Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeir sem hneigjast til eilífs lífs taka við fagnaðarerindinu

Þeir sem hneigjast til eilífs lífs taka við fagnaðarerindinu

Þeir sem hneigjast til eilífs lífs taka við fagnaðarerindinu

„Allir tóku trú sem hneigðust til eilífs lífs.“ — POST. 13:48, NW.

1, 2. Hvernig brugðust frumkristnir menn við spádómsorðum Jesú þess efnis að fagnaðarerindið yrði prédikað um alla heimsbyggðina?

POSTULASAGAN hefur að geyma spennandi frásögu af því hvernig frumkristnir menn brugðust við spádómsorðum Jesú þess efnis að fagnaðarerindið um ríkið yrði prédikað um alla heimsbyggðina. (Matt. 24:14) Í vissum skilningi ruddu þessir dugmiklu boðberar brautina fyrir alla þá sem myndu feta í fótspor þeirra. Þúsundir manna, þar á meðal „mikill fjöldi presta“, streymdu inn í kristna söfnuðinn á fyrstu öldinni vegna þess að lærisveinar Jesú boðuðu fagnaðarerindið ötullega í Jerúsalem. — Post. 2:41; 4:4; 6:7.

2 Trúboðar á fyrstu öld hjálpuðu mörgum til viðbótar að taka kristna trú. Filippus fór til dæmis til Samaríu þar sem menn hlýddu á orð hans með athygli. (Post. 8:5-8) Páll ferðaðist víða með ýmsum starfsfélögum og boðaði boðskap kristninnar í Litlu-Asíu, í Makedóníu, í Grikklandi, á Kýpur og á Ítalíu. Mikill fjöldi Gyðinga og Grikkja tók trú í borgunum þar sem hann prédikaði. (Post. 14:1; 16:5; 17:4) Títus sinnti þjónustu sinni á Krít. (Tít. 1:5) Pétur var önnum kafinn í Babýlon og þegar hann skrifaði fyrra bréf sitt um árið 62-64 var starf kristinna manna vel þekkt í Pontus, Galatíu, Kappadókíu, Asíu og Biþýníu. (1. Pét. 1:1; 5:13) Þetta voru spennandi tímar. Boðberar fyrstu aldar voru svo ötulir að óvinir þeirra sögðu að þeir hefðu „komið . . . allri heimsbyggðinni í uppnám“. — Post. 17:6; 28:22.

3. Hvaða árangur má sjá af boðunarstarfinu og hvaða tilfinningar vekur það með þér?

3 Nú á tímum hefur söfnuðurinn einnig vaxið til muna. Finnst þér ekki hvetjandi að lesa ársskýrslu Votta Jehóva og sjá árangurinn af starfinu um allan heim? Og er ekki ánægjulegt til þess að vita að boðberar Guðsríkis hafi haldið meira en sex milljónir biblíunámskeiða á þjónustuárinu 2007? Aðsóknin í fyrra að minningarhátíðinni um dauða Jesú Krists segir okkur auk þess að um tíu milljónir manna, sem eru ekki vottar Jehóva, eru nægilega áhugasamir um fagnaðarerindið til að sækja þennan mikilvæga viðburð. Þetta er merki um að mikið starf sé enn óunnið.

4. Hverjir taka við sannleiksboðskapnum?

4 Allir sem hneigjast til eilífs lífs nú á dögum taka við sannleiksboðskapnum rétt eins og menn gerðu á fyrstu öldinni. (Post. 13:48, NW) Jehóva dregur slíka einstaklinga til safnaðar síns. (Lestu Haggaí 2:7.) Hvaða viðhorf verðum við að hafa til þjónustunnar til að taka fullan þátt í þessu uppskerustarfi?

Prédikum fyrir alls konar fólki

5. Á hvers konar fólki hefur Jehóva velþóknun?

5 Kristnir menn á fyrstu öld skildu að „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Post. 10:34, 35) Sá sem vill eignast gott samband við Jehóva verður að trúa á lausnarfórn Jesú. (Jóh. 3:16, 36) Jehóva vill að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. — 1. Tím. 2:3, 4.

