Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvaða þýðingu hefur nærvera Krists fyrir okkur?

Hvaða þýðingu hefur nærvera Krists fyrir okkur?

Hvaða þýðingu hefur nærvera Krists fyrir okkur?

„Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ — MATT. 24:3.

1. Hvaða athyglisverðu spurningu báru postular Jesú fram?

FJÓRIR af postulum Jesú voru staddir með honum á Olíufjallinu fyrir tæplega tvö þúsund árum. Þeir spurðu hann einslega: „Hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ (Matt. 24:3) Í spurningu postulanna koma fyrir tvö orð sem eru sérlega athyglisverð. Þetta eru orðin ‚koma‘ og ‚endalok‘. Hvað merkja þessi tvö orð?

2. Hvaða hugsun er fólgin í orðinu sem er þýtt ‚endalok‘?

2 Lítum fyrst á síðara orðið, það er að segja ‚endalok‘. Það er þýðing gríska orðsins synteʹleia. Orðið merkir ‚lokakafli‘ og er skylt gríska orðinu telos sem merkir ‚endir‘. Hægt er að lýsa merkingarmun orðanna tveggja með því að taka dæmi af ræðu sem flutt er í ríkissalnum. Niðurlag eða lokakafli ræðunnar er síðasti hluti hennar þar sem ræðumaðurinn notar dálitla stund til að draga saman meginatriðin og benda áheyrendum á hvernig þeir geti heimfært efnið. Hins vegar endar ræðan þegar hann stígur niður af ræðupallinum. Orðasambandið ‚endalok veraldar‘, eins og það er notað í Biblíunni, táknar því tímabilið sem er undanfari þess að veröldin líði undir lok, ásamt sjálfum endinum.

3. Hvað gerist meðal annars á nærverutíma Jesú?

3 En hvað um „komu“ Jesú sem postularnir spurðu um? Þetta er þýðing gríska orðsins parúsíʹa sem merkir ‚nærvera‘. * Nærvera Krists hófst þegar hann tók við konungdómi á himnum árið 1914 og hún stendur óslitið út ‚þrenginguna miklu‘ þegar hann kemur til að eyða óguðlegum. (Matt. 24:21) Margt gerist á þessum nærverutíma Jesú. Meðal annars er hinum útvöldu safnað saman og þeir reistir upp til lífs á himnum. Þá standa jafnframt yfir ‚síðustu dagar‘ þessa illa heims. (2. Tím. 3:1; 1. Kor. 15:23; 1. Þess. 4:15-17; 2. Þess. 2:1) Segja mætti að tímabilið, sem kallað er ‚endalok veraldar‘ (synteʹleia), samsvari tímabilinu sem er kallað nærvera Krists (parúsíʹa).

Alllangt tímabil

4. Hvernig er nærvera Krists hliðstæð þeim atburðum sem áttu sér stað á dögum Nóa?

4 Sú staðreynd að orðið parúsíʹa skuli vera notað um alllangt tímabil kemur heim og saman við það sem Jesús sagði um nærveru sína. (Lestu Matteus 24:37-39.) Við tökum eftir að Jesús líkir ekki nærveru sinni við þann tiltölulega stutta tíma sem Nóaflóðið stóð yfir heldur við tímabilið sem var undanfari flóðsins. Það var mun lengra en flóðið sjálft. Það var á því tímabili sem Nói smíðaði örkina og prédikaði og þetta tímabil stóð allt þangað til flóðið skall á. Það tók marga áratugi. Nærvera Krists nær sömuleiðis yfir þá atburði sem eru undanfari þrengingarinnar miklu og yfir þrenginguna sjálfa. — 2. Þess. 1:6-9.

