Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á „Gamla Testamentið“ erindi til okkar?

Á „Gamla Testamentið“ erindi til okkar?

Á „Gamla Testamentið“ erindi til okkar?

ÁRIÐ 1786 gaf franskur læknir út bókina Traité d’anatomie et de physiologie (Umfjöllun um líffærafræði og lífeðlisfræði). Hún er talin vera eitt nákvæmasta rit síns tíma um taugalíffærafræði en aðeins örfá eintök eru enn til af henni. Fyrir skömmu seldist eitt þeirra á tæpar tvær milljónir króna! En sennilega myndu fæstir sjúklingar treysta skurðlækni sem færi eftir aldagamalli læknisfræði þessarar bókar. Sögulegt og bókmenntalegt gildi slíkrar heimildar kemur sjúklingum nú á dögum varla að gagni.

Svona hugsa margir um hið svokallaða Gamla testamenti. Þeir kunna að meta frásögn þess af sögu Ísraels og dást að fallegu ljóðunum. En þeir efast um að það sé skynsamlegt að fylgja leiðbeiningum sem eru meira en 2400 ára gamlar. Vísindaleg þekking, viðskipti og jafnvel fjölskyldulíf hefur breyst mikið síðan Biblían var skrifuð. Philip Yancey er fyrrverandi ritstjóri Christianity Today. Hann skrifaði í bók sinni The Bible Jesus Read: „Það er margt í [Gamla testamentinu] sem maður skilur ekki og það sem maður skilur hneykslar nútímamanninn. Af þessum ástæðum og fleirum er Gamla testamentið, sem nær yfir þrjá fjórðu Biblíunnar, sjaldnast lesið.“ Þessi hugsun er ekki ný af nálinni.

Um árið 100, innan við 50 árum eftir dauða Jóhannesar postula, hélt ungur og ríkur maður að nafni Markíon því opinberlega fram að kristnir menn ættu að hafna Gamla testamentinu. Samkvæmt enska sagnfræðingnum Robin Lane Fox sagði Markíon að „‚Guð‘ Gamla testamentisins væri ‚einbeittur barbari‘ sem studdi útlaga og hryðjuverkamenn eins og Davíð Ísraelskonung. Aftur á móti væri Kristur ný og aðskilin ímynd mun æðri Guðs.“ Fox segir að þessi skoðun „hafi kallast ‚Markíonismi‘ og öðlast fylgi langt fram á fjórðu öld, sérstaklega í arameískum hluta Austurlanda.“ Sumar af þessum hugmyndum þrífast enn í dag. Þess vegna skrifaði Philip Yancey meira en 1600 árum síðar: „Þekking á Gamla testamentinu meðal kristinna manna er að fjara út og hefur nánast horfið úr nútímasamfélagi.“

Er Gamla testamentið orðið úrelt? Hvernig er hægt að segja að „Drottinn hersveitanna“ í Gamla testamentinu sé sá sami og „Guð kærleikans og friðarins“ í Nýja testamentinu? (Sálmur 46:8; 2. Korintubréf 13:11) Getum við haft gagn af Gamla testamentinu?