Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað gefur lífinu gildi?

Hvað gefur lífinu gildi?

Hvað gefur lífinu gildi?

„Óttastu Guð og haltu hans boðorð.“ — PRÉD. 12:13.

1, 2. Hvaða gagn getum við haft af því að skoða Prédikarann?

SJÁÐU fyrir þér mann sem virðist eiga allt sem hugurinn girnist. Hann er víðfrægur stjórnvitringur, einn auðugasti maður á jörðinni og mesti gáfumaður sinnar kynslóðar. En þrátt fyrir öll afrek sín spyr hann sjálfan sig hvað gefi lífinu gildi.

2 Slíkur maður var reyndar uppi fyrir þrjú þúsund árum. Hann hét Salómon og í Prédikaranum í Biblíunni lýsir hann leit sinni að hamingjunni. (Préd. 1:13) Það má læra margt af reynslu hans. Við getum nýtt okkur viskuna í Prédikaranum til að setja okkur markmið sem gefa lífinu raunverulegt gildi.

„Eftirsókn eftir vindi“

3. Hvaða staðreynd verðum við öll að horfast í augu við?

3 Salómon bendir á að Guð hafi skapað ógrynni fagurra og forvitnilegra hluta hér á jörðinni sem við þreytumst aldrei á að skoða, rannsaka og dást að. En lífið er svo stutt að við náum varla að byrja að rannsaka sköpun Guðs. (Préd. 3:11; 8:17) Eins og Biblían segir eru ævidagar okkar fáir og fljótir að líða. (Job. 14:1, 2; Préd. 6:12) Þessi staðreynd ætti að vera okkur hvöt til að nota lífið viturlega. En það er ekki auðvelt því að heimur Satans gæti beint okkur í ranga átt.

4. (a) Hvað er fólgið í orðinu „hégómi“? (b) Hvað ætlum við að skoða?

4 Salómon notar orðið „hégómi“ hvorki meira né minna en 30 sinnum í Prédikaranum. Markmiðið er að vara okkur við því að sóa lífinu. Hebreska orðið, sem þýtt er „hégómi“, lýsir því sem er innantómt, léttvægt, tilgangslaust, einskis virði eða hefur ekkert varanlegt gildi. (Préd. 1:2, 3) Stundum talar Salómon í sömu andránni um „hégóma“ og „eftirsókn eftir vindi“. (Préd. 1:14; 2:11) Það er auðvitað ekki hægt að grípa vindinn í hendi sér. Hver sem reynir það grípur í tómt. Ef við keppum að óviturlegum markmiðum getur það reynst jafn tilgangslaust. Lífið í þessum heimi er of stutt til að sóa því í eitthvað sem reynist innantómt. Til að gera ekki þau mistök skulum við skoða hvað Salómon segir að fólk sækist gjarnan eftir í lífinu. Fyrst ræðum við um skemmtun, afþreyingu og efnisleg gæði. Síðan ræðum við um gildi þess að vinna.

Veitir skemmtun og afþreying varanlega hamingju?

5. Hvar leitaði Salómon hamingjunnar?

5 Eins og svo margir nú á dögum reyndi Salómon að finna hamingjuna með því að njóta gæða lífsins. „Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði,“ sagði hann. (Préd. 2:10) Hvað gerði hann sér til skemmtunar? Samkvæmt 2. kafla Prédikarans gæddi hann sér á víni en gætti þó auðvitað hófs. Hann fegraði umhverfi sitt með fallegum görðum, reisti sér hallir, hlustaði á tónlist og naut góðs matar.

6. (a) Af hverju er ekkert athugavert við það að njóta sumra af gæðum lífsins? (b) Af hverju þarf að gæta hófs í sambandi við afþreyingu?

