Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal?“

„Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal?“

„Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal?“

„Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.“ — JAK. 3:13.

1, 2. Hvað er hægt að segja um marga sem eru álitnir vitrir?

HVER kemur upp í hugann hjá þér þegar talað er um vitra manneskju? Foreldrar þínir, aldraður maður eða kannski háskólaprófessor? Uppeldi þitt og aðstæður hafa ef til vill áhrif á það hvernig þú hugsar um þetta mál. En þjónar Guðs hafa fyrst og fremst áhuga á skoðun hans.

2 Það er ekki sjálfgefið að þeir sem heimurinn álítur vitra séu það í augum Guðs. Job átti orðaskipti við menn sem voru vitrir að eigin mati en hann sagðist ekki finna neinn slíkan á meðal þeirra. (Job. 17:10) Páll postuli skrifaði um menn sem höfnuðu þekkingunni á Guði: „Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar.“ (Rómv. 1:22) Og Jehóva sagði skorinort fyrir munn Jesaja spámanns: „Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín.“ — Jes. 5:21.

3, 4. Hvað er nauðsynlegt til að vera vitur í raun?

3 Ljóst er að við þurfum að ganga úr skugga um hvað það sé sem gerir manninn vitran og velþóknanlegan í augum Guðs. Varpað er ljósi á það í Orðskviðunum 9:10: „Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.“ Til að vera vitur þarf maður að óttast Guð á tilhlýðilegan hátt og virða mælikvarða hans. En það er ekki nóg að viðurkenna bara að Guð sé til og setji mönnum ákveðnar lífsreglur. Lærisveinninn Jakob vekur okkur til umhugsunar um þetta. (Lestu Jakobsbréfið 3:13.) Tökum eftir orðum hans: „Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.“ Sönn viska ætti að sýna sig í því sem við segjum og gerum dagsdaglega.

4 Sönn viska er fólgin í því að sýna heilbrigða dómgreind og beita þekkingu sinni og skilningi á sem bestan hátt. Hvers konar verk og framkoma leiða í ljós að við búum yfir slíkri visku? Jakob telur upp ýmislegt sem á að sýna sig í fari viturra manna. * Hvað skrifaði hann sem getur hjálpað okkur að eiga góð samskipti við trúsystkini og einnig við fólk utan safnaðarins?

Hegðun sem einkennir viturt fólk

5. Hvernig hegðar vitur maður sér?

5 Það er ástæða til að ítreka að Jakob setur visku í samband við góða hegðun. Þar sem ótti Jehóva er upphaf viskunnar reynir vitur maður að hegða sér í samræmi við vilja hans og mælikvarða. Sönn viska er ekki meðfædd. Við getum hins vegar aflað okkur hennar með því að vera iðin við að lesa og hugleiða orð Guðs. Það hjálpar okkur að gera eins og hvatt er til í Efesusbréfinu 5:1: „Verðið . . . eftirbreytendur Guðs.“ Því betur sem við líkjum eftir Guði þeim mun betur sýnum við visku í hegðun okkar og verkum. Vegir Jehóva eru miklu æðri vegum mannanna. (Jes. 55:8, 9) Þegar við líkjum eftir aðferðum Jehóva sjá aðrir að við skerum okkur úr fjöldanum.

6. Af hverju líkjumst við Guði þegar við erum mild í lund og hvernig birtist það í fari okkar?

6 Jakob segir að ein leið til að líkja eftir Jehóva sé sú að láta „verk sín lýsa hóglátri speki“. Kristinn maður á að vera hóglátur og mildur í lund en hann getur jafnframt búið yfir innri styrk sem hjálpar honum að vera stöðuglyndur. Þó að Jehóva sé óendanlega máttugur er hann mildur og við erum óhrædd að leita til hans. Jesús endurspeglaði þennan eiginleika föður síns svo vel að hann gat sagt: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matt. 11:28, 29; Fil. 2:5-8.

