Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfum Jehóva ætíð fyrir augum

Höfum Jehóva ætíð fyrir augum

Höfum Jehóva ætíð fyrir augum

„Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum.“ — SÁLM. 16:8.

1. Hvaða áhrif geta frásögur Biblíunnar haft á okkur?

Í ORÐI Jehóva getum við lesið um samskipti hans við mannkynið. Þar er sagt frá mörgum sem hafa þjónað ákveðnum tilgangi í fyrirætlun hans. Að sjálfsögðu er saga þeirra ekki aðeins skráð í Biblíuna okkur til ánægju heldur geta þessar hrífandi frásögur styrkt samband okkar við Guð. — Jak. 4:8.

2, 3. Hvað þýða orðin í Sálmi 16:8?

2 Við getum öll lært mikið af frásögum af þekktum biblíupersónum eins og Abraham, Söru, Móse, Rut, Davíð, Ester, Páli postula og öðrum. En við getum líka lært af frásögum af þeim sem eru ekki eins þekktir. Þegar við hugleiðum frásögur Biblíunnar hjálpar það okkur að breyta í samræmi við orð sálmaritarans: „Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.“ (Sálm. 16:8) Hvað þýða þessi orð?

3 Yfirleitt beitti hermaður sverðinu með hægri hendinni en hélt á skildinum í þeirri vinstri og því var hægri hlið hans óvarin. En hann fékk vernd ef vinur barðist honum á hægri hönd. Ef við höfum Jehóva efst í huga og gerum vilja hans verndar hann okkur. Við skulum því skoða hvernig frásögur Biblíunnar geta styrkt trú okkar þannig að við höfum Jehóva „ætíð fyrir augum“.

Jehóva svarar bænum okkar

4. Nefndu dæmi úr Biblíunni sem sýnir að Guð svarar bænum.

4Ef við höfum Jehóva fyrir augum svarar hann bænum okkar. (Sálm. 65:3; 66:19) Elsti þjónn Abrahams, líklega Elíeser, er dæmi um það. Abraham sendi hann til Mesópótamíu til að finna guðhrædda eiginkonu fyrir Ísak. Elíeser bað um leiðsögn Guðs og þegar Rebekka brynnti úlföldum hans leit hann á það sem bænheyrslu. Vegna bænrækni sinnar fann hann konu sem varð ástkær eiginkona Ísaks. (1. Mós. 24:12-14, 67) Að vísu var þjónn Abrahams að sinna sérstöku verkefni. En við getum verið jafn örugg um að Jehóva heyri bænir okkar.

5. Hvers vegna getum við sagt að jafnvel stutt bæn í hljóði geti verið áhrifarík?

5 Stundum gætum við þurft að biðja í flýti um hjálp Guðs. Einu sinni tók Artaxerxes Persakonungur eftir því að Nehemía, byrlari hans, var dapur í bragði. „Hvers beiðist þú?“ spurði konungurinn. „Þá gjörði [Nehemía] bæn [sína] til Guðs himnanna.“ Hann fór líklega með hljóða bæn og gat ekki verið margorður. En Guð svaraði bæninni og Nehemía fékk stuðning konungsins til að endurbyggja borgarmúra Jerúsalem. (Lestu Nehemía 2:1-8.) Já, jafnvel stutt bæn í hljóði getur verið mjög áhrifarík.

6, 7. (a) Hvernig gaf Epafras gott fordæmi með bænum sínum? (b) Af hverju ættum við að biðja fyrir öðrum?

6 Við erum hvött til að biðja hvert fyrir öðru jafnvel þótt við sjáum ekki strax sönnun fyrir því að slíkum bænum sé svarað. (Jak. 5:16) Epafras, „trúr þjónn Krists“, bað einlæglega fyrir trúsystkinum sínum. Páll skrifaði frá Róm og sagði: „Einnig biður Epafras að heilsa yður [Kólossumönnum], sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs. Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis.“ — Kól. 1:7; 4:12, 13.

