Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Göngum á vegum Jehóva

Göngum á vegum Jehóva

Göngum á vegum Jehóva

„Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.“ — SÁLM. 128:1.

1, 2. Af hverju getum við verið viss um að það sé hægt að vera hamingjusamur?

ALLIR þrá að vera hamingjusamir. En þú ert eflaust sammála því að þótt við leitumst við að vera hamingjusöm þýðir það ekki endilega að við séum það.

2 En það er hægt að vera hamingjusamur. Í Sálmi 128:1 segir: „Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.“ Við getum verið hamingjusöm ef við gerum vilja Guðs með því að tilbiðja hann og ganga á vegum hans. En hvaða áhrif getur það haft á hegðun okkar og persónuleika?

Verum áreiðanleg

3. Hvernig tengist vígsla okkar við Guð því að vera áreiðanleg?

3Þeir sem óttast Jehóva eru áreiðanlegir eins og hann. Jehóva uppfyllti öll loforð sem hann gaf Ísraelsmönnum til forna. (1. Kon. 8:56) Þegar við vígðum líf okkar Guði gáfum við honum mikilvægasta loforð sem hægt er að gefa og við getum staðið við það með því að vera staðföst í bæninni. Við getum beðið eins og sálmaritarinn Davíð: „Því að þú, ó Guð, hefir heyrt heit mín . . . Þá vil ég lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.“ (Sálm. 61:6, 9; Préd. 5:4-6) Til að vera vinir Guðs verðum við að vera áreiðanleg. — Sálm. 15:1, 4.

4. Hvernig litu Jefta og dóttir hans á heitið sem hann gaf Jehóva?

4 Jefta var uppi á dómaratímanum í Ísrael. Hann hét því að ef Jehóva veitti honum sigur á Ammónítum myndi hann „fórna . . . að brennifórn“ þeim sem kæmi fyrstur á móti honum þegar hann sneri heim úr bardaganum. Það reyndist vera dóttir hans og einkabarn. Bæði Jefta og ógift dóttir hans sýndu trú á Jehóva og héldu heitið sem hann hafði gefið. Þótt hjónaband og barneignir væru mikils metnar í Ísrael var dóttir hans fús til að vera einhleyp. Hún naut þess heiðurs að veita heilaga þjónustu í helgidómi Jehóva. — Dóm. 11:28-40.

5. Hvernig reyndist Hanna áreiðanleg?

5 Hin guðrækna Hanna reyndist líka áreiðanleg. Hún bjó í Efraímfjöllum með eiginmanni sínum, levítanum Elkana, ásamt Peninnu, hinni eiginkonu hans. Peninna eignaðist mörg börn en Hanna var óbyrja. Peninna hæddist því að henni, sérstaklega þegar fjölskyldan fór til tjaldbúðarinnar. Í einni ferðinni hét Hanna því að ef hún eignaðist son myndi hún gefa hann Jehóva. Hún varð fljótt barnshafandi og eignaðist dreng sem var nefndur Samúel. Eftir að hann var vaninn af brjósti fór hún með hann til Síló þar sem hún gaf hann Guði „alla daga ævi hans“. (1. Sam. 1:11) Þannig efndi hún heit sitt jafnvel þótt hún hafi ekki vitað að hún myndi síðar eignast fleiri börn. — 1. Sam. 2:20, 21.

6. Hvernig sýndi Týkíkus að hann var áreiðanlegur?

6 Týkíkus, kristinn maður á fyrstu öld, var áreiðanlegur og ‚trúr aðstoðarmaður‘. (Kól. 4:7) Hann ferðaðist með Páli postula frá Grikklandi um Makedóníu til Litlu-Asíu og jafnvel áfram til Jerúsalem. (Post. 20:2-4) Týkíkus var ef til vill ‚bróðirinn‘ sem hjálpaði Títusi að sjá um líknargjöf fyrir þurfandi trúsystkini í Júdeu. (2. Kor. 8:18, 19; 12:18) Þegar Páll var fyrst hnepptur í varðhald í Róm lét hann þennan trúa sendiboða flytja bréf til bræðranna í Efesus og Kólossu. (Ef. 6:21, 22; Kól. 4:8, 9) Í síðara skiptið sem Páll var í varðhaldi í Róm sendi hann Týkíkus til Efesus. (2. Tím. 4:12) Ef við erum áreiðanleg njótum við líka blessunar í þjónustu Jehóva.

