Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærum af mistökum Ísraelsmanna

Lærum af mistökum Ísraelsmanna

Lærum af mistökum Ísraelsmanna

ÍSRAELSMENN vissu hvað þeir áttu að gera þegar þeir héldu inn í fyrirheitna landið. Jehóva hafði sagt þeim fyrir milligöngu Móse: „Þér [skuluð] stökkva burt undan yður öllum íbúum landsins og eyða öllum myndasteinum þeirra, þér skuluð og eyða öllum steyptum goðalíkneskjum þeirra og leggja fórnarhæðir þeirra í eyði.“ — 4. Mós. 33:52.

Þjóðin átti ekki að gera neina sáttmála við íbúa landsins og átti ekki að stofna til hjónabanda við þá. (5. Mós. 7:2, 3) Útvalin þjóð Guðs hafði verið aðvöruð: „Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín.“ (2. Mós. 34:12) Engu að síður óhlýðnaðist þjóðin og féll í gildruna. Hvað varð til þess að Ísraelsmenn óhlýðnuðust? Hvaða lærdóm má draga af mistökum þeirra? — 1. Kor. 10:11.

Frá vinskap til skurðgoðadýrkunar

Ísraelsmenn voru fljótir að vinna sigur á íbúum fyrirheitna landsins. En þeir fylgdu ekki fyrirskipunum Guðs að öllu leyti. Þeir ráku óvinina ekki burt. (Dóm. 1:1–2:10) Þeir bjuggu með „sjö þjóðum“ og samskipti þeirra leiddu til vináttutengsla. (5. Mós. 7:1) Hvaða áhrif hafði það á Ísraelsmenn? Í Biblíunni segir: „Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra. Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum.“ (Dóm. 3:5-7) Vinátta Ísraelsmanna við íbúa landsins leiddi til hjónabanda þeirra á milli og skurðgoðadýrkunar. Hjúskapartengslin minnkuðu líkurnar á því að Ísraelsmenn myndu reka heiðnu þjóðirnar burt úr landinu. Sönn tilbeiðsla spilltist og Ísraelsmenn fóru að dýrka falsguði.

Íbúar fyrirheitna landsins voru Ísraelsmönnum hættulegri sem vinir en óvinir. Lítum á annað sem gæti hafa stuðlað að spillingu í trúmálum þeirra.

Frá búskap til Baalsdýrkunar

Ísraelsmenn hættu að vera hirðingjaþjóð þegar þeir settust að í fyrirheitna landinu og margir gerðust bændur. Þeir hafa örugglega beitt svipuðum aðferðum við búskapinn og fyrri íbúar landsins. En svo virðist sem Ísraelsmenn hafi ekki látið sér nægja að tileinka sér vinnubrögð Kanverja. Samskipti þeirra við íbúa landsins urðu til þess að þeir létu tælast til að taka upp trúarsiði sem stundaðir höfðu verið í tengslum við landbúnaðinn.

Kanverjar trúðu á marga Baala — guði sem áttu að auka frjósemi jarðarinnar. Ísraelsmenn ræktuðu landið og uppskáru afurðir þess en með tímanum tóku þeir líka þátt í að heiðra guði Kanverja og þakka þeim fyrir gjafmildi þeirra. Margir þóttust tilbiðja Jehóva en voru í raun orðnir hreinir fráhvarfsmenn.

Kröftug viðvörun

Það er fremur ólíklegt að Ísraelsmenn hafi ætlað sér að taka þátt í Baalsdýrkun og siðspillingu Kanverja þegar þeir fóru að eiga samskipti við þá. En sú varð samt raunin. Getum við ekki búist við svipuðum áhrifum ef við stofnum til vináttu við fólk sem er vingjarnlegt en hefur hvorki sömu trúarskoðanir, siðferðisreglur né gildismat og við? Við komumst auðvitað ekki hjá því að eiga samskipti við vantrúaða á vinnustað, í skólanum eða jafnvel á heimilinu. En saga Ísraelsmanna er okkur til viðvörunar og minnir á að við bjóðum hættunni heim með því að sækjast eftir slíkum vinskap. Biblían segir skýrt og skorinort: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ — 1. Kor. 15:33.

Við verðum fyrir ýmiss konar freistingum líkt og Ísraelsmenn til forna. Þjóðfélag nútímans á sér sína guði. Nefna mætti sem dæmi peninga, fræga leikara og íþróttamenn, stjórnmálakerfi, trúarleiðtoga og jafnvel fjölskyldumeðlimi. Við gætum auðveldlega látið eitthvað slíkt verða aðalatriðið í lífinu. Ef við stofnum til náins vinskapar við fólk sem elskar ekki Jehóva getum við átt á hættu að skaða sambandið við hann.

Eitt af því sem tældi marga Ísraelsmenn út í Baalsdýrkun var siðlaust kynlíf sem tengdist tilbeiðslunni. Margir þjónar Guðs falla í svipaða gildru. Það þarf til dæmis ekki nema nokkra músasmelli í tölvunni til að óvarkár kristinn maður eyðileggi góða samvisku sína. Það væri sorglegt að falla í þá gildru að skoða klámefni á Netinu í einrúmi heima hjá sér sökum forvitni.

„Sælir eru þeir er halda reglur hans“

Við ákveðum sjálf hvort við hlýðum Jehóva eða ekki þegar við veljum okkur félaga. (5. Mós. 30:19, 20) Við þurfum því að spyrja okkur spurninga eins og: Með hverjum er ég í frítíma mínum? Hvernig er siðferði þeirra? Hvaða gildismat hafa þeir? Tilbiðja þeir Jehóva? Mun félagsskapur þeirra hvetja mig til að vera betri vottur?

Sálmaritarinn söng: „Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli Drottins. Sælir eru þeir er halda reglur hans, þeir er leita hans af öllu hjarta.“ (Sálm. 119:1, 2) Já, „sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum“. (Sálm. 128:1) Við skulum læra af mistökum Ísraelsmanna og hlýða Jehóva í einu og öllu þegar við veljum okkur félaga. — Orðskv. 13:20.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Vinátta við þá sem elska ekki Jehóva getur leitt okkur út í skurðgoðadýrkun.