Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Orð Jehóva bregðast aldrei

Orð Jehóva bregðast aldrei

Orð Jehóva bregðast aldrei

„Ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst.“ — JÓSÚABÓK 23:14.

1. Hver var Jósúa og hvað gerði hann undir lok ævi sinnar?

HANN var kraftmikill og djarfur herforingi, trúfastur og ráðvandur. Hann vann náið með Móse og Jehóva valdi hann til að leiða Ísraelsþjóðina út úr hræðilegri eyðimörk inn í land sem flaut í mjólk og hunangi. Þessi mikilsvirti maður hét Jósúa. Undir lok ævi sinnar flutti hann öldungum Ísraels hrífandi kveðjuræðu. Ræða hans hefur án efa styrkt trú þeirra sem á hlýddu. Hún getur líka styrkt okkur.

2, 3. Hvernig var ástandið í Ísrael þegar Jósúa ávarpaði öldungana og hvað sagði hann?

2 Sjáðu fyrir þér þessar aðstæður eins og þeim er lýst í Biblíunni: „Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri, þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: ‚Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn.‘“ — Jósúabók 23:1, 2.

3 Jósúa var að verða 110 ára og hafði lifað mjög spennandi tíma í sögu þjóðar Guðs. Hann hafði orðið vitni að máttarverkum Guðs og séð mörg af loforðum hans uppfyllast. Hann gat því talað af eigin reynslu og sagt með sannfæringu: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ — Jósúabók 23:14.

4. Hverju lofaði Jehóva Ísraelsmönnum?

4 Hvaða fyrirheit Jehóva rættust á dögum Jósúa? Við skulum skoða þrjú loforð sem hann gaf Ísraelsmönnum. Í fyrsta lagi ætlaði hann að frelsa þá úr ánauð, í öðru lagi að vernda þá og í þriðja lagi að annast þá. Jehóva hefur gefið þjónum sínum nú á dögum svipuð fyrirheit, og við höfum séð þau rætast. Áður en við fjöllum um það sem Jehóva hefur gert nú á dögum skulum við skoða það sem hann gerði á dögum Jósúa.

Jehóva frelsar þjóð sína

5, 6. Hvernig frelsaði Jehóva Ísraelsmenn úr Egyptalandi og hvað sýndi það fram á?

5 Þegar Ísraelsmenn kveinuðu undan þrælkuninni í Egyptalandi heyrði Jehóva kvartanir þeirra. (2. Mósebók 2:23-25) Við runnann logandi sagði hann Móse: „Ég er ofan farinn til að frelsa [þjóð mína] af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi.“ (2. Mósebók 3:8) Það hlýtur að hafa verið mjög spennandi að sjá Jehóva koma þessu til leiðar. Þegar faraó vildi ekki leyfa Ísraelsmönnum að fara frá Egyptalandi tilkynnti Móse honum að Guð myndi breyta vatni Nílar í blóð. Orð Jehóva brugðust ekki. Vatnið í Níl breyttist í blóð. Fiskurinn dó og vatnið varð óhæft til drykkjar. (2. Mósebók 7:14-21) Faraó þrjóskaðist við og Jehóva lét níu plágur til viðbótar ganga yfir landið og lýsti hverri þeirra fyrir fram. (2. Mósebók kaflar 8-12) En eftir að frumburðir Egypta dóu í tíundu plágunni skipaði faraó Ísraelsmönnum að fara, og það gerðu þeir. — 2. Mósebók 12:29-32.

6 Eftir að Jehóva hafði frelsað Ísraelsmenn með þessum hætti útvaldi hann þá sem þjóð sína. Frelsunin sýndi fram á að Jehóva stendur við loforð sín og að orð hans bregðast aldrei. Það var deginum ljósara að Jehóva var æðri guðum þjóðanna. Trú okkar styrkist þegar við lesum um frelsun Ísraelsmanna. Ímyndaðu þér hvernig það hlýtur að hafa verið að upplifa þessa frelsun. Jósúa sá skýrt að Jehóva var „Hinn hæsti yfir allri jörðunni“. — Sálmur 83:19.

Jehóva verndar þjóð sína

7. Hvernig verndaði Jehóva Ísraelsmenn gegn her faraós?

7 Hvað um annað loforð Jehóva, að vernda þjóð sína? Það var innifalið í fyrirheitinu um að frelsa þá úr Egyptalandi og leiða inn í fyrirheitna landið. Við munum eftir að faraó varð æfur af reiði og elti Ísraelsmenn með öflugum her og hundruðum stríðsvagna. Þessi hrokafulli maður hlýtur að hafa verið sigurviss, ekki síst þegar Ísraelsmenn virtust vera í sjálfheldu milli fjallanna og hafsins. En Guð skarst í leikinn og verndaði þjóð sína með því að setja ský á milli hennar og Egypta. Þá varð myrkur hjá Egyptum en bjart hjá Ísraelsmönnum. Á meðan skýið tafði fyrir Egyptum lyfti Móse staf sínum og Rauðahafið klofnaði í tvennt. Þarna myndaðist undankomuleið fyrir Ísraelsmenn en gildra fyrir Egypta. Jehóva gereyddi öflugum her faraós og kom í veg fyrir að þjóð sín biði ósigur. — 2. Mósebók 14:19-28.

