Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fagnaðarerindið boðað hátt í Andesfjöllum

Fagnaðarerindið boðað hátt í Andesfjöllum

Fagnaðarerindið boðað hátt í Andesfjöllum

VIÐ vorum 18 saman í hóp og lágum skjálfandi í svefnpokunum á moldargólfinu. Rigningin dundi á bárujárnsþakinu fyrir ofan okkur. Við veltum fyrir okkur hvort við værum fyrstu mennirnir sem hefðum næturstað í þessum örsmáa skúr.

Af hverju vorum við stödd á þessu svæði? Svarið tengist löngun okkar til að fylgja boði Jesú um að prédika fagnaðarerindið „allt til endimarka jarðarinnar“. (Post. 1:8; Matt. 24:14) Við vorum í starfsferð á einangruðu svæði í Andesfjöllum í Bólivíu.

Að komast á áfangastað

Fyrsta áskorunin var að komast á svæðið. Við uppgötvuðum að almenningssamgöngur á svona afskekkta staði fylgja ekki nákvæmri tímaáætlun. Og þegar rútan kom reyndist hún minni en til stóð þannig að sum okkar fengu ekki sæti. En að lokum komumst við öll á áfangastað.

Markmiðið var að heimsækja nokkur þorp hátt í Andesfjöllum í Bólivíu. Þegar rútuferðin var á enda héldum við af stað, klyfjuð vistum. Við gengum varlega upp brattar fjallshlíðarnar í einfaldri röð.

Þótt þorpin virtust smá voru húsin mjög dreifð og það tók okkur margar klukkustundir að fara yfir hvert þorp. Það skipti ekki máli hversu langt við gengum, það virtist alltaf vera enn eitt hús aðeins lengra í burtu. Oft villtumst við á hlykkjóttum stígunum sem lágu í gegnum akrana.

„Af hverju komuð þið ekki fyrr?“

Konu nokkurri fannst svo mikið til þess koma að við skyldum hafa gengið svona langa leið að hún leyfði okkur að nota eldhúsið sitt og eldivið til að hita hádegismatinn okkar. Og þegar við sögðum manni nokkrum hvað Biblían kennir um ástand hinna dánu spurði hann: „Af hverju komuð þið ekki fyrr?“ Hann sýndi svo mikinn áhuga að þegar við yfirgáfum þorpið hans fylgdi hann okkur áleiðis til að spyrja okkur spurninga á leiðinni. Annar maður hafði aldrei áður heyrt um Votta Jehóva og sýndi mikinn áhuga á ritunum okkar. Hann þakkaði okkur kærlega fyrir komuna og rétti okkur lykil að skúr sem við máttum gista í yfir nóttina.

Eitt kvöldið var myrkrið svo mikið að við tjölduðum óvart á miðju maurabúi. Maurarnir voru stórir og svartir og létu óánægju sína strax í ljós með því að bíta okkur. En við vorum of þreytt til að færa okkur og sem betur fer hættu þeir að skipta sér af okkur eftir smá tíma.

Til að byrja með verkjaði okkur í bakið og rifbeinin af því að við sváfum jörðinni. En það vandist smám saman. Og allir bakverkir gleymdust á morgnana þegar við horfðum á óspillta fjalladalina, skýin sem siluðust rólega upp hlíðarnar og snæviþakta fjallatindana í fjarska. Það eina sem rauf þögnina var lækjarniður og fuglasöngur.

Eftir að hafa þvegið okkur í læknum fórum við saman yfir vers úr Biblíunni, borðuðum morgunmat og héldum rólega upp í móti í átt að öðrum fjarlægum þorpum. Gangan var vel þess virði. Við hittum eldri konu sem grét þegar hún heyrði að nafn Guðs, Jehóva, stæði í Biblíunni. Henni fannst þetta stórkostlegt. Nú gat hún ávarpað Guð með nafni í bænum sínum.

Roskinn maður sagði að Guð hlyti að hafa munað eftir honum og tók að syngja. Í söngnum sagði hann að englarnir hefðu sent okkur. Annar maður var svo veikur að hann gat ekki farið út úr húsi. Hann sagði okkur að enginn úr þorpinu sínu hefði fyrir því að koma og heimsækja hann. Honum fannst ótrúlegt að við hefðum komið alla leið frá La Paz. Við hittum líka mann sem var mjög hrifinn af því að vottar Jehóva kæmu heim til fólks í ljósi þess að önnur trúfélög nota bara kirkjuklukkur til að kalla fólk til messu.

Engin þessara heimila hafa rafmagn og því fer fólk að sofa þegar dimmir og vaknar þegar sólin rís. Við urðum því að byrja að prédika klukkan sex á morgnana. Annars hefðu allir verið farnir út á akrana að vinna. Seinna um daginn, þegar fólk var byrjað að vinna, voru sumir fúsir til að stoppa og hlusta á biblíutengdan boðskap okkar. Í leiðinni fékk uxinn kannski kærkomna hvíld frá því að draga plóginn. Margir þeirra sem voru heima drógu fram gærur sem við gátum setið á og kölluðu saman alla fjölskylduna til að hlusta á okkur. Og sumir bændurnir gáfu stóra maíspoka í framlög til að sýna þakklæti sitt fyrir ritin sem við gáfum þeim.

„Þið gleymduð mér ekki“

Það verður að sjálfsögðu að heimsækja fólk oftar en einu sinni til að það fái aukna biblíuþekkingu. Margir sárbáðu okkur um að koma aftur til að kenna þeim meira. Þess vegna höfum við nú farið í fjölmargar ferðir á þetta svæði í Bólivíu.

Í ferð sem við fórum í seinna hittum við eldri konu sem var mjög ánægð að við skyldum hafa komið aftur. Hún sagði: „Þið eruð eins og börnin mín. Þið gleymduð mér ekki.“ Maður nokkur þakkaði okkur fyrir starf okkar og bauð okkur að gista heima hjá sér næst þegar við kæmum. En það sem veitti okkur hvað mesta gleði var að heyra að kona, sem við höfðum hitt í einni af fyrstu ferðum okkar, hefði flutt til borgarinnar og væri nú farin að prédika fagnaðarerindið.

Síðasta daginn í fyrstu ferðinni kláraðist olían fyrir steinolíuprímusinn og næstum allar matarbirgðirnar voru búnar. Við söfnuðum saman nægum eldivið til að kveikja eld og hita það sem eftir var af matnum. Síðan héldum við fótgangandi heim á leið. Við vorum í margra kílómetra fjarlægð frá bænum þaðan sem rútan fór. En að lokum komumst við þangað í myrkri.

Heimförin

Heimförin gekk ekki áfallalaust fyrir sig því að rútan bilaði á leiðinni. En okkur tókst að fá far með pallbíl sem var troðfullur af fólki. Þetta gaf okkur tækifæri til að prédika fyrir öðrum farþegum sem langaði að vita af hverju við værum þarna. Þótt fólkið á svæðinu sé hlédrægt að eðlisfari er það venjulega mjög hlýlegt og vingjarnlegt.

Eftir níu klukkustunda ferð á pallbílnum komum við heim — blaut og ísköld. En ferðin var ekki til einskis. Á leiðinni þáði kona, sem býr í borginni, biblíunámskeið.

Það var einstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að boða fólki fagnaðarerindið á svona einangruðu svæði. Við höfðum prédikað í fjórum þorpum og ótal smáþorpum. Okkur var ósjálfrátt hugsað til orðanna: „Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans, sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar. — Jes. 52:7; Rómv. 10:15.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Tilbúin til að leggja upp í starfsferðina.