7. Af hverju er Móse gott dæmi um mildan mann?

7 Biblían segir frá fleirum sem voru sérlega mildir og hógværir. Móse var einn þeirra. Hann gegndi mikilli ábyrgðarstöðu en var þó „einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu“. (4. Mós. 11:29; 12:3) Og hugsaðu þér hvernig Jehóva styrkti hann. Jehóva notaði gjarnan hógværa og milda einstaklinga til að framkvæma vilja sinn.

8. Hvernig geta ófullkomnir menn sýnt af sér ‚hógláta speki‘?

8 Greinilegt er að ófullkomnir menn eru færir um að sýna af sér ‚hógláta speki‘. Hvernig stöndum við okkur? Hvernig getum við gert enn betur á þessu sviði? Hógværð er einn af ávöxtum heilags anda Guðs. (Gal. 5:22, 23) Við getum beðið Jehóva að gefa okkur anda sinn, lagt okkur meðvitað fram um að sýna ávöxt hans og treyst að hann hjálpi okkur að taka framförum. Loforð sálmaritarans er okkur sterk hvatning til að gera það: „[Guð] vísar auðmjúkum veg sinn.“ — Sálm. 25:9, Biblían 2007.

9, 10. Hvað þurfum við að gera til að vera mild og hógvær og hvers vegna kostar það áreynslu?

9 Það getur engu að síðar kostað nokkra áreynslu að bæta sig á þessu sviði. Sökum uppeldis eða menningar er ekki öllum tamt að vera mildir og hógværir. Og almenn viðhorf í samfélaginu eru kannski í þá veru að maður eigi að „slökkva eld með eldi“. En er það skynsamlegt? Ef kviknaði í heima hjá þér myndirðu þá skvetta olíu eða vatni á eldinn? Að hella olíu á eldinn myndi auðvitað gera illt verra en trúlega gætirðu slökkt lítinn eld með köldu vatni. Ráð Biblíunnar eru á sömu lund: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ (Orðskv. 15:1, 18) Næst þegar eitthvað gerir okkur gramt í geði, innan safnaðar eða utan, getum við sýnt sanna visku með því að taka því með mildi og jafnaðargeði. — 2. Tím. 2:24.

10 Eins og fram hefur komið er andi heimsins þess eðlis að margir eru allt annað en mildir, friðsamir og rólyndir. Það er því miður til fullt af hranalegu og hrokafullu fólki. Jakob vissi þetta mætavel og benti á það til að vara trúsystkini sín við svo að þau smituðust ekki af slíku. Hvað fleira getum við lært af ráðleggingum hans?

Einkenni hinna óvitru

11. Hvaða eiginleikar stríða gegn sannri visku?

11 Jakob talaði opinskátt um einkenni sem stríða gegn sannri visku. (Lestu Jakobsbréfið 3:14.) Ofsi og eigingirni eru holdlegir eiginleikar, ekki andlegir. Lítum á dæmi sem sýnir hvað getur gerst þegar holdlegt hugarfar ræður ríkjum. Sex „kristnir“ hópar hafa yfirráð yfir hluta af grafarkirkjunni í Jerúsalem en hún stendur þar sem talið er að Jesús hafi verið tekinn af lífi og greftraður. Samskipti þessara hópa hafa einkennst af sífelldum deilum. Árið 2006 sagði tímaritið Time frá því að einu sinni hefðu munkar þar „rifist klukkustundum saman . . . og barið hver á öðrum með stórum kertastjökum“. Slíkt er vantraustið milli þeirra að þeir hafa falið múslíma nokkrum að gæta kirkjulykilsins.

12. Hvað getur gerst ef menn sýna ekki visku?

12 Öfgafullar deilur sem þessar ættu auðvitað ekki að þekkjast innan hins sannkristna safnaðar. En ófullkomleikinn hefur stundum orðið til þess að einstaka maður hefur haldið eigin skoðunum fram með þrjósku. Slíkt getur kveikt deilur og átök. Páll postuli veitti því athygli að eitthvað þessu líkt átti sér stað í söfnuðinum í Korintu. Hann skrifaði: „Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?“ (1. Kor. 3:3) Þetta dapurlega ástand varði um tíma í þessum söfnuði á fyrstu öld. Við þurfum að gæta þess að hugarfar af þessu tagi geri ekki vart við sig í söfnuðinum.

