Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefur þú syndgað gegn heilögum anda?

Hefur þú syndgað gegn heilögum anda?

Hefur þú syndgað gegn heilögum anda?

„Til er synd til dauða.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:16.

1, 2. Hvernig vitum við að hægt er að syndga gegn heilögum anda Guðs?

„SÚ TILFINNING hefur lengi plagað mig að ég hafi syndgað gegn heilögum anda.“ Þetta skrifaði kona í Þýskalandi þótt hún væri þjónn Guðs. Geta kristnir menn syndgað gegn heilögum anda, starfskrafti Guðs?

2 Já, það er hægt að syndga gegn heilögum anda Jehóva. „Hver synd og guðlöstun verður mönnum fyrirgefin, en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið,“ sagði Jesús Kristur. (Matteus 12:31) Við erum vöruð við því að „ef vér syndgum af ásettu ráði, eftir að vér höfum öðlast þekkingu sannleikans, þá er úr því enga fórn að fá fyrir syndirnar, heldur er það óttaleg bið eftir dómi“. (Hebreabréfið 10:26, 27) Og Jóhannes postuli skrifaði: „Til er synd til dauða.“ (1. Jóhannesarbréf 5:16) En er það komið undir þeim sem hefur syndgað alvarlega að ákveða hvort hann hafi drýgt „synd til dauða“?

Þeir sem iðrast fá fyrirgefningu

3. Um hvað gæti það borið vitni ef við erum sárhrygg vegna syndar sem við höfum drýgt?

3 Jehóva fellir lokadóm yfir þeim sem syndga. Að sjálfsögðu þurfum við öll að lúka honum reikning og við getum treyst því að hann gerir alltaf það sem er rétt. (1. Mósebók 18:25; Rómverjabréfið 14:12) Hann sker úr um það hvort við höfum drýgt ófyrirgefanlega synd og getur tekið anda sinn frá okkur. (Sálmur 51:11) En ef við erum sárhrygg vegna syndar sem við höfum drýgt ber það að öllum líkindum merki um sanna iðrun. En hvað er sönn iðrun?

4. (a) Hvað er fólgið í sannri iðrun? (b) Hvaða hughreystingu er að finna í Sálmi 103:10-14?

4 Iðrun felur í sér að breyta viðhorfi sínu til syndar sem við höfum drýgt eða ætluðum að drýgja. Þeir sem iðrast fyllast sorg eða eftirsjá og hverfa frá braut syndarinnar. Ef við höfum syndgað alvarlega en gert okkar ýtrasta til að sýna einlæga iðrun getum við leitað huggunar í orðum sálmaritarans: „Hann [Jehóva] hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum, heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni, svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefir hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefir Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — Sálmur 103:10-14.

5, 6. Hver er kjarninn í 1. Jóhannesarbréfi 3:19-22 og hvað merkja orð postulans?

5 Orð Jóhannesar postula eru einnig mjög hughreystandi: „Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti. Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs. Og hvað sem vér biðjum um fáum vér hjá honum, af því að vér höldum boðorð hans og gjörum það, sem honum er þóknanlegt.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:19-22.

6 Við vitum að „vér erum sannleikans megin“ því að við sýnum bróðurelsku og leggjum ekki í vana okkar að syndga. (Sálmur 119:11) Ef okkur finnst við vera fordæmd ættum við að muna að „Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti“. Jehóva sýnir okkur miskunn því að hann sér að við berum „hræsnislausa bróðurelsku í brjósti“, berjumst gegn syndinni og leggjum okkur fram um að gera vilja hans. (1. Pétursbréf 1:22) Hjartað dæmir okkur ekki ef við treystum Jehóva, sýnum bróðurelsku og gerumst ekki sek um vísvitandi synd. Þá höfum við „djörfung“ til að biðja til Guðs og hann mun svara okkur því að við höldum boðorð hans.

Þeir syndguðu gegn heilögum anda

7. Hvað sker úr um það hvort synd sé ófyrirgefanleg?

7 Hvers konar syndir eru ófyrirgefanlegar? Skoðum nokkur dæmi úr Biblíunni til að svara þessari spurningu. Það ætti að vera okkur til huggunar ef alvarlegar syndir valda okkur enn þá mikilli hugarkvöl þótt við höfum iðrast. Við munum komast að raun um að það er ekki eðli syndarinnar sem sker úr um það hvort hún sé ófyrirgefanleg, heldur er það hvötin að baki syndinni, hjartalag syndarans og hve einbeittur brotavilji hans var.

8. Af hverju má segja að sumir trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld hafi syndgað gegn heilögum anda?

8 Trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld, sem voru harðir andstæðingar Jesú Krists, syndguðu gegn heilögum anda. Þeir sáu að andi Guðs starfaði í Jesú þar sem hann vann kraftaverk Guði til dýrðar. En þessir óvinir Krists fullyrtu að hann fengi kraft sinn frá Satan djöflinum. Jesús sagði að þeir sem guðlöstuðu þannig gegn heilögum anda væru að drýgja synd sem yrði hvorki fyrirgefin „í þessum heimi né í hinum komanda“. — Matteus 12:22-32.

