Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Veldu á unga aldri að þjóna Jehóva

Veldu á unga aldri að þjóna Jehóva

Veldu á unga aldri að þjóna Jehóva

„Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á.“ — 2. TÍM. 3:14.

1. Hvernig lítur Jehóva á þjónustu ungra votta sinna?

JEHÓVA metur heilaga þjónustu ungs fólks svo mikils að hann innblés spádóm um það. „Þjóð þín kemur fúslega er þú kveður til her þinn,“ söng sálmaskáldið. „Í helgum skrúða kemur æskulýður þinn til þín líkt og dögg frá skauti morgunroðans.“ (Sálm. 110:3, neðanmáls) Já, unglingar, sem vilja þjóna Jehóva, eru honum afar mikils virði.

2. Hvaða áhrif reynir heimurinn að hafa á markmið unga fólksins?

2 Þið unga fólkið í söfnuðinum, hafið þið vígt ykkur Jehóva? Mörgum finnst erfitt að taka ákvörðun um að þjóna hinum sanna Guði. Fólk í viðskiptalífinu, kennarar, námsráðgjafar og stundum ættingjar og vinir hvetja ykkur til að setja ykkur markmið sem bera keim af efnishyggju. Heimurinn lítur oft niður á ungt fólk sem setur sér markmið í þjónustu Jehóva. En sannleikurinn er sá að það er ekki hægt að velja sér betri lífsstefnu en að þjóna hinum sanna Guði. (Sálm. 27:4) Við skulum í þessu sambandi líta á þrjár spurningar: Af hverju ættirðu að þjóna Guði? Hvernig geturðu orðið farsæll sem vígður þjónn Guðs, óháð því hvað aðrir segja eða gera? Hvaða frábær tækifæri standa þér til boða í þjónustu Jehóva?

Að þjóna Jehóva er hið eina rétta

3. Hvaða áhrif ætti sköpunarverk Jehóva að hafa á okkur?

3 Af hverju ættirðu að þjóna hinum sanna og lifandi Guði? Mikilvægasta ástæðan kemur fram í Opinberunarbókinni 4:11. Þar segir: „Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn því að þú hefur skapað alla hluti og að þínum vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ Jehóva er hinn mikli skapari alls sem til er. Jörðin er undurfögur. Trén, blómin, dýrin, höfin, fjöllin og fossarnir — allt er þetta handaverk Jehóva. „Jörðin er full af því sem [Guð] hefur skapað,“ segir í Sálmi 104:24. Við getum verið innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli í kærleika sínum hafa gefið okkur huga og líkama sem gerir okkur kleift að njóta sköpunarverksins — jarðarinnar og alls þess góða sem á henni er. Ætti okkur ekki að langa til að þjóna honum sökum þakklætis fyrir allt sem hann hefur gert?

4, 5. Hvaða verk Jehóva styrktu samband Jósúa við hann?

4 Önnur ástæða til að þjóna Jehóva kemur fram í orðum Jósúa sem var leiðtogi Ísraelsmanna. Skömmu áður en hann dó sagði hann þjóð Guðs: „Þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst.“ Af hverju gat Jósúa sagt þetta? — Jós. 23:14.

5 Meðan Jósúa var að alast upp í Egyptalandi hlýtur hann að hafa kynnst fyrirheiti Jehóva um að gefa Ísraelsmönnum eigið land. (1. Mós. 12:7; 50:24, 25; 2. Mós. 3:8) Hann varð vitni að því hvernig Jehóva byrjaði að uppfylla fyrirheit sitt þegar hann lét plágurnar tíu koma yfir Egypta og neyddi þrjóskan faraó til að leyfa Ísraelsmönnum að fara. Jósúa var meðal þeirra sem var bjargað í gegnum Rauðahafið og hann horfði síðan upp á hafið steypast yfir faraó og her hans. Á langri ferð um „hina miklu og ógnvekjandi eyðimörk“ Sínaí varð hann vitni að því hvernig Jehóva sá fyrir öllum þörfum Ísraelsmanna. Enginn dó úr hungri eða þorsta. (5. Mós. 8:3-5, 14-16; Jós. 24:5-7) Þegar tíminn rann upp að Ísraelsmenn skyldu sigra voldugar þjóðir í Kanaan og leggja undir sig fyrirheitna landið fann hann fyrir stuðningi Jehóva sem hann og aðrir Ísraelsmenn tilbáðu. — Jós. 10:14, 42.

