Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau auðguðu líf sitt — getur þú gert það líka?

Þau auðguðu líf sitt — getur þú gert það líka?

Þau auðguðu líf sitt — getur þú gert það líka?

MARC er bróðir í Kanada. Hann vann hjá fyrirtæki sem framleiðir flókin vélmenni fyrir geimferðastofnanir. Hann var þar í hlutastarfi og var auk þess brautryðjandi. Einn góðan veðurdag bauð yfirmaður hans honum fullt starf á háum launum. Hvað gerði Marc?

Amy er systir á Filippseyjum. Hún var brautryðjandi meðan hún var að ljúka skólagöngu. Eftir að hún útskrifaðist var henni boðin vel launuð en krefjandi vinna. Um var að ræða fullt starf. Hvað ákvað Amy að gera?

Þau Marc og Amy tóku ólíkar ákvarðanir með ólíkum afleiðingum sem sýna fram á hve viturleg ráð það voru sem Páll postuli gaf kristnum mönnum í Korintu á sínum tíma. Hann skrifaði: „Þeir sem nota heiminn [skulu vera] eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt.“ — 1. Kor. 7:29-31.

Að nota heiminn en færa sér hann ekki í nyt

Áður en við könnum hvernig þeim Marc og Amy farnaðist skulum við kynna okkur örstutt merkingu gríska orðsins kosmos sem Páll notaði í bréfinu til Korintumanna. Orðið er þýtt ‚heimur‘ og er notað þarna um heimskerfið sem við búum í — mannfélagið í heild — og sömuleiðis um hversdagslega hluti sem tilheyra daglegu lífi, svo sem fæði, klæði og húsnæði. * Flestir þurfa að hafa einhverja atvinnu til að afla þessara daglegu nauðsynja. Við eigum ekki um annað að velja en að nota heiminn til að rækja þá biblíulegu skyldu að sjá fyrir okkur og fjölskyldum okkar. (1. Tím. 5:8) En við gerum okkur jafnframt grein fyrir því að „heimurinn fyrirferst“. (1. Jóh. 2:17) Við notum því heiminn að því marki sem við þurfum en ekki þannig að við ‚færum okkur hann í nyt‘. — 1. Kor. 7:31.

Fjöldi bræðra og systra hefur endurmetið stöðu sína með hliðsjón af þeirri ráðleggingu Biblíunnar að nota heiminn ekki meira en brýna nauðsyn ber til. Þau hafa minnkað við sig vinnu og tekið upp einfaldari lífsmáta. Í framhaldinu hafa þau svo uppgötvað að með þessu gerðu þau líf sitt innihaldsríkara vegna þess að þau höfðu meiri tíma til að vera með fjölskyldunni og þjóna Jehóva. Og með því að einfalda líf sitt þurftu þau að reiða sig meira á Jehóva og minna á heiminn. Geturðu farið að dæmi þeirra og einfaldað líf þitt í þágu Guðsríkis? — Matt. 6:19-24, 33.

„Nánari tengsl við Jehóva en nokkru sinni fyrr“

Marc, sem nefndur var í upphafi greinarinnar, fór eftir þeirri ráðleggingu Biblíunnar að notfæra sér ekki heiminn. Hann afþakkaði hið vel launaða starf sem honum var boðið. Fáeinum dögum síðar bauð yfirmaðurinn honum enn hærri laun til að reyna að fá hann til að þiggja nýja starfið. „Þetta reyndi á,“ segir Marc, „en ég afþakkaði aftur.“ Hann skýrir ástæðuna og segir: „Við hjónin vildum helga okkur því að þjóna Jehóva sem best við gætum. Þess vegna vorum við Paula staðráðin í að taka upp einfaldari lífsmáta. Við báðum Jehóva um visku til að geta náð þessu markmiði og settum okkur ákveðið tímatakmark þegar við vildum færa út kvíarnar í þjónustunni við hann.“

Paula bætir við: „Ég vann þrjá daga í viku sem ritari á spítala og var á ágætum launum. Ég var líka brautryðjandi. En rétt eins og Marc langaði mig til að bjóða mig fram til að þjóna Jehóva einhvers staðar þar sem væri meiri þörf fyrir boðbera. Þegar ég afhenti uppsagnarbréfið sagði yfirmaðurinn að ég gæti átt kost á nýju starfi sem ritari forstjórans. Þetta var hæst launaða ritarastarfið við spítalann en ég hélt mig við þá ákvörðun að hætta. Þegar ég sagði yfirmanninum hvers vegna ég sækti ekki um starfið hrósaði hann mér fyrir trú mína.“

