Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér“

„Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér“

„Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér“

„Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér, og ræktu hana vel.“ — KÓL. 4:17, Biblían 2007.

1, 2. Hvaða ábyrgð bera kristnir menn gagnvart mannkyninu?

VIÐ berum mikla ábyrgð gagnvart fólkinu í kringum okkur. Þær ákvarðanir, sem fólk tekur núna, geta haft líf eða dauða í för með sér í „þrengingunni miklu“. (Opinb. 7:14) Innblásinn ritari Orðskviðanna sagði: „Frelsaðu þá, sem leiddir eru fram til lífláts, og þyrm þeim, sem ganga skjögrandi að höggstokknum.“ Þetta eru vissulega umhugsunarverð orð. Ef við sinnum ekki þeirri ábyrgð að vara fólk við því sem fram undan er gætum við orðið blóðsek. Í næsta versi stendur: „Segir þú: ‚Vér vissum það eigi,‘ — sá sem vegur hjörtun, hann verður sannarlega var við það, og sá sem vakir yfir sálu þinni, hann veit það og mun gjalda manninum eftir verkum hans.“ Þjónar Jehóva geta greinilega ekki sagt að þeir viti ekki af hættunni sem fólk stendur frammi fyrir. — Orðskv. 24:11, 12.

2 Jehóva metur lífið mikils. Hann hvetur þjóna sína til að leggja sig alla fram svo að hægt sé að hjálpa sem allra flestum að bjargast. Allir þjónar Guðs verða að segja öðrum frá þeim hjálpræðisboðskap sem er að finna í orði Guðs. Verkefni okkar er ekki ósvipað starfi varðmanns sem gefur viðvörun þegar hann sér að hætta steðjar að. Við viljum ekki hafa á samviskunni blóð þeirra sem eiga á hættu að farast. (Esek. 33:1-7) Það er því mjög mikilvægt að halda staðfastlega áfram að „prédika . . . orðið“. — Lestu 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2, 5.

3. Um hvað verður rætt í þessari námsgrein og næstu tveimur námsgreinum?

3 Í þessari námsgrein verður rætt um það hvernig við getum sigrast á hindrunum í þjónustu okkar og hjálpað enn fleira fólki. Í næstu námsgrein skoðum við hvernig við getum orðið færari biblíukennarar. Og í þeirri þriðju verður sagt frá þeim góða árangri sem boðberar Guðsríkis hafa náð um allan heim. En áður en við skoðum þetta nánar væri gott að rifja upp af hverju okkar dagar eru svona þýðingarmiklir.

Margir eru án vonar

4, 5. Hvað er mannkynið að ganga í gegnum og hvaða áhrif hefur það á marga?

4 Ástandið í heiminum gefur til kynna að við lifum á endalokatímanum og að þessi heimur eigi ekki langt eftir. Mannkynið er að upplifa það sem Jesús og lærisveinar hans sögðu að myndi einkenna hina síðustu daga. Styrjaldir, matvælaskortur, jarðskjálftar og aðrar hörmungar hrjá mannkynið. Lögleysi, eigingirni og guðleysi ræður ríkjum. Þetta eru jafnvel „örðugar tíðir“ fyrir þá sem leggja sig fram um að lifa eftir meginreglum Biblíunnar. — Matt. 24:3, 6-8, 12; 2. Tím. 3:1-5.

5 En flestir gera sér ekki grein fyrir merkingu heimsatburðanna. Þar af leiðandi óttast þeir um öryggi sitt og fjölskyldu sinnar. Ástvinamissir og önnur persónuleg áföll gera marga örvilnaða og vonlausa. Þeir hafa enga von vegna þess að þá skortir nákvæma þekkingu á því hvers vegna slíkt gerist og hver lausnin er. — Ef. 2:12.