7 Kólossa, Laódíkea og Híerapólis voru borgir á sama svæði í Litlu-Asíu. Kristnir menn í Híerapólis bjuggu meðal þeirra sem tilbáðu gyðjuna Kýbelu, í Laódíkeu var efnishyggja allsráðandi og Kólossubúum stóð ógn af heimspeki. (Kól. 2:8) Það er ekki að furða að Epafras, sem var frá Kólossu, hafi ‚í bænum sínum barist‘ fyrir kristnum mönnum í þessari borg. Í Biblíunni er ekki sagt hvernig bænum hans var svarað en hann hætti ekki að biðja fyrir trúsystkinum sínum og það ættum við ekki heldur að gera. Þótt við séum ekki að hnýsast í mál annarra vitum við kannski að vinur eða einhver í fjölskyldunni er að ganga í gegnum erfiðar trúarprófraunir. (1. Pét. 4:15) Þá væri mjög viðeigandi að biðja fyrir honum í einkabænum okkar. Bænir annarra hjálpuðu Páli og bænir okkar geta líka haft mjög góð áhrif. — 2. Kor. 1:10, 11.

8. (a) Hvernig vitum við að öldungarnir í Efesus gerðu sér grein fyrir mikilvægi bænarinnar? (b) Hvernig ættum við að líta á bænina?

8 Erum við þekkt fyrir að vera bænrækin? Þegar Páll hafði rætt við öldungana í Efesus „féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum“. Síðan „tóku [allir] að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann. Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann“. (Post. 20:36-38) Við vitum ekki hvað allir þessir öldungar hétu en þeir gerðu sér augljóslega grein fyrir því hve mikilvæg bænin er. Við ættum að líta á það sem heiður að geta nálgast Guð í bæn og getum treyst því að faðir okkar á himnum bænheyri okkur. — 1. Tím. 2:8.

Hlýðum Guði í einu og öllu

9, 10. (a) Hvaða fordæmi gáfu dætur Selofhaðs? (b) Hvernig getur hlýðni dætra Selofhaðs haft áhrif á viðhorf einhleypra votta til hjónabandsins?

9Ef við höfum Jehóva alltaf fyrir augum eigum við auðveldara með að hlýða honum og það færir okkur blessun hans. (5. Mós. 28:13; 1. Sam. 15:22) En það þýðir að við verðum að temja okkur hlýðni. Tökum sem dæmi fimm dætur Selofhaðs sem voru uppi á dögum Móse. Það var venja meðal Ísraelsmanna að synir erfðu feður sína. En Selofhað dó án þess að eiga neina syni og Jehóva mælti svo fyrir að þessar fimm systur skyldu hljóta allan arfinn — með einu skilyrði þó. Þær urðu að giftast mönnum innan ættar Manasse svo að arfurinn héldist í ættinni. — 4. Mós. 27:1-8; 36:6-8.

10 Systurnar treystu því að allt færi vel ef þær hlýddu Guði. Í Biblíunni segir: „Dætur Selofhaðs gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse, og giftust þær Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa, dætur Selofhaðs, sonum föðurbræðra sinna. Giftust þær mönnum af kynkvísl sona Manasse Jósefssonar, og varð erfð þeirra kyrr í ættlegg föðurættar þeirra.“ (4. Mós. 36:10-12) Þessar hlýðnu konur gerðu það sem Jehóva bauð. (Jós. 17:3, 4) Einhleypir vottar, sem eru þroskaðir í trúnni, sýna sama traust með því að hlýða boðinu um að giftast „aðeins . . . í Drottni“. — 1. Kor. 7:39.

11, 12. Hvernig sýndi Kaleb að hann treysti Guði?

11 Við verðum að hlýða Jehóva í einu og öllu eins og Ísraelsmaðurinn Kaleb. (5. Mós. 1:36) Eftir frelsun Ísraels úr Egyptalandi á 16. öld f.Kr. sendi Móse 12 njósnara til að skoða Kanaanland. Aðeins tveir þeirra, Kaleb og Jósúa, hvöttu fólkið til að treysta algerlega á Guð og halda inn í landið. (4. Mós. 14:6-9) Um fjórum áratugum síðar voru Jósúa og Kaleb enn hlýðnir þjónar Jehóva og Jósúa fékk það verkefni að leiða þjóðina inn í fyrirheitna landið. En trúlausu njósnararnir tíu dóu greinilega á 40 ára eyðimerkurgöngunni. — 4. Mós. 14:31-34.