5. Hvernig má sjá af Opinberunarbókinni 6. kafla að nærvera Jesú stendur um alllangan tíma?

5 Af öðrum biblíuspádómum má greinilega sjá að með nærveru Krists er átt við alllangt tímabil en ekki aðeins tímann þegar hann kemur og eyðir óguðlegum. Í Opinberunarbókinni er Jesús sýndur á hvítum hesti og honum er fengin kóróna. (Lestu Opinberunarbókina 6:1-8.) Eftir að hann er krýndur konungur, sem gerðist árið 1914, er talað um að hann fari út „sigrandi og til þess að sigra“. Á eftir honum koma síðan reiðmenn á hestum sem eru hver í sínum lit. Þeir tákna stríð, matvælaskort og drepsóttir en allt hefur þetta átt sér stað á þeim alllanga tíma sem er kallaður ‚síðustu dagar‘. Við sjáum að þessi spádómur hefur verið að uppfyllast á okkar dögum.

6. Hvað má læra um nærveru Krists af 12. kafla Opinberunarbókarinnar?

6 Í 12. kafla Opinberunarbókarinnar er að finna ítarlegri upplýsingar um stofnun Guðsríkis á himnum. Þar segir frá stríði sem háð var á ósýnilegu tilverusviði. Míkael, sem er Jesús í stöðu sinni á himnum, og englar hans heyja stríð við Satan og illu andana. Stríðinu lyktar þannig að Satan og englum hans er varpað niður til jarðar. Síðan segir í frásögunni að djöfullinn sé ævareiður „því að hann veit, að hann hefur nauman tíma“. (Lestu Opinberunarbókina 12:7-12.) Ljóst er því að eftir að ríki Krists er stofnsett á himnum kemur tímabil sem einkennist af vaxandi hörmungum fyrir jörðina og jarðarbúa.

7. Um hvað fjallar annar sálmurinn og hvaða tækifæri er talað um þar?

7 Í öðrum sálminum er sömuleiðis spádómur um það þegar Jesús er settur í embætti sem konungur á himnesku Síonfjalli. (Lestu Sálm 2:5-9; 110:1, 2.) En í sálminum er einnig gefið til kynna að valdhöfum jarðar og þegnum þeirra sé gefinn ákveðinn tími og tækifæri til að beygja sig undir stjórn Krists. Þeir eru hvattir til að vera „hyggnir“ og ‚láta sér segjast‘. Já, „sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum [Guði]“ á þeim tíma með því að þjóna Guði og konunginum sem hann hefur skipað. Meðan Jesús er nærverandi sem konungur fá valdhafar heims og þegnar þeirra tækifæri til að breyta um afstöðu. — Sálm. 2:10-13.

Að sjá táknið

8, 9. Hverjir myndu sjá táknið um nærveru Krists og skilja þýðingu þess?

8 Þegar farísear spurðu Jesú hvenær Guðsríki kæmi svaraði hann að það kæmi ekki ‚þannig að á því bæri‘, það er að segja frá þeirra sjónarhóli. (Lúk. 17:20, 21) Hinir vantrúuðu myndu ekki skilja táknið. Hvernig gætu þeir það? Þeir viðurkenndu ekki einu sinni Jesú sem tilvonandi konung sinn. Hverjir myndu þá bæði sjá táknið um nærveru Krists og skilja þýðingu þess?

9 Í framhaldinu sagði Jesús að lærisveinar sínir myndu sjá táknið jafn skýrt og væri það „elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars“. (Lestu Lúkas 17:24-29.) Það er athyglisvert að í Matteusi 24:23-27 kemur skýrt fram að Jesús var að tala um tákn nærveru sinnar.

Kynslóðin sem sér táknið

10, 11. (a) Hvaða skýring hefur áður verið gefin á ‚kynslóðinni‘ í Matteusi 24:34? (b) Hvernig hafa postularnir eflaust skilið orð Jesú um ‚þessa kynslóð‘?

10 Í þessu tímariti hefur sú skýring áður verið gefin að á fyrstu öld hafi „þessi kynslóð“, sem nefnd er í Matteusi 24:34, verið „samtíðarkynslóð trúlausra Gyðinga“. * Það virtist rökrétt í ljósi þess að í öll önnur skipti, sem vitað er til að Jesús hafi notað orðið „kynslóð“, var það í neikvæðu samhengi. Í flestum tilfellum notaði hann lýsingarorð með neikvæðri merkingu, til dæmis ‚vondur‘, til að lýsa kynslóðinni. (Matt. 12:39; 17:17; Mark. 8:38) Því var álitið að í nútímauppfyllingunni hafi Jesús átt við vonda „kynslóð“ vantrúaðra manna sem sæju bæði táknið um ‚endalok veraldar‘ (synteʹleia) og sjálfan endinn (telos).