6. Hvers vegna hefur „Babýlon hin mikla“ ekki getað hjálpað áhangendum sínum?

6 „Babýlon hin mikla“, heimsveldi falstrúarbragðanna, hefur ekki veitt mönnum huggun. Með „saurlifnaðar víni“ sínu hefur hún stuðlað að því að margir ráfa um í andlegu myrkri. Þar að auki hegðar hún sér eins og skækja og táldregur ‚konunga jarðarinnar‘ og stjórnar þeim. Hún notar falskenningar og spíritisma til að fá mannfjöldann til að hlýða pólitískum leiðtogum í blindni. Með þessum hætti hafa falstrúarbrögðin fengið mátt sinn og áhrifavald en á sama tíma hafa þau algerlega hafnað trúarlegum sannleika. — Opinb. 17:1, 2, 5; 18:23.

7. Hvaða örlög bíða meirihluta mannkyns en hvernig er hægt að hjálpa sumum?

7 Jesús sagði að flestir menn væru á breiða veginum sem liggur til glötunar. (Matt. 7:13, 14) Sumir eru á þessum vegi því að þeir hafa vísvitandi hafnað því sem Biblían kennir. En aðrir eru þar af því að þeir hafa verið blekktir eða hafa ekki verið upplýstir um það hvers Jehóva krefst raunverulega af þeim. Kannski myndu sumir breyta lífsstíl sínum ef þeim væru gefin góð biblíuleg rök fyrir því. En þeim sem halda sér við Babýlon hina miklu og hafna meginreglum Biblíunnar verður ekki þyrmt í „þrengingunni miklu“. — Opinb. 7:14.

Prédikum án afláts

8, 9. Hvernig brugðust frumkristnir menn við þegar þeir mættu andstöðu og hvers vegna?

8 Jesús sagði að fylgjendur sínir myndu prédika fagnaðarerindið um ríkið og gera menn að lærsveinum. (Matt. 28:19, 20) Sannkristnir menn hafa því alltaf litið svo á að þeir sýni Guði hollustu sína með því að taka þátt í boðunarstarfinu og að það sé grundvallarþáttur í tilbeiðslu þeirra. Þess vegna héldu fylgjendur Jesú á fyrstu öld stöðuglega áfram að prédika þrátt fyrir andstöðu. Þeir reiddu sig á styrk frá Jehóva og báðu þess að hann myndi veita þeim „fulla djörfung að tala orð [hans]“. Það varð til þess að Jehóva fyllti þá heilögum anda og þeir töluðu orð hans af djörfung. — Post. 4:18, 29, 31.

9 Hættu fylgjendur Jesú að prédika fagnaðarerindið þegar andstaðan varð hatrömm? Nei, alls ekki. Prédikunarstarfið skapraunaði trúarleiðtogum Gyðinga og því handtóku þeir postulana, hótuðu þeim og húðstrýktu. En samt sem áður „létu [postularnir] eigi af að kenna dag hvern . . . og boða fagnaðarerindið um, að Jesús sé Kristur“. Þeir sáu greinilega að þeim bæri framar „að hlýða Guði en mönnum“. — Post. 5:28, 29, 40-42.

10. Hvaða prófraunum standa kristnir menn frammi fyrir en hvað gætu góð verk þeirra haft í för með sér?

10 Fæstir þjónar Guðs nú á dögum þurfa að þola barsmíðar eða fangelsisvist vegna prédikunarstarfsins. Allir sannkristnir menn verða hins vegar fyrir einhvers konar prófraunum. Vegna biblíufræddrar samvisku þinnar tekur þú ef til vill stefnu í lífinu sem fellur ekki öllum í geð eða gerir þig frábrugðinn fjöldanum. Samstarfsfólk, skólafélagar eða nágrannar gætu álitið þig skrítinn af því að þú byggir ákvarðanir þínar á meginreglum Biblíunnar. En láttu ekki neikvæð viðbrögð þeirra draga úr þér kjarkinn. Heimurinn er í andlegu myrkri en kristnir menn verða að „[skína] eins og ljós“. (Fil. 2:15) Einlægt fólk gæti tekið eftir og dáðst að góðum verkum þínum og vegsamað Jehóva í kjölfarið. — Lestu Matteus 5:16.

11. (a) Hvernig bregðast sumir við boðunarstarfinu? (b) Hvaða andstöðu mætti Páll postuli og hvaða áhrif hafði það á hann?

