem við eigum að vinna núna — að boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Í hvert sinn sem við tökum þátt í prédikunarstarfinu og neitum að láta andstöðu draga úr okkur sýnum við sömu trúfesti og Nehemía.

„Brytjum þá niður“

9. Til hvaða aðgerða gripu óvinir Nehemía og hvernig brást hann við?

9 Þegar andstæðingar sannrar tilbeiðslu á dögum Nehemía heyrðu að „farið væri að gjöra við múra Jerúsalem“ tóku þeir sér sverð í hönd til að „herja á Jerúsalem“. Staðan var ekki björt frá sjónarhóli Gyðinganna. Samverjar voru í norðri, Ammónítar í austri, Arabar í suðri og Asdódmenn í vestri. Jerúsalem var umkringd og byggingarmennirnir virtust ekki hafa neina undankomuleið. Hvað áttu þeir að gera? „Vér gjörðum bæn vora til Guðs,“ sagði Nehemía. Óvinirnir höfðu í hótunum og sögðu: „Vér . . . brytjum þá niður og gjörum enda á verkinu.“ Nehemía brást við með því að fela byggingarmönnunum að verja borgina „með sverðum sínum, lensum og bogum“. Frá mannlegum sjónarhóli áttu þessir fáu Gyðingar ekki möguleika á að sigra hina fjölmennu óvinaheri. En Nehemía hvatti þá: „Eigi skuluð þér óttast . . . En minnist Drottins, hins mikla og ógurlega.“ — Nehemíabók 4:7-9, 11, 13, 14.

10. (a) Hvað varð til þess að óvinir Nehemía hættu við árásina? (b) Til hvaða ráða greip Nehemía?

10 En skyndilega varð mikil breyting. Óvinirnir hættu við árásina. Af hverju? Nehemía sagði að „Guð hefði ónýtt ráðagjörð þeirra“ en hann gerði sér samt grein fyrir því að enn stæði ógn af óvinunum. Því sýndi hann skynsemi og breytti vinnuaðferðum byggingarmannanna. Þaðan í frá „unnu þeir að verkinu [með annarri hendinni], en með hinni héldu þeir á skotspjótinu“. Nehemía skipaði líka ‚lúðursvein‘ til að vara byggingarmennina við ef óvinirnir gerðu árás. En umfram allt fullvissaði hann fólkið: „Guð vor mun berjast fyrir oss.“ (Nehemíabók 4:15-20) Þegar Nehemía hafði hvatt mennina og búið þá undir árásir héldu þeir verkinu áfram. Hvað getum við lært af þessari frásögu?

11. Hvað gerir sannkristnum mönnum kleift að þola illt í löndum þar sem boðunarstarfið er bannað og hvernig sigra þeir „illt með góðu“?

11 Stundum verða sannkristnir menn fyrir hatrömmum ofsóknum. Í sumum löndum mynda grimmir andstæðingar sannrar tilbeiðslu stóran óvinaher. Frá mannlegum sjónarhóli eru trúsystkini okkar í þessum löndum í vonlausri stöðu. Þau eru engu að síður sannfærð um að ‚Guð muni berjast fyrir þau‘. Þeir sem eru ofsóttir vegna trúar sinnar hafa margoft fundið fyrir því að Jehóva svarar bænum þeirra og ‚ónýtir ráðagjörðir‘ öflugra óvina. Í löndum þar sem boðunarstarfið er bannað hafa kristnir menn jafnvel fundið leiðir til að halda áfram að prédika fagnaðarerindið. Vottar Jehóva nú á dögum sýna skynsemi og breyta um starfsaðferðir þegar þeir verða fyrir árásum alveg eins og byggingarmennirnir í Jerúsalem gerðu. Að sjálfsögðu nota þeir ekki bókstafleg vopn. (2. Korintubréf 10:4) En þótt þessum hugrökku bræðrum og systrum sé hótað ofbeldi hætta þau ekki að prédika heldur sigra „illt með góðu“. — 1. Pétursbréf 4:16

„Kom þú, svo að vér megum eiga fund“

12, 13. (a) Hvaða brögðum beittu óvinir Nehemía? (b) Af hverju hafnaði Nehemía boði andstæðinga sinna?