7, 8. Af hverju getum við sagt að Davíð og Jónatan hafi verið sannir vinir?

7Guð ætlast til þess að við reynumst áreiðanlegir vinir. (Orðskv. 17:17) Jónatan, sonur Sáls konungs, varð vinur Davíðs. Þegar Jónatan heyrði að Davíð hefði drepið Golíat „lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu“. (1. Sam. 18:1, 3) Jónatan varaði Davíð meira að segja við þegar Sál ætlaði að drepa hann. Eftir að Davíð flúði hitti Jónatan hann og gerði fóstbræðralag við hann. Þótt það hafi næstum kostað Jónatan lífið ræddi hann við Sál um Davíð. Og þegar vinirnir tveir hittust aftur styrktu þeir vinaböndin. (1. Sam. 20:24-41) Á síðasta fundi þeirra hughreysti Jónatan Davíð „í nafni Guðs“. — 1. Sam. 23:16-18.

8 Jónatan féll í bardaga gegn Filistum. (1. Sam. 31:6) Í sorgarkvæði söng Davíð: „Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ (2. Sam. 1:26) Þessi ást var hlýhugur milli vina en var ekki af kynferðislegum toga. Davíð og Jónatan voru sannir vinir.

Verum alltaf auðmjúk

9. Hvernig má sjá mikilvægi auðmýktar í 9. kafla Dómarabókarinnar?

9Við verðum að vera auðmjúk til að vera vinir Guðs. (1. Pét. 3:8; Sálm. 138:6) Í 9. kafla Dómarabókarinnar má sjá mikilvægi þess að vera auðmjúkur. Jótam, sonur Gídeons, sagði: „Einu sinni fóru trén að smyrja konung sér til handa.“ Minnst var á olíutréð, fíkjutréð og vínviðinn. Þessi tré táknuðu verðuga einstaklinga sem sóttust ekki eftir því að ríkja yfir samlöndum sínum í Ísrael. En þyrnirinn — sem nýttist aðeins í eldivið — táknaði konungdóm hins drambsama Abímeleks. Hann var morðingi og vildi drottna yfir öðrum. Hann „réð . . . fyrir Ísrael í þrjú ár“ en dó langt um aldur fram. (Dóm. 9:8-15, 22, 50-54) Já, það er sannarlega mikilvægt að vera auðmjúkur.

10. Hvað lærum við af því að Heródes skuli ekki hafa gefið Guði dýrðina?

10 Á fyrstu öld e.Kr. kom upp spenna milli Heródesar Agrippu, hins stolta Júdakonungs, og Týrverja og Sídóninga sem vildu semja frið við hann. Þegar Heródes flutti opinbera ræðu hrópuðu þeir: „Guðs rödd er þetta, en eigi manns.“ Heródes mótmælti ekki þessari upphafningu og því sló engill Guðs hann þannig að hann dó hrikalegum dauðdaga „sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina“. (Post. 12:20-23) Höfum við einhverja sérstaka hæfileika sem ræðumenn eða biblíukennarar? Gefum þá Guði heiðurinn af öllu því sem hann leyfir okkur að gera. — 1. Kor. 4:6, 7; Jak. 4:6.

Sýnum hugrekki og styrk

11, 12. Hvernig sjáum við af frásögunni um Enok að Jehóva gefur þjónum sínum hugrekki og styrk?

11Ef við göngum auðmjúk á vegum Jehóva gefur hann okkur hugrekki og styrk. (5. Mós. 31:6-8, 23) Enok, sjöundi maður frá Adam, gekk hugrakkur með Guði og lifði heiðvirðu lífi þótt samtímamenn hans hafi verið illir. (1. Mós. 5:21-24) Jehóva gaf Enok styrk til að flytja þeim kröftugan dómsboðskap vegna óguðlegra orða þeirra og verka. (Lestu Júdasarbréfið 14, 15.) Hefur þú það hugrekki sem þarf til að boða dóma Guðs?

12 Jehóva felldi dóm yfir óguðlegum í heimsflóðinu á dögum Nóa. En spádómur Enoks er okkur til hughreystingar því að bráðum munu heilagar englahersveitir Guðs eyða óguðlegum mönnum. (Opinb. 16:14-16; 19:11-16) Jehóva svarar bænum okkar með því að gefa okkur hugrekki — bæði til að boða dóma hans og segja frá þeim blessunum sem ríki hans veitir.