11 Það er vissulega rétt að þegar Jesús notaði orðið „kynslóð“ í neikvæðu samhengi var hann annaðhvort að ávarpa óguðlega samtíðarmenn sína eða tala um þá. En er sjálfgefið að svo hafi einnig verið í Matteusi 24:34? Höfum í huga að fjórir af lærisveinum Jesú höfðu komið til hans „einslega“. (Matt. 24:3) Þar eð Jesús notaði ekki neikvæð ákvæðisorð þegar hann talaði við þá um ‚þessa kynslóð‘ hafa postularnir eflaust skilið það svo að þeir og aðrir lærisveinar tilheyrðu ‚kynslóðinni‘ sem myndi ekki líða undir lok „uns allt þetta [væri] komið fram“.

12. Hvernig má sjá af samhengi orða Jesú hverja hann átti við þegar hann notaði orðið „kynslóð“?

12 Hvernig getum við dregið þessa ályktun? Með því að skoða samhengið vandlega. Eins og fram kemur í Matteusi 24:32, 33 sagði Jesús: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.“ (Samanber Markús 13:28-30 og Lúkas 21:30-32.) Síðan lesum við í Matteusi 24:34: „Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“

13, 14. Af hverju getum við sagt að ‚kynslóðin‘, sem Jesús talaði um, hljóti að hafa verið lærisveinar hans?

13 Jesús sagði að lærisveinar sínir, sem yrðu bráðlega smurðir heilögum anda, ættu að geta dregið ákveðnar ályktanir þegar þeir sæju „allt þetta“ koma fram. Hann hlýtur því að hafa verið að tala um lærisveinana þegar hann sagði: „Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“

14 Ólíkt hinum vantrúuðu myndu lærisveinar Jesú ekki aðeins sjá táknið heldur líka skilja hvað það þýddi. Þeir myndu ‚nema‘ eða læra af tákninu og „vita“ raunverulega merkingu þess. Þeir myndu gera sér fulla grein fyrir því að „hann [væri] í nánd, fyrir dyrum“. Enda þótt bæði vantrúaðir Gyðingar og trúir andasmurðir kristnir menn hafi séð orð Jesú rætast að takmörkuðu leyti á fyrstu öld voru það aðeins hinir andasmurðu sem gátu dregið lærdóm af þessum atburðum — skilið raunverulega merkingu þess sem þeir sáu.

15. (a) Hverjir mynda nú á tímum þá „kynslóð“ sem Jesús talaði um? (b) Af hverju getum við ekki reiknað nákvæmlega út hve löng „þessi kynslóð“ er? (Sjá rammagrein á bls. 25.)

15 Í augum núlifandi manna sem skilja ekki sannleika Guðs hefur táknið um nærveru Jesú ekki verið þess eðlis „að á því beri“. Þeir hugsa sem svo að allt sé óbreytt frá því sem verið hefur. (2. Pét. 3:4) Trúir andasmurðir bræður Jesú, Jóhannesarhópur okkar tíma, hafa hins vegar séð þetta tákn eins og eldingarleiftur og skilið merkingu þess. Sem hópur eru hinir andasmurðu sú „kynslóð“ samtíðarmanna nú á dögum sem mun ekki líða undir lok „uns allt þetta er komið fram“. * Þetta bendir til þess að sumir af andasmurðum bræðrum Krists verði enn á jörðinni þegar þrengingin mikla hefst.

