Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu yndi af hjónabandinu

Hafðu yndi af hjónabandinu

Hafðu yndi af hjónabandinu

„Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast.“ — ORÐSKV. 24:3.

1. Hvernig birtist viska Guðs í sambandi við fyrsta manninn?

FAÐIR okkar á himnum er vitur og veit hvað er okkur fyrir bestu. Hann gerði sér meðal annars grein fyrir því að til að vilji hans næði fram að ganga væri ekki gott að maðurinn væri einsamall í Edengarðinum. Það var mikilvægur þáttur í fyrirætlun hans að hjón eignuðust börn og uppfylltu jörðina. — 1. Mós. 1:28; 2:18.

2. Hvað stofnaði Guð sem var mannkyninu til blessunar?

2 „Ég vil gjöra honum meðhjálp við hans hæfi,“ sagði Jehóva. Hann lét fyrsta manninn sofna djúpum svefni, tók rifbein úr fullkomnum líkama hans og myndaði fullkomna konu af rifinu. Jehóva leiddi síðan konuna Evu til Adams. Þá sagði Adam: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi. Hún skal karlynja kallast, af því að hún er af karlmanni tekin.“ Eva var sannarlega félagi við hans hæfi. Þau höfðu hvort sína eiginleika og hæfileika en bæði voru þau fullkomin og sköpuð í mynd Guðs. Þannig stofnaði Jehóva fyrsta hjónabandið. Adam og Eva voru ánægð með þetta fyrirkomulag Guðs og það var þeim báðum til styrktar og stuðnings. — 1. Mós. 1:27; 2:21-23.

3. Hvernig líta margir á hjónabandið og hvaða spurningar vekur það?

3 Því miður er uppreisnarandi ríkjandi í heimi nútímans. Vandamálin, sem það leiðir af sér, eru ekki Guði að kenna. Margir lítilsvirða þá gjöf sem hjónabandið er og líta svo á að það sé úrelt og kveikja vonbrigða, skapraunar og deilna. Og hjá þeim sem ganga í hjónaband eru hjónaskilnaðir algengir. Börnum er ef til vill ekki sýnd ástúð og þau lenda oft á milli foreldra sinna þegar þeir deila. Margir vilja ekki gefa eftir, ekki einu sinni til að viðhalda friði og einingu. (2. Tím. 3:3) Hvernig er þá hægt að hafa yndi af hjónabandinu á þessum erfiðu tímum? Hvernig getur það að vera eftirgefanlegur komið í veg fyrir hjónaskilnað? Hvað getum við lært af þeim sem hafa varðveitt gleðina í hjónabandinu?

Lútum leiðsögn Jehóva

4. (a) Hvaða leiðbeiningar gaf Páll um hjónabandið? (b) Hvernig fylgir hlýðinn kristinn maður leiðbeiningum Páls?

4 Undir innblæstri gaf Páll postuli ekkjum leiðbeiningar og sagði að ef þær giftust á ný ættu þær aðeins að gera það „í Drottni“. (1. Kor. 7:39) Þetta var engin nýlunda fyrir kristna menn sem höfðu áður verið undir Móselögunum. Þar kom greinilega fram að Gyðingar ættu ekki að stofna til hjúskapar við nokkurn af heiðnu þjóðunum í kring. Til nánari skýringar benti Jehóva á hættuna samfara því að hunsa þetta ákvæði: „Það mundi snúa sonum þínum frá fylgd við mig svo að þeir færu að þjóna öðrum guðum. Þá mundi reiði Drottins blossa upp gegn ykkur og eyða þér þegar í stað.“ (5. Mós. 7:3, 4, Biblían 2007) Hvaða afstöðu ætlast Jehóva til að þjónar hans nú á dögum taki í þessum málum? Þjónn Guðs ætti greinilega að velja sér maka sem er „í Drottni“, það er að segja vígðan og skírðan tilbiðjanda Jehóva. Það er viturlegt að lúta leiðsögn Jehóva þegar maður velur sér maka.

