Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifum tilgangsríku lífi

Lifum tilgangsríku lífi

Lifum tilgangsríku lífi

„Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin!“ — SÁLMUR 150:6.

1. Lýstu tilraunum ungs manns til að lifa innihaldsríku lífi.

„ÉG FÓR í læknisfræði því að ég vildi nota líf mitt til að hjálpa öðrum. Ég hélt líka að staðan og launin, sem fylgdu læknisstarfinu, myndu gera mig hamingjusaman,“ segir Seung Jin, sem ólst upp í Kóreu. * „En ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég sá hvað læknar geta í raun gert lítið til að hjálpa öðrum. Þá lagði ég stund á listnám en listsköpun mín kom öðrum að litlu gagni og mér fannst ég eigingjarn. Því næst sneri ég mér að kennslustörfum en komst fljótt að raun um að ég gæti aðeins kennt fólki staðreyndir en ekki veitt því leiðsögn sem færir hamingju.“ Eins og svo margir vildi Seung Jin lifa tilgangsríku lífi.

2. (a) Hvað þarf til að lífið hafi raunverulegan tilgang? (b) Hvernig vitum við að Guð hafði ákveðinn tilgang með því að skapa manninn?

2 Til að lífið hafi raunverulegan tilgang verðum við að hafa ástæðu til að lifa, ákveðin markmið og skýra lífsstefnu. En er það á valdi manna? Já. Sú staðreynd að við búum yfir gáfum, samvisku og rökhugsun segir okkur að skaparinn hafi haft ákveðna fyrirætlun í huga þegar hann gaf okkur lífið. Það er því rökrétt að álykta að við getum aðeins lifað tilgangsríku lífi með því að lifa í samræmi við fyrirætlun skaparans.

3. Hver er vilji Guðs með okkur?

3 Í Biblíunni kemur fram að vilji Guðs með okkur sé margþættur. Tökum dæmi. Við erum undursamlega sköpuð og það er augljóslega merki um óeigingjarnan kærleika Guðs. (Sálmur 40:6; 139:14) Til að lifa í samræmi við vilja Guðs verðum við því að elska aðra á óeigingjarnan hátt eins og hann gerir. (1. Jóhannesarbréf 4:7-11) Við verðum líka að fylgja leiðsögn Guðs því að það hjálpar okkur að lifa í samræmi við kærleiksríka fyrirætlun hans. — Prédikarinn 12:13; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

4. (a) Hvað þarf til að lífið hafi raunverulegan tilgang? (b) Hvert er verðugasta markmið sem nokkur getur sett sér?

4 Það var líka vilji Guðs að menn byggju í sátt og samlyndi hver við annan og við alla sköpunina. (1. Mósebók 1:26; 2:15) En hvað verðum við að gera til að vera hamingjusöm, finna til öryggis og hafa hugarró? Til að barn sé hamingjusamt og öruggt þarf það að vita að foreldrarnir séu nærri. Til að líf okkar hafi raunverulegan tilgang verðum við að sama skapi að eiga gott samband við föður okkar á himnum. (Hebreabréfið 12:9) Guð gerir okkur kleift að eiga slíkt samband við sig með því að leyfa okkur að nálgast sig og með því að hlusta á bænir okkar. (Jakobsbréfið 4:8; 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15) Ef við ‚göngum með Guði‘ í trú og verðum vinir hans getum við glatt hann og vegsamað. (1. Mósebók 6:9; Orðskviðirnir 23:15, 16; Jakobsbréfið 2:23) Þetta er verðugasta markmið sem nokkur getur sett sér. Sálmaritarinn sagði: „Allt sem andardrátt hefir lofi Drottin!“ — Sálmur 150:6.

Hvert er markmið þitt í lífinu?

5. Af hverju er óviturlegt að láta efnislega hluti ganga fyrir?

5 Guð vill að við hugsum vel um okkur og fjölskyldur okkar. Það felur í sér að annast bæði efnislegar og trúarlegar þarfir. En það þarf að gæta jafnvægis til að hið efnislega skyggi ekki á það sem meira máli skiptir, andlegu málin. (Matteus 4:4; 6:33) Því miður hugsa margir einungis um að safna efnislegum eigum. En það er ekki raunhæft að fullnægja öllum þörfum okkar með efnislegum hlutum. Nýleg könnun meðal milljónamæringa í Asíu leiddi í ljós að margir þeirra eru „óöruggir og áhyggjufullir þótt þeim finnist þeir hafa áorkað einhverju og auðurinn hafi gefið þeim ákveðna stöðu í samfélaginu“. — Prédikarinn 5:11.