6. Hvernig geturðu byggt upp löngun til að þjóna Guði?

6 Jósúa vissi að Jehóva hafði staðið við fyrirheit sín. Þess vegna lýsti hann yfir: „Ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ (Jós. 24:15) Hvað um þig? Þegar þú hugsar um þau loforð hins sanna Guðs sem hafa ræst nú þegar og þau sem hann á eftir að uppfylla, langar þig þá ekki til að þjóna honum eins og Jósúa gerði?

7. Af hverju er nauðsynlegt að láta skírast?

7 Þegar þú hugleiðir sköpunarverk Jehóva og stórkostleg fyrirheit hans sem hægt er að treysta í hvívetna ætti það að vera þér hvatning til að vígjast honum og gefa tákn um það með niðurdýfingarskírn. Skírnin er mikilvægt skref sem allir þurfa að stíga ef þeir vilja þjóna Guði. Það er ljóst af fordæmi Jesú. Rétt áður en hann hóf starf sitt sem Messías kom hann til Jóhannesar skírara til að láta skírast. Af hverju gerði hann það? Hann sagði síðar: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.“ (Jóh. 6:38) Hann lét skírast til tákns um að hann væri að bjóða sig fram til að gera vilja föður síns. — Matt. 3:13-17.

8. Af hverju ákvað Tímóteus að tilbiðja Guð og hvað getur þú þurft að gera?

8 Lítum á annað dæmi. Tímóteus var ungur kristinn maður sem Jehóva fól mörg verkefni í þjónustu sinni þegar fram liðu stundir. Af hverju ákvað hann að þjóna Guði? Í Biblíunni er talað um að hann hafi „numið og . . . fest trú á“ orð Guðs. (2. Tím. 3:14) Ef þú hefur kynnt þér orð Guðs og fest trú á kenningar þess stendurðu í svipuðum sporum og Tímóteus. En nú þarftu að taka ákvörðun. Væri ekki tilvalið að ræða við foreldra þína um það hvað þú eigir að gera? Þeir geta, ásamt öldungum safnaðarins, skýrt fyrir þér þær kröfur sem Biblían gerir til þeirra sem láta skírast. — Lestu Postulasöguna 8:12.

9. Hvaða áhrif muntu hafa á aðra þegar þú lætur skírast?

9 Ef þú lætur skírast er það góð byrjun á ævilangri þjónustu við hinn sanna Guð. Með því að stíga þetta skref ertu að hefja eins konar langhlaup. Verðlaunin eru fólgin í gleðinni sem fylgir því að gera vilja Jehóva núna og eilífu lífi í framtíðinni. (Hebr. 12:2, 3) Þú gleður einnig ættingja þína sem eru nú þegar þátttakendur í langhlaupinu og vini þína í söfnuðinum. Síðast en ekki síst gleðurðu Jehóva. (Lestu Orðskviðina 23:15.) Auðvitað munu ekki allir skilja af hverju þú hefur valið að þjóna Jehóva og þeir draga kannski í efa að þú hafir valið rétt. Ef til vill snúast þeir gegn þér. En þú getur staðist mótlætið.

Þegar aðrir spyrja þig út úr eða snúast gegn þér

10, 11. (a) Hvaða spurningar gætirðu fengið varðandi ákvörðun þína að þjóna Guði? (b) Hvað má læra af því hvernig Jesús svaraði spurningum um sanna tilbeiðslu?

10 Vel má vera að skólafélagar, nágrannar og ættingjar skilji ekki þá ákvörðun þína að þjóna Jehóva. Þeir vilja kannski vita af hverju þú hafir tekið þessa stefnu og spyrja þig út í trú þína. Hvernig ættirðu að svara þeim? Þú þarft auðvitað að brjóta afstöðu þína og tilfinningar til mergjar til að geta útskýrt af hverju þú tókst þessa ákvörðun. Og þegar þú svarar spurningum varðandi trú þína geturðu varla fundið betri fyrirmynd en Jesú.

