Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að hlýða samviskunni

Að hlýða samviskunni

Að hlýða samviskunni

„Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint.“ — TÍTUSARBRÉFIÐ 1:15.

1. Hvaða afskipti hafði Páll af söfnuðunum á Krít?

EFTIR að Páll postuli hafði farið í þrjár trúboðsferðir var hann handtekinn og að lokum sendur til Rómar þar sem hann var í haldi í tvö ár. Hvað gerði hann þegar honum hafði verið sleppt? Einhvern tíma eftir það heimsótti hann eyna Krít ásamt Títusi. Hann skrifaði honum síðar: „Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga.“ (Títusarbréfið 1:5) Verkefni Títusar fól í sér samskipti við fólk með ólíka samvisku.

2. Hvaða vandamáli þurfti Títus að taka á þegar hann var á eynni Krít?

2 Páll gaf Títusi leiðbeiningar um hæfniskröfur safnaðaröldunga. Síðan sagði hann: „Margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu.“ Þeir ‚kollvörpuðu heilum heimilum er þeir kenndu það sem eigi á að kenna‘. Títus átti að „vanda . . . um við þá“. (Títusarbréfið 1:10-14; 1. Tímóteusarbréf 4:7) Páll sagði að hugur þeirra og samviska væri ‚flekkuð‘ og notaði þar orð sem merkir að lita efni, til dæmis vandaða flík. (Títusarbréfið 1:15) Sumir þessara manna voru hugsanlega af gyðinglegum uppruna því að þeir ‚héldu fram umskurn‘. Söfnuðunum nú á tímum stafar ekki hætta af mönnum sem halda fram þessu ákveðna sjónarmiði en það má samt sem áður læra heilmikið um samviskuna af þeim ráðleggingum sem Títus fékk frá Páli.

Menn með flekkaða samvisku

3. Hvað skrifaði Páll Títusi um samviskuna?

3 Við skulum sjá í hvaða samhengi Páll minnist á samviskuna. „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska. Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum.“ Ljóst er að sumir þeirra þurftu að breyta sér til að verða „heilbrigðir í trúnni“. (Títusarbréfið 1:13, 15, 16) Þeir áttu erfitt með að gera greinarmun á hreinu og óhreinu og þar átti samviskan hlut að máli.

4, 5. Hvað var að hjá sumum í söfnuðunum og hvaða áhrif hafði það á þá?

4 Meira en tíu árum áður hafði hið stjórnandi ráð kristna safnaðarins komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri lengur nauðsynlegt að umskerast til að verða tilbiðjandi hins sanna Guðs, og ráðið hafði tilkynnt söfnuðunum það. (Postulasagan 15:1, 2, 19-29) En sumir Krítverjar ‚héldu enn fram umskurn‘. Þeir andmæltu opinskátt hinu stjórnandi ráði með því að „kenna það, sem eigi á að kenna“. (Títusarbréfið 1:10, 11) Hugsanlegt er að þeir hafi, sökum ranghugmynda sinna, hvatt fólk til að halda ákvæði lögmálsins um mataræði og trúarlegan hreinleika. Vera má að þeir hafi jafnvel aukið við það sem lögmálið sagði, rétt eins og forverar þeirra gerðu á dögum Jesú, og jafnframt aðhyllst mannasetningar og goðsagnir Gyðinga. — Markús 7:2, 3, 5, 15; 1. Tímóteusarbréf 4:3.

5 Þessi hugsunarháttur hafði óæskileg áhrif á dómgreind þeirra og siðferðisvitund, það er að segja samviskuna. Páll skrifaði: „Flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint.“ Samviskan varð svo brengluð að hún var ekki lengur áreiðanlegur mælikvarði á verk þeirra og gildismat. Og síðan dæmdu þeir trúsystkini sín í málum sem voru persónulegs eðlis, málum þar sem einn kristinn maður gat ákveðið eitt en annar tekið ólíka ákvörðun. Þar með voru þessir Krítverjar farnir að telja óhreint það sem var í rauninni hreint. (Rómverjabréfið 14:17; Kólossubréfið 2:16) Þeir sögðust þekkja Guð en verkin sýndu annað. — Títusarbréfið 1:16.