6. Hvað verða boðberar fagnaðarerindisins að varast og hvers vegna?

6 Boðberar fagnaðarerindisins ættu aldrei að dæma fólk eftir kynþætti, stöðu í samfélaginu, útliti, trúarlegum bakgrunni eða öðru. Ertu ekki þakklátur fyrir að sá sem talaði fyrst við þig um sannindi Biblíunnar skuli ekki hafa haft fordóma gagnvart þér? Af hverju ættum við þá að hika við að koma þessum lífgefandi boðskap á framfæri við hvern sem vill heyra? — Lestu Matteus 7:12.

7. Hvers vegna verðum við að gæta þess að dæma ekki þá sem við prédikum fyrir?

7 Jehóva hefur skipað Jesú dómara og því höfum við ekki rétt til að dæma nokkurn mann. Það er viðeigandi þar sem við getum aðeins dæmt eftir því sem „augu [okkar] sjá“ eða „því, sem eyru [okkar] heyra“ ólíkt Jesú sem getur lesið innstu hugsanir og hugrenningar hjartans. — Jes. 11:1-5; 2. Tím. 4:1.

8, 9. (a) Hvernig maður var Sál áður en hann gerðist kristinn? (b) Hvað lærum við af frásögunni um Pál postula?

8 Fólk með nánast hvaða bakgrunn sem er hefur farið að þjóna Jehóva. Gott dæmi um það er Sál frá Tarsus sem síðar varð þekktur sem Páll postuli. Sál var farísei og hatrammur andstæðingur kristinna manna. Hann var algerlega sannfærður um að þeir væru ekki sannir tilbiðjendur Jehóva og þess vegna ofsótti hann kristna söfnuðinn. (Gal. 1:13) Frá mannlegum sjónarhóli virtist hann alls ekki líklegur til að gerast kristinn. En Jesús sá eitthvað gott í hjarta hans og valdi hann til að sinna sérstöku verkefni. Það varð til þess að Sál varð einn kappsamasti boðberi kristna safnaðarins á fyrstu öld.

9 Hvað lærum við af frásögunni um Pál postula? Á svæði okkar er ef til vill að finna hópa fólks sem virðast andsnúnir boðskapnum sem við flytjum. Þótt það gæti virst ósennilegt að einhver í þeirra röðum gerist sannkristinn hættum við ekki að reyna að ræða við slíka einstaklinga. Stundum reynist ólíklegasta fólk móttækilegt fyrir fagnaðarerindinu. Verkefni okkar er að halda áfram að prédika fyrir öllum án afláts. — Lestu Postulasöguna 5:42.

Blessun bíður þeirra sem prédika án afláts

10. Af hverju ættum við ekki að hika við að prédika fyrir fólki sem gæti virst ógnvekjandi? Segðu frá dæmum á þínu svæði.

10 Útlit fólks getur villt um fyrir okkur. Tökum Ignacio * sem dæmi. Hann fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva þegar hann var í fangelsi í landi í Suður-Ameríku. Menn óttuðust hann vegna þess hve ofbeldissamur hann var. Fangar, sem bjuggu til hluti og seldu öðrum föngum, notuðu hann til að rukka þá sem stóðu ekki í skilum. En þegar Ignacio tók framförum í sannleikanum og heimfærði efnið á sjálfan sig breyttist hann úr ofbeldisfullum fauta í vingjarnlegan mann. Hann er ekki lengur notaður til að innheimta skuldir en á hinn bóginn er hann ánægður að sannindi Biblíunnar og andi Guðs skuli hafa breytt persónuleika hans. Hann er líka þakklátur fyrir það að boðberarnir, sem lögðu sig fram um að kenna honum, skuli hafa verið fordómalausir.

11. Af hverju förum við aftur og aftur til fólks?

11 Ein ástæða þess að við förum aftur og aftur til þeirra sem við höfum þegar rætt við um fagnaðarerindið er sú að aðstæður þeirra og viðhorf geta breyst eins og dæmin sanna. Frá því að við heimsóttum fólk síðast gæti það hafa misst vinnuna, orðið alvarlega veikt eða misst ástvin. (Lestu Prédikarann 9:11.) Heimsmálin gætu hafa fengið suma til að hugsa alvarlega um framtíð sína. Allt þetta getur stuðlað að því að fólk, sem var áður áhugalaust eða jafnvel andsnúið, bregðist vel við boðskapnum. Þess vegna ættum við ekki að láta undir höfuð leggjast að segja öðrum frá fagnaðarerindinu hvenær sem viðeigandi tækifæri gefst.