13, 14. Nefndu dæmi um hvernig holdlegt hugarfar gæti gert vart við sig?

13 Hvernig gæti slíkt hugarfar sýnt sig í söfnuðinum? Það gæti byrjað smátt. Segjum til dæmis að verið sé að byggja ríkissal. Þá gæti menn greint á um aðferðir. Ákveðinn bróðir gæti stofnað til deilna ef ekki er farið að tillögum hans og gagnrýnt opinskátt hvernig ákveðið hefur verið að vinna verkið. Hann gæti gengið svo langt að neita að vinna framar við bygginguna. Sá sem hegðar sér þannig gleymir því að þegar söfnuðurinn þarf að vinna ákveðið verk ræðst árangurinn frekar af því að friður ríki en af aðferðinni. Jehóva blessar ekki þrætur heldur hógværan og kyrrlátan anda. — 1. Tím. 6:4, 5.

14 Tökum annað dæmi. Segjum að öldungar í söfnuðinum komist að raun um að bróðir, sem hefur verið öldungur um árabil, uppfylli ekki lengur hæfniskröfur Biblíunnar. Hann hefur fengið skýrar leiðbeiningar en ekki bætt ráð sitt. Farandhirðirinn, sem er í heimsókn, er sammála hinum öldungunum og þeir mæla með að hann láti af störfum sem öldungur. Hvernig lítur hann á það? Unir hann samhljóða niðurstöðu öldunganna og þeim biblíulegu leiðbeiningum sem hann hefur fengið? Tekur hann úrskurðinum með hógværð, ákveðinn í að uppfylla hæfniskröfurnar að nýju svo að hann geti þjónað aftur sem öldungur? Eða verður hann sárgramur yfir því að fá ekki lengur að gegna fyrri stöðu? Ætti bróðir að láta eins og hann sé hæfur til að vera öldungur ef hann er það ekki? Það er miklu viturlegra að vera hógvær og skilningsríkur.

15. Af hverju eru hinar innblásnu leiðbeiningar í Jakobsbréfinu 3:15, 16 afar mikilvægar?

15 Það hugarfar, sem hér er lýst, getur auðvitað birst á ýmsa aðra vegu. En hvaða staða sem kemur upp verðum við að leggja okkur fram um að forðast þennan hugsunarhátt. (Lestu Jakobsbréfið 3:15, 16.) Lærisveinninn Jakob kallaði þess konar hugarfar ‚jarðneskt‘ vegna þess að það er holdlegt og byggist ekki á viskunni að ofan. Það er ‚andlaust‘ eða ‚dýrslegt‘ (NW) í þeim skilningi að það er sprottið af holdlegum tilhneigingum, áþekkt einkennum skynlausra skepna. Slíkt hugarfar er ‚djöfullegt‘ vegna þess að það endurspeglar innræti illra anda sem eru óvinir Guðs. Það væri sannarlega óviðeigandi að kristinn maður sýndi af sér þessi einkenni.

16. Hvað getum við þurft að laga í fari okkar og hvernig getum við gert það?

16 Það er hollt fyrir alla í söfnuðinum að skoða sjálfa sig og leggja sig fram um að uppræta öll slík einkenni. Umsjónarmennirnir, sem kenna söfnuðinum, þurfa stöðugt að minna sig á hve mikilvægt það er að losa sig við neikvætt hugarfar. Þetta er ekki auðvelt vegna þess að við erum ófullkomin og heimurinn hefur sín áhrif. Það má líkja því við að reyna að komast upp brekku í hálku. Ef við höfum ekkert til að halda okkur í er hætta á að við rennum niður brekkuna. En ef við höldum okkur fast í leiðbeiningar Biblíunnar og nýtum okkur þá hjálp sem söfnuður Guðs lætur í té miðar okkur áfram. — Sálm. 73:23, 24.