„Hreinum hreinir“

6. Hvaða tvenns konar fólk nefndi Páll?

6 Hvað getum við lært af því sem Páll skrifaði Títusi? Tökum eftir andstæðunum sem hann bregður upp: „Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.“ (Títusarbréfið 1:15) Páll átti auðvitað ekki við það að bókstaflega allt sé hreint og leyfilegt fyrir kristinn mann sem er siðferðilega hreinn. Við getum verið viss um það vegna þess að hann hafði tekið skýrt fram í öðru bréfi að þeir sem stunduðu saurlifnað, skurðgoðadýrkun, spíritisma og fleira myndu „ekki erfa Guðs ríki“. (Galatabréfið 5:19-21) Við hljótum því að álykta að Páll hafi verið að setja fram almenn sannindi um tvenns konar fólk, þá sem eru andlega og siðferðilega hreinir og þá sem eru það ekki.

7. Við hverju er lagt bann í Hebreabréfinu 13:4 en hvaða spurning vaknar?

7 Einlægur kristinn maður þarf ekki einungis að forðast það sem er bannað berum orðum í Biblíunni. Lítum til dæmis á þessi skýru orð: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Jafnvel þeir sem eru ekki kristnir og þeir sem þekkja ekkert til Biblíunnar myndu réttilega álykta að þetta vers leggi bann við hjúskaparbroti. Ljóst er af þessum orðum og öðrum biblíuversum að Guð bannar að giftur maður eða kona hafi kynmök við annan en maka sinn. En hvað um tvo ógifta einstaklinga sem hafa munnmök? Margir unglingar halda því fram að það sé skaðlaust vegna þess að það sé ekki kynmök. Getur kristinn maður litið svo á að munnmök séu hrein?

8. Hvaða afstöðu taka kristnir menn til munnmaka, ólíkt mörgum í heiminum?

8 Af Hebreabréfinu 13:4 og 1. Korintubréfi 6:9 er ljóst að Guð hefur bæði vanþóknun á hórdómi og saurlifnaði sem er einnig nefndur frillulífi (á grísku porneiʹa). Hvað er fólgið í hinu síðarnefnda? Gríska orðið lýsir því að nota kynfærin í lostafullum tilgangi, annaðhvort á eðlilegan eða óeðlilegan hátt. Það nær yfir öll kynmök utan hjónabands. Það nær því einnig yfir munnmök, þó svo að mörgum unglingum víða um heim hafi verið sagt að munnmök séu leyfileg eða þeir hafi sjálfir ályktað svo. Sannkristnir menn láta ekki þá sem „fara með hégómamál og leiða í villu“ stjórna skoðunum sínum og atferli. (Títusarbréfið 1:10) Þeir fylgja hinum háleita mælikvarða sem er að finna í Heilagri ritningu. Þeir reyna ekki að halda því fram að munnmök séu leyfileg. Þeir vita að þau eru í biblíulegum skilningi saurlifnaður (porneiʹa), og þeir þjálfa samviskuna í samræmi við það. * — Postulasagan 21:25; 1. Korintubréf 6:18; Efesusbréfið 5:3.

Ólíkar raddir og ólíkar ákvarðanir

9. Hvert er hlutverk samviskunnar fyrst „allir hlutir eru hreinum hreinir“?

9 En hvað átti Páll við þegar hann sagði: „Allir hlutir eru hreinum hreinir“? Hann vísar hér til kristinna manna sem höfðu lagað hugsun sína og siðferðisvitund að mælikvarða Guðs sem er að finna í innblásnu orði hans. Þeir sem hafa gert það vita að bræður og systur hafa ákveðið svigrúm í málum þar sem ekki liggur fyrir beint bann frá Guði. Þeir gæta þess að vera ekki dómharðir heldur líta svo á að það sem Guð fordæmir ekki sé ‚hreint‘. Þeir ætlast ekki til þess að allir aðrir hugsi nákvæmlega eins og þeir sjálfir í málum þar sem ekki er að finna sérstakar leiðbeiningar í Biblíunni. Lítum á dæmi af þessu tagi.

10. Hvernig gæti brúðkaup (eða útför) skapað vanda?

10 Í mörgum fjölskyldum háttar svo til að annað hjónanna hefur gerst vottur Jehóva en hitt ekki. (1. Pétursbréf 3:1; 4:3) Þetta getur skapað vissan vanda, til dæmis ef brúðkaup eða jarðarför ættingja stendur fyrir dyrum. Lítum á dæmi. Eiginkonan er vottur en maðurinn ekki enn sem komið er. Ættingi hans er að gifta sig og athöfnin á að fara fram í einni af kirkjum kristna heimsins. (Einnig mætti hugsa sér að ættingi, til dæmis foreldri, sé látinn og útförin verði gerð frá kirkju.) Hjónunum er boðið og maðurinn vill að konan komi með. Hvað segir samviska hennar? Hvað á hún að gera? Hugsum okkur tvo möguleika.

