Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafnaðu „hégómlegum hlutum“

Hafnaðu „hégómlegum hlutum“

Hafnaðu „hégómlegum hlutum“

„Sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.“ — ORÐSKV. 12:11.

1. Hvaða verðmæti eigum við og hvernig notum við þau á sem bestan hátt?

ALLIR kristnir menn eiga verðmæti af einu eða öðru tagi. Þau gætu til dæmis verið góð heilsa og styrkur, meðfæddir hæfileikar eða fjármunir. Þar sem við elskum Jehóva viljum við gjarnan nota þessi verðmæti í þjónustu hans. Við viljum fylgja innblásinni hvatningu Biblíunnar: „Tigna Drottin með eigum þínum.“ — Orðskv. 3:9.

2. Hvernig varar Biblían við hégómlegum hlutum og hvernig eiga þessi varnaðarorð við í bókstaflegum skilningi?

2 Á hinn bóginn talar Biblían líka um hégómlega hluti og varar okkur við því að sóa tíma okkar, kröftum og fjármunum í að sækjast eftir þeim. Í þessu samhengi skulum við líta á Orðskviðina 12:11: „Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.“ Það er ekki vandséð hvernig þessi orðskviður á við í bókstaflegum skilningi. Sá sem er duglegur að sjá fyrir fjölskyldunni hefur góða möguleika á að tryggja henni ákveðið öryggi. (1. Tím. 5:8) En ef hann sóar tímanum í að sækjast eftir hégómlegum hlutum er hann „óvitur“, hann hefur hvorki góða dómgreind né réttar hvatir. Sá maður á líklega eftir að lenda í fjárhagserfiðleikum.

3. Hvernig má heimfæra viðvörun Biblíunnar um hégómlega hluti á tilbeiðslu okkar?

3 En getum við heimfært meginregluna í þessum orðskvið á tilbeiðslu okkar? Já. Kristinn maður sem þjónar Jehóva vel og dyggilega býr við raunverulegt öryggi. Hann getur treyst á blessun Jehóva núna og á sér örugga framtíðarvon. (Matt. 6:33; 1. Tím. 4:10) En sá sem lætur hégómlega hluti trufla sig stofnar sambandi sínu við Jehóva í hættu og sömuleiðis voninni um eilífa lífið. Hvernig getum við forðast þetta? Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvað er hégómlegt og vera staðráðin í að hafna því. — Lestu Títusarbréfið 2:11, 12.

4. Hvað eru hégómlegir hlutir?

4 En hvað er átt við þegar talað er um hégómlega hluti? Almennt séð geta þeir verið hvaðeina sem kemur í veg fyrir að við þjónum Jehóva heilshugar. Þetta gæti til dæmis verið ýmiss konar afþreying. Að sjálfsögðu er hófleg afþreying til góðs. En ef við eyðum svo miklum tíma í skemmtun að það kemur niður á tilbeiðslu okkar verður afþreyingin hégómi vegna þess að hún hefur slæm áhrif á andlega velferð okkar. (Préd. 2:24; 4:6) Kristinn maður forðast þetta með því að temja sér jafnvægi og gæta vel að því hvernig hann notar dýrmætan tíma sinn. (Lestu Kólossubréfið 4:5.) En til eru hégómlegir hlutir sem eru mun hættulegri en afþreying. Þar á meðal má nefna falsguði.

Hafnaðu falsguðum

5. Hvað segir Biblían um falsguði?

5 Jehóva sagði við Ísraelsmenn: „Þér skuluð eigi gjöra yður falsguði, né heldur reisa yður skurðgoð eða merkissteina, og eigi setja upp myndasteina í landi yðar til þess að tilbiðja hjá þeim.“ (3. Mós. 26:1) Og Davíð konungur skrifaði: „Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, og óttalegur er hann öllum guðum framar. Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir, en Drottinn hefir gjört himininn.“ — 1. Kron. 16:25, 26.