6 Mælir Biblían gegn því að eiga góða stund með vinum? Nei, alls ekki. Salómon segir til dæmis að það sé Guðs gjöf að njóta matar í notalegu umhverfi að loknu góðu dagsverki. (Lestu Prédikarann 2:24; 3:12, 13.) Jehóva hvetur meira að segja ungt fólk til að gleðja sig og láta liggja vel á sér ef það gerir það með ábyrgum hætti. (Préd. 11:9) Við höfum þörf fyrir að slaka á og njóta heilnæmrar afþreyingar. (Samanber Markús 6:31.) En afþreying ætti ekki að verða aðalatriðið í lífinu. Hún ætti að vera eins og eftirréttur í lok máltíðar en ekki aðalrétturinn. Þú ert eflaust sammála því að þótt þér finnist gott að fá sæta eftirrétti myndirðu fljótlega fá leið á þeim ef þú borðaðir ekkert annað. Og þú myndir ekki fá þá næringu sem þú þyrftir. Salómon komst líka að þeirri niðurstöðu að það væri eins og „eftirsókn eftir vindi“ að láta lífið snúast um skemmtanir. — Préd. 2:10, 11.

7. Af hverju verðum við að vanda valið á afþreyingu og skemmtun?

7 Höfum líka hugfast að ekki er öll afþreying heilnæm. Oft getur hún verið stórskaðleg — bæði siðferðilega og andlega. Milljónir manna, sem ætluðu bara að skemmta sér, hafa valdið sjálfum sér miklu tjóni með fíkniefnaneyslu, ofnotkun áfengis eða fjárhættuspili. Í umhyggju sinni varar Jehóva við því að ef við leyfum hjartanu eða augunum að leiða okkur út á skaðlegar brautir megum við búast við því að þurfa að taka afleiðingunum. — Gal. 6:7.

8. Af hverju er skynsamlegt að hugleiða hvernig við notum líf okkar?

8 Ef við leggjum of mikla áherslu á skemmtun og afþreyingu dregur það athygli okkar frá því sem meira máli skiptir. Gleymum ekki að ævin líður hratt og við höfum enga tryggingu fyrir því að við verðum alltaf heilsuhraust og laus við vandamál. Þess vegna benti Salómon á að við gætum haft meira gagn af því að vera viðstödd jarðarför — sérstaklega ef hinn látni var trúfastur þjónn Jehóva — en að „ganga í veislusal“. (Lestu Prédikarann 7:2, 4.) Af hverju má segja það? Þegar við hlustum á jarðarfararræðuna og íhugum trúfesti hins látna gæti það verið okkur hvatning til að hugleiða hvernig við notum okkar eigið líf. Við komumst kannski að þeirri niðurstöðu að við þurfum að setja okkur betri markmið til að nota viturlega þau ár sem við eigum ólifuð. — Préd. 12:1.

Veita efnisleg gæði hamingju?

9. Hvað uppgötvaði Salómon varðandi auðlegð?

9 Þegar Salómon skrifaði Prédikarann var hann einn auðugasti maður á jörðinni. (2. Kron. 9:22) Hann gat eignast hvað sem hann vildi. „Allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim,“ skrifaði hann. (Préd. 2:10) En hann komst að raun um að efnislegar eigur sem slíkar veita ekki hamingju. Hann sagði: „Sá sem elskar peninga, verður aldrei saddur af peningum, og sá sem elskar auðinn, hefir ekki gagn af honum.“ — Préd. 5:9.

10. Hvað veitir sanna auðlegð og hamingju?

10 En þótt efnislegar eigur hafi ekki varanlegt gildi geta þær samt togað ákaflega sterkt í fólk. Í nýlegri könnun, sem gerð var meðal bandarískra háskólanema á fyrsta ári, kom í ljós að 75 prósent sögðu að meginmarkmiðið í lífi þeirra væri að verða „mjög vel stæðir“. En ætli þeir fyndu sanna hamingju þó að þeir næðu markmiði sínu? Það er ekki víst. Rannsóknarmenn hafa bent á að ef lögð er mikil áhersla á efnislega hluti getur það komið í veg fyrir að fólk verði hamingjusamt. Salómon hafði komist að sömu niðurstöðu endur fyrir löngu. Hann skrifaði: „Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum . . . þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ * (Préd. 2:8, 11) Ef við notum líf okkar á hinn bóginn til að þjóna Jehóva af heilum huga og hljótum blessun hans öðlumst við sannan auð. — Lestu Orðskviðina 10:22.