„Vakið!“

16. Hvað verða allir lærisveinar Krists að gera?

16 En það er ekki nóg að skilja hvað táknið merkir. Jesús sagði: „Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ (Mark. 13:37) Þetta er afar þýðingarmikið fyrir okkur öll, hvort sem við erum af hópi hinna andasmurðu eða múginum mikla. Níu áratugir eru liðnir frá 1914 þegar Jesús tók við völdum sem himneskur konungur. Þó að það sé ekki auðvelt verðum við að vera viðbúin og halda vöku okkar. Sú vitneskja að Kristur er nú nærverandi sem ósýnilegur konungur hjálpar okkur til þess og minnir okkur stöðugt á að hann kemur innan skamms til að útrýma óvinum sínum ‚á þeirri stundu sem við ætlum eigi‘. — Lúk. 12:40.

17. Hvaða áhrif ætti þessi skilningur að hafa á okkur og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

17 Ef við skiljum hvaða þýðingu nærvera Krists hefur er það okkur hvöt til að vera enn kappsamari en áður. Við vitum að Jesús er nærverandi núna og hefur ríkt sem ósýnilegur konungur á himnum síðan 1914. Innan skamms kemur hann til að eyða öllum óguðlegum og gerbreyta ástandinu á jörðinni. Við ættum því að vera ákveðnari en nokkru sinni fyrr í því að taka ötulan þátt í því starfi sem Jesús boðaði þegar hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn [telos] koma.“ — Matt. 24:14.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá má merkingu orðsins parúsíʹa af 2. Korintubréfi 10:11 og Filippíbréfinu 2:12 en þar notar Páll postuli þetta orð þegar hann talar um að ‚vera hjá‘, gagnstætt því að vera ‚fjarstaddur‘ eða ‚fjarri‘. Ítarlegri umfjöllun er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 676-79.

^ gr. 15 Tímabilið, sem „þessi kynslóð“ lifir, virðist samsvara því tímabili sem fyrsta sýnin í Opinberunarbókinni nær yfir. (Opinb. 1:10–3:22) Þessi hluti dags Drottins stendur frá 1914 þangað til sá síðasti af trúum, andasmurðum bræðrum Krists deyr og er reistur upp. — Sjá Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 24, gr. 4.

Hvert er svarið?

• Hvernig vitum við að nærvera Jesú stendur yfir um alllangan tíma?

• Hverjir sjá táknið um nærveru Jesú og skilja hvað það merkir?

• Hverjir mynda nú á dögum kynslóðina sem nefnd er í Matteusi 24:34?

• Hvers vegna getum við ekki reiknað nákvæmlega út hve löng „þessi kynslóð“ er?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 25]

Getum við reiknað út hve löng „þessi kynslóð“ er?

Orðið „kynslóð“ er að öllu jöfnu notað um fólk á ýmsum aldri sem er samtíða á ákveðnu tímabili eða þegar ákveðinn atburður á sér stað. Til dæmis segir í 2. Mósebók 1:6: „Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð.“ Jósef og bræður hans voru á misjöfnum aldri en upplifðu sömu hluti á sama tímabili. Bræður Jósefs, sem fæddust á undan honum, tilheyrðu meðal annars þeirri „kynslóð“ sem hér um ræðir en sumir þeirra lifðu hann. (1. Mós. 50:24) Aðrir sem tilheyrðu þessari „kynslóð“, til dæmis Benjamín, voru yngri en Jósef og lifðu lengur en hann.

Þegar orðið „kynslóð“ er notað um fólk sem er uppi á ákveðnum tíma er því ekki hægt að tiltaka nákvæmlega hve langur tíminn er að öðru leyti en því að hann tekur enda og er ekki óhóflega langur. Með því að nota orðasambandið „þessi kynslóð“, eins og sagt er frá í Matteusi 24:34, var Jesús ekki að gefa lærisveinunum formúlu til að reikna út hvenær ‚síðustu dagar‘ tækju enda. Í framhaldinu benti hann á að þeir vissu ekki „þann dag og stund“. — 2. Tím. 3:1; Matt. 24:36.

[Mynd á blaðsíðu 22, 23]

Jesús fer út „sigrandi“ eftir að hann er krýndur konungur árið 1914.

[Mynd á blaðsíðu 24]

„Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“