Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Álitin verðug að vera leidd til vatnslinda lífsins

Álitin verðug að vera leidd til vatnslinda lífsins

Álitin verðug að vera leidd til vatnslinda lífsins

„Lambið . . . mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins.“ — OPINB. 7:17.

1. Hvað eru hinir andasmurðu kallaðir í Biblíunni og hvaða verkefni gaf Jesús þeim?

Í ORÐI Guðs eru hinir andasmurðu, sem hafa umsjón með eigum Krists á jörðinni, kallaðir hinn „trúi og hyggni þjónn“. Árið 1918 kannaði Kristur hvernig ‚þjónninn‘ sinnti verkefni sínu og komst að raun um að hinir andasmurðu hefðu reynst trúir og gefið andlegan „mat á réttum tíma“. Húsbóndinn Jesús setti hann því fúslega „yfir allar eigur sínar“. (Lestu Matteus 24:45-47.) Hinir andasmurðu þjóna þannig öðrum tilbiðjendum Jehóva hér á jörð áður en þeir hljóta himneska arfleifð sína.

2. Lýstu eigum Jesú.

2 Húsbóndi ræður yfir eigum sínum og getur notað þær eins og hann vill. Eigur konungsins Jesú Krists fela í sér allt sem við kemur ríki hans og þegnum þess hér á jörð. Þar á meðal er „mikill múgur“ sem Jóhannes postuli sá í sýn. Hann sagði um þennan hóp: „Sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.“ — Opinb. 7:9.

3, 4. Hvaða heiðurs nýtur múgurinn mikli?

3 Jesús kallaði þá sem tilheyra múginum mikla „aðra sauði“. (Jóh. 10:16) Þeir hafa von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. Þeir eru fullvissir um að Jesús muni „leiða þá til vatnslinda lífsins“ og að Guð muni „þerra hvert tár af augum þeirra“. Þess vegna hafa þeir „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“. (Opinb. 7:14, 17) Þeir trúa á lausnarfórn Jesú og eru því í augum Guðs klæddir ‚hvítum skikkjum‘. Þeir eru, líkt og Abraham, lýstir réttlátir sem vinir Guðs.

4 Þar sem hinn vaxandi mikli múgur annarra sauða er réttlátur í augum Guðs á hann von um að bjargast þegar þessi heimur ferst í þrengingunni miklu. (Jak. 2:23-26) Þeir sem tilheyra honum geta nálægt sig Jehóva og hafa sem hópur dásamlega von um að komast lifandi í gegnum Harmagedón. (Jak. 4:8; Opinb. 7:15) Þeir starfa ekki sem sjálfstæður hópur heldur lúta fúslega forystu konungs síns á himnum og andasmurðra bræðra hans á jörð.

5. Hvernig styður múgurinn mikli andasmurða bræður Krists?

5 Andasmurðir bræður Krists hafa orðið fyrir harðri andstöðu frá heimi Satans og hún mun halda áfram. En þeir geta reitt sig á stuðning félaga sinna af múginum mikla. Hinir andasmurðu eru orðnir fáir en hundruð þúsunda bætast hins vegar við múginn mikla á hverju ári. Hinir andasmurðu geta ekki sjálfir haft umsjón með hverjum einasta söfnuði í heiminum, en þeir eru um 100.000 talsins. Stuðningur annarra sauða við hina andasmurðu er því meðal annars fólginn í því að hæfir menn af múginum mikla þjóna sem safnaðaröldungar. Þeir eiga sinn þátt í að annast þær milljónir votta Jehóva sem ‚trúa og hyggna þjóninum‘ er treyst fyrir.

6. Hvernig var spáð um stuðning annarra sauða við hina andasmurðu?

6 Jesaja spámaður lýsti dyggum stuðningi annarra sauða við hina andasmurðu. Hann skrifaði: „Svo segir Drottinn: Auður [„ólaunaðir verkamenn“, NW ] Egyptalands og verslunargróði Blálands og Sebainga, hinna hávöxnu manna, skal ganga til þín og verða þín eign. Þeir skulu fylgja þér.“ (Jes. 45:14) Kristnir menn með jarðneska von fylgja forystu andasmurða þjónshópsins og hins stjórnandi ráðs. Aðrir sauðir eru eins og „ólaunaðir verkamenn“ og nota krafta sína og eigur fúslega og heilshugar til að styðja boðunarstarfið sem Kristur fól andasmurðum fylgjendum sínum á jörð. — Post. 1:8; Opinb. 12:17.