11 Við þurfum að hafa hugrekki til að halda áfram að boða fagnaðarerindið. Sumir, þar á meðal ættingjar, gætu gert gys að þér eða reynt að draga úr þér kjarkinn með öðrum hætti. (Matt. 10:36) Páll postuli varð oftar en einu sinni fyrir barsmíðum vegna þess að hann sinnti þjónustu sinni trúfastlega. Taktu eftir viðbrögðum hans við þessari andstöðu. Hann skrifaði: „Vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt . . . en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.“ (1. Þess. 2:2) Það var vissulega erfitt fyrir Pál að halda áfram að boða fagnaðarerindið eftir að hann hafði verið tekinn höndum, flettur klæðum, húðstrýktur og honum varpað í fangelsi. (Post. 16:19-24) Hvað veitti honum hugrekki til að gefast ekki upp? Löngunin til að sinna prédikunarstarfinu, sem Guð hafði falið honum, var óttanum yfirsterkari. — 1. Kor. 9:16.

12, 13. Hvaða erfiðleikum standa sumir frammi fyrir og hvernig hafa þeir reynt að sigrast á þeim?

12 Það getur líka verið erfitt að viðhalda eldmóðinum á svæðum þar sem fólk er sjaldan heima eða hefur lítinn áhuga á boðskapnum. Hvað er hægt að gera við slíkar aðstæður? Kannski þurfum við að telja í okkur kjark til að vitna óformlega. Við gætum líka þurft að breyta stundaskrá okkar og prédika á öðrum tímum eða einbeita okkur að svæðum þar sem við náum tali af fleirum. — Samanber Jóhannes 4:7-15 og Postulasöguna 16:13; 17:17.

13 Annað sem margir þurfa að glíma við og setur þeim skorður í boðunarstarfinu er hár aldur og slæm heilsa. Ef það á við um þig skaltu ekki láta hugfallast. Jehóva þekkir takmörk þín og kann að meta það sem þú getur með góðu móti gert. (Lestu 2. Korintubréf 8:12.) Hvaða erfiðleikum sem þú stendur frammi fyrir — andstöðu, áhugaleysi eða slæmri heilsu — skaltu gera allt sem aðstæður þínar leyfa til að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. — Orðskv. 3:27; samanber Markús 12:41-44.

„Gættu þjónustunnar“

14. Hvernig var Páll postuli trúsystkinum sínum gott fordæmi og hvaða ráð veitti hann?

14 Páll postuli leit þjónustu sína alvarlegum augum og hann hvatti trúsystkini sín til að gera slíkt hið sama. (Post. 20:20, 21; 1. Kor. 11:1) Arkippus, kristinn maður á fyrstu öldinni, fékk sérstaka hvatningu frá Páli. Í bréfi Páls til Kólossumanna skrifaði hann: „Segið Arkippusi: ‚Gættu þjónustunnar, sem Drottinn fól þér, og ræktu hana vel.‘“ (Kól. 4:17, Biblían 2007 ) Við vitum ekki hver Arkippus var eða hverjar aðstæður hans voru en hann hafði greinilega tekið að sér ákveðna þjónustu. Ef þú ert vígður kristinn einstaklingur hefur þú líka tekið að þér þjónustu. Gætir þú þjónustu þinnar og rækirðu hana vel?

15. Hvað er fólgið í kristinni vígslu og hvaða spurninga ættum við þar af leiðandi að spyrja okkur?

15 Áður en við létum skírast vígðum við okkur Jehóva í einlægri bæn. Það þýddi að við vorum staðráðin í að gera vilja hans. Því væri tilvalið að spyrja sig núna: Er það að gera vilja Guðs virkilega það mikilvægasta í lífi mínu? Við höfum kannski ýmsum skyldum að gegna sem Jehóva ætlast til að við sinnum eins og að sjá fjölskyldu okkar farborða. (1. Tím. 5:8) En hvernig notum við tíma okkar og krafta að öðru leyti? Hvað hefur forgang í lífi okkar? — Lestu  2. Korintubréf 5:14, 15.

16, 17. Hvaða möguleikar standa til boða fyrir ungt kristið fólk og þá sem eiga ekki svo mörgum skyldum að gegna?