Hvers konar vinna veitir sanna hamingju?

11. Hvað segir Biblían um gildi þess að vinna?

11 Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ (Jóh. 5:17) Það leikur enginn vafi á því að Jehóva og Jesús hafa ánægju af því að vinna. Í Biblíunni er bent á hve ánægður Jehóva var með sköpunarverk sitt. Þar segir: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mós. 1:31) Englarnir „fögnuðu“ þegar þeir sáu allt sem Guð hafði gert. (Job. 38:4-7) Salómon gerði sér líka grein fyrir gildi þess að vinna að einhverju mikilvægu. — Préd. 3:13.

12, 13. (a) Hvernig lýsa tveir menn þeirri ánægju sem vinnan veitir þeim? (b) Af hverju getur vinna stundum valdið fólki gremju og vonbrigðum?

12 Margir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að leggja sig vel fram við vinnu. Tökum José sem dæmi en hann er fær listmálari. Hann segir: „Þegar myndin, sem ég sé fyrir mér, er komin á strigann líður mér eins og ég hafi klifið hátt fjall.“ Miguel * er kaupsýslumaður og hann segir: „Vinnan er gefandi af því að hún gerir manni kleift að sjá fyrir fjölskyldunni. Hún getur líka vakið þá tilfinningu að maður hafi áorkað einhverju.“

13 Á hinn bóginn eru mörg störf einhæf og bjóða ekki upp á að fólk geti beitt sköpunargáfunni. Og stundum er vinnustaðurinn þess eðlis að hann ýtir undir gremju og fólk er jafnvel órétti beitt. Eins og Salómon bendir á gæti hinn lati jafnvel fengið laun hins iðjusama, hugsanlega vegna þess að hann notar sambönd sín við þá sem fara með völdin. (Préd. 2:21) Margt annað getur líka valdið vonbrigðum. Þótt eitthvað virðist í byrjun vera frábært viðskiptatækifæri gæti það endað með ósköpum vegna efnahagskreppu eða ófyrirsjáanlegra aðstæðna. (Lestu Prédikarann 9:11.) Oft fer það svo að sá sem leggur hart að sér til að ná árangri situr eftir með sárt ennið þegar hann gerir sér grein fyrir því að hann hefur stritað „út í veður og vind“. — Préd. 5:15.

14. Hvaða vinna veitir alltaf sanna gleði?

14 Er til einhvers konar vinna sem veldur aldrei vonbrigðum? José, listmálarinn sem áður var nefndur, segir: „Málverk geta týnst eða skemmst með árunum. En svo er ekki með það sem við gerum í þjónustu Jehóva. Þegar ég fylgi boði hans um að prédika fagnaðarerindið hef ég átt þátt í því að byggja upp eitthvað varanlegt — guðhrædda kristna einstaklinga. Það er ómetanlegt.“ (1. Kor. 3:9-11) Miguel tekur í sama streng og segir að prédikun fagnaðarerindisins veiti sér mun meiri ánægju en veraldleg störf. „Ekkert jafnast á við gleðina sem fylgir því að segja einhverjum frá sannindum Biblíunnar og skynja að það hefur snert hjarta hans,“ segir hann.

„Varpa þú brauði þínu út á vatnið“

15. Hvað gefur lífinu raunverulegt gildi?

15 Hvað gefur lífinu þá raunverulegt gildi þegar allt kemur til alls? Við finnum til sannrar gleði ef við notum þann stutta tíma sem við höfum í þessu heimskerfi til að gera gott og gleðja Jehóva. Við getum eignast náið samband við Guð, kennt börnunum okkar andleg gildi, hjálpað öðrum að kynnast Guði og myndað varanleg vináttutengsl við trúsystkini. (Gal. 6:10) Allt hefur þetta varanlegt gildi og er okkur til blessunar. Salómon notaði mjög athyglisverða líkingu til að lýsa gildi þess að gera gott. Hann sagði: „Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur.“ (Préd. 11:1) Jesús hvatti lærisveinana: „Gefið, og yður mun gefið verða.“ (Lúk. 6:38) Auk þess lofar Jehóva að launa þeim sem gera öðrum gott. — Orðskv. 19:17; lestu Hebreabréfið 6:10.