11. Hvernig gæti kristin eiginkona hugsað um það að vera viðstödd kirkjulegt brúðkaup og að hvaða niðurstöðu gæti hún komist?

11 María veltir fyrir sér hinum alvarlegu fyrirmælum Biblíunnar að ‚ganga út úr Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 18:2, 4) Hún tilheyrði áður kirkjunni þar sem brúðkaupið á að fara fram og veit að við athöfnina verða allir viðstaddir beðnir að taka þátt í trúarathöfnum, svo sem bæn, söng eða öðru. Hún er staðráðin í að taka ekki þátt í nokkru slíku og vill ekki einu sinni vera viðstödd þar sem hún yrði fyrir þrýstingi að hvika frá ráðvendni sinni. María virðir eiginmann sinn og vill vera samvinnuþýð við hann, enda er hann höfuð hennar samkvæmt Biblíunni. Hún vill samt ekki hvika frá meginreglum Biblíunnar. (Postulasagan 5:29) Hún útskýrir því háttvíslega fyrir honum að hún geti ekki verið viðstödd athöfnina þó að hann ákveði að fara. Hún nefnir kannski að það gæti orðið vandræðalegt fyrir hann ef hún kæmi í kirkjuna en tæki ekki þátt í einhverri trúarathöfn. Í þeim skilningi væri kannski betra fyrir hann að hún yrði ekki viðstödd. Ákvörðun hennar veitir henni hreina samvisku.

12. Hvernig gæti önnur eiginkona hugsað þegar boðið er til kirkjulegs brúðkaups og hvaða ákvörðun gæti hún tekið?

12 Rut stendur nánast í sömu sporum og María. Hún virðir eiginmann sinn, er ákveðin í að vera Guði trú og hlustar á biblíufrædda samvisku sína. Eftir að hafa hugleitt sömu atriði og María fer hún yfir „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. júní 2002 og leggur málið fyrir Jehóva í bæn. Hún hugsar til þess að Hebrearnir þrír hlýddu fyrirmælum um að vera viðstaddir athöfn þar sem skurðgoðadýrkun fór fram en varðveittu samt ráðvendni sína með því að taka ekki þátt í athöfninni. (Daníel 3:15-18) Hún ákveður að fara með manni sínum en taka ekki þátt í neinum trúarathöfnum. Þannig breytir hún í samræmi við samvisku sína. Hún segir eiginmanni sínum skýrt en háttvíslega hvað samviskan leyfi henni að gera og hvað ekki. Hún vonar að hann sjái muninn á sannri tilbeiðslu og falskri. — Postulasagan 24:16.

13. Af hverju þarf það ekki að vera áhyggjuefni að tveir kristnir einstaklingar skuli komast að ólíkri niðurstöðu?

13 Skiptir þá engu máli hvað maður gerir fyrst tveir kristnir einstaklingar geta komist að ólíkri niðurstöðu? Eða hlýtur samviska annars að vera ónæm? Nei. María veit í ljósi fyrri reynslu af tónlistinni og skrautinu, sem fylgir kirkjulegri athöfn, að það væri sérlega varhugarvert fyrir hana að vera viðstödd. Og fyrri samskipti við eiginmanninn vegna trúarlegra mála geta sömuleiðis haft áhrif á viðbrögð samviskunnar. Hún er því sannfærð um að þessi ákvörðun sé henni fyrir bestu.

14. Hvað ættu kristnir menn að hafa í huga varðandi persónulegar ákvarðanir?

14 En er ákvörðun Rutar þá óheppileg? Það er ekki annarra að segja til um það. Þeir ættu ekki að dæma hana eða gagnrýna fyrir að ákveða að vera viðstödd athöfnina án þess að taka þátt í henni. Höfum í huga leiðbeiningar Páls um það hvort fólk megi borða ákveðinn mat eða ekki. Hann sagði: „Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess . . . Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.“ (Rómverjabréfið 14:3, 4) Enginn sannkristinn maður ætti að hvetja annan til að þagga niður í vel þjálfaðri samvisku. Það væri eins og að hunsa rödd sem gæti flutt lífsnauðsynlegan boðskap.