6. Hvað sagði Jesús um það að safna sér auði?

6 Jesús talaði um „tál auðæfanna“. (Markús 4:19) En hvernig geta auðæfi tælt okkur? Þau virðast kannski geta gert fólk hamingjusamt en þau gera það ekki. „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum,“ sagði Salómon konungur. (Prédikarinn 5:9) En er hægt að keppa að efnislegum markmiðum og jafnframt þjóna Guði heilshugar? Nei. Jesús sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ Jesús hvatti fylgjendur sína til að safna sér ekki efnislegum auði hér á jörðinni heldur „fjársjóðum á himni“, það er að segja að eiga gott mannorð hjá Guði sem veit hvers við þörfnumst áður en við biðjum hann. — Matteus 6:8, 19-25.

7. Hvernig getum við „höndlað hið sanna líf“?

7 Páll postuli gaf skýrar leiðbeiningar um þessi mál í bréfi til Tímóteusar, samstarfsmanns síns. Hann sagði honum: „Bjóð ríkismönnum . . . [að treysta ekki] fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar. Bjóð þeim að . . . [vera] örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.

Hvað er „hið sanna líf“?

8. (a) Af hverju keppa margir eftir auði og hárri stöðu? (b) Hverju gera þeir sér ekki grein fyrir?

8 Flestir hugsa um vellystingar og munað þegar minnst er á „hið sanna líf“. Í asísku fréttatímariti stóð: „Þeir sem horfa á kvikmyndir eða sjónvarpsþætti fara að þrá það sem þeir sjá og þá fer að dreyma um það sem þeir gætu eignast.“ Margir láta eftirsókn í auð og háa stöðu vera aðalmarkmiðið í lífinu. Þeir fórna æskuárunum, heilsunni, fjölskyldunni og trúnni í þessu kapphlaupi. Fáir gera sér grein fyrir því að sú mynd, sem dregin er upp í fjölmiðlum, endurspeglar „anda heimsins“ — ráðandi hugsunarhátt sem hefur áhrif á meiri hluta mannkyns og fær fólk til að hegða sér í andstöðu við vilja Guðs. (1. Korintubréf 2:12; Efesusbréfið 2:2) Það er ekki að furða að svona margir skuli vera óhamingjusamir nú á dögum. — Orðskviðirnir 18:11; 23:4, 5.

9. Hvað geta menn aldrei gert og hvers vegna ekki?

9 En hvað um þá sem vinna hörðum höndum að því að bæta hag annarra og reyna að uppræta hungur, sjúkdóma og óréttlæti? Göfugt starf þeirra og fórnfýsi kemur oft góðu til leiðar. En þótt þeir leggi sig alla fram geta þeir aldrei breytt þessum heimi þannig að hann verði góður og sanngjarn. Af hverju ekki? Af því að veruleikinn er sá að „allur heimurinn er á valdi hins vonda“ — Satans — og hann vill ekki að heimurinn breytist. — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

10. Hvenær fá trúfastir menn að njóta ‚hins sanna lífs‘?

10 Það er sorglegt ef fólk hefur enga von um annað en þennan núverandi heim. „Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna,“ skrifaði Páll. Þeir sem trúa því að þetta líf sé allt og sumt hugsa sem svo: „Etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ (1. Korintubréf 15:19, 32) En við eigum von um betri framtíð: „Eftir fyrirheiti [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þá geta kristnir menn notið ‚hins sanna lífs‘, það er að segja fullkomins ‚eilífs lífs‘, annaðhvort á himnum eða undir kærleiksríkri stjórn Guðsríkis. — 1. Tímóteusarbréf 6:12.

11. Af hverju gefur það lífi okkar tilgang að vinna að hagsmunum Guðsríkis?

11 Guðsríki er eina stjórnin sem getur leyst öll vandamál manna. Mikilvægasta starfið, sem nokkur maður getur unnið, er því að efla hagsmuni þessa ríkis. (Jóhannes 4:34) Við eignumst dýrmætt samband við föður okkar á himnum þegar við tökum þátt í þessu starfi. Það veitir okkur einnig gleði að vinna með milljónum trúsystkina sem hafa sama markmið í lífinu.