9. Hvað er guðlast og hvað sagði Jesús um það?

9 Guðlast er ærumeiðandi, skaðlegt eða svívirðilegt tal. Heilagur andi kemur frá Guði og því má segja að sá sem tali gegn anda hans sé að tala gegn sjálfum Guði. Sá sem talar þannig án þess að iðrast hlýtur ekki fyrirgefningu. Það sem Jesús sagði um synd af þessu tagi sýnir að hann var að tala um þá sem vinna vísvitandi gegn heilögum anda. Andi Jehóva var að verki í Jesú en andstæðingar hans héldu því fram að máttur hans kæmi frá Satan. Þar af leiðandi voru þeir að guðlasta gegn andanum. Jesús sagði: „Sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.“ — Markús 3:20-29.

10. Hvers vegna sagði Jesús að Júdas væri „sonur glötunarinnar“?

10 Tökum Júdas Ískaríot líka sem dæmi. Hann fór út á óheiðarlega braut og stal úr peningapyngjunni sem honum var falið að gæta. (Jóhannes 12:5, 6) Seinna fór hann til trúarleiðtoga Gyðinga og samdi um að svíkja Jesú fyrir 30 silfurpeninga. Júdas fékk að vísu samviskubit eftir á en hann iðraðist þess aldrei að hafa syndgað af yfirlögðu ráði. Þar af leiðandi á hann ekki skilið að fá upprisu. Jesús kallaði hann því ‚son glötunarinnar‘. — Jóhannes 17:12; Matteus 26:14-16.

Þau syndguðu ekki gegn heilögum anda

11-13. Hvernig syndgaði Davíð konungur með Batsebu og hvers vegna er hughreystandi að sjá hvernig Jehóva tók á málunum?

11 Stundum sækja miklar áhyggjur að kristnum mönnum vegna alvarlegrar syndar, enda þótt þeir hafi þegar játað hana og fengið hjálp frá öldungum safnaðarins. (Jakobsbréfið 5:14) Ef slíkar áhyggjur þjaka okkur er hughreystandi fyrir okkur að skoða dæmi úr Biblíunni um þá sem fengu fyrirgefningu synda sinna.

12 Davíð konungur syndgaði alvarlega með Batsebu, eiginkonu Úría. Þegar Davíð leit niður af húsþaki sínu sá hann þessa fallegu konu baða sig. Hann lét færa hana inn í höllina og hafði kynmök við hana. Seinna, þegar honum var tilkynnt að hún væri ólétt, reyndi hann að hylja yfir hjúskaparbrotið með því að haga málum þannig að Úría, eiginmaður hennar, myndi sofa hjá henni. Þegar það tókst ekki sá hann til þess að Úría yrði drepinn í orrustu. Síðan varð Batseba eiginkona Davíðs og ól honum barn sem dó. — 2. Samúelsbók 11:1-27.

13 Jehóva tók á málum Davíðs og Batsebu. Hann fyrirgaf Davíð og tók greinilega mið af iðrun hans og sáttmálanum um konungdóm sem hann hafði gert við hann. (2. Samúelsbók 7:11-16; 12:7-14) Batseba iðraðist augljóslega því að hún varð þess heiðurs aðnjótandi að verða móðir Salómons konungs og formóðir Jesú Krists. (Matteus 1:1, 6, 16) Ef við höfum syndgað er gott að muna eftir að Jehóva tekur iðrun okkar til greina.

14. Hvað kennir frásagan af Manasse konungi okkur um löngun Guðs til að fyrirgefa?

14 Frásagan af Manasse Júdakonungi sýnir einnig hversu fús Jehóva er til að fyrirgefa. Þessi konungur gerði það sem illt var í augum Jehóva. Hann reisti Baal mörg ölturu, „dýrkaði allan himinsins her“ og reisti jafnvel altari fyrir falsguði í báðum forgörðum musterisins. Hann lét syni sína ganga í gegnum eldinn, ýtti undir spíritisma og varð þess valdandi að íbúar Júda og Jerúsalem „breyttu verr en þær þjóðir, er Drottinn hafði eytt fyrir Ísraelsmönnum“. Viðvaranir frá spámönnum Guðs voru hunsaðar. Að lokum tók Assýríukonungur Manasse höndum. Þegar hann var í haldi iðraðist hann og þrábað til Guðs í auðmýkt. Guð fyrirgaf honum og setti hann aftur í konungsstól í Jerúsalem þar sem hann efldi sanna tilbeiðslu. — 2. Kroníkubók 33:2-17.

15. Hvaða atvik í lífi Péturs postula sýnir að Jehóva fyrirgefur „ríkulega“?

15 Mörgum öldum síðar syndgaði Pétur postuli alvarlega þegar hann afneitaði Jesú. (Markús 14:30, 66-72) En Jehóva fyrirgaf honum „ríkulega“. (Jesaja 55:7) Af hverju? Af því að Pétur iðraðist í einlægni. (Lúkas 22:62) Á hvítasunnunni, 50 dögum seinna, hlaut hann þann heiður að vitna kröftuglega um Jesú. Þetta var skýrt merki um fyrirgefningu Guðs. (Postulasagan 2:14-36) Höfum við einhverja ástæðu til að ætla að Guð sé ekki eins miskunnsamur gagnvart kristnum mönnum nú á dögum sem iðrast einlæglega? Sálmaritarinn söng: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning.“ — Sálmur 130:3, 4.