15. Af hverju verðum við að taka tillit til samvisku og tilfinninga annarra?

15 Báðar þessar konur ættu að velta fleiru fyrir sér, meðal annars þeim áhrifum sem þær geta haft á aðra með ákvörðun sinni. Páll ráðleggur: „Ásetjið yður . . . að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.“ (Rómverjabréfið 14:13) María veit kannski um áþekkt dæmi sem olli miklu uppnámi í söfnuðinum eða fjölskyldu hennar og veit að það sem hún gerir getur haft töluverð áhrif á börnin hennar. Rut veit hins vegar af dæmi sem olli engu róti í söfnuðinum eða samfélaginu. Báðar konurnar — og reyndar við öll — ættu að hafa hugfast að vel þjálfuð samviska tekur tillit til annarra. Jesús sagði: „Hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.“ (Matteus 18:6) Ef einhverjum er sama þótt hann hneyksli aðra gæti hann flekkað samvisku sína eins og sumir kristnir menn á Krít.

16. Hvaða breytingum má búast við hjá kristnum manni með tímanum?

16 Kristinn maður ætti að styrkja samband sitt við Guð jafnt og þétt, rétt eins og hann ætti að verða næmari fyrir rödd samviskunnar. Hugsum okkur Stefán sem er nýlega skírður. Samviskan segir honum að forðast óbiblíulegar athafnir sem hann tók þátt í áður, hugsanlega tengdar blóði eða skurðgoðum. (Postulasagan 21:25) Hann forðast nú hvaðeina sem ber minnsta keim af því sem Guð bannar. Hins vegar er hann hissa á því að sumir skuli forðast hluti sem honum þykja í lagi, til dæmis ákveðna sjónvarpsþætti.

17. Lýstu með dæmi hvernig tíminn og sterkara samband við Guð getur haft áhrif á samvisku og ákvarðanir kristins manns.

17 Stefán eykur smám saman við þekkingu sína og styrkir sambandið við Guð. (Kólossubréfið 1:9, 10) Það hefur þau áhrif að rödd samviskunnar þjálfast til muna. Stefán hefur nú sterkari tilhneigingu til að hlusta á samviskuna og vega og meta meginreglur Biblíunnar. Hann gerir sér grein fyrir því að sumt af því sem hann forðaðist áður stangast í rauninni ekki á við sjónarmið Guðs. Og hann er orðinn næmari fyrir meginreglum Biblíunnar og fúsari til að hlýða vel þjálfaðri samvisku sinni. Nú býður samviskan honum að forðast sjónvarpsefni sem honum fannst allt í lagi að horfa á áður. Já, samviska hans hefur þjálfast. — Sálmur 37:31.

18. Yfir hverju getum við glaðst?

18 Í flestum söfnuðum er fólk sem hefur tekið mismiklum þroska á hinni kristnu lífsbraut. Sumir eru nýir í trúnni. Verið getur að samviska þeirra sé næstum þögul í vissum málum en tali háum rómi í öðrum. Þeir þurfa líklega tíma og aðstoð til að samlaga sig handleiðslu Jehóva, þjálfa samvisku sína og verða næmari fyrir rödd hennar. (Efesusbréfið 4:14, 15) En í sömu söfnuðum eru trúlega margir sem búa yfir djúpri þekkingu og reynslu af því að beita meginreglum Biblíunnar og hafa þjálfað samvisku sína í samræmi við sjónarmið Guðs. Það er einstaklega ánægjulegt að umgangast ‚hreint fólk‘ sem lítur svo á að það sem Drottni þóknast sé „hreint“. (Efesusbréfið 5:10) Höfum öll það markmið að ná þeim þroska og varðveita samvisku sem samræmist nákvæmri þekkingu á sannleikanum og leiðir til guðrækni. — Títusarbréfið 1:1.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. mars 1983, bls. 30-31, er að finna efni sem ætlað er hjónum til umhugsunar.

Hvert er svarið?

• Af hverju höfðu sumir kristnir menn á Krít flekkaða samvisku?

• Hvernig stendur á því að tveir kristnir menn geta tekið ólíkar ákvarðanir þótt þeir hafi báðir næma samvisku?

• Hvaða áhrif ætti tíminn að hafa á samvisku okkar?

[Spurningar]

[Kort á blaðsíðu 18]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Sikiley

GRIKKLAND

Krít

LITLA-ASÍA

Kýpur

MIÐJARÐARHAF

[Mynd á blaðsíðu 20]

Tveir kristnir einstaklingar geta tekið ólíkar ákvarðanir við sambærilegar aðstæður.