Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Námsútgáfa Varðturnsins

Námsútgáfa Varðturnsins

Námsútgáfa Varðturnsins

BLAÐIÐ, sem þú ert að lesa, er fyrsta tölublaðið af námsútgáfu Varðturnsins. Það er því við hæfi að skýra í stórum dráttum þetta nýja snið blaðsins.

Námsútgáfa Varðturnsins er ætluð vottum Jehóva og biblíunemendum sem taka góðum framförum. Hún kemur út einu sinni í mánuði og hefur að geyma ýmist fjórar eða fimm námsgreinar. Áætlunin um yfirferð greinanna er birt á forsíðunni. Ólíkt almennri útgáfu blaðsins verður forsíðumynd námsútgáfunnar sú sama frá mánuði til mánaðar, enda verður sú útgáfa ekki boðin almenningi.

Á bls. 2 er að finna stutt yfirlit yfir hverja námsgrein eða greinaröð, og þar er einnig yfirlit yfir annað efni í blaðinu. Þetta á vafalítið eftir að reynast mjög gagnlegt fyrir þá sem stjórna Varðturnsnámi safnaðarins og auðvelda þeim að undirbúa innihaldsríkar umræður á samkomum.

Námsgreinarnar eru eilítið styttri en verið hefur þannig að hægt er að gefa sér betri tíma til að ræða um helstu ritningarstaðina þegar farið er yfir efnið á samkomum. Við hvetjum ykkur til þess að fletta upp öllum ritningarstöðum sem vísað er til í námsefni vikunnar. Sumir ritningarstaðir eru merktir „lestu“ og þá á að lesa og ræða í Varðturnsnáminu. Lesa má aðra ritningarstaði eftir því sem tími leyfir. Í sumum námsgreinum er að finna ritningarvísanir sem eru merktar „samanber“. Þar sem það er ekki hlutverk þessara ritningastaða að staðfesta með beinum hætti aðalatriði viðkomandi efnisgreinar ætti að jafnaði ekki að lesa þá á safnaðarsamkomunni. Í þeim er engu að síður að finna gagnlegt ítarefni, og eins gætu þeir innihaldið óbeinar sannanir fyrir því sem til umræðu er. Við hvetjum þig til að fletta þeim upp þegar þú býrð þig undir Varðturnsnámið. Þú gætir hugsanlega vísað í þá í svörum þínum.

Hætt verður að birta ársskýrsluna í Varðturninum. Héðan í frá verður hún birt í viðauka við Ríkisþjónustu okkar, auk þess að birtast í árbókinni eins og verið hefur. En eins og fram kemur hér að ofan verða ýmsar aukagreinar í námsútgáfu blaðsins. Við hvetjum þig til að lesa þær vel þó að ekki verði farið yfir þær allar á safnaðarsamkomum. Þær hafa líka að geyma andlega fæðu frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘. — Matt. 24:45-47.

Að síðustu viljum við taka fram að námsútgáfa Varðturnsins og almenna útgáfan eru ekki tvö aðskilin tímarit heldur heita þau bæði Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Á bls. 2 í þeim báðum er samhljóða grein sem lýsir markmiðinu með útgáfu blaðsins. Á þeim tungumálum þar sem boðið er upp á innbundna árganga verða báðar útgáfurnar bundnar saman. Og efni úr þeim báðum verður rifjað upp í greininni „Manstu?“ sem birtist í námsútgáfunni.

Varðturninn hefur boðað sannleikann um ríki Guðs dyggilega allt frá 1879, óháð styrjöldum, efnahagsþrengingum og ofsóknum. Það er bæn okkar að svo verði áfram, með blessun Jehóva. Og það er jafnframt bæn okkar að Jehóva blessi þig, lesanda blaðsins, og að þú nýtir þér vel hina nýju námsútgáfu þess.