Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Mjög mikilvægt stefnumót

Mjög mikilvægt stefnumót

Mjög mikilvægt stefnumót

ÉG Á mjög mikilvægt stefnumót fram undan. Ég skal segja ykkur hvað fékk unga spænska móður eins og mig til að efna til þessa stefnumóts.

Það var lítið um sátt og samlyndi í foreldrahúsum. Fjölskyldan var buguð af sorg þegar yngri bróðir minn lést í hörmulegu slysi fjögurra ára gamall. Slæmir ávanar föður míns stuðluðu auk þess að því að móðir mín var ekki mjög hamingjusöm í hjónabandinu. Hún lét það samt ekki aftra sér frá því að innræta mér og eldri bróður mínum góð siðferðisgildi.

Við systkinin giftum okkur bæði þegar fram liðu stundir. Fljótlega eftir það greindist mamma með krabbamein sem dró hana að lokum til dauða. En áður en hún dó gaf hún okkur dýrmætan fjársjóð.

Ein kunningjakona mömmu hafði sagt henni frá upprisuvoninni sem Biblían veitir og mamma þáði boð um biblíunámskeið. Vonarboðskapur Biblíunnar veitti henni hamingju og tilgang í lífinu þegar hún átti skammt eftir ólifað.

Þegar við systkinin sáum hversu jákvæð áhrif boðskapur Biblíunnar hafði á hana byrjuðum við einnig að kynna okkur Biblíuna. Ég skírðist sem vottur Jehóva einum mánuði áður en ég fæddi mitt annað barn, fallega stúlku sem við gáfum nafnið Lucía.

Skírnardagurinn hafði mikla þýðingu fyrir mig. Ein ástæðan var sú að núna tilheyrði ég Jehóva því að ég hafði heitið að þjóna honum að eilífu. Önnur ástæðan var sú að nú var ég í aðstöðu til að fræða börnin mín um trúna sem ég hafði eignast.

En áður en langt um leið bar skugga á hamingju mína. Þegar Lucía var fjögurra ára byrjaði hún að fá sára kviðverki. Eftir allmargar rannsóknir tjáði geislasérfræðingur okkur að hún væri með æxli á stærð við appelsínu í lifrinni. Læknirinn sagði að þetta væri taugakímfrumuæxli sem er hraðvaxta krabbamein. Þar með hófst sjö ára barátta Lucíu við krabbamein sem hafði í för með sér að hún þurfti að dvelja langtímum saman á spítala.

Fórnfýsi Lucíu

Lucía gladdi mig oft á þessu erfiða tímabili með hlýlegum faðmlögum og hughreystandi kossum. Starfsfólkið á spítalanum var djúpt snortið þegar það sá hvernig hún tókst á við sjúkdóminn. Hún var alltaf boðin og búin að hjálpa hjúkrunarkonunum við að dreifa jógúrti, ávaxtasafa eða einhverju öðru til veikra barna á nærliggjandi deildum. Hjúkrunarkonurnar gáfu Lucíu meira að segja hvítan slopp og barmmerki sem gaf til kynna að hún væri „aðstoðarhjúkrunarkona“.

„Lucía snerti hjarta mitt,“ sagði einn starfsmaður spítalans. „Hún var mjög duglegt og skapandi barn og hafði mjög gaman af því að lita og teikna. Hún var lífleg og þroskuð, mjög þroskuð.“

Lucía sótti styrk og hugarró í orð Guðs. (Hebr. 4:12) Hún var sannfærð um að í nýja heiminum myndi „dauðinn . . . ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl [vera] framar til,“ eins og orð Guðs lofar. (Opinb. 21:4) Hún sýndi áhuga á öðru fólki og nýtti hvert tækifæri til að segja frá boðskap Biblíunnar. Bjargföst von Lucíu um upprisu hjálpaði henni að halda ró sinni og gleði þrátt fyrir slæmar batahorfur. (Jes. 25:8) Hún varðveitti jákvætt hugarfar allt til þess dags þegar krabbameinið dró hana til dauða.

Það var þennan dag sem ég efndi til stefnumótsins sem ég nefndi í upphafi. Lucía gat varla opnað augun. Pabbi hennar hélt í aðra hönd hennar og ég í hina. „Vertu óhrædd, ég fer ekki frá þér,“ hvíslaði ég. „Andaðu bara hægt og rólega. Þegar þú vaknar aftur mun þér líða vel. Þú munt aldrei aftur finna til og ég verð hjá þér.“

Núna verð ég að halda orð mín og hitta hana þegar hún rís upp. Ég veit að það verður ekki auðvelt að bíða eftir þessu stefnumóti. En ég veit líka að ef ég er þolinmóð, treysti Jehóva og er honum trú fæ ég að taka á móti Lucíu þegar hún kemur aftur í upprisunni.

Það sem Lucía lét eftir sig

Hugrekki Lucíu og sömuleiðis frábær stuðningur safnaðarins hafði djúp áhrif á manninn minn sem var ekki vottur Jehóva. Daginn sem Lucía dó sagði hann mér að nú þyrfti hann að hugsa sinn gang. Nokkrum vikum síðar bað hann öldung í söfnuðinum um biblíunámskeið. Fljótlega byrjaði hann að sækja allar samkomurnar. Með hjálp Jehóva hætti hann reykingum en það hafði honum ekki tekist fram til þessa.

Við syrgjum Lucíu enn þá og söknum hennar, en ég er Jehóva svo innilega þakklát fyrir það sem hún gaf okkur. Við hjónin huggum hvort annað og minnum okkur á upprisuvonina. Við sjáum jafnvel fyrir okkur stundina þegar við hittum Lucíu aftur — brosandi með spékoppana sína og kringlótt tindrandi augun.

Raunasaga dóttur minnar hafði líka sterk áhrif á konu sem bjó nágrenninu. Það rigndi þegar hún heimsótti okkur á laugardagsmorgni. Sonur hennar gekk í sama skóla og Lucía hafði verið í. Annar sonur hennar hafði dáið úr krabbameini þegar hann var 11 ára. Þegar hún heyrði að Lucía væri dáin fann hún út hvar við ættum heima og heimsótti okkur. Hún vildi vita hvernig mér gengi að takast á við dótturmissinn og stakk svo upp á að við stofnuðum stuðningshóp til að hugga aðrar mæður sem væru í svipuðum sporum.

Ég útskýrði fyrir henni að ég hefði fundið raunverulega huggun í einu fyrirheiti Biblíunnar og þetta fyrirheit sé miklu betra en nokkuð sem menn geta boðið upp á. Augu hennar ljómuðu þegar ég las fyrir hana orð Jesú í Jóhannesi 5:28, 29. Hún þáði biblíunámskeið og fann fljótlega fyrir ‚friði Guðs sem er æðri öllum skilningi‘. (Fil. 4:7) Oft þegar við lesum saman í Biblíunni gerum við örstutt hlé og ímyndum okkur að við séum staddar í nýja heiminum og séum að taka á móti ástvinum okkar í upprisunni.

Það má með sanni segja að á stuttri ævi hafi Lucía markað varanleg spor. Trú hennar átti sinn þátt í því að sameina fjölskyldu mína í þjónustu Guðs og hefur gert mig enn þá ákveðnari í að vera staðföst í trúnni. Já, það leikur ekki nokkur vafi á því að við sem höfum misst ástvini eigum mjög mikilvægt stefnumót fram undan þegar þeir rísa upp frá dauðum.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Paradísarmynd sem Lucía teiknaði.