5. Hvernig líta Jehóva og kristin hjón á hjúskaparheitin?

5 Hjúskaparheitin eru heilög í augum Guðs. Sonur hans, Jesús, vísaði í fyrsta hjónabandið og sagði: „Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja.“ (Matt. 19:6) Sálmaritarinn minnir okkur á hve alvarlegt sé að gefa heit: „Fær Guði þakkargjörð að fórn og gjald Hinum hæsta þannig heit þín.“ (Sálm. 50:14) Þótt hjón eigi eflaust mikla gleði í vændum eru heitin, sem gefin eru á brúðkaupsdaginn, alvarleg og þeim fylgir ábyrgð. — 5. Mós. 23:21.

6. Hvað lærum við af Jefta?

6 Jefta, sem var dómari í Ísrael á 12. öld f.Kr., gaf Jehóva þetta heit: „Ef þú gefur Ammóníta í hendur mér, þá skal sá, er fyrstur gengur út úr dyrum húss míns í móti mér, er ég sný aftur heilu og höldnu frá Ammónítum, heyra Drottni, og skal ég fórna honum að brennifórn.“ Reyndi Jefta að rjúfa heit sitt þegar hann sneri heim til Mispa og sá að það var dóttir hans og einkabarn sem kom á móti honum? Nei. Hann sagði: „Ég hefi upp lokið munni mínum gagnvart Drottni, og ég get ekki tekið það aftur.“ (Dóm. 11:30, 31, 35) Jefta hélt loforðið sem hann hafði gefið Jehóva jafnvel þótt það þýddi að hann myndi ekki eignast afkomanda. Heit Jefta var annars eðlis en hjúskaparheit en með því að halda það er hann kristnum eiginmönnum og eiginkonum góð fyrirmynd.

Hvað stuðlar að góðu hjónabandi?

7. Hvaða breytingar verða nýgift hjón að gera?

7 Mörg hjón minnast tilhugalífsins með hlýju og hugsa til þess hve ánægjulegt það var að kynnast tilvonandi maka sínum. Því meiri tíma sem þau vörðu saman þeim mun nánari urðu þau. En hvort sem hjón giftust í kjölfar tilhugalífs eða hjónabandið var ákveðið af foreldrunum þurfti að gera ákveðnar breytingar eftir brúðkaupið. Eiginmaður nokkur viðurkennir: „Einn stærsti vandinn hjá okkur í upphafi hjónabandsins var að gera okkur grein fyrir því að við vorum ekki lengur einhleyp. Um tíma fannst okkur erfitt að hafa rétt jafnvægi á samskiptum okkar við vini og fjölskyldu.“ Annar eiginmaður, sem hefur nú verið giftur í 30 ár, gerði sér fljótt grein fyrir því að hann yrði að „hugsa í fleirtölu“. Áður en hann þiggur heimboð eða skuldbindur sig ræðir hann málið við eiginkonu sína og tekur síðan ákvörðun með hag þeirra beggja fyrir augum. Við slíkar aðstæður er gott að vera eftirgefanlegur. — Orðskv. 13:10.

8, 9. (a) Af hverju eru góð tjáskipti mikilvæg? (b) Á hvaða sviðum er gott að vera sveigjanlegur og hvers vegna?

8 Stundum sameinast fólk af ólíkri menningu í hjónabandi. Þá er sérstaklega mikilvægt að viðhalda góðum tjáskiptum. Fólk tjáir sig með ólíkum hætti. Ef þú fylgist með því hvernig maki þinn talar við ættingja sína getur það hjálpað þér að skilja hann betur. Stundum eru það ekki bara orðin sjálf sem segja okkur hvað aðrir hugsa heldur líka hvernig orðin eru sögð. Og margt má læra af því sem látið er ósagt. (Orðskv. 16:24; Kól. 4:6) Til að hjónabandið sé hamingjuríkt er nauðsynlegt að vera hygginn og næmur. — Lestu Orðskviðina 24:3.

9 Margir hafa uppgötvað að það er mikilvægt að vera sveigjanlegur hvað varðar áhugamál og afþreyingu. Áður en þú giftir þig gæti maki þinn hafa eytt tíma í íþróttir eða aðra afþreyingu. Gæti þurft að gera einhverja breytingu á? (1. Tím. 4:8) Hið sama er að segja um tíma sem varið er með ættingjum. Hjón þurfa auðvitað tíma til að stunda trú sína og annað í sameiningu. — Matt. 6:33.

