Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dáumst að hönnuninni og kynnumst hönnuðinum

Dáumst að hönnuninni og kynnumst hönnuðinum

Dáumst að hönnuninni og kynnumst hönnuðinum

SENNILEGA hefurðu heyrt getið um ítalska listmálarann og myndhöggvarann Michelangelo. Þó að þú hafir kannski aldrei séð neina af frummyndum hans geturðu sennilega tekið undir með listfræðingnum sem kallaði ítalska snillinginn „frábæran og óviðjafnanlegan listamann“. Enginn mótmælir því að Micaelangelo hafi verið snillingur. Og dettur nokkrum í hug að dást að listaverkum hans án þess að viðurkenna snilligáfu hans?

Beinum nú huganum að hinu gríðarlega fjölbreytta lífríki sem þrífst hér á jörð og ótrúlega flókinni gerð þess. Dagblaðið The New York Times hefur eftir prófessor í líffræði: „Áþreifanleg merki um hönnun sjást víða í líffræðinni.“ Hann bætir við: „Við erum gagntekin þeirri tilfinningu að lífið sé hannað.“ Er sanngjarnt og rökrétt að dást að hönnuninni en virða hönnuðinn ekki viðlits?

Páll postuli, sem var athugull maður, benti á að margir ‚göfguðu og dýrkuðu hið skapaða í stað skaparans‘. (Rómverjabréfið 1:25) Þróunarkenningin er svo útbreidd og ágeng að sumir sjá ekki eða vilja ekki viðurkenna að hönnun bendi eindregið til þess að það sé til hönnuður. En er þróunarkenningin lýsandi dæmi um vísindi í sinni bestu mynd? Christoph Schönborn, kaþólskur erkibiskup í Vínarborg, komst að eftirfarandi niðurstöðu í grein sem birtist í The New York Times: „Sérhver sú kenning, sem afneitar eða gerir lítið úr yfirþyrmandi rökum fyrir hönnun lífsins, er getgáta en ekki vísindi.“

Endalok vísindanna?

Sumir telja að það myndi „tálma rannsóknum“ að viðurkenna að það séu rök fyrir því að til sé skapari. Slíkur ótti kemur fram í grein í tímaritinu New Scientist þar sem fullyrt er að „vísindi, byggð á leit án takmarkana, myndu líða undir lok, því að þau rækjust á óyfirstíganlega hindrun merkta: ‚hönnuðurinn gerði þetta‘“. Er tilefni til þess að óttast slíkt? Alls ekki. Þetta myndi frekar vera vísindunum til framdráttar. Hvernig þá?

Ef við lítum svo á að alheimurinn og lífið á jörðinni hafi kviknað og þróast af tilviljun erum við í rauninni að gefast upp á frekari tilraunum til að fá raunhæfa skýringu. Ef við viðurkennum hins vegar að það sem við sjáum í kringum okkur sé handaverk viturs skapara getur það verið okkur hvöt til að rannsaka náttúruna og notfæra okkur þá snilligáfu sem birtist í efnisheiminum. Tökum dæmi: Þótt vitað sé að Leonardo da Vinci málaði „Monu Lisu“ hefur það ekki komið í veg fyrir að listfræðingar rannsaki tækni málarans og efnin sem hann notaði. Að sama skapi ættum við að geta viðurkennt að það sé til skapari án þess að það letji okkur að rannsaka hið flókna eðli og margbreytileik sköpunarverksins.

Í stað þess að letja menn frá frekari rannsóknum hvetur Biblían fólk til að leita svara, bæði við vísindalegum spurningum og trúarlegum. Forðum daga ígrundaði Davíð Ísraelskonungur hve snilldarlega mannslíkaminn væri úr garði gerður. Hann komst að eftirfarandi niðurstöðu: „Ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálmur 139:14) Í Biblíunni er skaparinn sagður hafa spurt ættföðurinn Job: „Hefurðu horft yfir víðáttur jarðar?“ (Jobsbók 38:18, Biblíurit, ný þýðing 2001) Ekki hljómar þetta eins og það sé verið að letja menn frá könnun og rannsóknum. Hönnuðurinn mikli hvetur hreinlega til þess að menn kynni sér og rannsaki handaverk hans. Og lítum á orð Jesaja spámanns þar sem hann hvetur okkur til að fræðast um skapara alls þess sem við sjáum umhverfis okkur: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar?“ Í Jesaja 40:26 er síðan bent á staðreynd sem kemur heim og saman við hina þekktu jöfnu Einsteins, E=mc2. Það er staðreynd að alheimurinn á upptök sín hjá uppsprettu mikils kraftar og orku.

Það liggja auðvitað ekki fyrir svör við öllum spurningum sem vakna viðvíkjandi sköpun. Það stafar að hluta til af því að skilningsgeta okkar er takmörkuð og við berum ekki fullkomið skyn á umheiminn. Job gerði sér grein fyrir því. Hann bar lof á skaparann sem lætur jörðina svífa í tómum geimnum og lætur skýin full af vatni svífa yfir jörðinni. (Jobsbók 26:7-9) En Job gerði sér grein fyrir því að þessi undur væru „aðeins ystu takmörk vega hans“, það er að segja skaparans. (Jobsbók 26:14) Eflaust langaði hann til að vita meira um umheiminn. Og Davíð viðurkenndi takmörk sín og skrifaði: „Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.“ — Sálmur 139:6.

Þótt við viðurkennum að til sé skapari er það enginn tálmi í vegi vísindalegra framfara. Leitinni að ítarlegri þekkingu á efnisheiminum og andlegum viðfangsefnum eru engin takmörk sett og hún getur haldið áfram endalaust. Konungur einn, sem er kunnur fyrir víðtæka þekkingu sína, skrifaði endur fyrir löngu: „Jafnvel eilífðina hefir [Guð] lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.“ — Prédikarinn 3:11.