Skömmu eftir þetta var Marc og Paulu boðið að starfa sem sérbrautryðjendur í litlum söfnuði á afskekktu svæði í Kanada. Hvaða áhrif hafði það á líf þeirra að flytja þangað? Marc svarar því og segir: „Ég var ögn kvíðinn eftir að hafa verið í fastri vinnu og búið við fjárhagslegt öryggi næstum hálfa ævina en Jehóva blessaði þjónustu okkar. Það veitir okkur ólýsanlega gleði að geta hjálpað öðrum að þjóna Guði. Auk þess hefur það styrkt hjónaband okkar að þjóna í fullu starfi. Samræður okkar snúast um það sem skiptir raunverulegu máli — þjónustuna við Guð. Okkur finnst við eiga nánari tengsl við Jehóva en nokkru sinni fyrr.“ (Post. 20:35) Paula bætir við: „Maður verður að leggja allt sitt traust á Jehóva þegar maður segir upp vinnunni og yfirgefur þægilegt heimili og kunnuglegar slóðir. Við gerðum það og Jehóva blessaði okkur. Við finnum að bræðurnir og systurnar í nýja söfnuðinum elska okkur og þarfnast okkar. Núna nota ég þá krafta, sem ég notaði áður í vinnunni, til að hjálpa fólki að kynnast Guði. Mér finnst þetta vera stórkostlegt verkefni.“

‚Vel stæð en ekki hamingjusöm‘

Amy, sem fyrr er getið, tók aðra stefnu. Hún þáði vel launaða starfið sem henni var boðið. „Fyrsta árið var ég virk í boðunarstarfinu,“ segir hún, „en smám saman breyttust áherslurnar hjá mér og ég fór að hugsa meira um að komast áfram í starfi en að þjóna Jehóva. Ég fékk freistandi tilboð um stöðuhækkanir og fór að nota krafta mína til að vinna mig upp hjá fyrirtækinu. Eftir því sem ég tók á mig meiri ábyrgð í vinnunni gerði ég æ minna í boðunarstarfinu. Að síðustu hætti ég alveg að prédika.“

Þegar Amy lítur um öxl segir hún: „Ég var vel stæð. Ég ferðaðist mikið og naut virðingarinnar sem fylgdi starfinu. En ég var ekki hamingjusöm. Ég átti við alls konar vandamál að glíma þó að ég hefði nóg af peningum. Ég velti fyrir mér hvað væri að. Loks áttaði ég mig á því að ég hafði næstum ‚villst frá trúnni‘ með því að sækjast eftir frama í heiminum. Og þess vegna þurfti ég að þola ‚mörg harmkvæli‘ alveg eins og segir í orði Guðs.“ — 1. Tím. 6:10.

Hvað gerði Amy? „Ég bað öldungana að hjálpa mér að endurheimta sambandið við Guð,“ segir hún, „og fór að sækja samkomur. Einu sinni brast ég í grát í miðjum söng. Það rifjaðist upp fyrir mér hve ánægð ég hafði verið þau fimm ár sem ég var brautryðjandi þó að ég hefði verið fátæk á þeim tíma. Ég vissi að ég yrði að hætta að sóa tímanum í að eltast við peninga og láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir. Ég lét færa mig til í starfi sem hafði í för með sér að launin lækkuðu um helming og svo fór ég að taka þátt í boðunarstarfinu á nýjan leik.“ Hún heldur áfram: „Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að vera brautryðjandi í nokkur ár. Nú finn ég fyrir innri gleði sem ég fann aldrei þegar ég notaði lungann úr tímanum til að vinna fyrir heiminn.“

Geturðu breytt aðstæðum þínum og tekið upp einfaldari lífsmáta? Ef þú notar tímann, sem þér áskotnast þannig, til að þjóna Guðsríki geturðu líka auðgað líf þitt. — Orðskv. 10:22.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1207-8.

[Innskot á blaðsíðu 19]

Geturðu breytt aðstæðum þínum og tekið upp einfaldari lífsmáta?

[Rammi/mynd á blaðsíðu 19]

„Ég hef yndi af því nú þegar!“

David er safnaðaröldungur í Bandaríkjunum. Hann ákvað að fara að dæmi eiginkonu sinnar og barna og gerast brautryðjandi. Honum tókst að fá hlutastarf hjá fyrirtækinu þar sem hann vann og gerðist brautryðjandi. Auðgaði hann líf sitt með því? Nokkrum mánuðum síðar skrifaði hann vini sínum: „Það er ekkert jafn gefandi og að þjóna Jehóva í fullu starfi ásamt fjölskyldunni. Ég hélt að það tæki mig töluverðan tíma að venjast því að vera brautryðjandi en ég hef yndi af því nú þegar! Það er afskaplega endurnærandi.“

[Mynd á blaðsíðu 18]

Marc og Paula í boðunarstarfinu.