7. Hvaða þjálfun fær múgurinn mikli núna?

7 Um leið og múgurinn mikli starfar með andasmurðum bræðrum sínum fær hann þjálfun til að vera undirstaða hins nýja mannfélags sem verður á jörð eftir Harmagedón. Þessi undirstaða verður að vera traust og þeir sem mynda hana verða að vera færir um að fylgja fyrirmælum húsbóndans og fúsir til þess. Hver kristinn maður fær tækifæri núna til að sýna að hann geti komið að góðum notum í þjónustu konungsins Jesú Krists. Með trú sinni og hollustu sýnir hann að hann muni fúslega fylgja leiðbeiningum Jesú í nýja heiminum.

Múgurinn mikli sýnir trúna í verki

8, 9. Hvernig sýnir múgurinn mikli trúna í verki?

8 Aðrir sauðir, sem fylgja söfnuði andasmurðra, sýna trúna í verki á ýmsan hátt. Í fyrsta lagi styðja þeir hina andasmurðu með því að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Í öðru lagi fylgja þeir fúslega forystu hins stjórnandi ráðs. — Hebr. 13:17; lestu Sakaría 8:23.

9 Í þriðja lagi styðja þeir sem mynda múginn mikla andasmurða bræður sína með því að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Jehóva. Þeir leggja sig fram um að sýna ávöxt andans sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi“ eða sjálfstjórn. (Gal. 5:22, 23) Slíkir eiginleikar eru kannski ekki vinsælir nú á dögum. En múgurinn mikli er staðráðinn í að forðast „holdsins verk“ sem eru „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt“. — Gal. 5:19-21.

10. Hvað er múgurinn mikli staðráðinn í að gera?

10 Þar sem við erum ófullkomin getur verið erfitt að sýna kristna eiginleika, forðast verk holdsins og standast álagið frá heimi Satans. Við erum samt staðráðin í að láta ekki veikleika okkar, mistök eða tæpa heilsu verða til þess að við missum kjarkinn því að það gæti veikt trú okkar eða kærleika til Jehóva. Við vitum að Jehóva stendur við loforð sitt — hann mun vernda múginn mikla svo að hann komist lifandi í gengum þrenginguna miklu.

11. Hvaða aðferðum hefur Satan beitt til að reyna að veikja trú kristinna manna?

11 Við erum engu að síður stöðugt á verði því að við vitum að Satan er hinn raunverulegi óvinur okkar og hann gefst ekki svo auðveldlega upp. (Lestu 1. Pétursbréf 5:8.) Hann hefur notað fráhvarfsmenn og aðra til að reyna að telja okkur trú um að kenningarnar, sem við fylgjum, séu rangar. En sú aðferð hefur sjaldnast borið árangur. Og þótt ofsóknir hafi stundum hægt á boðunarstarfinu hafa þær oftar en ekki orðið til þess að styrkja trú hinna ofsóttu. Satan notar því í auknum mæli aðferð sem honum finnst sennilega líklegri til að veikja trú okkar. Hann nýtir sér það ef við verðum kjarklítil eða niðurdregin. Kristnir menn á fyrstu öld voru varaðir við þessari hættu þegar þeim var sagt: „Virðið hann [Krist] fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum.“ Og hvers vegna áttu þeir að gera það? „Til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ — Hebr. 12:3.

12. Hvernig geta ráð Biblíunnar styrkt þá sem eru kjarklitlir og niðurdregnir?

12 Hefurðu einhvern tíma verið við það að gefast upp? Finnst þér stundum eins og þú getir ekki gert neitt rétt? Láttu ekki Satan nota þessar tilfinningar til að hindra þig í að þjóna Jehóva. Ítarlegt biblíunám, einlægar bænir, samkomusókn og félagsskapur við trúsystkini mun styrkja þig og koma í veg fyrir að þú látir hugfallast. Jehóva hefur lofað að hjálpa þjónum sínum að fá nýjan kraft og loforð hans eru örugg. (Lestu Jesaja 40:30, 31.) Einbeittu þér að þjónustunni við Guð. Gættu þín á tímafrekri afþreyingu og leggðu þig fram um að hjálpa öðrum. Það mun veita þér styrk til að standast þótt þú sért kjarklítill og niðurdreginn. — Gal. 6:1, 2.

Út úr þrengingunni og inn í nýjan heim

13. Hvaða verkefni bíður þeirra sem lifa af Harmagedón?

13 Eftir Harmagedón fær mikill fjöldi ranglátra manna upprisu og þeir þurfa að fræðast um Jehóva. (Post. 24:15) Þeir þurfa að læra um lausnarfórn Jesú og ekki síst að trúa á fórnina til að njóta góðs af henni. Þeir verða að hafna falstrúarhugmyndum sem þeir aðhylltust áður og snúa baki við fyrra líferni. Þeir verða að læra að íklæðast nýja persónuleikanum sem einkennir sannkristna menn. (Ef. 4:22-24; Kól. 3:9, 10) Aðrir sauðir, sem lifa af Harmagedón, eiga mikið starf fyrir höndum. Það verður einkar ánægjulegt að þjóna Jehóva á þennan hátt þegar þessi illi heimur er úr sögunni með álagi sínu og truflunum.

