Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Verum eftirgefanleg í þeim mæli sem við á

Verum eftirgefanleg í þeim mæli sem við á

Verum eftirgefanleg í þeim mæli sem við á

„Minntu þá stöðugt á að vera . . . eftirgefanlegir.“ — TÍT. 3:1, 2, NW, neðanmáls.

1, 2. Hvað segir Biblían um það að vera eftirgefanlegur og af hverju er það viðeigandi?

JEHÓVA, kærleiksríkur faðir okkar á himnum, er óendanlega vitur. Hann er skapari okkar og því leitum við leiðsagnar hjá honum. (Sálm. 48:15) Lærisveinninn Jakob segir: „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg [„eftirgefanleg,“ NW, neðanmáls], sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ — Jak. 3:17.

2 „Ljúflyndi [„eftirgefanleiki,“ Kingdom Interlinear] yðar verði kunnugt öllum mönnum,“ hvetur Páll postuli. * (Fil. 4:5) Jesús Kristur er Drottinn og höfuð kristna safnaðarins. (Ef. 5:23) Af þessu má sjá að það er mikilvægt að vera eftirgefanleg í samskiptum okkar við aðra menn og vera undirgefin Kristi og lúta leiðsögn hans.

3, 4. (a) Hvernig er það okkur til góðs að gefa eftir? (b) Á hvað ætlum við að líta?

3 Það er okkur til góðs að vera hæfilega eftirgefanleg. Tökum dæmi: Eftir að flett var ofan af meintum áformum hryðjuverkamanna í Bretlandi voru flugfarþegar almennt fúsir til að fylgja reglum sem bönnuðu þeim að hafa í handfarangri hluti sem þeir höfðu áður mátt hafa meðferðis. Og þegar við ökum bíl sjáum við nauðsyn þess að víkja fyrir öðrum, til dæmis við akstur um hringtorg. Þannig greiðum við fyrir umferð og aukum öryggi.

4 En mörgum okkar finnst erfitt að gefa eftir. Við skulum því líta á þrjár hliðar á þessu máli, það er að segja hvatir okkar, viðhorf til yfirvalds og að hvaða marki við eigum að gefa eftir.

Af hverju ættum við að vera eftirgefanleg?

5. Af hvaða hvötum gæti þræll ákveðið að þjóna húsbónda sínum áfram?

5 Við höfum dæmi frá Forn-Ísrael sem lýsir því hvernig menn gátu verið eftirgefanlegir af réttum hvötum og fúsir til að lúta yfirvaldi. Móselögin kváðu á um að hebreskir þrælar skyldu leystir á sjöunda ári eða á fagnaðarári, ef það kom fyrr. En þræll gat valið að vera þræll áfram. (Lestu 2. Mósebók 21:5, 6.) Af hvaða hvötum gæti þræll tekið þessa ákvörðun? Af því að hann elskaði sanngjarnan húsbónda sinn og vildi halda áfram að þjóna honum.

6. Hvernig tengist kærleikur því að vera eftirgefanlegur?

6 Á svipaðan hátt vígjum við Jehóva líf okkar af því að við elskum hann og lifum síðan í samræmi við vígsluheitið. (Rómv. 14:7, 8) „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóh. 5:3) Slíkur kærleikur leitar ekki síns eigin. (1. Kor. 13:4, 5) Náungakærleikur fær okkur til að vera eftirgefanleg í samskiptum við aðra og taka hag þeirra fram yfir okkar eigin. Við hugsum um aðra í stað þess að láta sjálfselsku ráða ferðinni. — Fil. 2:2, 3.

7. Hvernig gætum við þurft að vera eftirgefanleg í boðunarstarfinu?

7 Við ættum ekki að hneyksla aðra með orðum okkar eða verkum. (Ef. 4:29) Kærleikurinn er okkur hvöt til að forðast hvaðeina sem gæti tálmað fólki af öðrum uppruna og menningu að kynnast Jehóva. Það felur oft í sér að gefa eftir. Tökum dæmi. Trúboðssystur, sem eru vanar að nota farða og ganga í nælonsokkum, forðast það á svæðum þar sem slíkt gæti talist ósiðlegt og hneykslað aðra. — 1. Kor. 10:31-33.

