Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig starfar hið stjórnandi ráð?

Hvernig starfar hið stjórnandi ráð?

Hvernig starfar hið stjórnandi ráð?

HIÐ stjórnandi ráð Votta Jehóva er skipað andasmurðum mönnum sem hafa vígt sig Guði. Þeir eru fulltrúar þess hóps sem kallast trúr og hygginn þjónn en hann hefur það hlutverk að sjá öllum söfnuðinum fyrir andlegri fæðu, hafa umsjón með boðun fagnaðarerindisins um allan heim og vera drifkraftur þess. — Matt. 24:14, 45-47.

Hið stjórnandi ráð fundar í hverri viku, yfirleitt á miðvikudögum. Það hjálpar bræðrunum í ráðinu að vinna saman í einingu. (Sálm. 133:1) Ráðið skiptist í nokkrar nefndir og hver nefnd hefur umsjón með ákveðnum sviðum í starfi Votta Jehóva. Verksvið þessara nefnda er í stuttu máli sem hér segir.

◼ RITARANEFND: Í þessari nefnd sitja ritarar allra annarra nefnda hins stjórnandi ráðs, auk fundarritara sem á einnig sæti í hinu stjórnandi ráði. Ritaranefndin tryggir að allar nefndirnar vinni vel og skipulega saman. Þessi nefnd hefur einnig á sinni könnu að bregðast við þegar neyðarástand skapast, svo sem ofsóknir, náttúruhamfarir eða aðrar aðkallandi aðstæður sem snerta votta Jehóva um heim allan.

◼ STARFSMANNANEFND: Bræðrunum, sem skipa þessa nefnd, er falin umsjón með andlegri og líkamlegri velferð allra í Betelfjölskyldunni hvar sem er í heiminum. Nefndin hefur umsjón með vali á nýjum starfsmönnum á Betel og fjallar um spurningar varðandi þjónustu þeirra.

◼ ÚTGÁFUNEFND: Þessi nefnd hefur umsjón með prentun, útgáfu og flutningi biblíutengdra rita út um allan heim. Hún sér um rekstur prentsmiðja og fasteigna í eigu ýmissa félaga sem Vottar Jehóva starfrækja. Útgáfunefndin gætir þess að þeir fjármunir, sem gefnir eru til stuðnings boðunarstarfinu í heiminum, séu notaðir sem best.

◼ ÞJÓNUSTUNEFND: Þeir sem sitja í þessari nefnd hafa yfirumsjón með boðun fagnaðarerindisins og með málum sem varða söfnuði, brautryðjendur, öldunga og farandumsjónarmenn. Hún sér um að semja efni í Ríkisþjónustu okkar, kallar nemendur til Gíleaðskólans og Þjónustuþjálfunarskólans og úthlutar þeim starfssvæðum eftir útskrift.

◼ FRÆÐSLUNEFND: Þessi nefnd annast þá fræðslu sem veitt er á svæðismótum, umdæmismótum og safnaðarsamkomum. Hún skipuleggur biblíufræðslu handa Betelfjölskyldum og hefur umsjón með ýmsum skólum, svo sem Gíleaðskólanum og Brautryðjendaskólanum. Hún sér einnig um undirbúning og gerð hljóðrita og mynddiska.

◼ RITNEFND: Ritnefndin sér um að semja andlega fæðu sem birtist á prenti og dreift er meðal safnaðarmanna og almennings. Nefndin svarar biblíutengdum spurningum og leggur lokahönd á efni eins og ræðuuppköst og handrit leikrita. Og hún hefur umsjón með þýðingum þessa efnis út um allan heim.

Páll postuli líkti söfnuði hinna andasmurðu við mannslíkama og lagði áherslu á að hver og einn hefði þýðingarmiklu hlutverki að gegna. Hann benti jafnframt á að þeir væru háðir hver öðrum og ynnu saman í kærleika við það verk sem Guð hefði falið þeim. (Rómv. 12:4, 5; 1. Kor. 12:12-31) Jesús Kristur er höfuðið og hann lætur hverjum og einum í té það sem nauðsynlegt er til að tryggja gott samstarf og sjá um að allir fái góða biblíufræðslu. (Ef. 4:15, 16; Kól. 2:19) Hið stjórnandi ráð er skipulagt til að fara með forystu í samræmi við leiðsögn heilags anda Jehóva.