Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Matteusarguðspjalls

Höfuðþættir Matteusarguðspjalls

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Matteusarguðspjalls

MATTEUS var fyrstur manna til að skrifa heillandi frásögu af ævi og starfi Jesú. Hann var náinn vinur Jesú og fyrrverandi tollheimtumaður. Hann skrifaði guðspjallið upphaflega á hebresku en þýddi það síðan á grísku. Hann lauk við að rita það um árið 41 og það myndar brú milli Hebresku ritninganna og þeirra grísku.

Ljóst er að Matteusarguðspjall var aðallega skrifað með Gyðinga í huga og það lýsir með hrífandi hætti að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías og sonur Guðs. Við styrkjum trú okkar á hinn sanna Guð, son hans og fyrirheit með því að kynna okkur efni þess vel. — Hebr. 4:12.

„HIMNARÍKI ER Í NÁND“

(Matt. 1:1–20:34)

Matteus leggur áherslu á ríki Guðs og kennslu Jesú, jafnvel þótt það hafi í för með sér að hann víki stundum frá nákvæmri tímaröð. Fjallræðan er til dæmis framarlega í guðspjallinu þó að Jesús hafi ekki flutt hana fyrr en þjónusta hans var um það bil hálfnuð.

Meðan Jesús starfar í Galíleu vinnur hann kraftaverk, gefur postulunum 12 leiðbeiningar um boðunina, fordæmir faríseana og segir dæmisögur um Guðsríki. Hann yfirgefur síðan Galíleu og heldur „til byggða Júdeu handan Jórdanar“. (Matt. 19:1) Á leiðinni segir hann lærisveinunum: ‚Nú förum við upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn dæmdur til dauða og reistur upp á þriðja degi.‘ — Matt. 20:18, 19.

Biblíuspurningar og svör:

3:16 — Í hvaða skilningi „opnuðust himnarnir“ þegar Jesús skírðist? Þetta virðist merkja að hann hafi þá munað eftir fortilveru sinni á himnum.

5:21, 22 — Er alvarlegra að gefa reiði sinni útrás en að láta hana krauma innra með sér? Jesús segir að það sé alvarleg synd að láta reiði gegn bróður sínum krauma innra með sér. Það væri þó sýnu alvarlegra að gefa henni útrás í harkalegum orðum; þá yrði maður að svara til saka fyrir æðri dómstóli.

5:48 — Getum við verið ‚fullkomin eins faðir okkar himneskur er fullkominn‘? Já, í vissum skilningi. Jesús var að ræða um kærleika og sagði áheyrendum að líkja eftir Guði með því að vera fullkomnir eða heilir í kærleikanum. (Matt. 5:43-47) Þeir gátu gert það með því að elska meðal annars óvini sína.

7:16 — Hvaða ‚ávextir‘ eru einkenni sannrar trúar? Ávextirnir eru ekki aðeins fólgnir í breytni okkar heldur einnig trúnni — þeim kenningum sem við aðhyllumst.

10:34-38 — Er það boðskap Biblíunnar að kenna að sundrung verður í fjölskyldum? Nei, sundrungin stafar af afstöðu ættingja sem taka ekki við trúnni. Þeir ákveða ef til vill að hafna kristninni eða vera henni mótsnúnir og valda þar með ágreiningi í fjölskyldunni. — Lúk. 12:51-53.

11:2-6 — Nú hafði Jóhannes skírari heyrt Guð lýsa velþóknun sinni á Jesú og vissi því ef til vill að hann var Messías. Af hverju spurði hann þá: „Ert þú sá, sem koma skal?“ Hugsanlegt er að Jóhannes hafi viljað fá staðfestingu á því frá Jesú sjálfum. Hann vildi líka fá að vita hvort hann ætti að „vænta annars“ er kæmi sem konungur og uppfyllti væntingar Gyðinga. Með svari sínu benti Jesús á að enginn annar væri væntanlegur.

19:28 — Hvað tákna „tólf ættkvíslir Ísraels“ sem verða dæmdar? Þær tákna ekki 12 ættkvíslir hins andlega Ísraels. (Gal. 6:16; Opinb. 7:4-8) Postularnir, sem heyrðu Jesú segja þetta, áttu að tilheyra hinum andlega Ísrael en ekki dæma hann. Jesús gerði við þá sáttmála um ríki og þeir áttu að vera konungar og prestar Guðs. (Lúk. 22:28-30; Opinb. 5:10) Andlegir Ísraelsmenn eiga að „dæma heiminn“. (1. Kor. 6:2) „Tólf ættkvíslir Ísraels“, sem eiga að fá dóm af himni ofan, virðast því tákna mannkynið utan hinnar konunglegu prestastéttar, rétt eins og ættkvíslirnar 12 táknuðu á friðþægingardeginum. — 3. Mós. 16. kafli.

Lærdómur:

4:1-10. Þessi frásaga ber vitni um að Satan er raunverulegur en er ekki tákn um illskuna sem slíka. Hann reynir að freista okkar með „fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti“. Við getum hins vegar verið Guði trú með því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. — 1. Jóh. 2:16.