12. Hvaða augum ættum við að líta þá sem við prédikum fyrir og hvers vegna?

12 Menn virðast hafa tilhneigingu til að draga fólk í dilka og dæma það. En Jehóva sér fólk sem einstaklinga og hann sér hvað býr í hverjum og einum. (Lestu 1. Samúelsbók 16:7.) Við ættum að leitast við að gera hið sama í þjónustu okkar. Margar frásögur bera vitni um þann góða árangur sem næst þegar við erum jákvæð í garð allra sem við prédikum fyrir.

13, 14. (a) Af hverju var brautryðjandasystir neikvæð í garð konu sem hún hitti í boðunarstarfinu? (b) Hvað getum við lært af þessari frásögu?

13 Brautryðjandasystir, sem heitir Sandra, var í boðunarstarfinu hús úr húsi á eyju í Karíbahafi. Þá hitti hún konu, að nafni Ruth, sem tók ríkan þátt í skemmtanahaldinu í tengslum við kjötkveðjuhátíðina. Ruth hafði tvívegis verið krýnd drottning hátíðarinnar þar í landi. Hún sýndi einlægan áhuga á því sem Sandra hafði að segja og því var biblíunámskeiði komið af stað. Sandra segir svo frá: „Þegar ég gekk inn í stofuna hjá Ruth blasti við mér stór mynd af henni í fullum hátíðarskrúða og þar stóðu einnig verðlaunagripir sem hún hafði fengið. Ég dró ranglega þá ályktun að manneskja, sem væri svona vinsæl og svona upptekin af þessari hátíð, gæti ekki haft áhuga á sannleikanum. Ég hætti því að heimsækja hana.“

14 Nokkru síðar kom Ruth í ríkissalinn og þegar samkoman var búin spurði hún Söndru: „Hvers vegna ertu hætt að koma til að fræða mig um Biblíuna?“ Sandra baðst afsökunar og gerði ráðstafanir til þess að þær gætu haldið biblíunáminu áfram. Ruth tók hröðum framförum, fjarlægði hátíðarmyndirnar, fór að taka þátt í allri starfsemi safnaðarins og vígði líf sitt Jehóva. Sandra gerði sér auðvitað grein fyrir því að fyrstu viðbrögð hennar voru ekki rétt.

15, 16. (a) Hvaða árangur hlaust af því þegar boðberi nokkur vitnaði fyrir ættingja sínum? (b) Af hverju ætti líferni ættingja okkar ekki að koma í veg fyrir að við vitnum fyrir þeim?

15 Margir hafa líka góða reynslu af því að vitna fyrir ættingjum, sem eru ekki í trúnni, jafnvel þótt það hafi virst ólíklegt að þeir tækju við sannleikanum. Tökum kristna systur í Bandaríkjunum sem dæmi en hún heitir Joyce. Mágur hennar hafði ítrekað setið í fangelsi frá því að hann var unglingur. Joyce segir svo frá: „Fólk sagði að líf hans væri einskis virði því að hann var fíkniefnasali og þjófur og gerði alls konar slæma hluti. En þrátt fyrir það hélt ég áfram að segja honum frá sannindum Biblíunnar í 37 ár.“ Þolinmæði hennar og viðleitni til að hjálpa honum var ekki til einskis því að hann fór að lokum að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og gerði stórfelldar breytingar á lífi sínu. Fyrir skemmstu lét hann skírast á umdæmismóti í Kalíforníu í Bandaríkjunum, þá 50 ára að aldri. Joyce segir: „Ég grét af gleði. Ég er svo ánægð að ég skuli aldrei hafa gefist upp á honum.“

16 Þú ert kannski hikandi við að segja sumum ættingjum þínum frá sannindum Biblíunnar vegna lífernis þeirra. Joyce lét slíkar tilfinningar þó ekki aftra sér frá því að tala við mág sinn. Við vitum ekki hvað býr í hjörtum annarra. Þeir gætu verið að leita að sannleikanum í fyllstu einlægni. Hikaðu því ekki við að veita þeim tækifæri til að finna sannleikann. — Lestu Orðskviðina 3:27.

