Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Álitnir verðugir að hljóta ríki

Álitnir verðugir að hljóta ríki

Álitnir verðugir að hljóta ríki

„Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis.“ — 2. ÞESS. 1:5.

1, 2. Hvað hefur Guð ákveðið varðandi dóm og hver mun dæma?

UM ÁRIÐ 50 var Páll postuli staddur í Aþenu. Útbreidd skurðgoðadýrkun í borginni var honum til mikillar skapraunar og var kveikjan að snilldarlegri ræðu sem hann flutti. Hann lauk ræðunni með yfirlýsingu sem hlýtur að hafa vakið athygli heiðinna áheyrenda hans. Hann sagði: „Guð . . . boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum, því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ — Post. 17:30, 31.

2 Það er alvarlegt umhugsunarefni að Guð skuli hafa ákveðið dag til að dæma mennina. Páll tók ekki fram í ræðunni í Aþenu hver það er sem fellir dóminn en við vitum að það er hinn upprisni Jesús Kristur. Dómur hans hefur í för með sér annaðhvort líf eða dauða.

3. Hvers vegna gerði Jehóva sáttmála við Abraham og hver á sérstakan þátt í uppfyllingu hans?

3 Þessi dómsdagur stendur í 1000 ár. Jesús, konungur Guðsríkis, stýrir dómi í nafni Jehóva. En honum til aðstoðar hefur Jehóva valið aðra úr hópi mannanna til að ríkja með honum og dæma á þessum þúsund ára langa degi. (Samanber Lúkas 22:29, 30.) Jehóva lagði grunninn að þessum dómsdegi fyrir næstum 4000 árum þegar hann gerði sáttmála við Abraham, trúfastan þjón sinn. (Lestu 1. Mósebók 22:17, 18.) Þessi sáttmáli tók greinilega gildi árið 1943 f.Kr. Abraham gerði sér að sjálfsögðu ekki fulla grein fyrir hvaða þýðingu sáttmálinn myndi hafa fyrir mannkynið. Við getum hins vegar séð að samkvæmt ákvæðum sáttmálans átti afkvæmi Abrahams sérstakan þátt í því að koma til leiðar fyrirætlun Guðs um að dæma mannkynið.

4, 5. (a) Hver er fyrst og fremst afkvæmi Abrahams? Hvað sagði hann um ríkið? (b) Hvenær stóð mönnum fyrst til boða að tilheyra Guðsríki?

4 Afkvæmi Abrahams var fyrst og fremst Jesús sem var smurður með heilögum anda árið 29 og varð þar með hinn fyrirheitni Messías, eða Kristur. (Gal. 3:16) Jesús notaði næstu þrjú og hálft ár til að boða Gyðingum fagnaðarerindið um Guðsríki. Eftir að Jóhannes skírari var handtekinn sýndi Jesús fram á að aðrir gætu átt von um að tilheyra þessu ríki. Hann sagði: „Frá dögum Jóhannesar skírara og til þessa leita menn himnaríkis kappsamlega, og þeir, sem keppast eptir því, hrífa það til sín.“ — Matt. 11:12, Biblían 1859.

5 Það er athyglisvert að rétt áður en Jesús talaði um þá sem myndu „hrífa“ himnaríki til sín sagði hann: „Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur, sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.“ (Matt. 11:11) Hvers vegna sagði hann þetta? Vegna þess að trúföstum mönnum stóð ekki til boða að tilheyra ríki Guðs fyrr en heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33. Þá var Jóhannes skírari dáinn. — Post. 2:1-4.

Afkvæmi Abrahams lýst réttlátt

6, 7. (a) Í hvaða skilningi átti afkvæmi Abrahams að verða eins og „stjörnur á himni“? (b) Hvaða blessun hlaut Abraham og hvaða hliðstæðu blessun hlýtur afkvæmi hans?

6 Abraham fékk að vita að niðjar hans yrðu eins margir og „stjörnur á himni“ og sandur á sjávarströnd. (1. Mós. 13:16; 22:17) Á hans dögum gat enginn vitað hve margir niðjarnir yrðu. En á endanum var talan opinberuð. Auk Jesú áttu andlegir niðjar Abrahams að vera 144.000 talsins. — Opinb. 7:4; 14:1.

7 Í Biblíunni segir um trú Abrahams: „[Abraham] trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis.“ (1. Mós. 15:5, 6) Að sjálfsögðu er enginn maður fullkomlega réttlátur. (Jak. 3:2) En vegna einstakrar trúar Abrahams kom Jehóva fram við hann eins og hann væri réttlátur og kallaði hann jafnvel vin sinn. (Jes. 41:8) Þeir sem mynda andlegt afkvæmi Abrahams ásamt Jesú hafa líka verið lýstir réttlátir og það veitir þeim jafnvel enn meiri blessun en Abraham hlaut.