Guð notaður til að „troða upp í götin“?

Sumir andmæla og halda því fram að Guði sé skotið inn án rökstuðnings til að „bjarga málum“ þar sem ekki sé tiltæk trúverðug vísindaleg skýring. Þeir fullyrða með öðrum orðum að hönnuðurinn Guð sé notaður til að „troða upp í götin“ rétt eins og „Guð“ sé töfraorð sem hægt sé að grípa til þegar menn geta ekki fundið skýringar á hlutunum. En hvaða göt skyldu þetta vera? Eru þetta bara óverulegar og lítilvægar eyður í þekkingu okkar? Nei, þetta eru gríðarlegar gloppur í þróunarkenningu Darwins. Þetta eru hyldjúpar gjár sem varða grundvallaratriði líffræðinnar og ekki hefur tekist að brúa með þróunarkenningunni. Væri þá ekki réttara að segja að þróunarsinnar, sem reiða sig á órökstuddar fullyrðingar, noti kenningu Darwins til að „troða upp í götin“?

Skaparinn, sem lýst er í Biblíunni, er ekki notaður til að troða upp í einhver göt heldur nær lýsingin á verkum hans yfir öll stig, alla þætti og öll smáatriði sköpunarverksins. Sálmaskáldið lýsir því hve altækt sköpunarstarf Jehóva sé þegar hann segir: „Þú ert uppspretta alls lífs og vegna ljóss þíns sjáum við ljósið.“ (Sálmur 36:9, Today’s English Version) Honum er vel lýst þegar sagt er að hann hafi gert „himin, jörð og haf og allt, sem í þeim er“. (Postulasagan 4:24; 14:15; 17:24) Kennari einn á fyrstu öld talaði þess vegna um Guð „sem allt hefur skapað“. — Efesusbréfið 3:9.

Enn fremur setti Guð „lög himinsins“ en þar er átt við náttúrulögmálin sem stjórna efni og orku. (Jobsbók 38:33) Vísindamenn eru enn að rannsaka þessi lögmál. Hönnun og handaverk skaparans eru altæk og markviss og ná fullkomlega þeim tilgangi sínum að gera jörðina að bústað ótrúlega fjölbreytts lífríkis.

Hönnun og heilbrigð skynsemi

Að síðustu þurfum við að velta fyrir okkur spurningunni um heilbrigða skynsemi. John Hogan, sem skrifar um vísindi, segir eftirfarandi um gildi vísindalegra kenninga almennt: „Þegar rökin eru óljós ættum við ekki að vera feimin við að nota heilbrigða skynsemi til leiðsagnar.“

Samrýmist það heilbrigðri skynsemi að halda því fram að lífið hafi orðið til af tilviljun einni eða fyrir atbeina blindra afla? Þrátt fyrir vinsældir þróunarkenningarinnar er fjöldi gáfumanna, þeirra á meðal vísindamenn, sannfærður um að til sé viti borinn skapari. Prófessor í lífefnafræði bendir á að almenningur „dragi upp til hópa þá skynsamlegu ályktun að lífið sé hannað“. Af hverju? Flestir taka fúslega undir með Páli postula sem sagði: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum.“ (Hebreabréfið 3:4) Páll dregur síðan rökrétta ályktun af því og segir: „Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ Að sögn Biblíunnar er hreinlega ekki heil brú í því að viðurkenna að hús hljóti að eiga sér hönnuð og byggingarmeistara en fullyrða síðan að gríðarlega flókin fruma hafi orðið til af hreinni tilviljun.

Biblían segir eftirfarandi um þá sem hafna því að til sé hönnuður og skapari: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ‚Guð er ekki til.‘“ (Sálmur 14:1) Hérna ávítar sálmaskáldið þá sem hafa ekki látið sannfærast. Sumir láta kannski eigin skoðanir ráða afstöðu sinni en byggja hana ekki á hlutlægu mati. Vitur og skynsamur maður viðurkennir hins vegar með auðmýkt að til sé skapari. — Jesaja 45:18.

Margt hugsandi fólk er sannfært um að það séu óyggjandi sannanir fyrir því að til sé hönnuður sem er manninum æðri.

Þú getur kynnst hönnuðinum

Ef við lítum svo á að við séum hönnuð er eðlilegt að spyrja af hverju. Hver er tilgangurinn með lífi okkar? Vísindin ein og sér geta ekki gefið fullnægjandi svör við þessum spurningum. Þetta eru engu að síður grundvallarspurningar sem kalla á sannfærandi og fullnægjandi svör. Hér getur Biblían orðið að miklu liði. Hún bendir á að Jehóva sé ekki aðeins skapari lífsins heldur hafi hann líka ákveðinn tilgang með öllu sem hann gerir. Í Biblíunni kemur fram hvaða tilgang Guð hafi haft með því að skapa manninn og það gefur okkur von um bjarta framtíð.

En hver er Jehóva? Hvers konar Guð er hann? Vottar Jehóva hvetja þig til að kynnast hönnuðinum mikla. Þú getur kannað hvað er fólgið í nafni hans og kynnt þér eiginleika hans og samskipti við mannkynið. Í orði hans, Biblíunni, kemur fram hvers vegna við eigum ekki aðeins að dást að frábærri hönnun hans og handaverki heldur einnig að lofa hann sem hönnuð og skapara. — Sálmur 86:12; Opinberunarbókin 4:11.

[Mynd á blaðsíðu 4, 5]

Michelangelo.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Það samræmist sönnum vísindum að trúa á hönnuð.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Fjölbreytni og aðlögunarhæfni vitnar um snjalla hönnun.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fyrst til er hönnun hlýtur að vera til hönnuður.