6. Af hverju eru falsguðir hreinn hégómi?

6 Eins og Davíð benti á sjáum við ummerki um mikilleik Jehóva allt í kringum okkur. (Sálm. 139:14; 148:1-10) Það var mikill heiður fyrir Ísraelsmenn að eiga sáttmálasamband við Jehóva. Hvílík heimska að snúa baki við honum og falla fram fyrir skurðgoðum og merkissteinum. Á neyðartímum reyndust falsguðir þeirra vera hreinn hégómi því að þeir gátu ekki einu sinni bjargað sjálfum sér, hvað þá tilbiðjendum sínum. — Dóm. 10:14, 15; Jes. 46:5-7.

7, 8. Hvernig geta peningar orðið eins konar guð?

7 Í mörgum löndum fellur fólk enn þá fram fyrir líkneskjum en slíkir guðir eru jafn gagnslausir núna og þeir voru fyrr á tímum. (1. Jóh. 5:21) Biblían segir hins vegar að ýmislegt annað geti verið guðir. Tökum sem dæmi eftirfarandi orð Jesú: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ — Matt. 6:24.

8 Hvernig getur „mammón“ orðið eins konar guð? Tökum sem dæmi stein sem lá á víðavangi í Ísrael til forna. Hægt var að nýta þennan stein til að reisa hús eða hlaða vegg. En ef hann var reistur upp sem ‚merkissteinn‘ eða ‚myndasteinn‘ gat hann orðið Ísraelsmönnum að fótakefli. (3. Mós. 26:1) Á sambærilegan hátt gegna peningar sínu hlutverki. Þeir eru nauðsynlegir og geta komið að gagni í þjónustu Jehóva. (Préd. 7:12; Lúk. 16:9) En ef við leggjum meiri áherslu á að afla okkur fjármuna en að þjóna Jehóva verða peningar eins og guð okkar. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.) Í heiminum nú á dögum leggur fólk mikið kapp á að eignast peninga og því verðum við að gæta þess að hafa rétt viðhorf í þessum málum. — 1. Tím. 6:17-19.

9, 10. (a) Hvernig líta kristnir menn á menntun? (b) Hvaða hætta er samfara æðri menntun?

9 Tökum annað dæmi. Menntun kemur að góðu gagni en hún getur líka breyst í hégóma. Við viljum að börnin okkar fái góða menntun til að þau geti séð fyrir sér. Og það sem meira er, vel menntaður kristinn maður á auðveldara með að lesa Biblíuna af skilningi, rökhugsa, draga réttar ályktanir og kenna sannindi Biblíunnar á skýran og sannfærandi hátt. Það tekur sinn tíma að afla sér góðrar menntunar en þeim tíma er vel varið.

10 En hvað má segja um æðri menntun, það er að segja háskólamenntun? Margir álíta hana nauðsynlega til að komast áfram í lífinu. En oft er reynslan sú að þeir sem afla sér slíkrar menntunar fylla hugann af skaðlegri visku heimsins. Þannig sóa þeir dýmætum æskuárum sem væri best varið í þjónustu Jehóva. (Préd. 12:1) Það kemur ef til vill ekki á óvart að í löndum þar sem slík menntun er útbreidd er trú á Guð orðin fágætari en nokkru sinni fyrr. Kristinn maður treystir á Jehóva í stað þess að leita öryggis hjá hinum háu menntastofnunum þessa heims. — Orðskv. 3:5.

Gerðu ekki langanir holdsins að guði

11, 12. Af hverju sagði Páll að guð sumra væri maginn?

11 Í bréfi sínu til Filippímanna benti Páll postuli á annað sem getur orðið að guði. Hann talar um menn sem voru áður tilbiðjendur Jehóva og segir: „Margir breyta, — ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi —, eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, . . . og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.“ (Fil. 3:18, 19) Hvernig gæti einhver gert magann að guði sínum?