8. Hvaða blessanir hljóta þeir sem tilheyra afkvæmi Abrahams?

8 Andasmurðir kristnir menn eru lýstir réttlátir vegna þess að þeir trúa á lausnarfórn Jesú. (Rómv. 3:24, 28) Í augum Jehóva hafa þeir verið leystir frá syndinni og geta fengið smurningu heilags anda til að verða andlegir synir Jehóva og bræður Jesú Krists. (Jóh. 1:12, 13) Þeir eignast aðild að nýja sáttmálanum og mynda nýja þjóð, „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16; Lúk. 22:20) Þetta er stórkostlegur heiður. Það sem Guð hefur gert í þágu hinna andasmurðu gerir að verkum að þeir vonast ekki eftir eilífu lífi hér á jörð. Þeir fórna þessari von til að hljóta þá ólýsanlegu gleði sem fylgir því að vera með Jesú á dómsdeginum og ríkja með honum á himnum. — Lestu Rómverjabréfið 8:17.

9, 10. (a) Hvenær fengu kristnir menn fyrst andasmurningu og hvað beið þeirra? (b) Hvaða stuðning fengu hinir andasmurðu?

9 Á hvítasunnu árið 33 var hópi trúfastra manna boðið að vera meðal þeirra sem myndu ríkja með Jesú á dómsdeginum. Um 120 lærisveinar hans voru skírðir með heilögum anda og urðu þar með fyrstir til að hljóta andasmurningu. En þetta var aðeins upphafið. Þaðan í frá þurftu þeir að sýna Jehóva hollustu þrátt fyrir allar prófraunirnar sem Satan myndi leggja á þá. Þeir urðu að vera trúir allt til dauða til að hljóta kórónu lífsins á himnum. — Opinb. 2:10.

10 Til að styðja þá í þessu notaði Jehóva orð sitt og söfnuð til að veita þeim nauðsynlega hvatningu og uppörvun. Til dæmis skrifaði Páll postuli til hinna andasmurðu í Þessaloníku: „Vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín, til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði, er kallar yður til ríkis síns og dýrðar.“ — 1. Þess. 2:11, 12.

11. Hvað lét Jehóva skrifa handa „Ísrael Guðs“?

11 Á áratugunum eftir að hinir fyrstu í söfnuði andasmurðra voru valdir lét Jehóva skrá niður varanlega heimild um þjónustu Jesú á jörð. Hann lét sömuleiðis skrá niður samskipti sín við hina andasmurðu á fyrstu öld og leiðbeiningar sínar til þeirra. Þannig bætti Jehóva hinum innblásnu Grísku ritningum við hinar Hebresku sem fyrir voru. Hebresku ritningarnar voru upphaflega skrifaðar handa Ísraelsþjóðinni á þeim tíma þegar hún átti sérstakt samband við Guð. Það þýðir auðvitað ekki að engir nema Ísraelsmenn hafi getað haft gagn af Hebresku ritningunum. Grísku ritningarnar voru fyrst og fremst skrifaðar fyrir „Ísrael Guðs“, andasmurða bræður Krists og andlega syni Guðs. En kristnir menn, sem eru ekki andasmurðir, hafa líka mikið gagn af því að rannsaka og lifa í samræmi við leiðbeiningarnar í Grísku ritningunum. — Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:15-17.

12. Hvernig áminnti Páll hina andasmurðu?

12 Kristnir menn á fyrstu öld voru lýstir réttlátir og smurðir með heilögum anda til að þeir gætu öðlast arfleifð sína á himnum. Andasmurning þeirra veitti þeim samt ekki konungstign meðan þeir voru enn á jörðinni. Svo virðist sem sumir hinna frumkristnu hafi misst sjónar á þessu og sóst eftir óviðeigandi upphefð meðal bræðra sinna í söfnuðinum. Það varð til þess að Páll sagði: „Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!“ (1. Kor. 4:8) Páll sagði því við þá: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar.“ — 2. Kor. 1:24.

Að fullna töluna

13. Hvernig hélt köllun hinna andasmurðu áfram eftir árið 33?

13 Hinir andasmurðu voru ekki allir útvaldir á fyrstu öldinni. Köllun hinna 144.000 hélt áfram á tímum postulanna en síðan virðist hafa hægt á henni. Hún hélt samt áfram fram eftir öldum allt til okkar daga. (Matt. 28:20) Og eftir að Jesús hóf að ríkja árið 1914 gengu hlutirnir hratt fyrir sig.

14, 15. Hvernig hefur köllun hinna andasmurðu gengið fyrir sig á okkar dögum?