12 Þegar óvinir Nehemía gerðu sér grein fyrir því að beinu árásirnar höfðu ekki borið árangur beittu þeir lúmskari brögðum. Þeir prófuðu þrjár aðferðir. Hverjar voru þær?

13 Fyrst reyndu óvinir Nehemía að blekkja hann. Þeir sögðu við hann: „Kom þú, svo að vér megum eiga fund með oss í einhverju af þorpunum í Ónódalnum.“ Dalurinn lá milli Jerúsalem og Samaríu. Þeir stungu upp á að mætast á miðri leið til að leysa ágreininginn. Nehemía hefði getað hugsað með sér: „Þetta hljómar skynsamlega. Það er betra að ræða málin heldur en að berjast.“ En hann þáði ekki boðið. Hann útskýrði af hverju: „Þeir höfðu í hyggju að gjöra mér illt.“ Hann sá í gegnum ráðabrugg þeirra og lét ekki blekkjast. Fjórum sinnum sagði hann við andstæðinga sína: „[Ég get] eigi komið ofan eftir. Hví ætti verkið að bíða, af því að ég yfirgæfi það og færi ofan til ykkar?“ Óvinunum tókst ekki að fá Nehemía til að gera málamiðlanir. Hann einbeitti sér að byggingarstarfinu. — Nehemíabók 6:1-4.

14. Hvernig brást Nehemía við þegar bornar voru á hann rangar sakir?

14 Næst reyndu óvinir Nehemía að bera út þann róg að hann hygðist gera uppreisn gegn Artahsasta konungi. Enn á ný sögðu þeir: „Kom því, og skulum vér eiga fund.“ Nehemía þáði ekki heldur þetta boð. Hann vissi hvað þeir höfðu í hyggju. Hann sagði: „Þeir ætluðu allir að gjöra oss hrædda og hugsuðu: ‚Þeim munu fallast hendur og hætta við verkið, svo að því verður eigi lokið.‘“ Í þetta skipti svaraði Nehemía hins vegar ásökunum þeirra og sagði: „Ekkert slíkt á sér stað, sem þú talar um, heldur hefir þú spunnið það upp frá eigin brjósti.“ Þar að auki leitaði hann stuðnings Jehóva og bað: „Styrk því nú hendur mínar.“ Hann treysti að með hjálp Jehóva gæti hann komið í veg fyrir þetta illa ráðabrugg og sinnt byggingarstarfinu af fullum krafti. — Nehemíabók 6:5-9.

15. Hverju mælti falsspámaður með og hvers vegna fór Nehemía ekki að ráðum hans?

15 Að lokum tefldu andstæðingarnir fram svikara til að fá Nehemía til að brjóta lög Guðs. Þetta var Ísraelsmaðurinn Semaja. Hann sagði við Nehemía: „Við skulum fara saman inn í musteri Guðs, inn í aðalhúsið, og loka síðan dyrum aðalhússins, því að þeir munu koma til að drepa þig.“ Semaja sagði Nehemía að það ætti að ráða hann af dögum en að hann gæti bjargað lífi sínu með því að fela sig í musterinu. Nehemía var ekki prestur. Ef hann myndi fela sig í musteri Guðs væri hann að drýgja synd. Myndi hann brjóta lög Guðs til þess eins að bjarga eigin skinni? Hann svaraði: „Hver er sá minn líki, sem geti farið inn í aðalhúsið og haldið lífi? Ég fer hvergi.“ Hvers vegna féll Nehemía ekki fyrir þessu bragði? Vegna þess að hann vissi að þótt Semaja væri Ísraelsmaður „hafði [Guð] ekki sent hann“. Sannur spámaður myndi aldrei hvetja hann til að brjóta lög Guðs. Enn og aftur lét Nehemía illa andstæðinga ekki sigra sig. Stuttu seinna gat hann tilkynnt: „Múrinn var fullgjör hinn tuttugasta og fimmta elúlmánaðar, á fimmtíu og tveim dögum.“ — Nehemíabók 6:10-15; 4. Mósebók 1:51; 18:7.

16. (a) Hvernig ættum við að koma fram við falsvini, falska ákærendur og falsbræður? (b) Hvernig sýnirðu að þú gefur hvergi eftir í trú þinni, hvorki heima við, í skólanum né á vinnustað?