8. Hvaða verndar nutu Ísraelsmenn (a) í eyðimörkinni og (b) þegar þeir fóru inn í fyrirheitna landið?

8 Eftir að Ísraelsmenn fóru yfir Rauðahafið reikuðu þeir um „eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi“. (5. Mósebók 8:15) Jehóva verndaði fólk sitt líka þar. Og hvað um för þeirra inn í fyrirheitna landið? Öflugir herir Kanverja stóðu gegn þeim. En Jehóva sagði við Jósúa: „Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð, inn í landið, sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum. Enginn mun standast fyrir þér alla ævidaga þína. Svo sem ég var með Móse, svo mun ég og með þér vera. Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Jósúabók 1:2, 5) Þessi orð Jehóva brugðust ekki. Á innan við sex árum sigraði Jósúa 31 konung og lagði undir sig stóran hluta fyrirheitna landsins. (Jósúabók 12:7-24) Þetta hefði verið ógerlegt án verndar Jehóva.

Jehóva annast þjóð sína

9, 10. Hvernig annaðist Jehóva þjóð sína í eyðimörkinni?

9 Lítum nú á þriðja loforð Jehóva, að annast þjóð sína. Stuttu eftir frelsun Ísraelsmanna úr Egyptalandi lofaði Guð þeim: „Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn.“ Og það stóðst, Guð gaf þeim ‚brauð af himni‘. „Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: ‚Hvað er þetta?‘“ Þetta var manna, brauðið sem Jehóva hafði lofað þeim. — 2. Mósebók 16:4, 13-15.

10 Jehóva annaðist Ísraelsmenn í 40 ár í eyðimörkinni og sá þeim fyrir mat og vatni. Hann sá jafnvel til þess að föt þeirra slitnuðu ekki og að fætur þeirra þrútnuðu ekki. (5. Mósebók 8:3, 4) Jósúa varð vitni að öllu þessu. Jehóva frelsaði þjóð sína, verndaði hana og annaðist eins og hann hafði lofað.

Jehóva frelsar nú á dögum

11. Hvað gerðist í Brooklyn í New York árið 1914 og hvaða tími var runninn upp?

11 Hvað með okkar daga? Föstudagsmorguninn 2. október 1914 gekk Charles Taze Russell inn í matsalinn á Betel í Brooklyn í New York, en Russell fór með forystu meðal Biblíunemendanna á þeim tíma. „Góðan daginn öllsömul,“ sagði hann glaðlega. Síðan tilkynnti hann áður en hann fékk sér sæti: „Tímar heiðingjanna eru á enda, konungar þeirra hafa runnið sitt skeið.“ Enn á ný var kominn sá tími að Jehóva, Drottinn alheims, léti til sín taka í þágu þjóna sinna. Og það gerði hann.

12. Hvaða frelsun átti sér stað árið 1919 og hvað gerðist í framhaldi af því?

12 Fimm árum síðar frelsaði Jehóva þjóna sína frá ‚Babýlon hinni miklu‘, heimsveldi falstrúarbragða. (Opinberunarbókin 18:2) Fá okkar eru nógu gömul til að hafa orðið vitni að þessari stórkostlegu frelsun. En afleiðingarnar eru augljósar. Jehóva endurreisti sanna tilbeiðslu og sameinaði þá sem þráðu að tilbiðja hann. Jesaja spámaður hafði sagt þetta fyrir: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.“ — Jesaja 2:2.

13. Hvaða aukningu hefur þú séð meðal þjóna Jehóva?

13 Orð Jesaja rættust. Árið 1919 hófu þeir sem eftir voru af hinum andasmurðu alþjóðlega boðunarherferð sem upphóf tilbeiðsluna á hinum sanna Guði. Á fjórða áratug síðustu aldar mátti augljóslega sjá að verið var að safna saman ‚öðrum sauðum‘. (Jóhannes 10:16) Fyrst tóku þúsundir afstöðu með sannri tilbeiðslu, síðan hundruð þúsunda og loks milljónir. Í sýn, sem Jóhannes postuli sá, eru þeir kallaðir „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“. (Opinberunarbókin 7:9) Hvaða þróun hefur þú orðið vitni að? Hversu margir voru vottar Jehóva þegar þú kynntist sannleikanum? Núna eru þeir fleiri en 6,7 milljónir. Jehóva gerði mögulega þá miklu aukningu sem við sjáum um allan heim með því að frelsa fólk sitt frá Babýlon hinni miklu.

14. Hvernig á Jehóva eftir að frelsa þjóna sína?

14 Jehóva á líka eftir að frelsa þjóna sína á annan hátt og það mun snerta alla jarðarbúa. Hann mun vinna stórkostlegt máttarverk þegar hann sópar burt öllum sem standa gegn honum og leiðir fólk sitt inn í nýjan heim þar sem réttlæti býr. Það verður unaðslegt að sjá allt hið illa líða undir lok og upp renna stórfenglegustu tíma mannkynssögunnar. — Opinberunarbókin 21:1-4.