14 Jesús byrjaði á því að hreinsa til á himnum og uppræta alla andstöðu gegn stjórn Guðs. (Lestu Opinberunarbókina 12:10, 12.) Síðan sneri hann sér aftur að því að safna tilvonandi meðstjórnendum sínum til að fullna töluna 144.000. Greinilegt er að á miðjum fjórða áratug síðustu aldar var þessu verki næstum lokið og margir sem tóku við fagnaðarerindinu höfðu ekki löngun til að fara til himna. Andinn vitnaði ekki með þeim að þeir væru synir Guðs. (Samanber Rómverjabréfið 8:16.) Þeir gerðu sér grein fyrir að þeir tilheyrðu ‚öðrum sauðum‘ sem hafa von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Jóh. 10:16) Eftir árið 1935 snerist því prédikunarstarfið aðallega um að safna saman ‚miklum múgi‘, sem Jóhannes postuli sá í sýn að myndi koma lifandi úr „þrengingunni miklu“. — Opinb. 7:9, 10, 14.

15 Fáeinir hafa samt fengið himneska köllun síðan á fjórða áratugnum. Hvers vegna? Í sumum tilfellum getur verið að þeir hafi komið í stað annarra sem höfðu fengið köllun en reynst ótrúir. (Samanber Opinberunarbókina 3:16.) Páll talaði jafnvel um að fólk sem hann þekkti persónulega hefði yfirgefið trúna. (Fil. 3:17-19) Hverja myndi Jehóva velja í stað slíkra einstaklinga? Það er auðvitað hans að ákveða. En það virðist ekki rökrétt að hann myndi velja einstaklinga sem nýlega hafa tekið trú heldur frekar fólk sem hefur sannað hollustu sína að vissu marki — líkt og lærisveinarnir sem Jesús ávarpaði þegar hann stofnsetti minningarhátíðina. * — Lúk. 22:28.

16. Fyrir hvað getum við verið þakklát í tengslum við hina andasmurðu og hverju getum við treyst?

16 Ekki virðast þó allir sem fengið hafa himneska köllun síðan á fjórða áratugnum koma í stað einstaklinga sem fallið hafa frá trúnni. Jehóva hefur greinlega séð til þess að andasmurðir verði meðal okkar uns þessu heimskerfi lýkur og ‚Babýlon hinni miklu‘ verður eytt. * (Opinb. 17:5) Og við getum treyst að talan 144.000 verður fullnuð á tilsettum tíma og að hinir andasmurðu taki að lokum sæti í stjórn Guðsríkis. Við getum líka treyst spádómsorðinu sem segir að hinn sívaxandi mikli múgur haldi áfram að reynast trúfastur. Bráðum kemur hann „úr þrengingunni miklu“ sem gengur yfir heim Satans og heldur fagnandi inn í nýjan heim Guðs.

Himnesk stjórn Guðs er næstum fullskipuð

17. Hvað hefur gerst hjá hinum andasmurðu sem hafa verið trúir allt til dauða, samanber 1. Þessaloníkubréf 4:15-17 og Opinberunarbókina 6:9-11?

17 Frá árinu 33 hafa tugþúsundir andasmurðra látið í ljós sterka trú og reynst trúfastir allt til dauða. Þeir hafa verið álitnir verðugir þess að hljóta ríkið og hafa hlotið laun sín með upprisu til himna. Ljóst er að þessi upprisa hófst snemma á nærverutíma Krists. — Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:15-17; Opinberunarbókin 6:9-11.

18. (a) Um hvað eru hinir andasmurðu sannfærðir? (b) Hvernig líta aðrir sauðir á andasmurða bræður sína?

18 Þeir sem enn eru á jörðinni af hópi hinna andasmurðu eru algerlega sannfærðir um að ef þeir reynast trúir hljóti þeir bráðum laun sín á himnum. Milljónir annarra sauða taka undir orð Páls postula þegar þeir íhuga trú andasmurðra bræðra sinna. Páll sagði um hina andasmurðu í Þessaloníku: „Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið. Þær eru augljóst merki þess, að Guð dæmir rétt og mun álíta yður maklega Guðs ríkis, sem þér nú líðið illt fyrir.“ (2. Þess. 1:3-5) Þegar sá síðasti af hinum andasmurðu lýkur jarðnesku lífi sínu, hvenær sem það gerist, verður stjórn Guðs á himnum fullskipuð. Það verður mikið gleðiefni — bæði á himni og jörð.

[Neðanmáls]

^ gr. 15 Sjá Varðturninn 1. apríl 1992, bls. 19, gr. 17.

^ gr. 16 Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. október 2007.

Geturðu útskýrt?

• Hvað sagði Guð við Abraham sem tengdist dómsdegi?

• Hvers vegna var Abraham lýstur réttlátur?

• Hvað hefur það í för með sér fyrir þá sem tilheyra afkvæmi Abrahams að vera lýst réttlátir?

• Um hvað eru allir kristnir menn sannfærðir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jesús hvatti fylgjendur sína til að leita Guðsríkis af kappi.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Jehóva byrjaði að velja viðbótarafkvæmi Abrahams á hvítasunnu árið 33.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Aðrir sauðir eru þakklátir fyrir að hinir andasmurðu skuli hafa verið með þeim á síðustu dögum.