Eiginleikar sem viturt fólk temur sér

17. Hvernig bregst viturt fólk yfirleitt við freistingu?

17Lestu Jakobsbréfið 3:17. Það getur verið gott að velta fyrir sér sumum af þeim eiginleikum sem fylgja spekinni að ofan. Við þurfum að hafa hreinar hvatir og vera hrein í öllu sem við gerum. Við þurfum tafarlaust að hafna hinu illa. Það ættu að vera ósjálfráð viðbrögð. Hefurðu einhvern tíma verið hjá lækni sem sló létt á sinina rétt fyrir neðan hnéskelina? Fóturinn kipptist við og það réttist úr honum. Viðbragðið var ósjálfrátt; þú þurftir ekki að gera þetta meðvitað. Viðbrögð okkar ættu að vera svipuð ef reynt er að freista okkar til að gera illt. Við ættum ósjálfrátt að hafna hinu illa af því að við erum hrein og samviskan er uppfrædd af Biblíunni. (Rómv. 12:9) Í Biblíunni segir frá fólki sem brást þannig við, til dæmis þeim Jósef og Jesú. — 1. Mós. 39:7-9; Matt. 4:8-10.

18. Hvað er fólgið í því að (a) vera friðsamur? (b) stuðla að friði?

18 Til að sýna sanna visku er líka nauðsynlegt að vera friðsamur. Við megum ekki vera frek og árásargjörn eða hegða okkur þannig að við spillum friði. Jakob fer nánar út í þetta og segir: „Ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.“ (Jak. 3:18) Tökum eftir orðunum „frið semja“. Erum við þekkt í söfnuðinum fyrir að stuðla að friði eða spilla friði? Lendum við oft í útistöðum við aðra, móðgumst við auðveldlega eða móðgum við oft aðra? Ætlumst við til að aðrir taki okkur eins og við erum eða leggjum við okkur auðmjúklega fram við að uppræta úr fari okkar eiginleika sem aðrir hafa ástæðu til að láta sér mislíka? Erum við vön að leggja lykkju á leið okkar til að halda frið og erum við fljót til að gleyma og fyrirgefa? Ef við gerum heiðarlega sjálfsrannsókn ættum við að sjá hvort við þurfum að sýna sanna visku í ríkari mæli á þessu sviði.

19. Hvað er fólgið í því að vera ljúflegur?

19 Jakob nefnir að viskan að ofan sé ljúfleg. Gríska orðið, sem svo er þýtt, er stundum þýtt sanngjarn en merkir bókstaflega „sveigjanlegur, eftirgefanlegur“. Þegar málið snýst ekki um biblíulegar meginreglur erum við þá sveigjanleg og heimtum ekki að allt sé gert eftir okkar höfði? Finnst öðrum við vera þægileg í viðmóti og finnst þeim auðvelt að tala við okkur? Það er merki þess að við höfum tamið okkur að vera „ljúfleg“.

20. Hvaða áhrif hefur það að sýna þá góðu eiginleika sem hér hefur verið fjallað um?

20 Þegar bræður og systur leggja sig fram um að sýna þá góðu eiginleika sem Jakob talar um stuðlar það að þægilegu andrúmslofti í söfnuðinum. (Sálm. 133:1-3) Ef við erum mild og hógvær, friðsöm og sveigjanleg styrkjum við sambandið hvert við annað og sýnum að við höfum til að bera þá „speki, sem að ofan er“. Í næstu grein könnum við hvernig við getum tekið framförum á þessu sviði með því að sjá aðra sömu augum og Jehóva.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Af samhenginu má ráða að Jakob hafi fyrst og fremst haft í huga öldunga eða ‚kennara‘ safnaðarins. (Jak. 3:1) Þeir eiga að vera öðrum til fyrirmyndar með því að sýna af sér sanna visku. En öll getum við auðvitað lært af ráðleggingum Jakobs.

Geturðu svarað?

• Hvað er sönn viska?

• Hvernig getum við sýnt sanna visku í ríkari mæli?

• Hvað einkennir þá sem sýna ekki þá „speki, sem að ofan er“?

• Hvaða eiginleika ætlar þú að temja þér í enn ríkari mæli?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hvernig gætu deilur komið upp milli bræðra?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Eru það ósjálfráð viðbrögð hjá þér að hafna hinu illa?