11 Þegar trúarleiðtogar Gyðinga spurðu Jesú út úr um upprisuna vakti hann athygli þeirra á biblíuversi sem þeir höfðu ekki tekið inn í myndina. (2. Mós. 3:6; Matt. 22:23, 31-33) Einu sinni spurði fræðimaður Jesú hvert væri mesta boðorðið og Jesús vitnaði þá í viðeigandi vers til að svara honum. Maðurinn kunni vel að meta svarið. (3. Mós. 19:18; 5. Mós. 6:5; Mark. 12:28-34) Jesús beitti Ritningunni svo vel og talaði þannig að mannfjöldann „greindi . . . á um hann“ og andstæðingarnir gátu ekki gert honum mein. (Jóh. 7:32-46) Þegar þú færð spurningar um trú þína skaltu nota Biblíuna og svara „með hógværð og virðingu“. (1. Pét. 3:15, 16) Ef þú veist ekki svarið við spurningu skaltu viðurkenna það og bjóðast til að kanna málið. Leitaðu síðan að svari með því að nota efnisskrár og Watchtower Library á geisladiski ef það er til á máli sem þú getur nýtt þér. Ef þú undirbýrð þig vel ‚veistu hvernig þú átt að svara‘. — Kól. 4:6.

12. Af hverju ættirðu ekki að láta ofsóknir draga úr þér kjarkinn?

12 Kannski færðu meira en spurningar um trú þína og afstöðu. Það má ekki gleyma því að óvinur Guðs, Satan djöfullinn, stjórnar heiminum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:19.) Þú getur varla búist við því að fá hrós og samþykki úr öllum áttum heldur máttu reikna með andstöðu. Sumir „hallmæla“ þér ef til vill og halda því áfram um tíma. (1. Pét. 4:4) En mundu að þú ert ekki einn á báti. Jesús Kristur var líka ofsóttur. Hið sama er að segja um Pétur postula og hann skrifaði: „Þið elskuðu, látið ykkur ekki undra eldraunina, sem yfir ykkur er komin, eins og eitthvað áður óþekkt hendi ykkur. Gleðjist heldur er þið takið þátt í píslum Krists.“ — 1. Pét. 4:12, 13.

13. Hvers vegna geta kristnir menn fagnað þegar þeir eru ofsóttir?

13 Það er fagnaðarefni að verða fyrir andstöðu eða ofsóknum trúarinnar vegna. Af hverju? Af því að ef þú hefðir velþóknun heimsins væri það merki þess að þú lifðir eftir mælikvarða Satans en ekki Guðs. Jesús sagði í viðvörunartón: „Vei yður, þegar allir menn hæla yður því að eins fórst forfeðrum þeirra við falsspámennina.“ (Lúk. 6:26) Ofsóknir eru merki þess að Satan og heimurinn, sem hann stjórnar, sé þér reiður fyrir að þjóna Jehóva. (Lestu Matteus 5:11, 12.) Og það er gleðiefni að vera smánaður „vegna nafns Krists“. — 1. Pét. 4:14.

14. Hvað getur áunnist með því að vera Jehóva trúr í ofsóknum?

14 Með því að vera Jehóva trúr þrátt fyrir andstöðu ávinnurðu að minnsta kost fernt. Þú vitnar um Guð og son hans. Þolgæði þitt er hvetjandi fyrir trúsystkini þín. Sumir sem sjá til þín en þekkja ekki Jehóva fá ef til vill löngun til að leita hans. (Lestu Filippíbréfið 1:12-14.) Og þegar þú finnur hvernig Jehóva styrkir þig til að standast prófraunir elskarðu hann enn meir.

„Víðar dyr“ standa þér opnar

15. Hvaða ‚víðu dyr‘ opnuðust Páli postula?

15 Páll postuli skrifaði um boðunarstarf sitt í Efesus: „Þar hafa mér opnast víðar dyr að miklu verki.“ (1. Kor. 16:8, 9) Um var að ræða mikið starf við að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum þar í borg. Með því að nota þetta tækifæri tókst Páli að hjálpa fjölda fólks að kynnast Jehóva og tilbiðja hann.