12 Kaleb dó ekki á eyðimerkurgöngunni og gat því á efri árum komið fram fyrir Jósúa og sagt: „Sjálfur fylgdi ég Drottni, Guði mínum heils hugar.“ (Biblían 2007; Lestu Jósúa 14:6-9.) Hann var 85 ára þegar hann bað um að fá að eign fjalllendið sem Guð hafði lofað honum þótt þar byggju óvinaþjóðir í stórum víggirtum borgum. — Jós. 14:10-15.

13. Hvernig getum við fengið blessun jafnvel þótt við lendum í prófraunum?

13 Við fáum stuðning Guðs ef við fylgjum Jehóva heilshugar eins og hinn trúfasti og hlýðni Kaleb gerði. Þegar við verðum fyrir miklum prófraunum blessar Jehóva okkur ef við fylgjum honum dyggilega. En það getur verið áskorun að gera það alla ævi eins og Kaleb. Sem dæmi má nefna að Salómoni konungi gekk vel fyrr á lífsleiðinni. En þegar hann var á gamals aldri fengu konur hans hann til að tilbiðja falsguði og „hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið“. (1. Kon. 11:4-6) Óháð þeim erfiðleikum, sem við verðum fyrir, skulum við alltaf hlýða Guði í einu og öllu og hafa hann ávallt fyrir augum.

Treystum alltaf á Jehóva

14, 15. Hvað kennir frásagan af Naomí okkur um mikilvægi þess að treysta á Guð?

14Við verðum að treysta á Guð, sérstaklega þegar við erum niðurdregin vegna þess að framtíð okkar virðist ekki björt. Tökum hina rosknu Naomí sem dæmi en hún missti eiginmann sinn og tvo syni. Þegar hún sneri aftur til Júda frá Móab sagði hún mæðulega: „Kallið mig ekki Naomí [„hin yndislega,“ neðanmáls], kallið mig Mara [„hin beiska,“ neðanmáls], því að hinn Almáttki hefir búið mér beiska harma. Rík fór ég héðan, en tómhenta hefir Drottinn látið mig aftur hverfa. Hví kallið þér mig Naomí, úr því Drottinn hefir vitnað í móti mér og hinn Almáttki hrellt mig?“ — Rut. 1:20, 21.

15 Þegar Rutarbók er skoðuð vandlega má sjá að Naomí hélt áfram að treysta á Jehóva þótt hún hafi verið mjög döpur. Og aðstæður hennar breyttust svo sannarlega. Tengdadóttir hennar, ekkjan Rut, giftist Bóasi og eignaðist son. Naomí varð fóstra drengsins og í frásögunni segir: „Grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: ‚Naomí er fæddur sonur!‘ og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs.“ (Rut. 4:14-17) Þegar Naomí fær upprisu til lífs hér á jörð kemst hún að því að Rut, sem fær líka upprisu, varð formóðir Messíasar. (Matt. 1:5, 6, 16) Við vitum ekki, frekar en Naomí, hvernig erfiðar aðstæður eiga eftir að þróast. Þess vegna skulum við alltaf treysta á Guð eins og við erum hvött til í Orðskviðunum 3:5, 6: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“

Reiðum okkur á heilagan anda

16. Hvernig hjálpaði heilagur andi Guðs öldungum í Ísrael til forna?

16Ef við höfum Jehóva ávallt fyrir augum leiðir hann okkur með heilögum anda sínum. (Gal. 5:16-18) Andi Guðs hvíldi yfir öldungunum 70 sem voru valdir til að hjálpa Móse að ‚bera byrði‘ Ísraelsmanna. Aðeins Eldad og Medad eru nafngreindir en andinn gerði þeim öllum kleift að sinna verkefni sínu. (4. Mós. 11:13-29) Þeir voru eflaust færir menn, guðhræddir, áreiðanlegir og heiðarlegir, eins og þeir sem áður höfðu verið valdir. (2. Mós. 18:21) Safnaðaröldungar nú á dögum hafa svipaða eiginleika til að bera.