8. Hvernig getur kærleikur til Guðs hjálpað okkur að vera eins og sá sem er minnstur?

8 Kærleikur til Jehóva hjálpar okkur að sigrast á stolti. Eftir að lærisveinarnir höfðu deilt um það hver þeirra væri mestur setti Jesús lítið barn meðal þeirra og sagði: „Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur.“ (Lúk. 9:48; Mark. 9:36) Okkur gæti fundist mjög erfitt að hegða okkur eins og sá sem er minnstur. Meðfæddur ófullkomleiki og stolt gæti fengið okkur til að láta á okkur bera en auðmýkt hjálpar okkur að gefa eftir. — Rómv. 12:10.

9. Hvað er fólgið í því að vera eftirgefanlegur?

9 Að vera eftirgefanlegur felur í sér að taka mið af því yfirvaldi sem Guð hefur falið öðrum. Allir sannkristnir menn viðurkenna meginregluna um yfirráð. Páll postuli skýrði þessa mikilvægu meginreglu fyrir Korintumönnum og sagði: „Ég vil, að þér vitið, að Kristur er höfuð sérhvers manns, maðurinn er höfuð konunnar og Guð höfuð Krists.“ — 1. Kor. 11:3.

10. Hvað sýnum við með því að lúta yfirvaldi Guðs?

10 Með því að lúta yfirvaldi Guðs sýnum við að við treystum honum sem ástríkum föður. Hann sér allt sem gerist og getur launað okkur samkvæmt því. Það er gott að hafa það í huga þegar aðrir sýna okkur óvirðingu eða reiðast og missa stjórn á skapi sínu. Páll skrifaði: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.“ Hann undirstrikaði orð sín í framhaldinu og sagði: „Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: ‚Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.‘“ — Rómv. 12:18, 19.

11. Hvernig getum við sýnt að við lútum forystu Krists?

11 Við þurfum líka að vera eftirlát þeim sem Guð hefur falið forystu innan kristna safnaðarins. Í fyrsta kafla Opinberunarbókarinnar er sagt að Jesús Kristur haldi á ‚stjörnum‘ safnaðarins í hægri hendi sér. (Opinb. 1:16, 20) Í almennum skilningi tákna þessar ‚stjörnur‘ öldungaráðin í söfnuðunum. Útnefndir umsjónarmenn lúta forystu Krists og líkja eftir honum með því að koma vingjarnlega fram við aðra. Allir í söfnuðinum virða það að Kristur skuli nota hinn ‚trúa og hyggna þjón‘ til að láta í té andlega fæðu á réttum tíma. (Matt. 24:45-47) Með því að lesa þetta efni og fara fúslega eftir því sýnum við að við lútum forystu Krists. Það stuðlar að friði og einingu. — Rómv. 14:13, 19.

Að gefa eftir — að hvaða marki?

12. Af hverju eru takmörk fyrir því hve mikið við gefum eftir?

12 Þótt við séum eftirgefanleg þýðir það ekki að við hvikum frá trú okkar eða meginreglum Guðs. Hvaða afstöðu tóku frumkristnir menn þegar trúarleiðtogar skipuðu þeim að hætta að prédika í nafni Jesú? Pétur og hinir postularnir sögðu djarfmannlega: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Post. 4:18-20; 5:28, 29) Við hættum ekki að prédika fagnaðarerindið þó að yfirvöld reyni að þvinga okkur til þess. En við gætum breytt um aðferðir til að láta minna á okkur bera. Ef lagðar eru hömlur á boðunarstarfið hús úr húsi getum við notað aðrar leiðir til að ná tali af fólki. Þannig getum við haldið áfram að sinna verkefninu sem Guð hefur falið okkur. Og þegar yfirvöld banna okkur að halda samkomur hittumst við svo lítið beri á í minni hópum. — Rómv. 13:1; Hebr. 10:24, 25.

