Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Rannsökum „djúp Guðs“

Rannsökum „djúp Guðs“

Rannsökum „djúp Guðs“

„Andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.“ — 1. KORINTUBRÉF 2:10.

1. Hvaða biblíusannindi gleðja nýja biblíunemendur?

FLEST okkar muna hve ánægjulegt það var að kynnast sannleikanum. Við lærðum hvers vegna nafn Guðs er mikilvægt, af hverju hann leyfir þjáningar, hvers vegna sumir fara til himna og hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir trúfasta menn. Ef til vill höfðum við kynnt okkur Biblíuna áður, en þessi sannindi voru okkur hulin eins og flestum öðrum. Við vorum eins og maður sem reynir að sjá kóralrif í gegnum sjóinn. Hann sér ekki mikið af fegurðinni undir sjávarborðinu án þess að hafa réttan búnað. En þegar hann setur upp kafaragleraugu eða fer um borð í bát með glerbotni sér hann í fyrsta skipti litríka kóralla, fiska, sæfífla og önnur heillandi dýr. Þannig var það líka þegar við fengum hjálp til að skilja Biblíuna. Þá sáum við í fyrsta sinn „djúp Guðs“. — 1. Korintubréf 2:8-10.

2. Af hverju getur það alltaf veitt okkur gleði að afla okkur þekkingar á orði Guðs?

2 Ættum við að láta okkur nægja að hafa aðeins yfirborðsþekkingu á sannindum Biblíunnar? Orðalagið „djúp Guðs“ felur í sér skilning á visku Guðs sem heilagur andi opinberar kristnum mönnum, en þessi þekking er öðrum hulin. (1. Korintubréf 2:7) Viska Jehóva er ótakmörkuð og við getum haft mikla gleði af því að rannsaka vegi hans. Við munum aldrei vita allt sem hægt er að vita um visku Guðs. En ef við höldum stöðuglega áfram að rannsaka „djúp Guðs“ getum við viðhaldið gleðinni sem við öðluðumst fyrst þegar við kynntumst grundvallarkenningum Biblíunnar.

3. Hvers vegna verðum við að þekkja rökin fyrir trúarskoðunum okkar?

3 Af hverju verðum við að skilja „djúp Guðs“? Það styrkir trú okkar og traust að vita ekki aðeins hverju við trúum heldur líka hvers vegna við trúum því, það er að segja rökin fyrir trúarskoðunum okkar. Í Biblíunni erum við hvött til að nota ‚skynsemina‘ og „reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“. (Rómverjabréfið 12:1, 2, Biblían 1912) Við fáum styrk til að hlýða Jehóva ef við skiljum hvers vegna hann biður okkur að fylgja ákveðinni lífsstefnu. Þekking á ‚djúpi Guðs‘ getur gert okkur ‚kostgæfin til góðra verka‘ og veitt okkur styrk til að láta ekki undan þeirri freistingu að brjóta lög hans. — Títusarbréfið 2:14.

4. Hvað er fólgið í biblíunámi?

4 Við verðum að vera dugleg við biblíunám til að skilja djúp sannindi. En það er ekki nóg að lesa eitthvað yfirborðslega. Við verðum að brjóta efnið til mergjar og bera það saman við fyrri vitneskju. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Við verðum að taka eftir röksemdum fyrir því sem haldið er fram. Biblíunám felur í sér að hugleiða hvernig við getum nýtt okkur það sem við lærum til að taka viturlegar ákvarðanir og hjálpa öðrum. Og þar sem „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm“ ættum við að rannsaka hvert orð „sem fram gengur af Guðs munni“. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17; Matteus 4:4) Biblíunám er vinna. En það getur líka verið ánægjulegt og það er ekki of erfitt að skilja „djúp Guðs“.

