Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höldum áfram að gera gott

Höldum áfram að gera gott

Höldum áfram að gera gott

„Gerið gott.“ — LÚK. 6:35.

1, 2. Af hverju getur verið erfitt að gera öðrum gott?

ÞAÐ er stundum hægara sagt en gert að gera öðrum gott. Þeir sem við sýnum góðvild koma ekki alltaf vel fram við okkur. Margir eru áhugalausir eða vanþakklátir þótt við gerum okkar besta til að hjálpa þeim með því að segja þeim frá „fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs“ og sonar hans. (1. Tím. 1:11) Aðrir eru „óvinir kross Krists“. (Fil. 3:18) Hvernig ættum við að koma fram við þá?

2 Jesús Kristur sagði við lærisveinana: „Elskið óvini yðar og gerið gott.“ (Lúk. 6:35) Við skulum nú skoða þessi hvatningarorð betur og einnig líta á annað sem Jesús sagði um það að gera öðrum gott.

„Elskið óvini yðar“

3. (a) Endursegðu með eigin orðum það sem Jesús sagði í Matteusi 5:43-45. (b) Hvaða skoðun höfðu trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld á Ísraelsmönnum og fólki af öðrum þjóðum?

3 Í sinni frægu fjallræðu sagði Jesús áheyrendum sínum að elska óvini sína og biðja fyrir þeim sem ofsæktu þá. (Lestu Matteus 5:43-45.) Þeir sem voru viðstaddir voru Gyðingar sem þekktu boð Guðs: „Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (3. Mós. 19:18) Trúarleiðtogar Gyðinga á fyrstu öld héldu því fram að orðin „löndum þínum“ og „náunga þinn“ ættu aðeins við Ísraelsmenn. Samkvæmt Móselögunum áttu Ísraelsmenn að halda sér aðgreindum frá öðrum þjóðum. En sú skoðun var orðin útbreidd að fólk af öðrum þjóðum væri óvinir og það ætti að hata það sem einstaklinga.

4. Hvernig áttu lærisveinar Jesú að koma fram við óvini sína?

4 Jesús sagði aftur á móti: „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matt. 5:44) Lærisveinar hans áttu að koma vel fram við alla sem sýndu þeim fjandskap. Samkvæmt guðspjallamanninum Lúkasi sagði Jesús: „Ég segi yður er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, blessið þá sem bölva yður og biðjið fyrir þeim er misþyrma yður.“ (Lúk. 6:27, 28) Við líkjum eftir frumkristnum mönnum sem breyttu í samræmi við orð Jesú. Við gerum þeim gott sem hata okkur með því að vera vingjarnleg við þá. Við blessum þá sem bölva okkur með því að tala vinsamlega við þá. Og við biðjum fyrir þeim sem ofsækja okkur eða misþyrma. Slíkar bænir sýna að við elskum óvini okkar og vonum að þeim snúist hugur og þeir geri það sem þarf til að hljóta velþóknun Jehóva.

5, 6. Af hverju ættum við að elska óvini okkar?

5 Af hverju ættum við að elska óvini okkar? „Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum,“ sagði Jesús. (Matt. 5:45) Ef við fylgjum þessum ráðum verðum við „börn“ Guðs í þeim skilningi að við líkjum eftir honum. Hann „lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta“. Eins og segir í frásögn Lúkasar er Guð „góður við vanþakkláta og vonda“. — Lúk. 6:35.

6 Jesús lagði áherslu á það við lærisveinana að þeir yrðu að elska óvini sína. Hann sagði: „Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn.“ (Matt. 5:46, 47) Ef við elskum aðeins þá sem elska okkur verðskuldum við engin „laun“ frá Guði. Tollheimtumenn, sem voru allmennt fyrirlitnir, elskuðu jafnvel fólk sem elskaði þá á móti. — Lúk. 5:30; 7:34.

7. Af hverju væri það ekkert sérstakt ef við heilsuðum aðeins bræðrum okkar og systrum?

7 Orðið „friður“ kom fyrir í almennri kveðju Gyðinga. (Jóh. 20:19; 3. Jóh. 14) Með þessum kveðjuorðum var verið að óska öðrum góðrar heilsu og velfarnaðar. Það væri ekkert sérstakt ef við heilsuðum aðeins þeim sem við álítum bræður okkar og systur. Eins og Jesús benti á gerðu „heiðnir menn“ það sama.

8. Hvað var Jesús að hvetja áheyrendur sína til að gera þegar hann sagði: ‚Verið fullkomin‘?

8 Vegna erfðasyndarinnar gátu lærisveinar Krists ekki verið óaðfinnanlegir, það er að segja fullkomnir. (Rómv. 5:12) En Jesús lauk þessum kafla ræðunnar með orðunum: „Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.“ (Matt. 5:48) Þannig hvatti hann áheyrendur sína til að líkja eftir Jehóva, föðurnum á himnum. Þeir áttu að fullkomna kærleikann með því að elska óvini sína. Við eigum að gera hið sama.