13. Af hverju getum við treyst því að Guð veiti okkur hugrekki og styrk til að takast á við íþyngjandi vandamál?

13 Við þurfum að fá hugrekki og styrk frá Guði til að takast á við þjakandi vandamál. Þegar Esaú tók sér tvær eiginkonur af ætt Hetíta „var [foreldrum hans] þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim“. Rebekka sagði jafnvel: „Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob [sonur okkar] tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?“ (1. Mós. 26:34, 35; 27:46) Ísak tók á málum með því að senda Jakob til að finna sér eiginkonu meðal tilbiðjenda Jehóva. Þótt Ísak og Rebekka gætu ekki breytt því sem Esaú hafði gert gaf Guð þeim visku, hugrekki og styrk til að vera trúföst. Ef við leitum til Jehóva í bæn hjálpar hann okkur á svipaðan hátt. — Sálm. 118:5.

14. Hvernig sýndi ísraelsk stúlka hugrekki?

14 Öldum síðar var ísraelsk stúlka tekin til fanga af ræningjaflokki og látin vera þjónustustúlka á heimili sýrlenska hershöfðingjans Naamans. Hann var holdsveikur. Stúlkan hafði heyrt af þeim kraftaverkum sem Guð gerði fyrir milligöngu Elísa spámanns. Hún sýndi það hugrekki að segja eiginkonu Naamans að ef maður hennar færi til Ísraels myndi spámaður Jehóva lækna hann af holdsveikinni. Naaman fór til Ísraels og var læknaður fyrir kraftaverk. (2. Kon. 5:1-3) Þessi stúlka er góð fyrirmynd fyrir unglinga sem treysta því að Jehóva gefi þeim hugrekki til að vitna fyrir kennurum, skólafélögum og öðrum.

15. Hvernig sýndi Óbadía hugrekki?

15 Guð veitir okkur hugrekki til að þola ofsóknir. Tökum Óbadía sem dæmi en hann var þjónn við hirð Akabs og samtímamaður Elía spámanns. Þegar Jesebel drottning skipaði svo fyrir að spámenn Guðs skyldu teknir af lífi faldi Óbadía 100 þeirra, „sína fimmtíu manns í hvorum helli“. (1. Kon. 18:13; 19:18) Hefðir þú hugrekki til að aðstoða trúsystkini í ofsóknum eins og Óbadía hjálpaði spámönnum Jehóva?

16, 17. Hvernig brugðust Aristarkus og Gajus við ofsóknum?

16 Ef við verðum fyrir ofsóknum getum við treyst því að Jehóva sé með okkur. (Rómv. 8:35-39) Á leikvangi í Efesus var Aristarkusi og Gajusi, samstarfsmönnum Páls, ógnað af þúsundum borgarbúa sem höfðu safnast þar saman. Silfursmiðurinn Demetríus hafði æst upp múginn. Hann og samstarfsmenn hans bjuggu til lítil Artemisarmusteri úr silfri. Vegna prédikunar Páls höfðu margir íbúar borgarinnar hætt að tilbiðja skurðgoð og því var ábatasamri atvinnu silfursmiðanna ógnað. Aristarkus og Gajus voru dregnir inn á leikvanginn og menn hrópuðu: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“ Aristarkus og Gajus héldu eflaust að þeir myndu deyja en borgarritarinn náði að róa mannfjöldann. — Post. 19:23-41.

17 Ef þú hefðir orðið fyrir slíkri lífsreynslu hefðirðu þá valið þér þægilegra líf? Ekkert gefur til kynna að Aristarkus eða Gajus hafi misst móðinn. Aristarkus var frá Þessaloníku og vissi að þeir sem prédikuðu fagnaðarerindið gætu orðið fyrir ofsóknum því að stuttu áður höfðu orðið óeirðir í borginni vegna prédikunar Páls. (Post. 17:5; 20:4) Þar sem Aristarkus og Gajus gengu á vegum Jehóva fengu þeir styrk frá honum og hugrekki til að þola ofsóknir.

Lítum á hag annarra

18. Hvers vegna má segja að Priska og Akvílas hafi látið sér annt um hag annarra?

18Hvort sem við sætum ofsóknum eða ekki ætti okkur að vera umhugað um trúsystkini okkar. Priska og Akvílas létu sér annt um hag annarra. (Lestu Filippíbréfið 2:4.) Þessi duglegu hjón buðu ef til vill Páli gistingu í Efesus, borginni þar sem silfursmiðurinn Demetríus kynti undir óeirðirnar sem nefndar voru áðan. Þessar aðstæður gætu hafa fengið Akvílas og Prisku til að stofna „lífi sínu í hættu“ fyrir Pál. (Rómv. 16:3, 4; 2. Kor. 1:8) Nú á dögum eru kristnir menn „kænir sem höggormar“ því að þeim er annt um bræður sína sem verða fyrir ofsóknum. (Matt. 10:16-18) Við höldum starfi okkar áfram en gætum þó fyllstu varúðar og neitum að svíkja bræður okkar með því að gefa ofsækjendum nöfn þeirra eða aðrar upplýsingar.

19. Hvaða góðverk vann Dorkas í þágu annarra?

19 Við höfum ýmsar leiðir til að sýna að okkur er annt um hag annarra. Ef til vill erum við í aðstöðu til að hjálpa trúsystkinum sem skortir einhverjar nauðsynjar. (Ef. 4:28; Jak. 2:14-17) Í söfnuðinum í Joppe á fyrstu öld var gjafmild kona sem hét Dorkas. (Lestu Postulasöguna 9:36-42.) Hún „var mjög góðgerðasöm og örlát“ og bjó meðal annars til föt handa þurfandi ekkjum. Þegar hún dó árið 36 olli það mikilli sorg meðal ekknanna. Guð notaði Pétur postula til að reisa hana upp frá dauðum og sennilega varði hún því sem eftir var af jarðneskri ævi sinni til að prédika fagnaðarerindið og gera öðrum gott. Við erum innilega þakklát fyrir að hafa óeigingjarnar konur eins og hana meðal okkar nú á dögum.

20, 21. (a) Hvernig getum við litið á hag annarra? (b) Hvað getum við gert til að hvetja og uppörva aðra?

20Við lítum á hag annarra með því að hvetja þá og uppörva. (Rómv. 1:11, 12) Sílas, samstarfsmaður Páls, var öðrum til hvatningar. Eftir að búið var að útkljá deiluna um umskurnina í kringum árið 49 sendi hið stjórnandi ráð í Jerúsalem fulltrúa sína með bréf til kristinna manna. Sílas, Júdas, Barnabas og Páll fóru með bréfið til Antíokkíu. Þar „hvöttu [Júdas og Sílas] bræðurna með mörgum orðum og styrktu þá“. — Post. 15:32.

21 Seinna voru Páll og Sílas hnepptir í fangelsi í Filippí en losnuðu þaðan í kjölfar jarðskjálfta. Það hlýtur að hafa verið mjög ánægjulegt fyrir þá að vitna fyrir fangaverðinum og sjá hann og fjölskyldu hans taka trú. Og áður en þeir yfirgáfu borgina hughreystu þeir bræðurna. (Post. 16:12, 40) Líkjum eftir Páli og Sílasi og leitumst við að uppörva aðra með svörum okkar og ræðum á samkomum og ötulli þátttöku í boðunarstarfinu. Og ef við höfum „einhver hvatningarorð“ skulum við fyrir alla muni ‚taka til máls‘. — Post. 13:15.

Höldum áfram að ganga á vegum Jehóva

22, 23. Hvernig getum við notið góðs af frásögum í Biblíunni?

22 Við ættum að vera innilega þakklát fyrir frásögurnar í orði Jehóva en hann er „Guð allrar huggunar“. (2. Kor. 1:3) Til að njóta góðs af þessum frásögum verðum við að heimfæra kennslu Biblíunnar á líf okkar og leyfa heilögum anda Guðs að leiða okkur. — Gal. 5:22-25.

23 Þegar við hugleiðum biblíufrásögur hjálpar það okkur að þroska með okkur góða eiginleika. Það styrkir samband okkar við Jehóva en hann veitir okkur „visku, þekking og gleði“. (Préd. 2:26) Við getum glatt hjarta Jehóva og við skulum gera það með því að halda áfram að ganga á vegum hans. — Orðskv. 27:11.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við sýnt að við séum áreiðanleg?

• Af hverju ættum við að vera auðmjúk?

• Hvernig geta frásögur í Biblíunni gefið okkur hugrekki?

• Hvernig getum við litið á hag annarra?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 8]

Jefta og dóttir hans stóðu við heitið, sem hann hafði gefið, þótt það væri erfitt.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvað hafið þið unga fólkið lært af ísraelsku stúlkunni?

[Mynd á blaðsíðu 11]

Hvernig hjálpaði Dorkas trúsystkinum sínum?