Við þurfum ekki að óttast

16. Undir hvaða kringumstæðum fyrirgefur Guð okkur?

16 Dæmin hér á undan ættu að draga úr þeim ótta að við höfum syndgað gegn heilögum anda. Þau sýna að Jehóva fyrirgefur iðrandi syndurum. Mestu máli skiptir að ákalla Guð í einlægri bæn. Ef við höfum syndgað getum við beðið um fyrirgefningu á grundvelli lausnarfórnar Jesú Krists, miskunnar Jehóva, ófullkomleika okkar og trúfastrar þjónustu. Við höfum kynnst óverðskuldaðri góðvild Jehóva og getum því leitað fyrirgefningar í trausti þess að hann veiti hana. — Efesusbréfið 1:7.

17. Hvað ættum við að gera ef við höfum syndgað og þurfum á hjálp að halda?

17 Hvað er til ráða ef við höfum syndgað en getum ekki beðið til Guðs því að okkur finnst við hafa skaðað samband okkar við hann? Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðjast fyrir yfir honum. Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.“ — Jakobsbréfið 5:14, 15.

18. Af hverju er ekki gefið að einhver hafi drýgt ófyrirgefanlega synd ef honum er vikið úr söfnuðinum?

18 Jafnvel þótt syndari iðrist ekki strax og honum sé vikið úr söfnuðinum er ekki þar með sagt að synd hans sé ófyrirgefanleg. Páll sagði um andasmurðan mann í Korintu sem hafði syndgað og var vikið úr söfnuðinum: „Nægileg er þeim manni refsing sú, sem hann hefur hlotið af yður allflestum. Því ættuð þér nú öllu heldur að fyrirgefa honum og hugga hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð.“ (2. Korintubréf 2:6-8; 1. Korintubréf 5:1-5) Syndari verður hins vegar að þiggja hjálp safnaðaröldunganna og sýna merki um sanna iðrun til að endurheimta sambandið við Jehóva. Hann þarf að bera „ávexti samboðna iðruninni“. — Lúkas 3:8.

19. Hvað getur hjálpað okkur að vera ‚heilbrigð í trúnni‘?

19 Hvað gæti stuðlað að því að okkur finnist við hafa syndgað gegn heilögum anda? Óhófleg sjálfsgagnrýni, vissar geðraskanir eða slæmt heilsufar gæti átt einhvern þátt í því. Þá getur verið gagnlegt að biðja til Guðs og fá meiri hvíld. Við ættum alls ekki að leyfa Satan að draga úr okkur kjarkinn svo að við hættum að þjóna Guði. Fyrst Jehóva hefur enga þóknun á dauða hins óguðlega vill hann þaðan af síður missa nokkurn af þjónum sínum. Ef við óttumst að við höfum syndgað gegn andanum ættum við að næra okkur af orði Guðs og lesa hughreystandi biblíubækur eins og Sálmana. Við verðum að halda áfram að sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Það hjálpar okkur að vera ‚heilbrigð í trúnni‘ og laus við þær áhyggjur að við höfum drýgt ófyrirgefanlega synd. — Títusarbréfið 2:2.

20. Hvað gæti styrkt sannfæringu fólks um að það hafi ekki syndgað gegn heilögum anda?

20 Þeir sem óttast að hafa syndgað gegn heilögum anda gætu spurt sig: „Hef ég guðlastað gegn andanum? Iðraðist ég syndar minnar í einlægni? Trúi ég á fyrirgefningu Guðs? Er ég fráhvarfsmaður sem hefur hafnað andlega ljósinu?“ Líklega komast þeir að raun um að þeir hafa ekki guðlastað gegn heilögum anda eða gerst fráhvarfsmenn. Þeir eru fullir iðrunar og hafa staðfasta trú á fyrirgefningu Jehóva. Ef þetta er niðurstaðan hafa þeir ekki syndgað gegn heilögum anda Jehóva.

21. Um hvaða spurningar verður rætt í næstu grein?

21 Það er mikil blessun að vera fullviss um að við höfum ekki syndgað gegn heilögum anda. Í næstu grein er fjallað um spurningar sem gætu vaknað í tengslum við þetta efni. Við gætum til dæmis spurt okkur: „Læt ég anda Guðs leiða mig? Birtist ávöxtur andans í lífi mínu?“

Hvert er svarið?

• Hvers vegna má segja að hægt sé að syndga gegn heilögum anda?

• Hvað þýðir það að iðrast?

• Hverjir syndguðu gegn heilögum anda á dögum Jesú?

• Hvernig er hægt að sigrast á þeim ótta að maður hafi drýgt ófyrirgefanlega synd?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Þeir sem sögðu að Jesús hefði unnið kraftaverk í mætti Satans syndguðu gegn heilögum anda Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Pétur drýgði ekki ófyrirgefanlega synd þótt hann hefði afneitað Jesú.