5:1–7:29. Vertu vakandi fyrir andlegum þörfum þínum. Vertu friðsamur. Ýttu siðlausum hugsunum frá þér. Vertu orðheldinn. Láttu andleg hugðarefni ganga fyrir efnislegum í bænum þínum. Vertu ríkur hjá Guði. Leitaðu fyrst ríkis hans og réttlætis. Vertu ekki dómharður. Gerðu vilja Guðs. Fjallræðan hefur sannarlega að geyma mikinn fjársjóð gagnlegra ráða.

9:37, 38. Þegar við biðjum herra uppskerunnar að „senda verkamenn til uppskeru sinnar“ ættum við að breyta í samræmi við bænina með því að vera dugleg að gera aðra að lærisveinum. — Matt. 28:19, 20.

10:32, 33. Verum aldrei smeyk við að tala um trú okkar.

13:51, 52. Að skilja sannleikann um ríki Guðs leggur okkur þá ábyrgð á herðar að kenna öðrum og hjálpa þeim að skilja þessi dýrmætu sannindi.

14:12, 13, 23. Það er nauðsynlegt að vera stundum einn til að geta hugleitt alvarleg mál. — Mark. 6:46; Lúk. 6:12.

17:20. Við þurfum að hafa trú til að takast á við erfiðleika og yfirstíga fjallháar hindranir sem tálma okkur að eiga samband við Guð. Vanrækjum ekki að byggja upp trú á Jehóva og fyrirheit hans. — Mark. 11:23; Lúk. 17:6.

18:1-4; 20:20-28. Mannlegur ófullkomleiki og trúarlegt umhverfi, þar sem mikið var lagt upp úr stöðu og virðingu, varð til þess að lærisveinar Jesú hugsuðu of mikið um hver þeirra væri mestur. Við ættum að temja okkur auðmýkt, berjast gegn syndugum tilhneigingum og sjá verkefni okkar og ábyrgðarstörf í söfnuðinum í réttu ljósi.

„ÞÁ VERÐUR MANNSSONURINN FRAMSELDUR“

(Matt. 21:1–28:20)

Jesús „ríður asna“ þegar hann kemur til Jerúsalem hinn 9. nísan árið 33. (Matt. 21:5) Daginn eftir gengur hann í musterið og hreinsar það. Hann kennir í musterinu hinn 11. nísan, fordæmir fræðimenn og farísea og segir síðan lærisveinunum hvert verði „tákn komu [sinnar] og endaloka veraldar“. (Matt. 24:3) Daginn eftir segir hann þeim: „Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar.“ — Matt. 26:1, 2.

Fjórtándi nísan rennur upp. Eftir að hafa stofnað til minningarhátíðar um dauða sinn er Jesús svikinn, handtekinn, leiddur fyrir rétt og negldur á aftökustaur. Á þriðja degi er hann reistur upp frá dauðum. Áður en hann stígur upp til himna segir hann fylgjendum sínum: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matt. 28:19.

Biblíuspurningar og svör:

22:3, 4, 9 — Hvenær voru boðin þrjú til brúðkaupsveislunnar send út? Fyrsta boðið um að safna brúðarhópnum gekk út þegar Jesús og fylgjendur hans tóku að prédika árið 29 og það stóð til ársins 33. Annað boðið stóð frá því að heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33 fram til ársins 36. Þessi boð náðu aðeins til Gyðinga, trúskiptinga og Samverja. En þriðja boðið gekk út til fólks meðfram vegum utan borgarinnar, það er að segja til óumskorinna heiðingja frá og með árinu 36 þegar rómverski herforinginn Kornelíus tók trú. Boðið stendur enn.

23:15 — Af hverju var maður, sem snúist hafði til trúar farísea, „hálfu verra vítisbarn“ en farísearnir sjálfir? Sumir sem tóku trú farísea höfðu kannski verið stórsyndarar fyrir. En með því að snúast á sveif með öfgastefnu farísea fóru þeir úr öskunni í eldinn og urðu jafnvel enn meiri öfgamenn en hinir fordæmdu kennarar þeirra. Þeir voru því ‚hálfu verri‘ en farísear Gyðinga.

27:3-5 — Hvers iðraðist Júdas? Ekkert bendir til þess að iðrun Júdasar hafi verið sönn. Hann leitaði ekki fyrirgefningar Guðs heldur játaði synd sína fyrir æðstuprestunum og öldungunum. Hann hafði framið „synd til dauða“ og var því eðlilega altekinn sektarkennd og örvæntingu. (1. Jóh. 5:16) Iðrunin var sprottin af örvæntingu hans.

Lærdómur:

21:28-31. Í augum Jehóva skiptir það mestu máli að við gerum vilja hans. Við ættum til dæmis að vera dugleg að boða ríki hans og gera fólk að lærisveinum. — Matt. 24:14; 28:19, 20.

22:37-39. Tvö æðstu boðorðin lýsa stutt og laggott hvers Guð krefst af tilbiðjendum sínum.

[Mynd á blaðsíðu 31]

Tekurðu dyggan þátt í uppskerustarfinu?

[Rétthafi]

© 2003 BiblePlaces.com

[Mynd á blaðsíðu 31]

Matteus leggur áherslu á boðskapinn um ríki Guðs.