Af hverju eigum við að fyrirgefa?

9. Við hvað er átt með orðunum: „Fyrirgef oss vorar skuldir“?

9 Við höldum áfram að gera gott með því að fyrirgefa fúslega þeim sem syndga gegn okkur. Í faðirvorinu, sem Jesús kenndi, segir jafnvel: „Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matt. 6:12) Hér er að sjálfsögðu ekki um það að ræða að gefa upp fjárhagslegar skuldir. Í guðspjalli Lúkasar má sjá að skuldirnar, sem Jesús hafði í huga, eru syndir því þar segir: „Fyrirgef oss vorar syndir enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ — Lúk. 11:4.

10. Hvernig getum við líkt eftir miskunn Guðs?

10 Við verðum að líkja eftir Guði sem fyrirgefur fúslega iðrandi syndurum. Páll postuli skrifaði: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“ (Ef. 4:32) Sálmaritarinn Davíð söng: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. . . . Hann hefur eigi breytt við oss eftir syndum vorum og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum. . . . Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss. Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold.“ — Sálm. 103:8-14.

11. Hverjum fyrirgefur Guð?

11 Fólk getur aðeins hlotið fyrirgefningu Guðs ef það hefur þegar fyrirgefið öðrum sem hafa syndgað gegn þeim. (Mark. 11:25) Jesús hnykkti á þessu og sagði: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matt. 6:14, 15) Já, Guð fyrirgefur aðeins þeim sem fyrirgefa öðrum fúslega. Ein leið til að gera gott er að fylgja ráðum Páls: „Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ — Kól. 3:13.

„Dæmið ekki“

12. Hvað sagði Jesús um það að dæma aðra?

12 Í fjallræðunni benti Jesús á aðra leið til að gera gott. Hann sagði áheyrendum sínum að dæma ekki aðra og brá síðan upp kröftugri líkingu til að leggja áherslu á orð sín. (Lestu Matteus 7:1-5.) Athugum hvað Jesús átti við þegar hann sagði: „Dæmið ekki.“

13. Hvað áttu áherendur Jesú að gera?

13 Í Matteusarguðspjalli er haft eftir Jesú: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd.“ (Matt. 7:1) Samkvæmt frásögn Lúkasar sagði Jesús: „Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður.“ (Lúk. 6:37) Farísearnir á fyrstu öld dæmdu aðra harðlega í samræmi við óbiblíulegar erfikenningar. Þeir áheyrendur Jesú, sem gerðu þetta, áttu að hætta að dæma aðra. Þeir áttu að fyrirgefa öðrum misgerðir þeirra. Páll postuli veitti svipaðar leiðbeiningar um fyrirgefningu eins og fram kom hér á undan.

14. Hvað gátu lærisveinar Jesú hvatt aðra til að gera með því að fyrirgefa sjálfir?

14 Lærisveinar Jesú gátu hvatt aðra til að fyrirgefa með því að fyrirgefa sjálfir. Jesús sagði: „Með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða.“ (Matt. 7:2) Í samskiptum okkar við aðra uppskerum við eins og við sáum. — Gal. 6:7.

15. Hvernig benti Jesús á að það væri rangt að vera óhóflega gagnrýninn?

15 Þegar Jesús benti á hve rangt það væri að vera óhóflega gagnrýninn spurði hann: „Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu.“ (Matt. 7:3, 4) Sá sem hefur tilhneigingu til að gagnrýna aðra tekur eftir minni háttar göllum í „auga“ bróður síns. Gagnrýnandinn gefur til kynna að bróðir hans hafi hvorki skýran skilning né góða dómgreind. Þótt gallinn sé smávægilegur — eins og lítil flís — býðst aðfinnslumaðurinn til að „draga flísina“ úr auga hans. Það er tóm hræsni af honum að bjóðast til að hjálpa bróður sínum að sjá hlutina skýrar.

16. Af hverju má segja að farísearnir hafi verið með ‚bjálka‘ í auganu?

16 Trúarleiðtogar Gyðinga voru sérstaklega dómharðir. Tökum dæmi. Þegar blindur maður, sem Jesús læknaði, sagði að Jesús hlyti að vera frá Guði hreyttu farísearnir út úr sér: „Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna okkur!“ (Jóh. 9:30-34) Farísearnir höfðu ekki skýra andlega sjón og voru ófærir um að dæma rétt. Þeir voru staurblindir enda með ‚bjálka‘ í auganu. Þess vegna sagði Jesús: „Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“ (Matt. 7:5; Lúk. 6:42) Ef við erum staðráðin í að gera gott og koma vel fram við aðra erum við ekki dómhörð, sífellt leitandi að táknrænni flís í auga bróður okkar. Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ófullkomin og forðumst þess vegna að vera dómhörð og aðfinnslusöm í garð trúsystkina.