17. Hvaða hlutverki gegndi heilagur andi Jehóva í gerð tjaldbúðarinnar?

17 Heilagur andi Jehóva gegndi mikilvægu hlutverki í gerð tjaldbúðarinnar í eyðimörkinni. Guð skipaði Besalel yfirhandverksmann og smið tjaldbúðarinnar og lofaði að „[fylla] hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik“. (2. Mós. 31:3-5) ‚Hugvitsmenn‘ unnu með Besalel og aðstoðarmanni hans, Oholíab, að þessu mikilfenglega verkefni. Auk þess knúði andi Jehóva fólk til að sýna örlæti og gefa framlög „af fúsum huga“. (2. Mós. 31:6; 35:5, 30-34) Þessi sami andi knýr þjóna Guðs nú á dögum til að gera sitt besta til að láta ríki Guðs hafa forgang. (Matt. 6:33) Þótt við búum yfir vissum hæfileikum þurfum við að biðja um heilagan anda og láta hann leiða okkur til að sinna því starfi sem Jehóva hefur falið þjónum sínum nú á dögum. — Lúk. 11:13.

Sýnum Jehóva allsherjar lotningu

18, 19. (a) Hvað vekur heilagur andi með okkur? (b) Hvað má læra af fordæmi Símeons og Önnu?

18Heilagur andi vekur með okkur lotningu sem hjálpar okkur að hafa Jehóva ávallt fyrir augum. Þjóð Guðs til forna var sagt: „Drottinn allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan.“ (Jes. 8:13) Hin öldruðu Símeon og Anna voru guðræknir einstaklingar í Jerúsalem á fyrstu öld. (Lestu Lúkas 2:25-38.) Símeon treysti Messíasarspádómunum og „vænti huggunar Ísraels“. Guð úthellti yfir hann heilögum anda og fullvissaði hann um að hann myndi lifa það að sjá Messías. Og það varð svo. Dag einn árið 2 f.Kr. færðu María og Jósef, móðir og fósturfaðir Jesú, hann í musterið. Undir innblæstri heilags anda mælti Símeon spádómleg orð um Messías og um sorg Maríu sem myndi horfa upp á Jesú negldan á kvalarstaur. En ímyndaðu þér gleði Símeons þegar hann tók í fang sér „Krist Drottins“. Hann er þjónum Guðs nú á dögum til fyrirmyndar með guðrækni sinni.

19 Anna var 84 ára guðrækin ekkja sem „vék eigi úr helgidóminum“. Hún þjónaði Jehóva „nótt og dag með föstum og bænahaldi“. Anna var líka viðstödd þegar komið var með ungbarnið Jesú í musterið og var innilega þakklát fyrir að fá að sjá hinn verðandi Messías. Hún lofaði Guð og „talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem“. Anna fann sig tilknúna til að segja öðrum frá þessu fagnaðarerindi. Aldraðir þjónar Guðs nú á dögum eru, líkt og Símeon og Anna, mjög ánægðir að vita að enginn skuli vera of gamall til að þjóna Jehóva sem vottur hans.

20. Hvað verðum við öll að gera og af hverju?

20 Hvort sem við erum ung eða gömul verðum við að hafa Jehóva ávallt fyrir augum. Þá blessar hann einlæga viðleitni okkar til að segja öðrum frá konungdómi hans og dásemdarverkum. (Sálm. 71:17, 18; 145:10-13) En til að heiðra Jehóva verðum við að sýna eiginleika honum að skapi. Hvað getum við lært um slíka eiginleika með því að rannsaka fleiri biblíufrásögur?

Hvert er svarið?

• Hvernig vitum við að Jehóva heyrir bænir?

• Af hverju ættum við að hlýða Guði í einu og öllu?

• Af hverju ættum við alltaf að treysta á Jehóva jafnvel þótt við séum niðurdregin?

• Hvernig hjálpar heilagur andi Guðs þjónum hans?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Bæn Nehemía bar árangur.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Við lærum að treysta á Jehóva með því að hugleiða frásöguna af Naomí.