Jehóva verndar á okkar dögum

15. Af hverju hefur Jehóva þurft að vernda þjóna sína nú á dögum?

15 Eins og við höfum séð þurftu Ísraelsmenn á dögum Jósúa á vernd Jehóva að halda. Er annað uppi á teningnum núna? Nei, Jesús sagði við fylgjendur sína: „Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ (Matteus 24:9) Á liðnum árum hafa vottar Jehóva í mörgum löndum orðið fyrir grimmilegri andstöðu og hatrömmum ofsóknum. En Jehóva hefur verið með þjónum sínum. (Rómverjabréfið 8:31) Í orði hans erum við fullvissuð um að ekkert fái stöðvað prédikunar- og kennslustarfið. Þar segir: „Engin vopn, sem smíðuð verða móti þér, skulu verða sigurvænleg.“ — Jesaja 54:17.

16. Hvaða sannanir eru fyrir því að Jehóva verndi þjóna sína?

16 Þrátt fyrir hatur heimsins hefur þjónum Jehóva fjölgað. Þeir starfa nú í 236 löndum. Þetta eru sterk rök fyrir því að Jehóva sé með þjónum sínum og verndi þá gegn þeim sem vilja útrýma þeim eða þagga niður í þeim. Geturðu nefnt volduga stjórnmála- eða trúarleiðtoga sem hafa kúgað fólk Guðs á æviskeiði þínu? Hvað hefur orðið um þá? Hvar eru þeir núna? Flestir eru horfnir af sjónarsviðinu alveg eins og faraó á dögum Móse og Jósúa. Og hvað um þjóna Guðs sem hafa dáið trúfastir á okkar dögum? Þeir eru varðveittir í minni Jehóva. Öruggari staður er ekki til. Jehóva hefur greinilega staðið við loforð sitt um að vernda okkur.

Jehóva annast þjóna sína núna

17. Hverju lofaði Jehóva í sambandi við andlega fæðu?

17 Jehóva annaðist þjóna sína í eyðimörkinni og hann annast þá líka núna. Við fáum andlega fæðu frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘. (Matteus 24:45) Við fáum þekkingu á andlegum sannindum sem haldið var leyndum um aldaraðir. Engill sagði við Daníel: „Halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður. Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ — Daníel 12:4.

18. Af hverju má segja að þekkingin á Guði hafi vaxið nú á dögum?

18 Við lifum núna nálægt endalokunum og þekkingin hefur vaxið til muna. Heilagur andi hefur veitt unnendum sannleikans um allan heim nákvæma þekkingu á hinum sanna Guði og vilja hans. Biblían er víðast hvar fáanleg og nóg er til af ritum sem hjálpa fólki að skilja þau dýrmætu sannindi sem hún hefur að geyma. Tökum sem dæmi efnisyfirlitið í námsbókinni Hvað kennir Biblían? * Þar eru meðal annars kaflarnir „Hver er sannleikurinn um Guð?“, „Hvar eru hinir dánu?“, „Hvað er Guðsríki?“ og „Af hverju leyfir Guð þjáningar?“ Menn hafa velt slíkum spurningum fyrir sér um þúsundir ára. Núna liggja svörin fyrir. Þrátt fyrir aldalangt þekkingarleysi og fráhvarfskenningar kristna heimsins hefur orð Guðs haldið velli og það styrkir alla sem þrá að þjóna honum.

19. Hvaða loforð hefurðu séð uppfyllast og að hvaða niðurstöðu hefurðu komist?

19 Miðað við það sem við höfum séð með eigin augum getum við með sanni sagt: „Ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ (Jósúabók 23:14) Jehóva frelsar þjóna sína, verndar þá og annast. Geturðu nefnt eitthvað sem hann lofaði en rættist ekki á tilætluðum tíma? Það er ekki hægt. Það er því viturlegt af okkur að treysta hinu áreiðanlega orði Guðs.

20. Af hverju getum við horft örugg til framtíðar?

20 En hvað um framtíðina? Jehóva hefur sagt okkur að við getum flest vonast til þess að lifa á jörð sem hefur verið breytt í fagra paradís. Fáeinir eiga hins vegar von um að ríkja með Kristi á himnum. En hvaða von sem við berum í brjósti höfum við fulla ástæðu til að vera trúföst eins og Jósúa. Sá dagur mun koma þegar von okkar rætist. Þá getum við horft um öxl til þeirra fyrirheita sem Jehóva hefur gefið og við getum sagt: „Öll hafa þau rætst.“

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Gefin út af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýrt?

• Hvaða loforð Jehóva sá Jósúa rætast?

• Hvaða loforð Guðs hefur þú séð rætast?

• Hverju getum við treyst varðandi orð Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Jehóva skarst í leikinn og frelsaði fólk sitt.

[Mynd á blaðsíðu 4]

Hvernig verndaði Jehóva fólk sitt við Rauðahafið?

[Mynd á blaðsíðu 5]

Hvernig annaðist Jehóva þjóð sína í eyðimörkinni?

[Myndir á blaðsíðu 6]

Jehóva annast fólk sitt nú á dögum.