Færum réttu fórnirnar

12. Hver er munurinn á ‚hinu sanna lífi‘ og lífinu í þessum heimi?

12 „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans,“ segir í Biblíunni. Engu í heimi Satans verður hlíft, ekki heldur frægðinni og framanum sem hann býður upp á. „En sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) „Hið sanna líf“ — eilíft líf í ríki Guðs — er varanlegt og er því þess virði að við fórnum einhverju fyrir það, svo framarlega sem við færum réttu fórnirnar. Það er ekki hægt að segja hið sama um fallvaltan auð, stundlega frægð og innantóma skemmtun þessa heims.

13. Hvernig færðu hjón nokkur réttu fórnirnar?

13 Tökum Henry og Suzanne sem dæmi. Þau treysta því loforði Guðs að hann hjálpi öllum sem setja ríki hans framar öðru í lífinu. (Matteus 6:33) Þess vegna ákváðu þau að búa í ódýru húsnæði svo að þau þyrftu ekki bæði að vera útivinnandi og hefðu meiri tíma til að sinna andlegu málunum með dætrum sínum tveimur. (Hebreabréfið 13:15, 16) Ein vinkona þeirra skildi ekki þessa ákvörðun og sagði: „Suzanne mín, ef þú vilt einhvern tíma búa á betri stað verðurðu að fórna einhverju.“ En Henry og Suzanne vissu að ef þau létu Jehóva hafa forgang gæfi það „fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda“. (1. Tímóteusarbréf 4:8; Títusarbréfið 2:12) Báðar dætur þeirra gerðust með tímanum kappsamir boðberar í fullu starfi. Fjölskyldunni finnst hún ekki hafa farið á mis við neitt. Það var þeim hins vegar til góðs að gera „hið sanna líf“ að aðalmarkmiði lífsins. — Filippíbréfið 3:8; 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.

Notið ekki heiminn til fulls

14. Hvað getur gerst ef við missum sjónar á því sem mestu máli skiptir í lífinu?

14 Það er mjög hættulegt að missa sjónar á því sem skiptir mestu máli í lífinu og á ‚hinu sanna lífi‘. Við gætum kafnað undan „áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins“. (Lúkas 8:14) „Áhyggjur þessa lífs“ og óhófleg löngun í efnislega hluti getur gert okkur niðursokkin í þennan heim. (Lúkas 21:34) Því miður hafa sumir látið gróðahyggju heimsins kæfa sig og „villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum“, jafnvel glatað dýrmætu sambandi sínu við Jehóva. Það reyndist þeim dýrkeypt að missa sjónar á ‚eilífa lífinu‘. — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10, 12; Orðskviðirnir 28:20.

15. Hvernig var það fjölskyldu nokkurri til góðs að ‚færa sér heiminn ekki í nyt‘?

15 Páll hvatti þá „sem nota heiminn, [til að vera] eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt“. (1. Korintubréf 7:31) Keith og Bonnie tóku þessar leiðbeiningar til sín. „Ég var að ljúka tannlæknanámi þegar ég gerðist vottur Jehóva,“ segir Keith. „Ég þurfti að taka ákvörðun. Ég gat sinnt mörgum viðskiptavinum og hagnast vel en það hefði komið niður á þjónustu okkar við Guð. Ég ákvað því að taka að mér fáa viðskiptavini svo að ég hefði meiri tíma til að sinna andlegum og tilfinningalegum þörfum fjölskyldunnar, en við hjónin eignuðumst fimm dætur. Þótt við hefðum sjaldan getað lagt peninga til hliðar lærðum við að fara sparlega með fjármuni og við höfðum alltaf það sem við þurftum. Fjölskyldulífið var innilegt og hlýlegt og það ríkti mikil gleði á heimilinu. Að lokum gerðumst við öll boðberar í fullu starfi. Núna eru allar dætur okkar í góðum hjónaböndum og þrjár þeirra hafa eignast börn. Fjölskyldur þeirra eru líka hamingjusamar því þær láta vilja Jehóva hafa forgang í lífinu.“

Setjið vilja Guðs framar öðru

16, 17. Hvaða hæfileikafólk er talað um í Biblíunni en fyrir hvað er þess minnst?