14, 15. Lýstu samskiptum þeirra sem lifa af þrenginguna miklu og hinna réttlátu sem rísa upp.

14 Trúfastir þjónar Jehóva, sem dóu áður en Jesús þjónaði hér á jörð, þurfa líka að læra margt nýtt þegar þeir rísa upp. Þeir munu læra að Jesús Kristur var hinn fyrirheitni Messías sem þeir væntu en fengu ekki að sjá. Í sínu fyrra lífi sýndu þeir að þeir væru fúsir til að þiggja kennslu Jehóva. Hugsaðu þér hvað það verður gaman og mikill heiður að hjálpa þeim — eins og til dæmis að útskýra fyrir Daníel uppfyllingu þeirra spádóma sem hann skráði en skildi ekki. — Dan. 12:8, 9.

15 En þótt hinir upprisnu eigi eftir að læra margt frá okkur er líka margt sem við viljum spyrja þá um. Þeir geta sagt okkur nánar frá atburðum sem nefndir eru í Biblíunni en er ekki lýst í smáatriðum. Hugsaðu þér hvað það verður gaman að fá að vita meira um Jesú beint frá frænda hans, Jóhannesi skírara. Það sem þessir trúföstu þjónar Guðs munu fræða okkur um á örugglega eftir að veita okkur dýpri skilning á orði Guðs en við höfum núna. Trúir þjónar Jehóva, sem hafa dáið, munu fá „betri upprisu“, meðal annars einstaklingar af múginum mikla sem dóu á endalokatímanum. Þeir byrjuðu að þjóna Jehóva í heimi sem var undir stjórn Satans. Það verður einstaklega ánægjulegt fyrir þá að halda þjónustu sinni áfram við margfalt betri aðstæður í nýja heiminum. — Hebr. 11:35; 1. Jóh. 5:19.

16. Hvað gerist á dómsdegi samkvæmt spádómum Biblíunnar?

16 Einhvern tíma á dómsdegi verður bókum lokið upp. Þær verða, auk Biblíunnar, notaðar til að dæma alla lifandi menn og úrskurða hvort þeir séu verðugir þess að fá eilíft líf. (Lestu Opinberunarbókina 20:12, 13.) Við lok dómsdagsins hafa allir fengið næg tækifæri til að sýna hvar þeir standa í deilumálinu um drottinvaldið yfir alheimi. Munu þeir lúta ríki Guðs og láta lambið leiða sig „til vatnslinda lífsins“? Eða munu þeir streitast á móti og neita að vera undirgefnir ríki Guðs? (Opinb. 7:17; Jes. 65:20) Þegar hér er komið sögu hefur hver einasti maður fengið tækifæri til að taka persónulega ákvörðun án þess að erfðasyndin eða óguðlegt umhverfi hafi þar áhrif á. Enginn getur dregið í efa að lokadómur Jehóva verði réttur. Engum nema hinum illu verður eytt fyrir fullt og allt. — Opinb. 20:14, 15.

17, 18. Hvers vegna horfa hinir andasmurðu og aðrir sauðir til dómsdagsins með tilhlökkun?

17 Andasmurðir kristnir menn, sem eru á jörðinni núna, eru álitnir verðugir þess að hljóta ríkið og bíða með óþreyju eftir að fá að ríkja á dómsdegi. Það verður mikill heiður fyrir þá! Þessi framtíðarvon hvetur þá til að fylgja ráðinu sem Pétur gaf bræðrum þeirra á fyrstu öld: „Kostið . . . kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa. Á þann hátt mun yður ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.“ — 2. Pét. 1:10, 11.

18 Aðrir sauðir samgleðjast andasmurðum bræðrum sínum og eru staðráðnir í að styðja þá. Þeir eru vinir Guðs og langar til að gera sitt ýtrasta í þjónustunni við hann. Þeir munu styðja fyrirkomulag hans af heilum huga á dómsdegi og Jesús mun leiða þá til vatnslinda lífsins. Þá verða þeir loksins álitnir verðugir þess að vera þjónar Jehóva hér á jörð um alla eilífð. — Rómv. 8:20, 21; Opinb. 21:1-7.

Manstu?

• Hverjar eru meðal annars eigur Jesú?

• Hvernig styður múgurinn mikli andasmurða bræður sína?

• Hvaða verkefni er múginum mikla falið og hvaða framtíð á hann í vændum?

• Hvernig hugsar þú um dómsdag?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 25]

Múgurinn mikli hefur þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Um hvað langar þig til að spyrja trúa þjóna Guðs þegar þeir rísa upp?