10. Hvernig stuðlar það að góðum samskiptum milli foreldra og giftra barna að vera fús til að gefa eftir?

10 Þegar karlmaður giftist yfirgefur hann föður sinn og móður og hið sama er segja um konuna. (Lestu 1. Mósebók 2:24.) Sú biblíulega meginregla að heiðra föður og móður hefur hins vegar engin tímamörk. Þess vegna á fólk líklega eftir að verja tíma með foreldrum sínum og tengdaforeldrum eftir að það giftir sig. Eiginmaður nokkur, sem hefur verið giftur í 25 ár, segir: „Stundum er erfitt að samræma mismunandi óskir og þarfir maka síns annars vegar og foreldra sinna, systkina og tengdafólks hins vegar. En 1. Mósebók 2:24 hefur hjálpað mér að finna rétta jafnvægið. Maður verður að vera tryggur öðrum í fjölskyldunni og hefur skyldum að gegna gagnvart þeim en þetta vers minnir mig á að skyldur gagnvart makanum ganga fyrir.“ Kristnir foreldrar verða að vera fúsir til að gefa eftir og virða það að gift börn þeirra tilheyra nú eigin fjölskyldu þar sem eiginmaðurinn hefur þá skyldu að fara með forystuna.

11, 12. Af hverju er fjölskyldunám og sameiginlegar bænir mikilvægar fyrir hjón?

11 Það er mjög mikilvægt að hafa góða reglu á biblíunámi fjölskyldunnar. Þetta er reynsla margra kristinna fjölskyldna. Það er ef til vill ekki auðvelt að koma á slíku námi eða halda því gangandi til langs tíma litið. Fjölskyldufaðir nokkur segir: „Ef við gætum spólað til baka og breytt einhverju þá myndum við tryggja að við hefðum góða reglu á biblíunámi allt frá upphafi hjónabandsins.“ Síðan bætir hann við: „Mér finnst svo ánægjulegt að sjá hvað konan mín verður glöð þegar við finnum andlegan gimstein í sameiginlegu námi okkar.“

12 Það er sömuleiðis verðmætt að biðja saman. (Rómv. 12:12) Þegar hjón eru sameinuð í tilbeiðslunni á Jehóva getur náið samband þeirra við hann styrkt hjónabandið. (Jak. 4:8) Eiginmaður nokkur segir: „Ein leið til að sýna að maður sjái innilega eftir einhverju sem veldur leiðindum, þótt það sé smávægilegt, er að biðjast strax afsökunar og minnast á þetta í sameiginlegum bænum okkar.“ — Ef. 6:18.

Verið fús til að gefa eftir

13. Hvaða leiðbeiningar gaf Páll um samlíf hjóna?

13 Kristin hjón verða að forðast allt sem auðvirðir kynlífið eins og til dæmis athafnir sem eru svo algengar í kynóðum heimi nútímans. Páll gaf leiðbeiningar um þessi mál og sagði: „Maðurinn gæti skyldu sinnar gagnvart konunni og sömuleiðis konan gagnvart manninum. Ekki hefur konan vald yfir eigin líkama, heldur maðurinn. Sömuleiðis hefur og maðurinn ekki heldur vald yfir eigin líkama, heldur konan.“ Síðan gaf Páll þessi skýru ráð: „Haldið yður eigi hvort frá öðru, nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir.“ Af hverju? „Til þess að þér getið haft næði til bænahalds, og takið svo saman aftur, til þess að Satan freisti yðar ekki vegna ístöðuleysis yðar.“ (1. Kor. 7:3-5) Með því að nefna bænina bendir Páll á hvað sé mikilvægast. En hann tók líka fram að hjón verði að vera næm fyrir líkamlegum og tilfinningalegum þörfum hvort annars.

