Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar, munið eftir skapara ykkar núna

Unglingar, munið eftir skapara ykkar núna

Unglingar, munið eftir skapara ykkar núna

„Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ — PRÉD. 12:1.

1. Hvernig lætur Jehóva í ljós að hann treystir ungu fólki sem tilbiður hann?

KRISTNIR unglingar eru dýrmætir í augum Jehóva og ferskir eins og daggardropar. Hann sagði fyrir að á „valdadegi“ sonar síns myndi ungt fólk koma „sjálfboða“ til að þjóna honum. (Sálm. 110:3) Þessi spádómur átti að uppfyllast þegar fólk almennt yrði áhugalaust um að tilbiðja Guð, óhlýðið honum og upptekið af sjálfu sér og peningum. En Jehóva vissi að ungt fólk, sem þjónaði honum, yrði frábrugðið fjöldanum. Er ekki augljóst að hann ber mikið traust til ykkar unglinganna í söfnuðinum?

2. Hvað er fólgið í því að muna eftir Jehóva?

2 Hugsaðu þér hvað það hlýtur að gleðja Guð að sjá unglinga sem muna eftir skapara sínum. (Préd. 12:1) En að muna eftir Jehóva er auðvitað meira en að muna að hann sé til. Við þurfum að láta verkin tala með því að gera það sem hann hefur velþóknun á og hafa lög hans og meginreglur að leiðarljósi í daglega lífinu. Það merkir líka að treysta Jehóva, vitandi að hann ber hag okkar fyrir brjósti. (Sálm. 37:3; Jes. 48:17, 18) Hugsar þú þannig um skapara þinn?

Treystu Jehóva af öllu hjarta

3, 4. Hvernig sýndi Jesús að hann treysti á Jehóva og af hverju er mikilvægt að treysta á Jehóva núna?

3 Jesús Kristur er auðvitað besta dæmið um mann sem treysti Guði. Hann fór eftir Orðskviðunum 3:5, 6 þar sem segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ Skömmu eftir að Jesús skírðist kom Satan til hans og reyndi að freista hans til að þiggja veraldleg völd og upphefð. (Lúk. 4:3-13) En Jesús lét ekki blekkjast. Hann vissi að sannur „auður, heiður og líf“ fæst með því að sýna auðmýkt og óttast Jehóva. — Orðskv. 22:4.

4 Heimur nútímans stjórnast af græðgi og eigingirni. Í slíku umhverfi er viturlegt að fylgja fordæmi Jesú. Hafðu einnig hugfast að Satan reynir með öllum ráðum að lokka þjóna Jehóva út af mjóa veginum sem liggur til lífsins. Hann vill að allir séu á breiða veginum sem liggur til glötunar. Láttu hann ekki blekkja þig. Vertu staðráðinn í að muna eftir skapara þínum. Treystu á hann í einu og öllu svo að þú getir „höndlað hið sanna líf“ sem er bæði öruggt og mjög nærri. — 1. Tím. 6:19.

Unglingar, sýnið skynsemi

5. Hvernig líturðu á framtíð þessa heims?

5 Unglingar, sem muna eftir skapara sínum, eru skynsamir eftir aldri. (Lestu Sálm 119:99, 100.) Þeir hafa tileinkað sér sjónarmið Guðs svo að þeir vita mætavel að þessi heimur á ekki framtíð fyrir sér. Þið unglingar hafið ábyggilega séð ótta og áhyggjur færast í aukana á þeirri stuttu ævi sem þið eigið að baki. Þið hafið eflaust heyrt talað um mengun, gróðurhúsaáhrif, eyðingu skóga og önnur áþekk vandamál. Fólk hefur þungar áhyggjur af þessari þróun en aðeins vottar Jehóva gera sér fulla grein fyrir því að þetta er hluti af tákninu um að heimur Satans eigi stutt eftir. — Opinb. 11:18.

6. Hvernig hafa sumir unglingar látið blekkjast?

6 Því miður hafa sumir ungir þjónar Jehóva slakað á verðinum og misst sjónar á því hve stutt þessi heimur á eftir. (2. Pét. 3:3, 4) Sumir hafa ekki gætt sín á vondum félagsskap eða klámi og tælst út í alvarlegar syndir. (Orðskv. 13:20) Það væri ákaflega dapurlegt að glata velþóknun Guðs núna, rétt fyrir endalokin. Drögum heldur lærdóm af því sem gerðist hjá Ísraelsmönnum árið 1473 f.Kr. þegar þeir voru í tjaldbúðum á Móabsvöllum, rétt við landamæri fyrirheitna landsins. Hvað gerðist þar?

