Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitum leiðsagnar Guðs í öllu

Leitum leiðsagnar Guðs í öllu

Leitum leiðsagnar Guðs í öllu

„Slíkur [er] Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.“ — SÁLM. 48:15.

1, 2. Af hverju ættum við frekar að leita leiðsagnar Jehóva en að treysta á eigin visku og hvaða spurningar vakna?

ÞAÐ er auðvelt að telja sér trú um að hégómlegir eða skaðlegir hlutir séu eftirsóknarverðir. (Orðskv. 12:11) Ef okkur langar mjög mikið til að gera eitthvað sem er ekki viðeigandi fyrir kristna menn á hjartað auðvelt með að finna sannfærandi ástæður til að láta verða af því. (Jer. 17:5, 9) Það var því viturlegt af sálmaritaranum að biðja Jehóva: „Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig.“ (Sálm. 43:3) Hann treysti á Jehóva en ekki á takmarkaða visku sjálf sín, og hann hefði ekki getað leitað leiðsagnar á betri stað. Það er líka viturlegt af okkur að leita leiðsagnar hjá Guði.

2 Af hverju treystum við því að Jehóva veiti bestu leiðsögn sem hægt er að fá? Hvenær ættum við að leita leiðsagnar hans? Hvaða eiginleika verðum við að þroska með okkur til að njóta góðs af leiðsögn Jehóva og hvernig leiðbeinir hann okkur nú á dögum? Fjallað verður um þessar mikilvægu spurningar í greininni.

Hvers vegna getum við treyst leiðsögn Guðs?

3-5. Hvers vegna treystum við algerlega á leiðsögn Jehóva?

3 Jehóva er himneskur faðir okkar. (1. Kor. 8:6) Hann gerþekkir okkur, hvert og eitt, og getur lesið hjörtu okkar. (1. Sam. 16:7; Orðskv. 21:2) Davíð konungur sagði við Guð: „Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.“ (Sálm. 139:2, 4) Þar sem Jehóva þekkir okkur svona vel ættum við varla að efast um að hann viti hvað sé okkur fyrir bestu. Jehóva veit alla hluti. Hann sér allt, horfir lengra en nokkur maður og veit frá upphafi hvernig málum lyktar. (Jes. 46:9-11; Rómv. 11:33) Hann einn er alvitur. — Rómv. 16:27.

4 Þar að auki elskar Jehóva okkur og vill okkur alltaf það besta. (Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:8) Hann er kærleiksríkur Guð og því örlátur við okkur. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna.“ (Jak. 1:17) Þeir sem leyfa Jehóva að leiða sig njóta góðs af örlæti hans.

5 Síðast en ekki síst er Jehóva almáttugur. Sálmaritarinn sagði: „Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir við Drottin: ‚Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!‘“ (Sálm. 91:1, 2) Þegar við fylgjum leiðsögn Jehóva fáum við öruggt skjól af því að vernd hans er óbrigðul. Jafnvel þótt við verðum fyrir andstöðu styður hann okkur. Hann bregst ekki. (Sálm. 71:4, 5; lestu Orðskviðina 3:19-26.) Já, Jehóva veit hvað er okkur fyrir bestu, vill okkur alltaf það besta og hefur vald til að veita okkur það. Það væri mikil heimska að hunsa leiðsögn hans. En hvenær þurfum við á leiðsögn hans að halda?

Hvenær þurfum við leiðsögn?

6, 7. Hvenær þurfum við á leiðsögn Jehóva að halda?

6 Við þurfum á leiðsögn Jehóva að halda alla ævi, frá vöggu til grafar. Sálmaritarinn sagði: „Slíkur [er] Drottinn, Guð vor. Um aldur og ævi mun hann leiða oss.“ (Sálm. 48:15) Skynsamir kristnir menn líkja eftir sálmaritaranum og hætta aldrei að leita leiðsagnar Guðs.