16 Við gætum líkt og Nehemía þurft að kljást við andstæðinga sem gætu verið falsvinir, falskir ákærendur eða falsbræður. Sumir hvetja okkur kannski til að mæta þeim á miðri leið ef svo má að orði komast. Þeir reyna ef til vill að sannfæra okkur um að ef við sýnum minni eldmóð í þjónustunni við Jehóva gætum við samtímis unnið að veraldlegum markmiðum. En þar sem Guðsríki hefur forgang í lífi okkar gerum við engar málamiðlanir. (Matteus 6:33; Lúkas 9:57-62) Andstæðingar bera líka á okkur rangar sakir. Í sumum löndum erum við sökuð um að vera ógn við ríkið á sama hátt og Nehemía var sakaður um uppreisn gegn konunginum. Sumar ásakanir hafa verið hraktar fyrir dómstólum. En hver sem útkoman er í einstökum tilfellum biðjum við þess í trúartrausti að Jehóva stýri málum eftir sínum vilja. (Filippíbréfið 1:7) Við gætum einnig mætt andstöðu frá þeim sem þykjast þjóna Jehóva. Fyrrverandi vottar, sem eru orðnir fráhvarfsmenn, gætu reynt að fá okkur til að gera einhvers konar málamiðlanir eins og Gyðingurinn sem reyndi að fá Nehemía til að bjarga eigin lífi með því að brjóta lög Guðs. En við höfnum fráhvarfshugmyndum þar sem við vitum að við björgum ekki lífi okkar með því að brjóta lög Guðs heldur með því að halda þau. (1. Jóhannesarbréf 4:1) Já, með hjálp Jehóva getum við staðið gegn illsku í hvaða mynd sem er.

Prédikað þrátt fyrir andstöðu

17, 18. (a) Hvert er markmið Satans og útsendara hans? (b) Hvað ert þú staðráðinn í að gera og hvers vegna?

17 Í orði Guðs segir um andasmurða bræður Krists: „Þeir hafa sigrað [Satan] . . . fyrir orð vitnisburðar síns.“ (Opinberunarbókin 12:11) Það er því beint samband á milli þess að sigra Satan — uppsprettu illskunnar — og að prédika fagnaðarerindið. Það er því ekki að furða að Satan herji í sífellu á þá sem eftir eru af hinum andasmurðu og ‚múginn mikla‘ með því að æsa til ofsókna. — Opinberunarbókin 7:9; 12:17.

18 Eins og við höfum séð geta ofsóknir verið árásir í orðum, hótanir um ofbeldi eða eitthvað lúmskara. Markmið Satans er samt alltaf hið sama — að stöðva prédikunarstarfið. En honum á eftir að mistakast hrapallega því að þjónar Guðs eru staðráðnir í að ‚sigra illt með góðu‘ eins og Nehemía gerði forðum daga. Þeir gera það með því að halda áfram að boða fagnaðarerindið þar til Jehóva segir að starfinu sé lokið. — Markús 13:10; Rómverjabréfið 8:31; Filippíbréfið 1:27, 28.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Til að fá frekari upplýsingar um þessa atburði skaltu lesa Nehemíabók 1:1-4; 2:1-6, 9-20; 4:1-23; 6:1-15.

Manstu?

• Hvaða andstöðu hafa þjónar Guðs mætt fyrr og nú?

• Hvert var aðalmarkmið óvina Nehemía og hvert er markmið óvina Guðs nú á dögum?

• Hvernig sigrum við illt með góðu?

[Spurningar]

[Rammi/mynd á blaðsíðu 29]

Lærdómur úr Nehemíabók

Þjónar Guðs verða fyrir

• háði

• hótunum

• blekkingum

Blekkingar koma frá

• falsvinum

• fölskum ákærendum

• falsbræðrum

Þjónar Guðs sigra illt með því að

• sinna starfinu sem Guð hefur falið þeim

[Mynd á blaðsíðu 27]

Nehemía og samstarfsmenn hans endurbyggðu múra Jerúsalem þrátt fyrir harða andstöðu.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Sannkristnir menn boða fagnaðarerindið óttalaust.