16 Í Biblíunni er bæði að finna frásögur af þeim sem létu vilja Guðs hafa forgang og þeim sem gerðu það ekki. Allir geta lært af þessum fordæmum, óháð aldri, menningu og aðstæðum. (Rómverjabréfið 15:4; 1. Korintubréf 10:6, 11) Nimrod byggði miklar borgir en hann gerði það í andstöðu við vilja Jehóva. (1. Mósebók 10:8, 9) En margir aðrir voru góðar fyrirmyndir eins og dæmin sanna. Móse lét líf sitt ekki snúast um það að halda stöðu sinni sem egypskur hefðarprins. Hann leit á verkefnið, sem Guð gaf honum, sem „meiri auð en fjársjóðu Egyptalands“. (Hebreabréfið 11:26) Læknirinn Lúkas hefur sennilega hjálpað Páli og öðrum þegar þeir þurftu læknis við en hann gerði mest gagn sem trúboði og biblíuritari. Og Páll er ekki þekktur sem lögfróður maður heldur trúboði og „postuli heiðingja“. — Rómverjabréfið 11:13.

17 Við hugsum yfirleitt ekki um Davíð sem herforingja, lagasmið eða ljóðskáld heldur sem mann „eftir [Guðs] hjarta“. (1. Samúelsbók 13:14) Við þekkjum Daníel sem trúfastan spámann Jehóva en ekki embættismann í Babýlon. Við minnumst Esterar sem góðrar fyrirmyndar um hugrekki og trú en ekki drottningar Persaveldis. Við þekkjum Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes sem postula Jesú en ekki fengsæla fiskimenn. Og síðast en ekki síst hugsum við um Jesú sem ‚Krist‘ en ekki ‚smiðinn‘. (Markús 6:3; Matteus 16:16) Allt þetta fólk gerði sér grein fyrir því að óháð hæfileikum sínum, eignum eða stöðu yrði líf þess að snúast um þjónustuna við Guð en ekki veraldlegan starfsframa. Þau vissu að göfugasta og umbunarríkasta verkefni, sem þau gætu sinnt, væri að þjóna Jehóva.

18. Hvernig ákvað ungur kristinn maður að nota líf sitt og hverju gerði hann sér grein fyrir?

18 Seung Jin, sem sagt var frá í byrjun greinarinnar, gerði sér líka grein fyrir þessu. „Í stað þess að helga mig læknisfræði, listum eða kennslustörfum ákvað ég að nota líf mitt í samræmi við það að ég var vígður Guði,“ segir hann. „Ég þjóna nú á svæði þar sem mikil þörf er fyrir biblíukennara og hjálpa fólki að komast á veginn til eilífa lífsins. Ég hélt að það yrði ekki nógu mikil áskorun að vera boðberi í fullu starfi. En líf mitt hefur aldrei verið jafn krefjandi því að nú vinn ég að því að bæta persónuleika minn og hæfni mína til að vinna með fólki af ólíkum uppruna. Ég skil núna að besta lífsstefnan, sem völ er á, er að lifa í samræmi við vilja Jehóva.“

19. Hvernig getum við lifað tilgangsríku lífi?

19 Kristnir menn hafa fengið þekkingu sem veitir líf og von um hjálpræði. (Jóhannes 17:3) Við skulum því ekki láta „náð Guðs, sem [við höfum] þegið, verða til einskis“. (2. Korintubréf 6:1) Notum dýrmæta ævi okkar til að lofa Jehóva. Hjálpum öðrum að öðlast þekkingu sem veitir sanna hamingju núna og eilíft líf í framtíðinni. Þannig sannreynum við orð Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Þá hefur líf okkar raunverulegan tilgang.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

Geturðu útskýrt?

• Hvert er verðugasta markmið sem nokkur getur sett sér?

• Af hverju er óviturlegt að láta líf sitt snúast um efnislega hluti?

• Hvert er „hið sanna líf“ sem Guð lofar?

• Hvernig getum við lifað í samræmi við vilja Guðs?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 15]

Kristnir menn verða að færa réttu fórnirnar.