13. Hvað sagði Jesús um það að lúta yfirvaldi?

13 Í fjallræðunni benti Jesús á nauðsyn þess að lúta yfirvaldi: „Vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.“ (Matt. 5:40, 41) * Ef okkur er umhugað um aðra og langar til að hjálpa þeim erum við tilbúin til að leggja lykkju á leið okkar fyrir þá. — 1. Kor. 13:5; Tít. 3:1, 2.

14. Af hverju ættum við aldrei að koma til móts við fráhvarfsmenn?

14 Þótt við viljum vera eftirgefanleg ættum við aldrei að ganga svo langt að koma til móts við fráhvarfsmenn. Við þurfum að hafa skýra afstöðu í þessu máli til að halda sannleikanum hreinum og varðveita einingu safnaðarins. Páll skrifaði um falsbræður: „Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt andartak, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi haldast við hjá yður.“ (Gal. 2:4, 5) Í þeim fáu tilvikum sem fráhvarf gerir vart við sig halda dyggir þjónar Guðs fast við það sem er rétt.

Umsjónarmenn verða að vera eftirgefanlegir

15. Hvernig geta umsjónarmenn sýnt að þeir séu tilbúnir til að gefa eftir þegar þeir funda um safnaðarmál?

15 Ein af hæfniskröfunum fyrir umsjónarmenn er að þeir séu tilbúnir til að gefa eftir. Páll skrifaði að umsjónarmaður ætti að vera „gæfur [„eftirgefanlegur,“ NW, neðanmáls]“. (1. Tím. 3:2, 3) Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar umsjónarmenn funda um safnaðarmál. Áður en komist er að niðurstöðu geta allir viðstaddir sagt skoðun sína þótt þess sé ekki krafist að allir tjái sig um málið. Meðan á umræðum stendur gæti öldungur skipt um skoðun þegar hann heyrir aðra benda á viðeigandi meginreglur í Biblíunni. Þroskaður öldungur gefur eftir í stað þess að spyrna við fótum og vera fastur á sínu. Í byrjun gætu öldungarnir haft ólíkar skoðanir. En ef þeir eru hógværir og fúsir til að gefa eftir komast þeir að einróma niðurstöðu þegar þeir hafa íhugað málið vandlega og beðið um leiðsögn Guðs í bæn. — 1. Kor. 1:10; lestu Efesusbréfið 4:1-3.

16. Hvaða viðhorf ættu umsjónarmenn að hafa?

16 Safnaðaröldungur ætti að leggja sig fram um að fylgja fyrirmælum Guðs í öllu sem hann gerir. Hann ætti líka að hafa þetta viðhorf þegar hann annast hjörðina. Það hjálpar honum að vera umhyggjusamur og mildur. Pétur skrifaði: „Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga.“ — 1. Pét. 5:2.

17. Hvernig geta allir í söfnuðinum sýnt að þeir eru eftirlátir hver við annan?

17 Rosknir safnaðarmenn sýna unga fólkinu virðingu og eru þakklátir fyrir aðstoð þess. Unga fólkið virðir líka þá sem eru eldri og eiga að baki áralanga þjónustu við Jehóva. (1. Tím. 5:1, 2) Safnaðaröldungar hafa augun opin fyrir hæfum bræðrum sem hægt er að fela ýmis verkefni og kenna þeim hvernig eigi að annast hjörð Guðs. (2. Tím. 2:1, 2) Allir kristnir menn ættu að taka til sín innblásnar ráðleggingar Páls: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.“ — Hebr. 13:17.

Verum eftirgefanleg í fjölskyldunni

18. Af hverju þurfa allir í fjölskyldunni að vera eftirgefanlegir?

18 Það er líka nauðsynlegt að allir í fjölskyldunni séu eftirgefanlegir. (Lestu Kólossubréfið 3:18-21.) Biblían lýsir hlutverki hvers og eins. Faðirinn er bæði höfuð eiginkonunnar og ber meginábyrgð á því að leiðbeina börnunum. Konan á að viðurkenna forystu mannsins og börnin eiga að leggja sig fram um að vera hlýðin. Það er Drottni þóknanlegt. Allir í fjölskyldunni geta stuðlað að einingu og friði á heimilinu með því að vera eftirgefanlegir þegar það á við. Í Biblíunni er að finna nokkur dæmi sem lýsa þessu betur.