7 Stundum finnst okkur við bráðvanta hjálp Jehóva. Við getum lent í „nauðum“, til dæmis ofsóknum, alvarlegum veikindum eða skyndilegum atvinnumissi. (Sálm. 69:17, 18) Þá er hughreystandi að leita til Jehóva í trausti þess að hann gefi okkur styrk til að halda út og hjálpi okkur að taka viturlegar ákvarðanir. (Lestu Sálm 102:17.) En við þurfum líka á hjálp hans að halda við önnur tækifæri. Tökum dæmi. Áður en við flytjum fólki fagnaðarerindið um ríkið þurfum við að leita leiðsagnar hans til að starf okkar beri árangur. Og þegar við þurfum að taka ákvarðanir verðum við að fylgja leiðbeiningum hans. Gildir þá einu hvort um er að ræða afþreyingu, klæðnað og útlit, félagskap, atvinnu, menntun eða nokkuð annað. Í sannleika sagt þurfum við leiðsögn á öllum sviðum lífsins.

Það er hættulegt að leita ekki leiðsagnar Guðs

8. Hvað gaf Eva í skyn með því að borða af forboðna ávextinum?

8 Munum samt að við verðum að vera fús til að fylgja leiðsögn Guðs. Hann neyðir okkur ekki til þess ef við viljum það ekki. Eva var fyrsta manneskjan sem valdi að fylgja ekki leiðsögn Jehóva og fordæmi hennar sýnir hve alvarlegar afleiðingar slík ákvörðun getur haft. Hugsaðu þér líka hvað hún gaf í skyn með verkum sínum. Hún borðaði af forboðna ávextinum af því að hún vildi vera „eins og Guð og vita skyn góðs og ills“. (1. Mós. 3:5) Með því að gera það tók hún sér vald sem tilheyrði Guði. Hún ákvað sjálf hvað var gott og illt í stað þess að fylgja leiðbeiningum hans. Þar með hafnaði hún drottinvaldi Jehóva. Hún vildi ráða sér sjálf. Og Adam, eiginmaður hennar, fylgdi henni í uppreisninni. — Rómv. 5:12.

9. Hvað erum við í reynd að gera ef við höfnum leiðsögn Guðs og af hverju er það mjög óviturlegt?

9 Hið sama er að segja um okkur. Ef við fylgjum ekki leiðsögn Guðs viðurkennum við ekki drottinvald hans. Tökum sem dæmi mann sem venur sig á að horfa á klám. Ef hann tilheyrir kristna söfnuðinum veit hann hvað Jehóva segir um þetta mál. Það ætti ekki einu sinni að nefna óhreinleika á nafn, hvað þá að horfa á slíkt með lostafullri ánægju. (Ef. 5:3) Slíkur maður hafnar leiðbeiningum Jehóva og þar með hafnar hann drottinvaldi hans og yfirráðum. (1. Kor. 11:3) Það er mjög óviturlegt því að eins og Jeremía sagði er það ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. — Jer. 10:23.

10. Af hverju verðum við að nota frjálsa viljann á ábyrgan hátt?

10 Sumir gætu verið ósammála orðum Jeremía og fundist að fyrst Jehóva gaf okkur frjálsan vilja geti hann varla gagnrýnt okkur fyrir að nota hann. Munum samt að því fylgir ábyrgð að hafa frjálsan vilja. Við verðum að svara fyrir það sem við veljum að segja og gera. (Rómv. 14:10) Jesús sagði: „Af gnægð hjartans mælir munnurinn.“ Hann sagði líka: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni [og] lastmælgi.“ (Matt. 12:34; 15:19) Orð okkar og verk leiða í ljós hvað býr í hjartanu. Þau sýna hvað við erum innst inni. Þess vegna leitar skynsamur kristinn maður leiðsagnar Jehóva í öllu. Þá er hann hjartahreinn í augum Jehóva sem mun vera honum góður — Sálm. 125:4, Biblían 2007.

11. Hvað lærum við af sögu Ísraelsmanna?

11 Minnumst sögu Ísraelsmanna. Þegar þeir tóku góðar ákvarðanir og hlýddu boðum Jehóva verndaði hann þá. (Jós. 24:15, 21, 31) En oft misnotuðu þeir frjálsa viljann. Á dögum Jeremía sagði Jehóva um þá: „Þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við hlustir heldur fylgdu eigin ráðum í þverúð síns illa hjarta. Þeir sneru við mér baki, ekki andlitinu.“ (Jer. 7:24-26, Biblían 2007) En sorglegt! Við skulum aldrei hafna leiðsögn Jehóva vegna þrjósku eða sjálfsdekurs. Við skulum ekki fylgja eigin ráðum og snúa þannig „baki, ekki andlitinu“ við Jehóva.