Jehóva veitir auðmjúkum skilning

5. Hverjir geta skilið „djúp Guðs“?

5 Jafnvel þótt þér hafi ekki gengið sem best í skóla og þú sért ekki vanur miklu námi ættirðu ekki að halda að „djúp Guðs“ sé ofvaxið skilningi þínum. Þegar Jesús þjónaði hér á jörð opinberaði Jehóva ekki spekingum og hyggindamönnum fyrirætlun sína heldur ólærðum leikmönnum sem voru nógu auðmjúkir til að láta þjón Guðs kenna sér. Þeir voru eins og börn í samanburði við þá sem höfðu hlotið menntun í skólum þess tíma. (Matteus 11:25; Postulasagan 4:13) Í einu af bréfum Páls postula til trúsystkina sinna talaði hann um „allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann“ og sagði: „Oss hefur Guð opinberað [það] fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.“ — 1. Korintubréf 2:9, 10.

6. Hvað þýða orðin í 1. Korintubréfi 2:10?

6 Hvernig „rannsakar [andinn] allt, jafnvel djúp Guðs“? Jehóva opinberar ekki sannleikann fyrir hverjum sannkristnum manni sem einstaklingi heldur notar hann heilagan anda til að leiða söfnuð sinn. Þannig fær sameinaður söfnuður hans skilning á Biblíunni. (Postulasagan 20:28; Efesusbréfið 4:3-6) Svipaðri biblíufræðsludagskrá er fylgt um allan heim. Á nokkrum árum er farið yfir allt sem Biblían kennir. Heilagur andi starfar fyrir milligöngu safnaðarins og hjálpar fólki að þroska með sér það viðhorf sem þarf til að skilja „djúp Guðs“. — Postulasagan 5:32.

Hvað er fólgið í ‚djúpi Guðs‘?

7. Hvers vegna skilja fáir „djúp Guðs“?

7 Það þarf ekki endilega að vera erfitt að skilja „djúp Guðs“. Þekking á ‚djúpi Guðs‘ er flestum hulin. En það er ekki vegna þess að það sé of erfitt að afla sér visku Guðs heldur vegna þess að Satan blekkir fólk og fær það til að hafna þeirri hjálp sem Jehóva veitir fyrir milligöngu safnaðar síns. — 2. Korintubréf 4:3, 4.

8. Um hvaða djúp Guðs talar Páll í þriðja kafla Efesusbréfsins?

8 Í þriðja kafla Efesusbréfsins bendir Páll á að „djúp Guðs“ feli í sér mörg sannindi sem langflestir þjónar Jehóva skilja mjög vel eins og hver sé hið fyrirheitna sæði, útvalningu manna með himneska von og Messíasarríkið. Páll skrifaði: „[Leyndardómur Krists] var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum: Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú . . . orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.“ Páll sagði að sér hefði verið falið að „upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði.“ — Efesusbréfið 3:5-9.

9. Hvers vegna er mikill heiður að skilja „djúp Guðs“?

9 Í framhaldinu sagði Páll að vilji Guðs væri sá að „hin margháttaða speki [hans] skyldi nú af söfnuðinum kunngjörð verða . . . í himinhæðum“. (Efesusbréfið 3:10, Biblían 1912) Englar njóta góðs af því að fylgjast með samskiptum Jehóva við kristna söfnuðinn og kynnast þannig betur visku hans. Það er mikill heiður fyrir okkur að skilja jafnvel það sem englana fýsir að vita. (1. Pétursbréf 1:10-12) Næst segir Páll að við ættum að fá „ásamt öllum heilögum skilið, hve [sannleikurinn] er víður og langur, hár og djúpur“. (Efesusbréfið 3:11, 18) Skoðum nú nokkur dæmi um djúp sannindi sem gætu aukið skilning okkar.

Dæmi um „djúp Guðs“

10, 11. Hvenær varð Jesús aðalsæði himneskrar ‚konu‘ Guðs samkvæmt Biblíunni?

10 Við vitum að Jesús er aðalsæði hinnar himnesku ‚konu‘ Guðs sem nefnd er í 1. Mósebók 3:15. Til að dýpka skilning okkar gætum við spurt: Hvenær varð Jesús hið fyrirheitna sæði? Var það einhvern tíma á himnum áður en hann varð maður, þegar hann fæddist hér á jörð, þegar hann lét skírast eða þegar hann var reistur upp?

11 Konan í spádóminum táknar himneskan hluta alheimssafnaðar Guðs. Hann hafði lofað því að þessi kona myndi geta af sér sæði sem myndi merja höfuð höggormsins. En þúsundir ára liðu án þess að hún gæti af sér nokkurt sæði sem væri fært um að gera að engu Satan og verk hans. Þess vegna er sagt í spádómi Jesaja að hún sé „óbyrja“ og ‚harmþrungin‘. (Jesaja 54:1, 5, 6) En að lokum fæddist Jesús í Betlehem. Það var samt ekki fyrr en eftir skírn hans, þegar hann var smurður með heilögum anda og getinn sem andlegur sonur Guðs, að Jehóva lýsti yfir: „Þessi er minn elskaði sonur.“ (Matteus 3:17; Jóhannes 3:3) Aðalsæði „konunnar“ var loksins komið fram. Síðar voru fylgjendur Jesú líka smurðir og getnir af heilögum anda. ‚Konu‘ Jehóva hafði lengi liðið eins og ‚óbyrju, sem ekki hafði fætt‘ en nú gat hún loks ‚fagnað‘. — Jesaja 54:1; Galatabréfið 3:29.

12, 13. Hvaða ritningarstaðir sýna fram á að allir andasmurðir kristnir menn á jörðinni mynda hinn ‚trúa og hyggna þjón‘?

12 Annað dæmi um djúp sannindi, sem okkur hafa verið opinberuð, tengist þeirri fyrirætlun Guðs að velja 144.000 úr hópi manna. (Opinberunarbókin 14:1, 4) Við trúum að allir andasmurðir menn á jörðinni á hverjum tíma séu hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem Jesús sagði að myndi veita hjúunum „mat“ á réttum tíma. (Matteus 24:45) Hvaða ritningarstaðir sýna fram á að þessi skilningur sé réttur? Gæti Jesús hafa verið að tala almennt um hvern þann kristinn mann sem veitir bræðrum sínum uppbyggjandi andlega fæðu?

13 Guð sagði við Ísraelsþjóðina: „Þér eruð mínir vottar, . . . og minn þjónn, sem ég hefi útvalið.“ (Jesaja 43:10) En 11. nísan árið 33 tilkynnti Jesús leiðtogum Ísraels að Guð hefði hafnað þjóðinni og áliti hana ekki lengur þjón sinn. Hann sagði: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ Jesús sagði við mannfjöldann: „Hús yðar verður í eyði látið.“ (Matteus 21:43; 23:38) Þegar Ísraelsmenn voru þjónn Jehóva voru þeir hvorki trúir né hyggnir. (Jesaja 29:13, 14) Seinna þennan sama dag þegar Jesús spurði: „Hver er sá trúi og hyggni þjónn?“ var hann í raun að spyrja: „Hvaða hyggna þjóð verður trúr þjónn Guðs í staðinn fyrir Ísraelsþjóðina?“ Pétur postuli svaraði þessari spurningu þegar hann sagði söfnuði andasmurðra kristinna manna: „Þér eruð . . . ‚heilög þjóð, eignarlýður‘.“ (1. Pétursbréf 1:4; 2:9) Þessi andlega þjóð, „Ísrael Guðs“, varð nýr þjónn Jehóva. (Galatabréfið 6:16) Allir sem tilheyrðu Ísraelsþjóðinni til forna mynduðu einn „þjón“ og á sama hátt mynda allir andasmurðir kristnir menn á jörðinni á hverjum tíma einn ‚trúan og hygginn þjón‘. Það er mikill heiður fyrir okkur að fá „mat“ frá þjóni Guðs.

Sjálfsnám getur verið ánægjulegt

14. Hvers vegna er ítarlegt biblíunám ánægjulegra en yfirborðslegur lestur?

14 Verðum við ekki ánægð og finnst okkur ekki trústyrkjandi að fá nýjan skilning á sannindum Biblíunnar? Þess vegna getur ítarlegt biblíunám verið mun ánægjulegra en yfirborðslegur lestur. Þegar þú lest ritin okkar skaltu því spyrja þig: Hvernig samræmist þessi útskýring fyrri skilningi mínum á sama efni? Hvaða fleiri ritningarstaðir eða röksemdir koma upp í hugann sem styðja enn frekar þær niðurstöður sem settar eru fram í greininni? Ef þörf er á nánari athugun skaltu skrifa hjá þér spurninguna sem þú vilt fá svar við og rannsaka hana við tækifæri.