16. Hvenær er besti tíminn til að skipuleggja framtíð sína?

16 Í Biblíunni erum við hvött til að marka okkur viturlega stefnu í lífinu meðan við erum enn ung að árum. Þannig getum við komið í veg fyrir vonbrigði síðar á ævinni. (Préd. 12:1) Það væri mjög sorglegt að sóa bestu árum ævinnar í að eltast við það sem heimurinn hefur upp á að bjóða og komast svo að raun um að það var ekkert annað en eftirsókn eftir vindi.

17. Hvað getur auðveldað þér að velja bestu lífsstefnuna?

17 Jehóva er ástríkur faðir og vill að þú njótir lífsins, gerir gott og umflýir óþarfa sorgir og sársauka. (Préd. 11:9, 10) Hvað getur auðveldað þér að gera það? Settu þér andleg markmið og leggðu þig síðan fram um að ná þeim. Fyrir næstum 20 árum þurfti Javier að velja á milli starfsframa sem læknir og þess að þjóna Jehóva í fullu starfi. „Þótt starf læknis geti verið gefandi jafnaðist ekkert á við þá gleði sem ég upplifði þegar ég hjálpaði allmörgum að kynnast sannleikanum,“ segir hann. „Þjónusta í fullu starfi hefur gert mér kleift að njóta lífsins eins og best verður á kosið. Það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki byrjað fyrr.“

18. Af hverju má segja að líf Jesú hér á jörðinni hafi haft raunverulegt gildi?

18 Hvað er þá það verðmætasta sem við getum eignast? Í Prédikaranum segir: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.“ (Préd. 7:1) Jesús er besta dæmið um þetta. Hann eignaðist einstaklega gott mannorð hjá Jehóva. Þegar hann dó trúfastur varði hann drottinvald föður síns og færði lausnarfórnina sem gerði okkur mögulegt að hljóta hjálpræði. (Matt. 20:28) Þann stutta tíma, sem Jesús var hér á jörðinni, sýndi hann betur en nokkur annar hvernig hægt er að láta lífið hafa raunverulegt gildi. Við ættum að reyna að líkja eftir honum. — 1. Kor. 11:1; 1. Pét. 2:21.

19. Hvaða viturlegu leiðbeiningar gaf Salómon?

19 Við getum líka eignast gott mannorð hjá Guði. Það er mun verðmætara en að eignast veraldlegan auð. (Lestu Matteus 6:19-21.) Á hverjum degi getum við fundið leiðir til að gera það sem er gott í augum Jehóva og auðgar líf okkar. Við getum til dæmis sagt öðrum frá fagnaðarerindinu, styrkt hjónabandið og fjölskylduna og treyst samband okkar við Jehóva með sjálfsnámi og samkomusókn. (Préd. 11:6; Hebr. 13:16) Langar þig til að líf þitt hafi raunverulegt gildi? Haltu þá áfram að fylgja leiðbeiningum Salómons: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Préd. 12:13.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Fastatekjur Salómons á ársgrundvelli voru 666 talentur af gulli (rúmlega 22 tonn). — 2. Kron. 9:13.

^ gr. 12 Nafni er breytt.

Hvert er svarið?

• Hvað ætti að fá okkur til að hugsa alvarlega um markmið okkar í lífinu?

• Hvernig ættum við að líta á skemmtun, afþreyingu og efnisleg gæði?

• Hvers konar starf veitir varanlega hamingju?

• Hvaða verðmæti ættum við að reyna að eignast?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Hvaða sess ætti afþreying að skipa í lífinu?

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hvers vegna er boðunarstarfið einstaklega gefandi?