12 Svo virðist sem þessir kunningjar Páls hafi frekar viljað láta undan löngunum holdsins en að þjóna Jehóva ásamt Páli. Sumir hafa ef til vill í bókstaflegum skilningi borðað eða drukkið í óhófi. (Orðskv. 23:20, 21; samanber 5. Mósebók 21:18-21.) Aðrir ákváðu kannski að nýta sér tækifærin sem stóðu til boða í heimi fyrstu aldar og það beindi athygli þeirra frá þjónustunni við Jehóva. Við skulum aldrei láta löngun í svokölluð lífsgæði verða til þess að við hægjum á okkur og hættum að þjóna Jehóva af heilum huga. — Kól. 3:23, 24.

13. (a) Hvað er ágirnd og hvernig lýsti Páll henni? (b) Hvernig getum við forðast ágirnd?

13 Páll nefndi líka falska tilbeiðslu í öðru samhengi. Hann skrifaði: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ (Kól. 3:5) Ágirnd er sterk löngun í eitthvað sem við eigum ekki. Hún getur beinst að efnislegum hlutum. Hún getur jafnvel falið í sér óviðeigandi kynferðislegar langanir. (2. Mós. 20:17) Það er umhugsunarvert að slíkar langanir jafnast á við skurðgoðadýrkun, það er að segja tilbeiðslu á falsguðum. Jesús notaði sterkt myndmál til að sýna hve mikilvægt er að hafa stjórn á slíkum löngunum, hvað sem það kostar. — Lestu Markús 9:47; 1. Jóh. 2:16.

Varaðu þig á fánýtum orðum

14, 15. (a) Hvaða fánýtu orð urðu mörgum að falli á dögum Jeremía? (b) Af hverju voru orð Móse verðmæt?

14 Orð geta líka verið hégómi eða fánýti. Jehóva sagði til dæmis við Jeremía: „Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.“ (Jer. 14:14) Þessir falsspámenn sögðust tala í nafni Jehóva en þeir héldu fram eigin hugmyndum, eigin visku. Þess vegna voru orð þeirra ‚fánýt‘. Þau voru einskis virði og þjónum Guðs stafaði hætta af þeim. Margir sem hlýddu á fánýt orð þessara manna dóu um aldur fram fyrir hendi babýlonskra hermanna árið 607 f.Kr.

15 Móse sagði hins vegar við Ísraelsmenn: „Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag . . . Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar, og fyrir þetta orð munuð þér lifa langa ævi í landinu, sem þér haldið nú inn í yfir Jórdan til þess að taka það til eignar.“ (5. Mós. 32:46, 47) Já, orð Móse voru innblásin af Guði. Þess vegna voru þau verðmæt, nauðsynleg til að þjóðinni vegnaði vel. Þeir sem gáfu gaum að þeim voru langlífir og farsælir. Við skulum ávallt hafna hégóma eða fánýtum orðum og halda fast við dýrmæt sannleiksorð.

16. Hvernig lítum við á fullyrðingar vísindamanna sem stangast á við orð Guðs?

16 Heyrum við fánýt orð nú á dögum? Já, og við skulum líta á dæmi. Sumir vísindamenn segja að þróunarkenningin og ýmsar vísindauppgötvanir sýni fram á að við þurfum ekki lengur að trúa á Guð, að hægt sé að finna náttúrulegar skýringar á öllu. Ættum við að hafa áhyggjur af djörfum fullyrðingum sem þessum? Að sjálfsögðu ekki. Það er munur á visku manna og visku Guðs. (1. Kor. 2:6, 7) En við vitum að þegar kenningar manna stangast á við það sem Guð hefur opinberað eru það alltaf mennirnir sem hafa á röngu að standa. (Lestu Rómverjabréfið 3:4.) Þrátt fyrir framfarir vísinda á sumum sviðum er lýsing Biblíunnar á visku manna dagsönn: „Speki þessa heims er heimska hjá Guði.“ Rök manna mega sín ósköp lítils í samanburði við óendanlega visku Guðs. — 1. Kor. 3:18-20.