Þeir féllu á síðustu metrunum

7, 8. (a) Hvaða aðferð beitti Satan á Móabsvöllum? (b) Hvaða aðferð beitir hann núna?

7 Satan var greinilega mikið í mun að koma í veg fyrir að Ísraelsmenn eignuðust það sem þeim hafði verið lofað. Þegar honum mistókst að láta spámanninn Bíleam kalla bölvun yfir þá greip hann til lúmskari aðferða. Hann reyndi að gera þá óhæfa til að hljóta blessun Jehóva. Hann notaði móabískar konur til að lokka þá og tæla og í þetta skipti varð honum nokkuð ágengt. Ísraelsmenn áttu siðlaus mök við Móabsdætur og féllu fram fyrir Baal Peór. Enda þótt fyrirheitna landið, sem þeir þráðu svo heitt, væri innan seilingar týndu um 24.000 Ísraelsmenn lífi. En dapurlegt! — 4. Mós. 25:1-3, 9.

8 Við nálgumst nú hratt fyrirheitið land sem er miklu betra en Ísraelsmenn áttu í vændum. Þetta er nýi heimurinn. Satan er samur við sig og notar enn þá kynferðislegt siðleysi til að reyna að spilla fólki Guðs. Siðferði heimsins er komið á svo lágt plan að kynlíf ógiftra er álitið eðlilegur hlutur og samkynhneigð er talin sjálfsögð ef fólki sýnist svo. Systir í söfnuðinum sagði: „Það er bara heima fyrir og í ríkissalnum sem börnin mín heyra að samkynhneigð og kynlíf utan hjónabands sé rangt í augum Guðs.

9. Hvað getur gerst á unglingsárunum en hvernig geta unglingar tekist á við það?

9 Unglingar, sem muna eftir skapara sínum, vita að kynlíf er heilög gjöf sem tengist lífi og barneignum. Þeir gera sér grein fyrir að kynlíf á aðeins heima innan þess ramma sem Guð ákveður — það er að segja innan hjónabands. (Hebr. 13:4) En kynhvötin getur orðið býsna sterk á æskuárunum og ruglað dómgreindina, og þá getur það verið töluverð barátta að vera hreinlífur. Hvað er hægt að gera þegar óviðeigandi hugsanir skjóta upp kollinum? Biddu þá Jehóva ákaft um hjálp til að einbeita þér að heilnæmum hugsunum. Jehóva heyrir alltaf bænir þeirra sem leita til hans í einlægni. (Lestu Lúkas 11:9-13.) Uppbyggilegar samræður geta líka hjálpað þér að beina huganum á réttar brautir.

Settu þér skynsamleg markmið

10. Hvers konar hugarfar viljum við forðast og hvaða spurninga er skynsamlegt að spyrja sig?

10 Ein af ástæðunum fyrir því að margt ungt fólk í heiminum er taumlaust og lifir fyrir nautnir lífsins er sú að það hefur enga leiðsögn frá Guði né örugga framtíðarvon. Þetta unga fólk er eins og þeir Ísraelsmenn á dögum Jesaja sem lifðu fyrir ‚gleði og glaum, átu kjöt og drukku vín‘. (Jes. 22:13) En í stað þess að öfunda þá sem lifa þannig er miklu betra að hugleiða hina dýrmætu von sem Jehóva hefur gefið dyggum þjónum sínum. Bíður þú með óþreyju eftir nýja heiminum? Leggurðu þig allan fram um að hugsa skynsamlega „í eftirvæntingu vorrar sælu vonar“ sem Jehóva hefur gefið þér? (Tít. 2:12, 13) Svarið hefur áhrif á það hvaða markmið þú setur þér og á áherslur þínar í lífinu.

11. Af hverju ættu kristnir unglingar, sem eru enn í skóla, að stunda námið vel?

11 Heimurinn vill að unga fólkið einbeiti kröftum sínum að veraldlegum markmiðum. Þið sem eruð enn í skóla ættuð auðvitað að leggja ykkur vel fram um að fá góða undirstöðumenntun. Hafið hugfast að þið stefnið ekki aðeins að því að fá hentuga vinnu heldur líka að nýtast vel í söfnuðinum og verða duglegir boðberar Guðsríkis. Til þess þurfið þið að geta hugsað rökrétt, tjáð ykkur skýrt og rökrætt við aðra af ró og virðingu. En unglingar, sem eru duglegir biblíunemendur og fara eftir því sem þeir læra, fá bestu menntun sem völ er á. Og þannig leggja þeir góðan grundvöll að farsælli og eilífri framtíð. — Lestu Sálm 1:1-3. *

12. Hverjum ættu kristnar fjölskyldur að líkja eftir?

12 Í Ísrael var lögð mikil áhersla á að foreldrar menntuðu börnin. Þessi menntun spannaði nánast alla þætti lífsins, ekki síst andlegu málin. (5. Mós. 6:6, 7) Þegar ísraelsk börn hlustuðu á foreldra sína og aðra fullorðna, sem óttuðust Guð, öfluðu þau sér ekki aðeins þekkingar, heldur einnig visku og skilnings og þau lærðu að hugsa skýrt. Þetta eru fágætir eiginleikar sem fylgja því að kynnast Guði og boðorðum hans. (Orðskv. 1:2-4; 2:1-5, 11-15) Kristnar fjölskyldur ættu að leggja svipaða áherslu á menntun og gert var í Ísrael til forna.

Hlustið á þá sem elska ykkur

13. Hvers konar ráð eru unglingum oft gefin og af hverju ættu þeir að vera varkárir?

13 Unglingar fá ráðleggingar úr öllum áttum, þar á meðal frá námsráðgjöfum sem leggja yfirleitt fyrst og fremst áherslu á það hvernig hægt sé að komast áfram í heiminum. Þið skuluð vega og meta öll slík ráð með hliðsjón af Biblíunni og andlegu fæðunni sem hinn trúi og hyggni þjónn lætur í té. Og ræðið málin við Jehóva í bæn. Þið vitið af biblíunámi ykkar að Satan beinir spjótum sínum ekki síst að þeim sem eru ungir og óreyndir. Eva var til dæmis óreynd þegar Satan kom að máli við hana í Edengarðinum. Hann var henni ókunnugur og hafði ekki sýnt henni minnsta vott af kærleika. Allt hefði farið á annan veg ef hún hefði hlustað á Jehóva sem hafði sýnt henni kærleika sinn á marga vegu. — 1. Mós. 3:1-6.

14. Af hverju ættuð þið að hlusta bæði á Jehóva og trúaða foreldra ykkar?

14 Skapari ykkar elskar ykkur líka og þar búa fullkomlega hreinar hvatir að baki. Hann vill að þið séuð hamingjusöm að eilífu, ekki aðeins núna. Hann er eins og umhyggjusamur faðir þegar hann segir ykkur og öllum öðrum sem tilbiðja hann: „Hér er vegurinn! Farið hann.“ (Jes. 30:21) Og það er mikil blessun fyrir ykkur ef þið eigið trúaða foreldra sem elska Jehóva. Hlustið með virðingu á ráðleggingar þeirra þegar þið setjið ykkur markmið og forgangsraðið í lífinu. (Orðskv. 1:8, 9) Foreldrar ykkar vilja að þið hljótið líf og það er margfalt verðmætara en peningar eða virðing í þessum heimi. — Matt. 16:26.

15, 16. (a) Hvaða traust getum við borið til Jehóva? (b) Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af reynslu Barúks?

15 Þeir sem muna eftir skapara sínum gæta þess að lifa einföldu lífi. Þeir treysta því að Jehóva yfirgefi þá ekki og sleppi aldrei af þeim hendinni. (Lestu Hebreabréfið 13:5.) Þessi heilbrigða afstaða stingur í stúf við hugsunarhátt heimsins þannig að við þurfum að gæta þess vel að láta ekki anda heimsins hafa áhrif á okkur. (Ef. 2:2) Barúk, ritari Jeremía, er gott dæmi um þetta en hann var uppi á erfiðum tímum, skömmu áður en Jerúsalem var eytt árið 607 f.Kr.

16 Vera má að Barúk hafi viljað bæta lífskjör sín. Jehóva veitti þessu athygli og varaði Barúk vinsamlega við því að ætla sér „mikinn hlut“. Barúk var auðmjúkur og skynsamur maður því að hann hlustaði á Jehóva og komst lífs af þegar Jerúsalem var eytt. (Jer. 45:2-5) Samtíðarmenn hans áunnu sér margir hverjir „mikinn hlut“ fjárhagslega, en létu tilbeiðsluna á Jehóva sitja á hakanum. Þeir misstu hins vegar allt þegar Kaldear (Babýloníumenn) tóku borgina. Margir týndu auk þess lífi. (2. Kron. 36:15-18) Reynsla Barúks sýnir fram á að það er miklu verðmætara að eiga gott samband við Jehóva en afla sér fjár og frama.

Veljið ykkur góðar fyrirmyndir

17. Af hverju eru Jesús, Páll og Tímóteus góðar fyrirmyndir fyrir þjóna Jehóva nú á tímum?

17 Í orði Guðs er að finna margar góðar fyrirmyndir til að hjálpa okkur að ganga veginn til lífsins. Tökum Jesú sem dæmi. Enginn maður hefur verið meiri hæfileikum gæddur, en hann einbeitti sér hins vegar að því sem gat orðið öðrum til góðs að eilífu, það er að segja fagnaðarerindinu um ríki Guðs. (Lúk. 4:43) Páll postuli sagði skilið við fé og frama til að geta gefið Jehóva það besta. Hann notaði tíma sinn og krafta til að prédika fagnaðarerindið. Tímóteus líkti eftir góðu fordæmi Páls sem kallaði hann ‚skilgetinn son sinn í trúnni‘. (1. Tím. 1:2) Sáu Jesús, Páll og Tímóteus eftir því að hafa tekið þessa stefnu í lífinu? Síður en svo. Páll sagðist meira að segja líta á það sem heimurinn hafði upp á að bjóða sem „sorp“ í samanburði við þann heiður að mega þjóna Guði. — Fil. 3:8-11.

18. Hvaða breytingar gerði ungur bróðir og af hverju sér hann ekki eftir því?

18 Margir kristnir unglingar líkja eftir trú Jesú, Páls og Tímóteusar. Tökum sem dæmi ungan bróður sem var í vel launuðu starfi. Hann skrifar: „Þar sem ég fór eftir meginreglum Biblíunnar fékk ég fljótlega stöðuhækkun. En þrátt fyrir góðar tekjur fannst mér þetta vera eftirsókn eftir vindi. Þegar ég kom að máli við stjórnendur fyrirtækisins og sagði að mig langaði til að nota meiri tíma til að boða trúna voru þeir fljótir til að bjóða mér töluverða launahækkun í von um að halda mér. En ég var búinn að gera upp hug minn. Margir skildu ekki hvers vegna ég hætti í vel launaðri vinnu til að boða trúna. Svarið er að mig langar til að lifa í samræmi við vígsluheit mitt. Núna snýst líf mitt um það að þjóna Guði og ég bý yfir hamingju og lífsfyllingu sem peningar eða staða í heiminum getur aldrei veitt mér.“

19. Hvaða viturlegu ákvörðun er ungt fólk hvatt til að taka?

19 Þúsundir ungmenna um heim allan hafa tekið viturlegar ákvarðanir eins og þessi ungi maður. Þið unglingar, hafið dag Jehóva stöðugt í huga þegar þið veltið framtíðinni fyrir ykkur. (2. Pét. 3:11, 12) Öfundið ekki þá sem nota heiminn sér til framdráttar. Hlustið heldur á þá sem elska ykkur í raun og sannleika. Öruggasta fjárfestingin er að safna „fjársjóðum á himni“ og hún er sú eina sem hefur eilíft gildi. (Matt. 6:19, 20; lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.) Já, mundu eftir skapara þínum, Jehóva Guði. Þá mun hann blessa þig.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Í Varðturninum 1. nóvember 2005, bls. 27-32, er fjallað um æðri menntun og atvinnu.

Manstu?

• Hvernig sýnum við að við treystum Guði?

• Hver er besta menntunin sem völ er á?

• Hvað má læra af reynslu Barúks?

• Hverja er gott að taka sér til fyrirmyndar og hvers vegna?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 13]

Jehóva sér fyrir bestu menntun sem völ er á.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Barúk hlustaði á Jehóva og komst lífs af þegar Jerúsalem var eytt. Hvað má læra af reynslu hans?