Þegar kristnir menn eru sældaðir eins og hveiti
Þegar kristnir menn eru sældaðir eins og hveiti
STUTTU fyrir dauða sinn sagði Jesús við lærisveina sína, þeim til viðvörunar: „Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.“ (Lúk. 22:31) Við hvað átti hann?
Það var tímafrek og erfið vinna að skera upp hveiti á dögum Jesú. Fyrst var kornið skorið og því safnað saman af akrinum. Síðan var því barið við harðan þreskivöllinn eða notuð dráttardýr til að draga þreskisleða yfir það. Þannig losnaði kornið frá stilknum og úr hýðinu. Þessu var því næst kastað upp í loftið. Hveitikornin féllu þá á þreskivöllinn og golan feykti burt hisminu. Loks var kornið vandlega sigtað eða sældað til að losa það við allan óþarfa.
Eins og Jesús hafði sagt fyrir réðst Satan vægðarlaust á lærisveina hans á sínum tíma og hann ræðst einnig á okkur núna. (Ef. 6:11) Að vísu veldur Satan ekki beint öllum erfiðleikum sem við lendum í á lífsleiðinni. (Préd. 9:11) Eigi að síður gerir hann allt sem í hans valdi stendur til að brjóta niður ráðvendni okkar. Til dæmis getur hann freistað okkar til að lifa í munaði efnishyggjunnar, sækjast eftir skaðlegum skemmtunum eða taka þátt í siðlausu kynlífi. Hann getur einnig notað skóla- eða vinnufélaga og vantrúaða ættingja til að hvetja okkur til að fá eins mikla menntun og frama og heimurinn hefur upp á að bjóða. Þar að auki gæti Satan notað beinar ofsóknir til að reyna að brjóta niður ráðvendni okkar. Auðvitað notar hann margar aðrar leiðir til að sælda okkur eða sigta í táknrænum skilningi.
Hvernig getum við staðið gegn þessum volduga óvini? Við getum það ekki í eigin krafti. Satan er sterkari en við. Hins vegar vitum við að Jehóva er óendanlega máttugri en hann. Ef við treystum fullkomlega á Jehóva, biðjum í einlægni um visku og djörfung og reiðum okkur í einu og öllu á leiðsögn hans mun hann gefa okkur styrk til að standast árásir Satans. — Sálm. 25:4, 5.
Þegar við verðum fyrir prófraunum þurfum við að vera fær um að „greina gott frá illu“ svo að Satan takist ekki að afvegaleiða okkur með vélabrögðum sínum. (Hebr. 5:13, 14) Jehóva getur hjálpað okkur að þroska þennan hæfileika. Við verðum að halda réttri stefnu hvað sem það kostar. Ef við fylgjum leiðbeiningum Jehóva mun hann ávallt styðja þá ákvörðun okkar að gera það sem rétt er. — Ef. 6:10.
Vera má að Satan reyni að sælda okkur eins og hveiti. En með styrk frá Jehóva getum við staðið gegn honum, stöðug í trúnni. (1. Pét. 5:9) Jehóva fullvissar okkur um það með orðunum: „Standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður.“ — Jak. 4:7.