17. Hvernig ættum við að líta á orð trúarkennara kristna heimsins og fráhvarfsmanna?

17 Trúarkennarar kristna heimsins eru annað dæmi um menn sem fara með fánýt orð. Þeir segjast tala í nafni Guðs en fæst af því sem þeir kenna er byggt á Biblíunni. Það sem þeir segja er að miklu leyti einskis nýtt. Fráhvarfsmenn fara líka með fánýt orð og halda því fram að þeir búi yfir meiri visku en hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem Guð hefur útnefnt. (Matt. 24:45-47) En fráhvarfsmenn koma á framfæri eigin visku. Orð þeirra eru gagnslaus og geta orðið að falli þeim sem hlusta á þau. (Lúk. 17:1, 2) Hvernig getum við komið í veg fyrir að slík orð leiði okkur afvega?

Hvernig getum við hafnað fánýtum orðum?

18. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningunum í 1. Jóhannesarbréfi 4:1?

18 Hinn aldraði Jóhannes postuli gaf góð ráð um þessi mál. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:1.) Í samræmi við leiðbeiningar hans hvetjum við þá sem við hittum í boðunarstarfinu til að sannreyna það sem þeim hefur verið kennt með því að bera það saman við Biblíuna. Þetta er góð regla fyrir okkur líka. Ef við heyrum einhvern gagnrýna sannleikann eða tala illa um söfnuðinn, öldungana eða eitthvert trúsystkina okkar ættum við ekki að gleypa við því sem hann segir. Við ættum heldur að spyrja okkur: „Hegðar hann sér í samræmi við það sem Biblían kennir? Er þetta sagt í þeim tilgangi að vilji Jehóva nái fram að ganga? Stuðlar þessi saga eða ásökun að friði innan safnaðarins?“ Allt sem brýtur bræðralagið niður í stað þess að byggja það upp er fánýti eða hégómi. — 2. Kor. 13:10, 11.

19. Hvernig tryggja öldungar að orð þeirra séu ekki fánýt?

19 Öldungar geta líka dregið mikilvægan lærdóm af viðvörun Biblíunnar um fánýt orð. Þegar þeir þurfa að gefa öðrum leiðbeiningar hafa þeir hugfast að þeir hafa sín takmörk. Þeir leyfa sér ekki að byggja leiðbeiningarnar eingöngu á eigin þekkingu. Þeir ættu alltaf að benda á það sem Biblían segir. Finna má góða reglu í orðum Páls postula: „Farið ekki lengra en ritað er.“ (1. Kor. 4:6) Öldungar fara ekki lengra en ritað er í Biblíunni. Og þeir fylgja sömu meginreglu með því að fara ekki út fyrir þær leiðbeiningar sem er að finna í ritum hins trúa og hyggna þjóns.

20. Hvernig fáum við hjálp til að hafna hégómlegum hlutum?

20 Hégómlegir hlutir eru mjög skaðlegir, hvort sem um er að ræða falsguði, fánýt orð eða eitthvað annað. Þess vegna biðjum við Jehóva alltaf að hjálpa okkur að koma auga á hvað er hégómi og hvernig við getum hafnað því. Þegar við gerum það tökum við í reynd undir orð sálmaritarans: „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma, lífga mig á vegum þínum.“ (Sálm. 119:37) Í næstu grein verður rætt nánar um gildi þess að þiggja leiðsögn Jehóva.

Geturðu útskýrt?

• Hvaða hégómlegu hlutum verðum við að hafna almennt séð?

• Hvernig getum við komið í veg fyrir að peningar verði okkur eins og guð?

• Hvernig geta langanir holdsins jafnast á við skurðgoðadýrkun?

• Hvernig getum við hafnað fánýtum orðum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 3]

Ísraelsmenn voru hvattir til að yrkja land sitt en sækjast ekki eftir hégómlegum hlutum.

[Mynd á blaðsíðu 5]

Við skulum aldrei láta löngun í efnislega hluti verða til þess að við hægjum á okkur í þjónustu Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Orð öldunga geta verið mjög verðmæt.