Hvað þarf til að fylgja leiðsögn Guðs?

12, 13. (a) Hvaða eiginleiki vekur með okkur löngun til að fylgja leiðsögn Jehóva? (b) Af hverju er trú nauðsynleg?

12 Þegar við elskum Jehóva langar okkur til að fylgja leiðsögn hans. (1. Jóh. 5:3) En Páll benti á annað sem er nauðsynlegt og sagði: „Vér lifum í trú, en sjáum ekki.“ (2. Kor. 5:6, 7) Af hverju er trúin mikilvæg? Jehóva leiðir okkur „um rétta vegu“ en þessir vegir liggja hvorki til auðlegðar né virðingar í heiminum. (Sálm. 23:3) Þess vegna verða augu trúarinnar að einblína á þá einstöku blessun sem fylgir því að þjóna Jehóva. (Lestu 2. Korintubréf 4:17, 18.) Trúin hjálpar okkur líka að vera nægjusöm. — 1. Tím. 6:8.

13 Jesús gaf til kynna að sönn tilbeiðsla kosti fórnfýsi og fórnfýsi kostar trú. (Lúk. 9:23, 24) Sumir trúfastir þjónar Jehóva hafa fært miklar fórnir og þurft að þola fátækt, kúgun, fordóma og jafnvel harðar ofsóknir. (2. Kor. 11:23-27; Opinb. 3:8-10) Þeir þurftu sterka trú til að geta gert það með gleði. (Jak. 1:2, 3) Ef við höfum sterka trú erum við algerlega sannfærð um að það sé okkur alltaf fyrir bestu að fylgja leiðsögn Jehóva. Það er alltaf til góðs fyrir okkur til langs tíma litið. Við treystum því fullkomlega að þeir sem eru trúfastir og þolgóðir hljóti umbun sem er margfalt meiri en þær þjáningar sem við gætum þurft að þola um tíma. — Hebr. 11:6.

14. Af hverju þurfti Hagar að sýna auðmýkt?

14 Við þurfum líka að sýna auðmýkt til að fylgja leiðsögn Jehóva. Frásagan af Hagar, ambátt Söru, sýnir fram á það. Þegar Sara gerði sér grein fyrir því að hún gæti ekki eignast börn lét hún Abraham fá Hagar sem varð barnshafandi í kjölfarið. Hagar varð þá hrokafull gagnvart húsmóður sinni. Það varð til þess að Sara „þjáði“ hana svo að hún flýði. Engill Jehóva kom þá til Hagar og sagði við hana: „Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald.“ (1. Mós. 16:2, 6, 8, 9) Hagar hefði ef til vill viljað fá aðrar leiðbeiningar. Til að fylgja leiðbeiningum engilsins þurfti hún að láta af hrokanum. En Hagar sýndi auðmýkt og fór að ráðum engilsins og Ísmael, sonur hennar, fæddist í öruggu skjóli tjaldbúðar föður síns.

15. Nefndu nokkur dæmi þar sem gæti þurft auðmýkt til að fylgja leiðsögn Jehóva.

15 Við gætum líka þurft að sýna auðmýkt til að fylgja leiðsögn Jehóva. Sumir þurfa kannski að viðurkenna að afþreying, sem þeir hafa gaman af, sé Jehóva vanþóknanleg. Kristinn maður hefur ef til vill móðgað einhvern og þarf að biðjast afsökunar. Honum gætu líka hafa orðið á mistök og hann þurft að viðurkenna þau. Hvað ætti sá að gera sem fremur alvarlega synd? Hann verður að sýna auðmýkt og játa syndina fyrir öldungunum. Það gæti jafnvel gerst að einhverjum væri vikið úr söfnuðinum. Þá þarf hann að iðrast í auðmýkt og taka sinnaskiptum til að vera tekinn aftur inn í söfnuðinn. Við aðstæður sem þessar er hughreystandi að lesa Orðskviðina 29:23: „Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðing hljóta.“

Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur?

16, 17. Hvernig getum við nýtt okkur Biblíuna sem best til að fá leiðsögn frá Guði?

16 Jehóva veitir okkur fyrst og fremst leiðbeiningar í Biblíunni, innblásnu orði sínu. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.) Til að nýta okkur Biblíuna sem best er skynsamlegt að bíða ekki eftir að erfiðleika beri að garði áður en við leitum leiðsagnar í henni. Við ættum öllu heldur að venja okkur á að lesa daglega í Biblíunni. (Sálm. 1:1-3) Þannig kynnumst við orði Guðs vel. Við tileinkum okkur hugsanir Guðs og verðum jafnvel í stakk búin til að mæta óvæntum erfiðleikum.

17 Það er líka mikilvægt að hugleiða það sem við lesum í Biblíunni og gera það að bænarefni. Þegar við íhugum biblíuvers veltum við fyrir okkur hvernig þau gætu átt við ákveðnar aðstæður. (1. Tím. 4:15) Þegar alvarleg vandamál blasa við biðjum við Jehóva að hjálpa okkur að finna þá leiðsögn sem okkur vantar. Andi hans getur hjálpað okkur að muna eftir gagnlegum meginreglum sem við höfum lesið í Biblíunni sjálfri eða í biblíutengdum ritum. — Lestu Sálm 25:4, 5.

18. Hvernig notar Jehóva bræðrafélagið til að leiðbeina okkur?

18 Jehóva veitir okkur líka verðmæta leiðsögn fyrir milligöngu hins kristna bræðrafélags. Mikilvægur hluti þessa bræðrafélags er hinn „trúi og hyggni þjónn“ ásamt hinu stjórnandi ráði sem er fulltrúi þess. Þessi „þjónn“ veitir okkur jafnt og þétt andlega fæðu í prentuðu máli og dagskrár fyrir samkomur og mót. (Matt. 24:45-47; samanber Postulasöguna 15:6, 22-31.) Þar að auki er að finna þroskaða einstaklinga innan bræðrafélagsins, sérstaklega öldungana, sem eru hæfir til að aðstoða okkur og veita biblíuleg ráð. (Jes. 32:1) Börn og unglingar á kristnum heimilum eiga aðgang að annarri verðmætri hjálp. Foreldrar, sem eru í trúnni, hafa það verkefni að leiðbeina börnunum og þau eru hvött til að leita alltaf leiðsagnar þeirra. — Ef. 6:1-3.

19. Hvaða blessunar njótum við ef við höldum stöðuglega áfram að leita leiðsagnar Jehóva?

19 Já, Jehóva veitir okkur leiðsögn á marga vegu og við ættum að nýta okkur hana til fulls. Davíð konungur minntist þess tíma þegar Ísraelsmenn voru trúfastir og sagði: „Þér treystu feður vorir, þeir treystu þér, og þú hjálpaðir þeim, til þín hrópuðu þeir, og þeim var bjargað, þér treystu þeir og urðu ekki til skammar.“ (Sálm. 22:4-6) Ef við treystum Jehóva og fylgjum leiðsögn hans verðum við ekki heldur „til skammar“. Vonir okkar bregðast ekki. Ef við felum Jehóva vegu okkar í stað þess að reiða okkur á eigin visku hljótum við ríkulega blessun nú þegar. (Sálm. 37:5) Og ef við höldum staðföst áfram á þeirri braut verður blessunin eilíf. Davíð konungur skrifaði: „Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir . . . Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálm. 37:28, 29.

Geturðu svarað?

• Af hverju treystum við leiðsögn Jehóva?

• Hvað gefum við í skyn ef við höfnum leiðsögn Jehóva?

• Nefndu dæmi um aðstæður þar sem kristinn maður þarf að sýna auðmýkt.

• Hvernig leiðbeinir Jehóva okkur nú á dögum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 8]

Leitarðu leiðsagnar Jehóva á öllum sviðum lífsins?

[Mynd á blaðsíðu 9]

Eva hafnaði drottinvaldi Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hvaða eiginleika þurfti Hagar að sýna til að fylgja leiðbeiningum engilsins?