15. Hvaða rannsóknarverkefni geta verið ánægjuleg og hvernig geta þau verið til góðs?

15 Hvaða rannsóknarverkefni gætu veitt þér nýja innsýn? Til dæmis væri mjög fróðlegt að rannsaka ítarlega hina ýmsu sáttmála sem Guð hefur gert við mennina þeim til blessunar. Það styrkir trú þína að rannsaka spádómana um Jesú Krist eða fara vers fyrir vers yfir einhverja af spádómsbókum Biblíunnar. Það er líka trústyrkjandi að fara yfir nútímasögu Votta Jehóva með hjálp bókarinnar Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom ef hún er fáanleg á tungumáli sem þú getur lesið þér að gagni. * Og með því að rifja upp spurningar frá lesendum sem birst hafa í Varðturninum færðu örugglega skýrari skilning á vissum biblíuversum. Vertu sérstaklega vakandi fyrir þeim biblíulegu rökum sem færð eru fyrir niðurstöðunum. Það mun hjálpa þér að þjálfa „skilningarvitin“ og þroska dómgreindina. (Hebreabréfið 5:14) Á meðan þú rannsakar ákveðið efni skaltu skrifa niður minnispunkta, annaðhvort í eigin biblíu eða á blað svo að efnið nýtist þér til frambúðar og þú getir notað það til að hjálpa öðrum.

Gerum biblíunám ánægjulegt fyrir börnin

16. Hvernig geturðu gert biblíunám ánægjulegt fyrir börnin?

16 Foreldrar geta gert margt til að örva andlega matarlyst barna sinna. Vanmettu ekki hæfni þeirra til að skilja djúpstæð sannindi. Ef þú úthlutar þeim viðfangsefni til að rannsaka fyrir biblíunám fjölskyldunnar geturðu síðan spurt þau út úr. Biblíunámsstundina má líka nota til að æfa börnin í að verja trú sína og færa rök fyrir því að það sem þeim hefur verið kennt sé sannleikur. Auk þess geturðu notað bæklinginn „See the Good Land“ * til að kenna þeim landafræði Biblíunnar og til að útskýra nánar það sem fram kemur í biblíulestri vikunnar.

17. Hvers vegna verðum við að gæta jafnvægis þegar við rannsökum viðbótarefni?

17 Það getur verið mjög ánægjulegt og trústyrkjandi að rannsaka viðbótarefni. En við verðum að gæta þess að verða ekki svo upptekin af því að það skyggi á undirbúning fyrir safnaðarsamkomur. Samkomurnar eru önnur leið sem Jehóva notar til að kenna okkur fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns‘. Þegar við rannsökum viðbótarefni getur það hins vegar gert okkur kleift að gefa innihaldsrík svör á samkomum, meðal annars í bóknáminu eða þegar farið er yfir höfuðþætti biblíulesefnisins í Boðunarskólanum.

18. Hvers vegna er það ómaksins vert að rannsaka „djúp Guðs“?

18 Ítarlegt sjálfsnám í Biblíunni getur fært þig nær Jehóva. Í orði Guðs er bent á gagnið sem hlýst af slíku námi: „Spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.“ (Prédikarinn 7:12) Það er þess virði að leggja á sig vinnu til að dýpka skilninginn á andlegum sannindum. Biblían lofar að þeir sem halda áfram að rannsaka muni „öðlast þekking á Guði“. — Orðskviðirnir 2:4, 5.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Gefin út af Vottum Jehóva.

^ gr. 16 Gefinn út af Vottum Jehóva.

Geturðu útskýrt?

• Hvað er fólgið í ‚djúpi Guðs‘?

• Hvers vegna ættum við aldrei að hætta að rannsaka djúp sannindi?

• Hvers vegna geta allir kristnir menn öðlast ánægjuna sem fylgir því að skilja „djúp Guðs“?

• Hvernig geturðu haft enn meira gagn af því að rannsaka „djúp Guðs“?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hvenær varð Jesús hið fyrirheitna sæði?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Foreldrar geta falið börnunum að rannsaka ákveðið efni fyrir biblíunám fjölskyldunnar.