19, 20. (a) Lýstu muninum á undanlátsemi Elí og samskiptum Jehóva við englasyni sína. (b) Hvað geta foreldrar lært af þessum dæmum?

19 Þegar Samúel var ungur drengur þjónaði Elí sem æðstiprestur í Ísrael. En synir Elí, þeir Hofní og Pínehas, voru „hrakmenni“ sem „skeyttu ekki um Drottin“. Elí heyrði allt um það sem synir hans gerðu af sér, meðal annars að þeir drýgðu hór með konum sem þjónuðu við dyr samfundartjaldsins. Hvernig brást hann við? Hann sagði þeim að ef þeir syndguðu gegn Jehóva gæti enginn beðið fyrir þeim. En hann hvorki leiðrétti þá né agaði. Þess vegna héldu þeir áfram að syndga. Að lokum ákvað Jehóva, og það með réttu, að þeir verðskulduðu dauðarefsingu. Þegar Elí frétti að synir hans hefðu dáið dó hann sjálfur. Þetta voru sorgleg endalok. Elí átti greinilega ekki að vera svona eftirlátur við þá og leyfa þeim að halda áfram á sinni illu braut. — 1. Sam. 2:12-17, 22-25, 34, 35; 4:17, 18.

20 Lítum nú á samskipti Guðs við englasyni sína. Spámaðurinn Míka fékk að sjá sérstaka sýn þar sem englarnir gengu fram fyrir Jehóva. Jehóva spurði hver þeirra gæti ginnt hinn illa Akab Ísraelskonung svo að hann félli. Hann hlustaði á tillögur ýmissa englasona sinna. Síðan lýsti einn engill því yfir að hann skyldi ginna Akab. Jehóva spurði hann hvernig. Hann var ánægður með svarið og fól englinum verkið. (1. Kon. 22:19-23) Geta fjölskyldur ekki lært ýmislegt af þessari frásögu um gildi þess að gefa eftir? Kristinn eiginmaður og faðir ætti að hlusta á hugmyndir og tillögur eiginkonu sinnar og barnanna. Á hinn bóginn verða eiginkonur og börn að gera sér grein fyrir því að ef þau hafa komið með tillögur eða óskir gætu þau þurft að gefa eftir og virða ákvörðun eignmannsins sem hefur biblíulegt umboð til að fara með forystuna.

21. Um hvað verður rætt í næstu grein?

21 Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hvetja okkur til að vera eftirgefanleg. Þetta eru mjög kærleiksríkar og skynsamlegar leiðbeiningar. (Sálm. 119:99) Í næstu grein verður rætt um það hvernig hægt sé að stuðla að gleði í hjónabandinu með því að vera eftirgefanleg í þeim mæli sem við á.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Páll postuli notar hér orð sem er erfitt að þýða með einu orði. Í heimildarriti segir: „Það felur í sér að vera fús til að gefa eftir rétt sinn og vera tillitssamur og mildur við aðra.“ Orðið merkir því að vera eftirgefanlegur og sanngjarn, krefjast ekki réttar síns og heimta ekki að bókstaf lögmálsins sé framfylgt.

^ gr. 13 Hér vísar Jesús til nauðungarvinnu sem rómversk yfirvöld gátu heimtað af Gyðingum sem einstaklingum. Sjá greinina „If You Are Impressed Into Service“ í enskri útgáfu Varðturnsins 15. febrúar 2005, bls. 23-26.

Hvert er svarið?

• Hvað gott hlýst af því að vera eftirgefanlegur?

• Hvernig geta öldungar sýnt að þeir eru eftirgefanlegir?

• Af hverju ættu allir í fjölskyldunni að vera eftirgefanlegir?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 4]

Öldungar líkja eftir Kristi og koma vingjarnlega fram við aðra.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Þegar öldungar funda stuðla þeir að einingu með því að íhuga málin, biðja um leiðsögn Guðs og vera fúsir til að gefa eftir.