Áhrifaríkt biblíunámsrit

17, 18. (a) Hvað segja frásögur víðs vegar úr heiminum um áhrif bókarinnar Hvað kennir Biblían? (b) Hvaða árangri hefur þú náð með því að nota þessa bók?

17 Frásögur víðs vegar úr heiminum sýna að biblíunámsritið Hvað kennir Biblían? hefur hreyft við mörgum hjartahreinum einstaklingum. Brautryðjandasystir í Bandaríkjunum, sem heitir Penni, hefur komið af stað mörgum biblíunámskeiðum með hjálp þessarar bókar. Tveir biblíunemendur hennar voru komnir á efri ár og voru mjög virkir í kirkjunni sinni. Penni var ekki viss um hvernig þeir myndu bregðast við biblíusannindunum sem eru útskýrð í bókinni. En hún skrifaði: „Þar sem efnið er sett fram á skýran, rökréttan og hnitmiðaðan hátt sáu þeir fljótt, án þess að þræta eða komast í uppnám, að það sem þeir lærðu var sannleikur.“

18 Pat, boðberi í Bretlandi, fór að hjálpa konu að kynna sér Biblíuna en konan var flóttamaður frá Asíulandi. Hún hafði neyðst til að flýja land eftir að eiginmaður hennar og synir höfðu verið herteknir af uppreisnarmönnum. Hún sá þá aldrei aftur. Lífi hennar hafði verið ógnað, heimili hennar brennt til grunna og hún orðið fyrir hópnauðgun. Allt þetta gerði að verkum að henni fannst líf sitt einskis virði og hún hugleiddi oft að svipta sig lífi. En biblíunámið veitti henni von. Pat skrifaði: „Einfaldar útskýringar og líkingar í bókinni Hvað kennir Biblían? höfðu gríðarleg áhrif á hana.“ Konan tók hröðum framförum, varð hæf til að verða óskírður boðberi og óskaði eftir að fá að skírast á næsta móti. Það gefur okkur mikla gleði að hjálpa einlægu fólki að skilja Biblíuna og öðlast bjarta framtíðarvon.

„Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er“

19. Af hverju er svona áríðandi að sinna boðunarstarfinu?

19 Með hverjum deginum sem líður verður brýnna að prédika og gera menn að lærisveinum. Þúsundir manna, sem hneigjast til eilífs lífs, taka við fagnaðarerindinu á hverju ári. En „hinn mikli dagur Drottins er nálægur“. Það þýðir að þeir sem kynnast ekki Guði og fyrirætlun hans „ganga skjögrandi að höggstokknum“. — Sef. 1:14; Orðskv. 24:11.

20. Hvað ættum við öll að vera staðráðin í að gera?

20 Við getum enn þá hjálpað slíku fólki. En til að gera það verðum við að líkja eftir kristnum mönnum á fyrstu öld sem ‚létu eigi af að kenna og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur‘. (Post. 5:42) Fylgjum fordæmi þeirra með því að halda ótrauð áfram þrátt fyrir mótlæti, bæta kennslutækni okkar og prédika fyrir öllum án hlutdrægni. „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er“ því að ef við sýnum þrautseigju uppskerum við velþóknun Guðs. — 2. Tím. 4:2; lestu Galatabréfið 6:9.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Hverjir taka við fagnaðarerindinu?

• Af hverju ættum við aldrei að dæma þá sem við prédikum fyrir?

• Hvaða árangur hefur náðst með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Þúsundir hjartahreinna manna bregðast vel við fagnaðarerindinu.

[Myndir á blaðsíðu 15]

Hvað lærum við af því að Páll postuli skuli hafa breytt sér?

[Mynd á blaðsíðu 16]

Boðberar fagnaðarerindisins dæma ekki fólk.