14. Hvernig eiga meginreglur Biblíunnar við í samlífi hjóna?

14 Hjón verða að vera opinská hvort við annað og gera sér grein fyrir því að það getur verið ávísun á vandamál ef þau eru ekki nærgætin og tillitssöm á þessu sviði. (Lestu Filippíbréfið 2:3, 4; samanber Matteus 7:12.) Þetta hefur stundum valdið vanda þegar hjónin eru ekki bæði í trúnni. En jafnvel þótt ágreiningur komi upp getur makinn, sem er í trúnni, yfirleitt bætt ástandið með því að koma vel fram og vera vingjarnlegur og samvinnuþýður. (Lestu 1. Pétursbréf 3:1, 2.) Kærleikur til Jehóva og makans og vilji til að gefa eftir hjálpar hjónum á þessu sviði.

15. Hvers vegna er virðing mikilvæg í góðu hjónabandi?

15 Ástríkur eiginmaður sýnir eiginkonu sinni líka virðingu á öðrum sviðum. Hann tekur mið af tilfinningum hennar, jafnvel í smávægilegum málum. Eiginmaður viðurkennir eftir 47 ára hjónaband: „Ég er enn að læra þetta.“ Kristnum eiginkonum er sagt að bera djúpa virðingu fyrir eiginmönnum sínum. (Ef. 5:33) Það er varla merki um virðingu að tala illa um eiginmann sinn eða beina athygli að göllum hans fyrir framan aðra. Í Orðskviðunum 14:1 segir: „Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.“

Látið ekki undan djöflinum

16. Hvernig geta hjón fylgt Efesusbréfinu 4:26, 27?

16 „Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi.“ (Ef. 4:26, 27) Ef hjón fara eftir þessum orðum getur það hjálpað þeim að leysa eða koma í veg fyrir ágreining. „Ég man ekki eftir að við hjónin höfum nokkurn tíma verið ósammála án þess að ræða út um málið, jafnvel þótt það hafi tekið margar klukkustundir,“ segir systir nokkur. Í upphafi hjónabandsins ákváðu hún og eiginmaður hennar og þau myndu alltaf leysa úr ágreiningsmálum sínum áður en dagurinn væri úti. „Við einsettum okkur að fyrirgefa og gleyma, hvert sem vandamálið væri, og byrja hvern dag í sátt og samlyndi.“ Þannig hafa þau gætt þess að gefa „djöflinum ekkert færi“.

17. Hvað getur hjálpað hjónum sem virðast ekki eiga vel saman?

17 En hvað er til ráða ef þú sýndir ekki næga skynsemi þegar þú valdir þér maka? Nú finnst þér ef til vill að hjónaband þitt sé ekki eins ástríkt og hjónabönd annarra. Það er engu að síður gott að hafa hugfast hvernig skaparinn lítur á hjónabandið. Undir innblæstri skrifaði Páll kristnum mönnum: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebr. 13:4) Og ekki má gleyma orðunum: „Þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.“ (Préd. 4:12) Þegar bæði hjónin láta sér innilega annt um að nafn Jehóva helgist eru þau bundin hvort öðru og bundin honum. Þau ættu að vinna að því að gera hjónabandið farsælt því að þau vita að það er Jehóva, höfundi hjónabandsins, til sóma. — 1. Pét. 3:11.

18. Hverju má treysta varðandi hjónabandið?

18 Við sjáum að það er greinilega hægt að hafa yndi af hjónabandinu. En til að gera það er nauðsynlegt að leggja sig vel fram og sýna kristna eiginleika, til dæmis að vera fús til að gefa eftir. Í söfnuðum Votta Jehóva um allan heim eru ótal dæmi um hjón sem sanna að það er hægt.

Hvert er svarið?

• Af hverju er ekki óraunhæft að ætla sér að hafa yndi af hjónabandinu?

• Hvað stuðlar að farsælu hjónabandi?

• Hvaða eiginleika verða hjón að þroska með sér?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Það er skynsamlegt af hjónum að ræða saman áður en þau þiggja heimboð eða mæla sér mót við aðra.

[Mynd á blaðsíðu 10]

„Gefið djöflinum ekkert færi“ með því að leysa ágreiningsmál samdægurs.