16. Hvernig gengu hinir andasmurðu inn um ‚opnar dyr‘ árið 1919?

16 Árið 1919 lét hinn dýrlegi Jesús Kristur „dyr standa opnar“ handa þeim sem eftir voru af hinum andasmurðu. (Opinb. 3:8) Þeir gengu inn um þessar dyr og tóku að boða fagnaðarerindið og kenna sannleika Biblíunnar af meira kappi en nokkru sinni fyrr. Starf þeirra hefur borið þann árangur að fagnaðarerindið hefur náð til endimarka jarðar og um sjö milljónir manna eiga von um eilíft líf í nýjum heimi Guðs.

17. Hvernig geturðu gengið inn um „víðar dyr að miklu verki“?

17 „Víðar dyr að miklu verki“ standa enn opnar handa öllum þjónum Jehóva. Þeir sem ganga inn um þær hafa mikla ánægju af því að auka þátttöku sína í að boða fagnaðarerindið. Kunnið þið sem eruð ungir þjónar Jehóva að meta þetta óviðjafnanlega tækifæri til að hjálpa öðrum að ‚trúa fagnaðarerindinu‘? (Mark. 1:14, 15) Hafið þið hugleitt hvort þið getið verið brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur? Mörg ykkar gætuð líka fengið tækifæri til að byggja ríkissali, starfa á Betel eða gerast trúboðar. Illur heimur Satans á skammt eftir þannig að það verður meira áríðandi með hverjum degi sem líður að sinna þessum þjónustuverkefnum. Ætlar þú að ganga inn um þessar víðu dyr meðan enn er tími til?

„Finnið og sjáið að Drottinn er góður“

18, 19. (a) Af hverju þráði Davíð að þjóna Jehóva? (b) Hvað sýnir að Davíð sá aldrei eftir því að hafa þjónað Guði?

18 Davíð konungur hvatti aðra til að finna og sjá að Jehóva er góður. (Sálm. 34:9) Meðan Davíð var enn ungur fjárhirðir bjargaði Jehóva honum undan villidýrum. Jehóva studdi hann þegar hann barðist við Golíat og frelsaði hann úr ýmsum raunum. (1. Sam. 17:32-51; Sálm. 18:1) Þar sem Davíð hafði upplifað kærleika og umhyggju Guðs orti hann: „Drottinn, Guð minn, mörg eru máttarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert jafnast á við þig.“ — Sálm. 40:6.

19 Davíð elskaði Jehóva innilega og langaði til að lofa hann af öllu hjarta og öllum huga. (Lestu Sálm 40:9-11.) Hann sá aldrei eftir því á langri ævi að hafa tilbeðið hinn sanna Guð. Dýrmætast þótti honum að mega lifa í guðrækni. Ekkert veitti honum meiri gleði. Davíð sagði á gamals aldri: „Þú ert von mín, Drottinn, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku, Yfirgef mig eigi, Guð, þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum.“ (Sálm. 71:5, 18) Þó að líkamlegur þróttur Davíðs færi dvínandi styrktist traust hans til Jehóva og sambandið við hann.

20. Af hverju er besta lífsstefnan sú að þjóna Guði?

20 Ævi Jósúa, Davíðs og Tímóteusar er sönnun þess að besta lífsstefnan er sú að þjóna Jehóva. Þeir sem komast áfram í þessum heimi geta hagnast fjárhagslega til skamms tíma. En það er einskis virði í samanburði við þann eilífa ávinning sem fylgir því að ‚þjóna Jehóva af öllu hjarta og allri sálu‘. (Jós. 22:5) Ef þú ert ekki búinn að vígja þig Jehóva í bæn skaltu spyrja þig hvað hamli þér að gerast vottur Jehóva. Ef þú ert skírður vottur Jehóva, langar þig þá til að hafa enn meiri ánægju af lífinu? Þá skaltu leggja þig enn betur fram í þjónustu Guðs og taka markvissum framförum í trúnni. Í greininni á eftir er fjallað um það hvernig hægt sé að bæta sig á þessum sviðum með því að líkja eftir fordæmi Páls postula.

Hvert er svarið?

• Nefndu tvær ástæður fyrir því að þjóna Guði.

• Hvað hjálpaði Tímóteusi að ákveða að þjóna Guði?

• Af hverju ættirðu að vera staðfastur í ofsóknum?

• Hvaða tækifæri geta staðið þér til boða í þjónustu Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Besta lífsstefnan er sú að þjóna Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Geturðu svarað spurningum um trú þína?