Hvernig eigum við að koma fram við aðra?

17. Hvernig eigum við að koma fram við aðra í ljósi þess sem segir í Matteusi 7:12?

17 Í fjallræðunni benti Jesús á að Guð sýni þjónum sínum föðurlega umhyggju með því að svara bænum þeirra. (Lestu Matteus 7:7-12.) Síðan setti Jesús fram þessa athyglisverðu hegðunarreglu: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt. 7:12) Því aðeins erum við sannir fylgjendur Jesú Krists að við komum þannig fram við aðra.

18. Hvernig var tiltekið í lögmálinu að fólk ætti að koma fram við aðra eins og það vildi láta koma fram við sig?

18 Eftir að Jesús sagði að við ættum að koma fram við aðra eins og við vildum að þeir kæmu fram við okkur bætti hann við: „Þetta er lögmálið og spámennirnir.“ Þegar við komum fram við aðra eins og Jesús hvatti til hegðum við okkur í samræmi við hugsunina að baki ‚lögmálinu‘ — en þar er átt við fyrstu fimm bækur Biblíunnar. Auk þess að opinbera þá fyrirætlun Guðs að gefa „niðja“ sem myndi útrýma illskunni hafa þessar bækur að geyma lögmálið sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse árið 1513 f.Kr. (1. Mós. 3:15) Í lögmálinu var meðal annars tekið fram að Ísraelsmenn ættu að vera réttlátir, forðast hlutdrægni og koma vel fram við bágstadda og aðkomumenn í landinu. — 3. Mós. 19:9, 10, 15, 34.

19. Hvernig sýna „spámennirnir“ að við eigum að gera gott?

19 Þegar Jesús nefndi ‚spámennina‘ átti hann við spádómsbækur Hebresku ritninganna. Í þeim er að finna Messíasarspádóma sem uppfylltust á Kristi sjálfum. Í þessum bókum má einnig sjá að Guð blessar fólk sitt þegar það gerir það sem er rétt í augum hans og kemur vel fram við aðra. Í spádómsbók Jesaja fengu Ísraelsmenn til dæmis þessi ráð: „Svo segir Drottinn: Varðveitið réttinn og iðkið réttlæti . . . Sæll er sá maður sem breytir þannig og heldur fast við það . . . og varðveitir hönd sína frá því að gera illt.“ (Jes. 56:1, 2) Já, Guð ætlast til þess að þjónar sínir haldi áfram að gera gott.

Gerum öðrum alltaf gott

20, 21. Hver voru viðbrögð mannfjöldans við fjallræðu Jesú og hvers vegna ættum við að lesa hana og hugleiða?

20 Við höfum aðeins farið yfir fáein atriði í hinni óviðjafnalegu fjallræðu Jesú. En okkur finnst samt auðskilið hvers vegna áheyrendur hans brugðust við eins og raun bar vitni. Í Biblíunni segir: „Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.“ — Matt. 7:28, 29.

21 Það leikur enginn vafi á að Jesús var ‚Undraráðgjafinn‘ sem spáð hafði verið um. (Jes. 9:5) Fjallræðan er prýðisdæmi um það hve vel Jesús þekkti sjónarmið föður síns. Auk þess sem rætt hefur verið í þessum greinum fjallar ræða Jesú um sanna hamingju, hvernig forðast megi siðleysi og ástunda réttlæti, hvað við verðum að gera til að eiga örugga og farsæla framtíð og margt annað. Væri ekki tilvalið að lesa aftur vandlega yfir 5. til 7. kafla Matteusar og hugleiða í bænarhug þau frábæru ráð sem þar er að finna? Farðu eftir því sem Jesús kenndi í fjallræðunni. Þá geturðu þóknast Jehóva enn betur, komið vel fram við aðra og haldið áfram að gera gott.

Hvert er svarið?

• Hvernig eigum við að koma fram við óvini okkar?

• Af hverju eigum við að vera fús til að fyrirgefa?

• Hvað sagði Jesús um það að dæma aðra?

• Hvernig eigum við að koma fram við aðra samkvæmt Matteusi 7:12?

[Spurningar]

[Innskot á blaðsíðu 10]

Veistu af hverju Jesús sagði: „Dæmið ekki“?

[Mynd á blaðsíðu 8]

Af hverju eigum við að biðja fyrir þeim sem ofsækja okkur?

[Mynd á blaðsíðu 10]

Kemurðu alltaf fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig?