Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Rómverjabréfsins

Höfuðþættir Rómverjabréfsins

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Rómverjabréfsins

PÁLL postuli kemur til borgarinnar Korintu á þriðju trúboðsferð sinni, um árið 56. Hann hefur uppgötvað að ágreiningur er með kristnum mönnum af hópi Gyðinga og af hópi heiðingja sem búa í Róm. Hann skrifar þeim því bréf til að stuðla að því að þeir séu einhuga í Kristi.

Páll varpar ljósi á það í þessu bréfi til kristinna manna í Róm hvernig menn eru réttlættir og hvernig slíkir einstaklingar eigi að lifa. Bréfið auðgar hugi okkar með þekkingu á Guði og orði hans. Það leggur áherslu á óverðskuldaða góðvild Guðs og bendir á hlutverk Krists í hjálpræði okkar. — Hebr. 4:12.

RÉTTLÆTTIR — HVERNIG?

(Rómv. 1:1–11:36)

„Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð,“ skrifar Páll. „Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.“ Hann skrifar enn fremur: „Maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.“ (Rómv. 3:23, 24, 28) Vegna trúar á hið ‚fullkomna verk sem einn vann‘ geta bæði andasmurðir kristnir menn og ‚aðrir sauðir‘ af ‚múginum mikla‘ réttlæst — hinir fyrrnefndu til að lifa á himnum sem samerfingjar Krists en hinir síðarnefndu sem vinir Guðs með von um að lifa af ‚þrenginguna miklu‘. — Rómv. 5:18; Opinb. 7:9, 14; Jóh. 10:16; Jak. 2:21-24; Matt. 25:46.

„Eigum við að syndga fyrst við erum ekki undir lögmálinu heldur náðinni?“ spyr Páll og svarar svo: „Fjarstæða! . . . Annaðhvort hlýðið þið syndinni sem leiðir til dauða eða Guði sem leiðir til lífs í réttlæti.“ (Rómv. 6:15, 16) „Ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa,“ segir hann. — Rómv. 8:13.

Biblíuspurningar og svör:

1:24-32 — Er Páll að lýsa spillingu Gyðinga eða heiðingja? Lýsingin gæti í sjálfu sér átt við báða hópana en hér er Páll fyrst og fremst að tala um Ísraelsmenn sem höfðu ekki fylgt lögmálinu öldum saman. Þeir þekktu réttlát ákvæði Guðs en „hirtu ekkert um að þekkja [hann]“ og það var ámælisvert.

3:24, 25 — Hvernig gat „endurlausn [Guðs] í Kristi Jesú“ friðþægt fyrir „þær syndir sem áður voru drýgðar“ meðan ekki var búið að greiða lausnargjaldið? Fyrsti spádómurinn um Messías, sem er að finna í 1. Mósebók 3:15, rættist árið 33 þegar Jesús var tekinn af lífi á aftökustaur. (Gal. 3:13, 16) En frá sjónarhóli Jehóva var lausnargjaldið nánast greitt um leið og hann bar fram spádóminn, vegna þess að ekkert getur komið í veg fyrir að hann hrindi vilja sínum í framkvæmd. Á grundvelli væntanlegrar fórnar Jesú Krists gat hann því fyrirgefið syndir afkomenda Adams sem trúðu á fyrirheit hans. Lausnargjaldið gerir einnig að verkum að þeir sem dóu fyrir komu Krists geta hlotið upprisu. — Post. 24:15.

6:3-5 — Hvað er átt við með því að vera skírður til Krists Jesú og skírður til dauða hans? Þegar Jehóva smyr fylgjendur Krists með heilögum anda eru þeir sameinaðir Kristi og tilheyra þaðan í frá söfnuðinum, líkama hans, en Kristur er höfuðið. (1. Kor. 12:12, 13, 27; Kól. 1:18) Það er þetta sem átt er við þegar talað er um að vera skírður til Krists Jesú. Hinir andasmurðu eru einnig ‚skírðir til dauða Jesú‘ í þeirri merkingu að þeir lifa fórnfúsu lífi og afsala sér voninni um eilíft líf á jörð. Þeir deyja því fórnardauða eins og Jesús þó að þar sé ekki um að ræða friðþægingarfórn. Skírninni til dauða Jesú er lokið þegar þeir deyja og hljóta upprisu til himna.

7:8-11 — Hvernig ‚neytti syndin færis með boðorðinu‘? Lögmálið sýndi Ísraelsmönnum fram á hvað væri fólgið í syndinni og vakti þá til vitundar um að þeir væru syndarar. Þar af leiðandi skildu þeir betur á hve marga vegu þeir höfðu syndgað og fleiri gerðu sér grein fyrir að þeir væru syndugir. Því má segja að syndin hafi neytt færis með lögmálinu.

Lærdómur:

1:14, 15. Við höfum margar ástæður til að boða fagnaðarerindið af kappi. Ein þeirra er sú að við erum í skuld við fólk sem er keypt með blóði Jesú og það er skylda okkar að hjálpa því að kynnast Jehóva og eignast samband við hann.

1:18-20. Óguðlegir og óréttlátir eru „án afsökunar“ vegna þess að ósýnilegir eiginleikar Guðs eru augljósir af sköpunarverkinu.

2:28; 3:1, 2; 7:6, 7. Páll mildar orð sín sem Gyðingum hefðu getað þótt niðrandi. Þar er hann gott dæmi um hvernig hægt er að fjalla af nærgætni og fagmennsku um viðkvæm málefni.

3:4. Þegar orð manna stangast á við orð Guðs í Biblíunni er Guð „sannorður“ í okkar huga því að við treystum boðskap Biblíunnar og breytum í samræmi við vilja Guðs. Við getum sýnt öðrum fram á að Guð sé sannorður með því að vera dugleg að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum.

4:9-12. Trú Abrahams var reiknuð honum til réttlætis löngu áður en hann lét umskerast 99 ára að aldri. (1. Mós. 12:4; 15:6; 16:3; 17:1, 9, 10) Þannig sýndi Guð á áhrifamikinn hátt hvernig menn gætu verið réttlátir í augum hans.

4:18. Von er mikilvægur þáttur trúar. Trú okkar byggist á von. — Hebr. 11:1.

5:18, 19. Með því að rökstyðja hvað sé líkt með Jesú og Adam sýnir Páll hnitmiðað fram á hvernig einn maður gat gefið „líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“. (Matt. 20:28) Það er gott að vera rökfastur og gagnorður þegar maður kennir. — 1. Kor. 4:17.

7:23. Líkamshlutar eins og hendur, fætur og tunga geta ‚hertekið okkur undir lögmál syndarinnar‘. Við þurfum að gæta þess að misnota þá ekki.

8:26, 27. „Sjálfur andinn biður fyrir okkur“ þegar aðstæður eru svo yfirþyrmandi að við vitum ekki hvers við eigum að biðja. Jehóva tekur þá við bænum, sem er að finna í Biblíunni og eiga við aðstæður okkar, eins og þær væru frá okkur. — Sálm. 65:3.

8:38, 39. Hörmungar, illir andar og stjórnir manna geta ekki komið í veg fyrir að Jehóva elski okkur. Það ætti ekki heldur að verða til þess að við hættum að elska hann.

9:22-28; 11:1, 5, 17-26. Margir spádómar um endurreisn Ísraels rætast á söfnuði andasmurðra kristinna manna en þeir eru „ekki aðeins [kallaðir] úr flokki Gyðinga heldur og úr flokki heiðingja“.

10:10, 13, 14. Sterk trú á Jehóva og fyrirheit hans, samfara kærleika til hans og náungans, getur verið okkur hvöt til að vera dugleg að boða fagnaðarerindið.

11:16-24, 33. ‚Gæska Guðs og strangleiki‘ eru í fullkomnu jafnvægi. „Hann er bjargið, verk hans fullkomin og allir hans vegir réttlátir.“ — 5. Mós. 32:4.

LIFUM Í SAMRÆMI VIÐ ÞAÐ AÐ VIÐ ERUM RÉTTLÆTT

(Rómv. 12:1–16:27)

„Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn,“ segir Páll. (Rómv. 12:1) Kristnir menn eru réttlættir vegna trúar. Í ljósi þess ætti það sem Páll segir í framhaldinu að hafa áhrif á það hvernig þeir líta á sjálfa sig og aðra og á yfirvöld.

„Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber,“ segir Páll og hvetur síðan til þess að „elskan sé flærðarlaus“. (Rómv. 12:3, 9) „Hver maður hlýði þeim yfirvöldum sem eru yfir hann sett.“ (Rómv. 13:1) Hann hvetur kristna menn til að ‚dæma ekki framar hver annan‘ í samviskumálum. — Rómv. 14:13.

Biblíuspurningar og svör:

12:20 — Hvernig söfnum við „glóðum elds á höfuð“ óvini okkar? Á biblíutímanum var málmgrýti lagt í ofn milli glóandi kola. Það var brætt og sori hreinsaður frá með því að auka hitann að ofan. Við söfnum glóðum á höfuð óvini okkar með því að gera honum gott. Þá mýkist hann og góðu eiginleikarnir koma í ljós.

12:21 — Hvernig sigrum við illt með góðu? Meðal annars með því að halda ótrauð áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið uns Jehóva segir að nóg hafi verið prédikað. — Mark. 13:10.

13:1 — Í hvaða merkingu eru yfirvöld ‚skipuð af Guði‘? Guð hefur „skipað“ veraldleg yfirvöld í þeim skilningi að hann leyfir þeim að stjórna og í sumum tilfellum sá hann þau fyrir. Það má sjá af því að spáð er um ýmsa valdhafa í Biblíunni.

Lærdómur:

12:17, 19. Ef við leitum hefnda erum við að taka í okkar hendur það sem Jehóva einn hefur rétt til að gera. Það væri ósvífni af okkur að gjalda „illt fyrir illt“.

14:14, 15. Við skulum ekki hryggja eða hneyksla trúsystkini með mat eða drykk sem við bjóðum þeim.

14:17. Gott samband við Guð tengist aðallega réttlæti, friði og fögnuði en ekki nema að litlu leyti því hvað við borðum og drekkum eða hvað við forðumst að borða og drekka.

15:7. Við ættum að bjóða velkomna í söfnuðinn alla sem leita sannleikans í einlægni og boða öllum, sem við hittum, fagnaðarerindið án hlutdrægni.

[Myndir á blaðsíðu 31]

Gat lausnargjaldið friðþægt fyrir syndir sem voru drýgðar áður en það var greitt?