16 Ertu ungur vígður þjónn Guðs sem hefur lokið eða er nálægt því að ljúka skólagöngu? Sennilega hefurðu ekki mikilli fjölskylduábyrgð að gegna enn sem komið er. Hvað ætlar þú að gera við líf þitt? Hvaða ákvarðanir geturðu tekið til að efna á sem bestan hátt loforð þitt um að gera vilja Jehóva? Margir hafa skipulagt sig þannig að þeir geti gerst brautryðjendur og hafa uppskorið mikla gleði og ánægju fyrir vikið. — Sálm. 110:3; Préd. 12:1.

17 Kannski ertu kominn yfir unglingsárin. Þú ert í fullri vinnu en átt ekki mörgum öðrum skyldum að gegna en að sjá um sjálfan þig. Þú hefur án efa ánægju af því að taka þátt í starfsemi safnaðarins eins mikið og aðstæður þínar leyfa. En gætirðu uppskorið meiri gleði? Hefurðu hugleitt að auka þátt þinn í boðunarstarfinu? (Sálm. 34:9; Orðskv. 10:22) Á sumum svæðum er mikið starf enn óunnið til að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fólk. Gætirðu gert breytingar í lífi þínu og þjónað á svæði þar sem meiri þörf er fyrir boðbera Guðsríkis? — Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.

18. Hvaða breytingar gerðu ung hjón og hver varð árangurinn?

18 Lítum á fordæmi Kevins og Elenu frá Bandaríkjunum. * Þeim fannst þau þurfa að kaupa hús eins og algengt var meðal nýgiftra hjóna á þeirra svæði. Þau unnu bæði fulla vinnu og gátu viðhaldið þægilegum lífsstíl. En vegna atvinnu sinnar og starfa við heimilið var lítill tími afgangs fyrir boðunarstarfið. Þau gerðu sér grein fyrir því að þau helguðu eignum sínum mest allan tíma sinn og krafta. En þegar þau virtu fyrir sér einfalt líf ánægðra brautryðjendahjóna ákváðu þau að breyta um áherslur í lífinu. Eftir að hafa leitað leiðsagnar Jehóva í bæn seldu þau húsið og fluttu í íbúð. Elena minnkaði við sig vinnuna og gerðist brautryðjandi. Þegar Kevin sá hvað henni gekk vel í boðunarstarfinu varð það honum hvatning til að hætta í fullri vinnu og byrja sem brautryðjandi. Nokkru síðar fluttu þau til lands í Suður-Ameríku til að þjóna þar sem þörfin er meiri. „Við vorum alltaf hamingjusöm í hjónabandinu,“ segir Kevin, „en þegar við unnum að andlegum markmiðum urðum við enn hamingjusamari.“ — Lestu Matteus 6:19-22.

19, 20. Af hverju er prédikun fagnaðarerindisins mikilvægasta starf sem unnið er nú á dögum?

19 Prédikun fagnaðarerindisins er mikilvægasta starfið sem unnið er á jörðinni nú á dögum. (Opinb. 14:6, 7) Það á þátt í því að helga nafn Jehóva. (Matt. 6:9) Biblían bætir líf þeirra þúsunda sem tileinka sér boðskap hennar á hverju ári og það getur leitt til þess að þeir bjargist. En „hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ spurði Páll postuli. (Rómv. 10:14, 15) Já, það verður einhver að prédika. Ert þú staðráðinn í að gera allt sem þú mögulega getur til að rækja þjónustu þína?

20 Til að hjálpa fólki að skilja mikilvægi þessara erfiðu tíma og hvaða afleiðingar ákvarðanir þess geta haft er líka mikilvægt að verða færari biblíukennari. Í næstu grein verður bent á hvernig hægt er að vinna að því.

[Neðanmáls]

^ gr. 18 Nöfnum hefur verið breytt.

Hvert er svarið?

• Hvaða ábyrgð bera kristnir menn gagnvart mannkyninu?

• Hvernig getum við sigrast á hindrunum í þjónustu okkar?

• Hvernig getum við rækt þjónustuna sem við höfum tekið að okkur?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 5]

Við þurfum að vera hugrökk til að prédika þrátt fyrir andstöðu.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Hvað geturðu gert ef þú prédikar á svæði þar sem fólk er sjaldan heima?